Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 580. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1359  —  580. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997 (gjaldtökuheimildir).

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eirík Þorláksson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Kristbjörgu Stephensen frá Reykjavíkurborg og Áslaugu Agnarsdóttur frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.
    Þá bárust umsagnir frá ASÍ, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og Reykjavíkurborg.
    Með frumvarpinu er lögð til gjaldtökuheimild til handa almenningsbókasöfnum vegna þeirrar þjónustu sem þau veita. Frumvarpinu er ætlað að eyða lagalegri óvissu um gjaldtöku en með áliti umboðsmanns Alþingis um að reglur Landsbókasafns um innheimtu sekta vegna vanskila á útlánaefni hafi ekki nægilega trausta lagastoð hefur skapast nokkur óvissa um fjárhagslega afkomu almenningsbókasafna.
    Íslensk bókasöfn eru bundin af þeim réttarreglum sem gilda um starfsemi stjórnvalda. Nefndin vill í þessu sambandi árétta að samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttar eru stjórnvöld bundin af lögum á þann hátt að ákvarðanir þeirra verða annars vegar að eiga sér stoð í lögum og hins vegar mega þær ákvarðanir ekki brjóta í bága við lög.
    Um gjaldtöku opinberra aðila gildir sú meginregla að hún verður að byggjast á lögum, óháð því hvort um er að ræða skattheimtu eða gjald fyrir þjónustu. Hér er um að ræða þjónustugjald en það er greiðsla sem tilteknir hópar einstaklinga og lögaðila verða að greiða hinu opinbera eða öðrum, sem hafa heimild til að taka við henni, fyrir sérgreint endurgjald sem látið er í té og er greiðslunni ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við endurgjaldið. Það er mat nefndarinnar að fyrrgreind gjaldtökuheimild leiði ekki til hækkunar á gjaldskrám almenningsbókasafna og var sá skilningur staðfestur í máli þeirra umsagnaraðila sem komu fyrir nefndina.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Eygló Harðardóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2011.


Skúli Helgason,
form., frsm.
Ásbjörn Óttarsson.
Þráinn Bertelsson.

Oddný G. Harðardóttir.
Þuríður Backman.
Íris Róbertsdóttir.

Margrét Tryggvadóttir.