Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 186. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1405  —  186. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Sæmundsdóttur og Kristínu R. Snorradóttur frá umhverfisráðuneyti, Kjartan Ingvarsson frá Umhverfisstofnun, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins, Guðjón Bragason og Lúðvík E. Gústafsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigurð Jónsson frá RR-Skilum, Jón H. Steingrímsson frá Efnamóttökunni og Björn H. Halldórsson frá Sorpu bs.
    Nefndinni bárust jafnframt umsagnir frá Efnamóttökunni hf., Félagi atvinnurekenda, Flokkun Eyjafirði ehf., Reykjavíkurborg, RR-Skilum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu, Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf., Sorpu bs., Sorpurðun Vesturlands hf., tollstjóranum í Reykjavík, Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóði og Þóri J. Einarssyni.
    Með frumvarpinu eru lagðar til ýmiss konar breytingar á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Í fyrsta lagi er um að ræða tillögur um að auka framleiðendaábyrgð við ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota drykkjarvöruumbúða. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar um ábyrgð á raf- og rafeindatækjum og er markmiðið að einfalda meðhöndlun úrgangs vegna raf- og rafeindatækja og gera vinnubrögð í þeim efnum markvissari. Í þriðja lagi yrðu með frumvarpinu innleiddar tvær EB-gerðir, annars vegar tilskipun 2006/21/ EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB og hins vegar tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE.

Einnota drykkjarvöruumbúðir.
    Í umsögnum um frumvarpið voru verulegar athugasemdir gerðar við fyrirhugaðar breytingar á því fyrirkomulagi sem hefur verið viðhaft við endurvinnslu og förgun einnota drykkjarvöruumbúða frá 1989. Lúta athugasemdirnar einkum að því að fyrirhugaðar breytingar á skilakerfinu gætu dregið úr skilahlutfalli, sem nú er eitt hið besta í heimi eða um 85% að jafnaði. Gera margir umsegjendur athugasemdir við að breyta eigi góðu kerfi sem mikil sátt ríkir um og telja að í raun sé engin ástæða til breytinga.
    Í athugasemdum við frumvarpið er rakið að þegar lög um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, voru sett var gert ráð fyrir að starfsemi Endurvinnslunnar yrði óbreytt til ársins 2008 en þá féllu úr gildi sérstök lög um þessa starfsemi, nr. 52/1989, þar sem drykkjarvöruumbúðir bæru úrvinnslugjald og féllu undir Úrvinnslusjóð. Ætlunin var að með sérstökum samningi milli sjóðsins og Endurvinnslunnar yrði tryggt að kerfið gengi í megindráttum eins og verið hefur. Þessar breytingar hafa ekki orðið og hefur gildistími viðkomandi ákvæða í úrvinnslugjaldslögunum verið framlengdur þar til ný skipan kæmist á, nú síðast á haustþingi með lögum nr. 157/2010 þegar gildistími var framlengdur til 1. janúar 2012 þar sem ekki náðist að afgreiða í tæka tíð frumvarpið sem nú er undir.
    Með frumvarpinu er lagt til að ekki verði farin sú leið sem áður var gert ráð fyrir, að fella drykkjarvöruumbúðir undir Úrvinnslusjóð, heldur setja drykkjarvöruumbúðir í svipað fyrirkomulag og það sem nú nær til raf- og rafeindatækja, sbr. ákvæði laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Það fyrirkomulag hefur einmitt sætt mikilli gagnrýni. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að skoðað verði betur hvor leiðin hentar við endurvinnslu og förgun drykkjarvöruumbúða. Meiri hlutinn telur rök um framleiðendaábyrgð mikilvæg, en þykir skynsamlegt að raska sem minnst umhverfisvænu skilakerfi sem hefur náð verulegum árangri hérlendis og almenn sátt ríkir um. Meiri hlutinn leggur því til að felldar verði úr frumvarpinu tillögur um breytingar á endurvinnslukerfi drykkjarvöruumbúða.
    Að mati meiri hlutans er mikilvægt að hægt verði að auka þjónustu við neytendur og bæta enn skilahlutfallið. Meiri hlutinn gerir því tillögu að breytingum á 2. mgr. 4. gr. laga nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, þannig að hægt sé að kveða á um strikamerkingar og endurnýtingarmarkmið í reglugerð. Lög nr. 52/1989 eiga að falla úr gildi 1. janúar 2012 en meiri hlutinn gerir tillögu um að tryggja lögunum framhaldslíf þar til búið er að endurskoða öll þau skilakerfi sem í gildi eru vegna meðhöndlunar úrgangs. Meiri hlutinn beinir því til umhverfisráðherra að beita sér fyrir slíkri endurskoðun og bendir jafnframt á að við endurskoðun laga og reglna á sviði úrgangsmála sé nauðsynlegt að skoða vel skipulag Úrvinnslusjóðs og stjórn hans, m.a. hverjir eiga þar fulltrúa. Í því sambandi vísar meiri hlutinn til gagnrýni í umsögnum, en einnig til umræðu í umsögnum og þingræðum vegna hækkunarinnar á skilagjaldi hjá sjóðnum í haust (185. mál, lög nr. 158/2010).

