Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 740. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1271  —  740. mál.




Álit fjárlaganefndar



á skýrslu Ríkisendurskoðunar um sameiningu í ríkisrekstri      –


1. Landið sem eitt skattumdæmi.



    Hinn 1. janúar 2010 voru embætti ríkisskattstjóra og níu skattstjóra víðs vegar um landið sameinuð í eitt, embætti ríkisskattstjóra á grundvelli laga nr. 136/2009. Þar með varð landið að einu skattumdæmi. Breytingin er talin auka hagkvæmni rekstrarins og gefa kost á aukinni sérhæfingu við úrlausn og magnafgreiðslu verkefna.
    Könnun Ríkisendurskoðunar á undirbúningi sameiningarinnar gefur ekki tilefni til athugasemda af hálfu stofnunarinnar. Stofnunin mun engu að síður halda áfram að fylgjast með eftir því sem sameiningunni vindur fram.
    Ríkisendurskoðun lagði fram eftirfarandi þrjár ábendingar:
          Að stutt verði við starfsfólk.
          Langtímastefnumótun verði lokið innan settra tímamarka.
          Samrunaáætlun verði endurmetin reglulega.
    Með lögum nr. 136/2009, um breytingu á lögum nr. 60/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum, sem samþykkt voru á Alþingi í lok árs 2009 varð samruni skattumdæma að veruleika. Lengi hafði verið stefnt að samruna og var ákvörðunin um að landið yrði eitt skattumhverfi vel ígrunduð. Formlegur undirbúningur hófst um mitt ár 2009 og ítarlegar hugmyndir að nýju embætti voru settar fram í september sama ár.
    Ríkisendurskoðun bendir á að í úttektum sínum í ríkisrekstri hafi stofnunin ítrekað mikilvægi þess að markmið sameininga séu sett fram með skýrum og greinargóðum hætti og þeim forgangsraðað eftir mikilvægi þeirra. Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að við sameiningu skattumdæma verði ekki annað séð en að vel hafi verið hugað að þessum atriðum og því ástæða til að ætla að vel hafi tekist til við sameininguna hvað þessi atriði varðar.
    Fjárlaganefnd telur hins vegar að stefnumótun til lengri tíma hefði mátt liggja fyrir áður en til sameiningar kom. Því fyrr sem starfsfólk tileinkar sér framtíðarsýn nýs embættis þeim mun betra. Framtíðarsýn verður því að liggja fyrir svo festa megi stofnanabrag sem fyrst í sessi. Fram kom í skýrslunni að stefnumótun til lengri tíma hefði átt að ljúka í árslok 2010. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra stóðst þessi tímaáætlun í meginatriðum.
    Ríkisendurskoðun mun fylgjast nánar með sameiningunni og veita fjárlaganefnd Alþingis upplýsingar um framvindu hennar í skýrslum. Mun nefndin fjalla um skýrslurnar jafnóðum og þær koma út.

Alþingi, 5. apríl 2011.



Oddný G. Harðardóttir.



Ásbjörn Óttarsson.


Björn Valur Gíslason.



Kristján Þór Júlíusson.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Þór Saari.


Þuríður Backman.