Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 333. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1270  —  333. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um efni og efnablöndur og lögum um eiturefni og hættuleg efni.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristínu R. Snorradóttur og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti og Hauk R. Magnússon frá Umhverfisstofnun. Þá bárust umsagnir frá Landgræðslu ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 45/2008, um efni og efnablöndur, og lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, í kjölfar nýrrar reglugerðar EB nr. 1272/2008, sem breytir og kemur í stað tilskipana 67/548/EBE og 1999/45/EB og breytir EB- reglugerð nr. 1907/2006. Með nýju reglugerðinni er núgildandi flokkunar- og merkingakerfi Evrópusambandsins fyrir efni og efnablöndur lagað að svonefndu GHS-kerfi Sameinuðu þjóðanna, en með því er stefnt að hnattrænni samræmingu við flokkun og merkingu efna og efnavara. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu felast fyrst og fremst í því að tekin verði upp samræmd flokkun og merking hættulegra efna á heimsvísu og innleidd ný varnaðarmerki auk nýrra hættuflokka og hættu- og varnaðarsetninga. Þá verður ábyrgð á flokkun efna og efnablandna að mestu leyti færð yfir á framleiðslufyrirtækin. Mikilvægt er að reglurnar taki gildi á sama tíma hér á landi og annars staðar í Evrópu til að tryggja að íslensk fyrirtæki standi jafnfætis keppinautum á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að texti merkinga skuli vera á íslensku nema kveðið sé á um annað í reglugerð. Nefndin gerir að sínum þær skýringar fulltrúa umhverfisráðuneytisins að hér sé um fullkomin undantekningartilvik að ræða, einkum þegar textinn er eingöngu ætlaður sérfræðingum.
    Nefndin ræddi um kostnaðarmat vegna breytinganna. Í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að gert sé ráð fyrir að kostnaði sem kann að leiða af frumvarpinu, einkum vegna leiðbeiningar- og kynningarstarfsemi Umhverfisstofnunar, verði mætt innan fjárhagsramma stofnunarinnar í fjárlögum fyrir árið 2011. Einnig er tekið fram að kostnaður af lögfestingu frumvarpsins og innleiðingu reglugerðarinnar komi einkum fram tímabundið. Í kostnaðarmati Umhverfisstofnunar kemur hins vegar fram að stofnunin telji að ekki verði unnt að tryggja fullnægjandi framkvæmd löggjafarinnar nema til komi viðbótarfjármagn sem tilgreint er í kostnaðarmatinu. Nefndin telur ljóst að gera verður ráð fyrir kostnaðaraukningu hjá Umhverfisstofnun vegna leiðbeiningar- og kynningarstarfsemi. Hefur nefndin fengið þær upplýsingar að umhverfisráðuneytið muni leitast við að tryggja stofnuninni fullnægjandi fjármagn við þá fjárlagagerð sem nú stendur yfir fyrir komandi ár.
         Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á frumvarpinu, einkum lagatæknilegs eðlis, málfarsbreytingar og til skýringar. Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr. 1. og 2. málsl. 3. mgr. orðist svo: Framleiðandi, innflytjandi og eftirnotandi skulu láta fara fram mat sem lagt er til grundvallar við hættuflokkun efnis eða efnablöndu. Slíkt mat skal fara fram á grundvelli fyrirliggjandi og aðgengilegra gagna um viðkomandi efni.
     2.      Við 2. gr. Í stað orðanna „geta varðveitt innihaldið“ í 2. mgr. komi: varðveita vöruna.
     3.      Við 6. gr. Á eftir orðunum „Eiturefni er“ í 1. mgr. komi: samkvæmt lögum þessum.
     4.      Við 9. gr. 4. málsl. b-liðar orðist svo: Á ílátum skal geta innihalds og á ílátum og ystu umbúðum um eiturefni og hættuleg efni skulu vera viðeigandi hættumerki.

    Ólína Þorvarðardóttir og Kristján Þór Júlíusson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. apríl 2011.



Mörður Árnason,


form., frsm.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.


Auður Lilja Erlingsdóttir.



Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.


Ólafur Þór Gunnarsson.


Skúli Helgason.



Birgitta Jónsdóttir.