Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 785. máls.

Þskj. 1389  —  785. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940,
með síðari breytingum (mansal).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 227. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „8 ára fangelsi“ í inngangsmálslið 1. mgr. kemur: 12 ára fangelsi.
     b.      Í stað orðanna „skv. 226. gr.“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: skv. 1. mgr. 226. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í refsiréttarnefnd að beiðni innanríkisráðherra. Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á 227. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um mansal. Annars vegar að refsing fyrir mansal verði hækkuð úr 8 ára fangelsi í 12 ára fangelsi og hins vegar að í stað þess að vísa til 226. gr. hegningarlaga í heild sinni í 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins verði einungis vísað til 1. mgr. 226. gr.
    Ákvæði 227. gr. a var lögfest með lögum nr. 40/2003. Við lýsingu brotsins var höfð hliðsjón af 3. gr. bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi um að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn (Palermó-bókunin). Breytingar voru gerðar á ákvæðinu með lögum nr. 149/ 2009 í tilefni af fyrirhugaðri fullgildingu Palermó-bókunarinnar og Samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Í frumvarpinu var lagt til að við skilgreiningu á hugtakinu mansali yrði ákvæðum 3. gr. Palermó-bókunarinnar og 4. gr. Evrópuráðssamningsins fylgt með nákvæmari hætti og var í því efni einkum litið til mansalsákvæðis 262. gr. a dönsku hegningarlaganna. Að auki var við ákvæðið bætt refsiþyngingarástæðu í tilvikum þar sem brot beinist gegn barni, sbr. 24. gr. Evrópuráðssamningsins, og lýst yfir refsinæmi athafna sem tengjast ferða- eða persónuskilríkjum, sbr. 20. gr. Evrópuráðssamningsins.
    Undanfarin ár hefur sérstök áhersla verið lögð á það að berjast gegn mansali á Íslandi. Í mars 2009 samþykkti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun gegn mansali og í byrjun nóvember sama ár var skipað sérfræði- og samhæfingarteymi um mansal sem m.a. hefur það hlutverk að tryggja yfirsýn og þekkingu á mansalsmálum og að þolendur mansals fái viðeigandi vernd og aðstoð. Þá ber teyminu einnig að sinna fræðslu um mansalsmál, hafa eftirlit með framkvæmd aðgerðaáætlunar og vera stjórnvöldum til ráðgjafar í mansalsmálum. Lögregluyfirvöld hafa tekið saman upplýsingar og leiðbeiningar um verklag fyrir lögreglu í mansalsmálum og hafa nokkur mansalsmál gengið alla leið til dómstóla til úrlausnar.
    Með dómi Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í máli nr. 224/2010 var í fyrsta skipti sakfellt fyrir mansal hér á landi. Í málinu voru fimm menn fundnir sekir fyrir hlutdeild í mansalsbroti gegn 19 ára stúlku sem beitt hafði verið ólögmætri nauðung og annarri ótilhlýðilegri meðferð í heimalandi sínu áður en hún kom til Íslands. Talið var sannað að mennirnir hefðu hver með sínum hætti átt hlut í því að flytja stúlkuna hingað til lands eða á milli staða hérlendis og hýsa hana á ákveðnu tímabili. Var jafnframt talið sannað að stúlkan hefði verið flutt hingað til lands til að stunda vændi. Þar sem ekkert lá fyrir til sönnunar á því hvort mennirnir hefðu framið verknaðinn í eigin þágu, frekar en sem hlutdeildarmenn í broti annars manns, eins eða fleiri, sem ekki hefði orðið uppvíst um, voru þeir dæmdir sekir fyrir hlutdeild í mansalsbroti. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að samverknaður þeirra laut að því að svipta unga konu, sem mátti sín lítils, frelsi til þess að ráða ferðum sínum og dvalarstað í þeim tilgangi að láta hana leggja stund á vændi hér á landi. Þá hefði háttsemin verið þaulskipulögð með einbeittum ásetningi í samstarfi við brotamenn erlendis, sem ekki hafði orðið uppvíst um. Var sá mannanna sem ríkastan þátt var talinn eiga í brotinu dæmdur til fimm ára fangelsisrefsingar en hinir til fjögurra ára fangelsisrefsingar.
    Samhliða aukinni þekkingu og reynslu af meðferð mansalsmála er eðlilegt að ýmsir þættir slíkra mála komi til endurskoðunar. Af framangreindum dómi Hæstaréttar má vera ljóst að í mansali felst alvarlegt brot gegn þeim einstaklingi sem gert er að þola að vera með einum eða öðrum hætti sviptur frelsi sínu. Þá eru slík brot oftar en ekki framin í þeim tilgangi að hagnýta sér viðkomandi með kynferðislegum hætti.
    Í ljósi alvarleika mansalsbrota og með hliðsjón af þeim refsingum sem liggja við brotum á 194. og 226. gr. almennra hegningarlaga er í frumvarpinu lagt til að hámarksrefsing fyrir brot á 227. gr. a almennra hegningarlaga verði hækkuð úr átta ára í tólf ára fangelsi. Á það ber sérstaklega að líta að brot gegn framangreindum ákvæðum eru oft liður í mansalsbroti. Þá þykir jafnframt rétt að breyta ákvæðinu á þann veg að það tæmi ekki sök gagnvart brotum á 2. mgr. 226. gr. laganna, en þar er m.a. kveðið á um það að hafi frelsissvipting verið framin í ávinningsskyni eða verið langvarandi, svo og ef maður hefur verið fluttur burt í önnur lönd eða fenginn mönnum á vald, sem ekki eigi neinn rétt á því, skuli beita fangelsisrefsingu ekki skemur en eitt ár og allt að sextán árum eða ævilangt. Séu atvik með þeim hætti sem segir í ákvæðinu þykir rétt að því sé beitt samhliða ákvæði 227. gr. a.
    Loks er rétt að taka fram að sú breyting sem hér er lögð til hefur það jafnframt í för með sér að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, um að maður geti verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna, teljast uppfyllt að því er varðar mansalsbrot.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (mansal).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum um mansal. Annars vegar lagt til að refsing fyrir mansal verði hækkuð úr 8 ára fangelsi í 12 ára fangelsi. Hins vegar er lagt til að mansalsbrot tæmi ekki sök gagnvart öðrum mjög alvarlegum frelsissviptingarbrotum, líkt og nú er, enda varða slík brot þyngri refsingu en ef brotið er gegn mansalsákvæði hegningarlaganna. Þykir því rétt að beita þeim ákvæðum samhliða í þeim tilvikum þar sem það getur átt við.
    Erfitt er að segja til um hvort þyngri refsirammi vegna mansalsbrota hafi í för með sér þyngingu dæmdrar refsingar fyrir dómstólum, enda fer slíkt eftir eðli þess brots sem framið er hverju sinni. Þá er jafnframt ómögulegt að segja til um hversu mörg mál verði höfðuð fyrir dómstólum árlega á grundvelli mansalsákvæðisins, en þess má geta að engin slík mál eru til meðferðar hjá dómstólum nú um stundir. Ef þyngri refsingar leiða til lengri setu í fangelsi þá er áætlað að kostnaður vegna eins fanga sé um 8,2 m.kr. á ári.