Rafhlöður og rafgeymar, raf- og rafeindatæki.
    Í frumvarpinu eru lagðar til töluverðar breytingar á því fyrirkomulagi sem haft hefur verið um raf- og rafeindatækjaúrgang. Í fyrsta lagi er um að ræða innleiðingu á tilskipun 2006/66/ EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE. Með tilskipuninni er lagt til að ráðstafanir um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma verði samræmdar innan Evrópu í þeim tilgangi að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá þeim. Einnig er í tilskipuninni að finna reglur um innihald þungmálma og merkingar til að koma í veg fyrir að samkeppni raskist innan svæðisins auk reglna sem snúa að söfnun, meðhöndlun, endurvinnslu og förgun notaðra rafhlaðna og rafgeyma. Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á því fyrirkomulagi sem gilt hefur frá 1. janúar 2009, þar sem við framkvæmd laganna hafa komið í ljós vankantar sem þörf er á að bæta úr. Er fyrst og fremst um að ræða tvenns konar breytingar. Annars vegar að meginreglan verði sú að öll raf- og rafeindatæki falli undir lögin og að tollafgreiðsla vöru sem undir lögin fellur sé háð því að framleiðandi og innflytjandi eigi aðild að skilakerfi. Hins vegar er lagt til að komið verði á jöfnunarkerfi á milli skilakerfa og að stjórn Úrvinnslusjóðs fari jafnframt með hlutverk stýrinefndar raf- og rafeindatækjaúrgangs til að gera starf stýrinefndar markvissara og hagkvæmara.
    Í umsögnum var þeirri tillögu komið á framfæri að til lengri tíma litið yrði best að raf- og rafeindatækjaúrgangur félli undir Úrvinnslusjóð. Með því fyrirkomulagi væri kostnaður lágmarkaður en víðtæk sátt ríki um starfshætti Úrvinnslusjóðs meðal fyrirtækja. Meiri hlutinn hefur hins vegar verið upplýstur um að sú skipan að raf- og rafeindatækjaúrgangur félli undir Úrvinnslusjóð gangi þvert á ákvæði tilskipunarinnar þar sem sjóðurinn er ekki byggður upp á þann hátt sem tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang gerir kröfur um (sbr. lög nr. 73/2008 sem breyttu lögum nr. 55/2003). Í þeirri tilskipun eru einkum gerðar þrenns konar kröfur. Í fyrsta lagi eiga framleiðendur að fjármagna a.m.k. meðhöndlun, endurnýtingu og förgun raf- og rafeindatækjaúrgangs, í öðru lagi verður einstökum framleiðendum eða hópi framleiðenda að vera heimilt að standa utan kerfa og í þriðja lagi er mikilvægt að fjárhagsleg ábyrgð lendi ekki á ríkissjóði. Meiri hlutinn skilur sjónarmið umsegjenda og tekur undir þau. Hins vegar telur hún ljóst að ekki sé að svo stöddu hægt að færa meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs undir Úrvinnslusjóð, en leggur áherslu á að nánar verði skoðað hvað þurfi að gera til þess arna við heildarendurskoðun á skipan mála.
    Ljóst er að bæta má núverandi kerfi umtalsvert þótt þessi vöruflokkur standi um hríð utan Úrvinnslusjóðs. Er það niðurstaða meiri hlutans að mæla með því að þau ákvæði frumvarpsins sem snúa að raf- og rafeindatækjaúrgangi nái fram að ganga, en hann leggur þó til ýmsar minni háttar breytingar til skýringar og lagfæringar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 9. maí 2011.



Mörður Árnason,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Pétur H. Blöndal.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Kristján Þór Júlíusson.


Skúli Helgason.



Birgitta Jónsdóttir.