Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 71. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1264  —  71. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti og Guðna Jóhannesson orkumálastjóra og Þórarin Svein Arnarson frá Orkustofnun.
    Þá bárust umsagnir frá Byggðastofnun, Framsýn, Hafrannsóknastofnuninni, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Norðurþingi, Orkustofnun, Siglingastofnun Íslands, Veðurstofu Íslands og Vegagerðinni.
    Drekasvæðið hefur verið í brennidepli hvað olíuvinnslu varðar síðastliðin missiri. Fyrsta útboð sérleyfa á svæðinu fór fram í byrjun árs 2009 og sóttu tveir umsækjendur um rannsóknar- og vinnsluleyfi en drógu síðar umsóknir sínar til baka. Undirbúningur annars útboðs sérleyfa á svæðinu hefur staðið í nokkurn tíma og er það fyrirséð á tímabilinu frá ágúst til desember á þessu ári.
    Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk frá Orkustofnun er næsta skref í olíu- og gasrannsóknum á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi, þ.e. að kanna hvort móðurberg finnist þar og hvort það sé nægilega þroskað. Hefur Orkustofnun lagt til að farið verði í þær rannsóknir sem lýst er í nýlegri skýrslu Bjarna Richter og Karls Gunnarssonar (Overview of hydrocarbon related research in Tjörnes, ÍSOR, febrúar 2010). Hefur Orkustofnun þannig lagt til að safnað verði 15–30 setkjörnum á a.m.k. fimm völdum stöðum. Í framangreindri skýrslu er lýst á hvaða svæðum er lagt til að taka sýni. Áður en að sýnatöku kemur mun þurfa töluverðan undirbúning. Að mati Orkustofnunar er áætlað að kostnaður við næsta áfanga í rannsóknum og sýnatöku á viðkomandi svæði, miðað við framangreint, sé um 13 millj. kr. Er sú fjárhæð ekki innan ramma fjárlagaliða Orkustofnunar fyrir árið 2011.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að kanna hvort olíuvæn setlög eða gas sé að finna á landgrunni Íslands. Miklir hagsmunir eru í húfi og sé nýtanlegar auðlindir að finna á landgrunninu getur það gjörbreytt efnahag þjóðarinnar og stuðlað að aukinni atvinnusköpun sem og betri lífsgæðum. Er þetta verkefni ekki síst mikilvægt í því efnahags- og atvinnuástandi sem nú ríkir.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að vísa því til ríkisstjórnarinnar að fjármunir verði tryggðir til að unnt verði að framkvæma lágmarksolíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.
         Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðanna „fela iðnaðarráðherra að tryggja“ í fyrri málslið tillögugreinarinnar komi: tryggðir verði fjármunir til.

Alþingi, 31. mars 2011.



Kristján L. Möller,


form., frsm.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Jón Gunnarsson.



Margrét Tryggvadóttir.


Þráinn Bertelsson,


með fyrirvara.


Tryggvi Þór Herbertsson.



Magnús Orri Schram,


með fyrirvara.


Gunnar Bragi Sveinsson.