Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 198. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1301  —  198. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um fjölmiðla.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin tók málið til frekari umfjöllunar eftir 2. umræðu. Hefur nefndin fengið á sinn fund Elfu Ýri Gylfadóttur, Jón Vilberg Guðjónsson og Þorgeir Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Pál Þórhallsson, sérfræðing í fjölmiðlarétti.
    Eins og fram kemur í áliti meiri hluta nefndarinnar um málið (þskj. 1111) er ákvæðið um vernd heimildarmanna í 25. gr. frumvarpsins mikilvæg réttarbót fyrir starfsmenn fjölmiðla. Meiri hlutinn vill þó koma þeim sjónarmiðum á framfæri að ástæða sé til að afmarka nánar undanþáguákvæði 3. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála og styrkja þar með heimildarverndina enn frekar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að skýra nánar þau tilvik sem geta leitt til þess að dómari beiti undanþáguákvæðinu, þannig að ljóst muni vera að því skuli ekki beitt nema í undantekningartilvikum og eingöngu þegar um er að ræða vitnisburð er ráðið getur úrslitum í dómsmálum sem tengjast alvarlegum glæpum. Meiri hlutinn vekur sérstaka athygli á því að í dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins hefur komið fram að viðskiptahagsmunir séu ekki nægjanleg rök til að aflétta heimildarvernd og leggur meiri hlutinn til að íslensk löggjöf endurspegli sams konar viðhorf með vísan til almannahagsmuna. Meiri hlutinn mun leggja fram minnisblað með tillögum um breytingar á lögum um meðferð sakamála til frekari meðferðar allsherjarnefndar.
    Meiri hlutinn vill árétta að með ákvæði 36. gr. frumvarpsins um rétt til andsvara er staða fjölmiðla styrkt frá því sem nú er. Ætlunin er að samræma reglur á sviði fjölmiðla og vill meiri hlutinn leggja til þá breytingu á 3. málsl. 1. mgr. 36. gr. að sú regla skuli gilda óháð miðlunarformi að birting andsvara skuli vera þannig að eftir verði tekið.
    Mennta- og menningarmálaráðherra skipar fimm manns í fjölmiðlanefnd til fjögurra ára, samkvæmt ákvæði 8. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að einn fulltrúi í stað tveggja verði skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins og einn samkvæmt tilnefningu Blaðamannafélags Íslands. Með þessu er undirstrikað mikilvægi þess að í fjölmiðlanefnd sitji einstaklingar með starfsreynslu úr blaða- og/eða fréttamennsku.
    Í ljósi þess hversu mikilvægar reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði eru fyrir trúverðugleika íslenskra fréttamiðla er það mat meiri hlutans að mikilvægt sé að viðurlög í formi dagsekta séu við vanefndum á fullnustu ákvæðisins og leggur meiri hlutinn til breytingar á 53. gr. frumvarpsins þar að lútandi.
    Að lokum leggur meiri hlutinn til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að þar til skipað hefur verið í fjölmiðlanefnd skuli útvarpsréttarnefnd vera við störf og sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum nr. 53/2000.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jónína Rós Guðmundsdóttir og Eygló Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. apríl 2011.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Þráinn Bertelsson.


Oddný G. Harðardóttir.



Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.


Björn Valur Gíslason.