Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 186. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1406  —  186. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.


    Minni hlutinn er samþykkur þeirri ákvörðun meiri hlutans að viðhalda því fyrirkomulagi sem verið hefur á endurvinnslu og förgun einnota drykkjarvöruumbúða frá 1989. Hefur það fyrirkomulag reynst afar vel og ekki er ástæða að hreyfa við því kerfi.
    Samkvæmt frumvarpinu á að bæta við nýjum lagaákvæðum um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði, með fimm nýjum lagagreinum sem fjalla um útgáfu starfsleyfis fyrir námuúrgangsstaði auk fleiri ákvæða sem tengjast útgáfu starfsleyfis fyrir slíka starfsemi, en með hugtakinu námuúrgangsstaður er átt við stað þar sem fram fer efnistaka á landi eða neðanjarðarnáma og spilliefni, sem eru notuð eða falla til við námuvinnsluna, eru meðhöndluð sem úrgangur. Námuúrgangsstaður er förgunarstaður sbr. 5. tölul. a-liðar 1. gr. frumvarpsins. Í breytingartillögu meiri hlutans er þessari skilgreiningu breytt þannig: „staður í námu þar sem spilliefni sem notuð eru eða til falla við námuvinnslu eru meðhöndluð sem úrgangur.“ Gildir það einu, námuvinnslu þar sem spilliefni falla til við vinnslu er ekki að finna á Íslandi. Minni hlutinn mótmælir því að verið sé að setja lög um eitthvað sem er ekki til í íslensku samfélagi og ekki er séð að verði til í nánustu framtíð. Er hér að sjálfsögðu átt við innleiðingu tilskipunar 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði. Enn og aftur opinberast sú staðreynd að Alþingi Íslendinga hefur ekki burði til að ráðast í endurbætur á lagasetningum sem berast frá Evrópusambandinu eða hreyfa mótmælum við innleiðingu tilskipana og reglugerða á því sjö vikna tímabili sem koma á mótmælum á framfæri. Leggur því minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt þannig að ákvæði frumvarpsins sem fjalla um námuúrgang verði felld brott með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      5. tölul. a-liðar 1. gr. falli brott.
     2.      8. gr. falli brott.
     3.      F-liður a-liðar 9. gr. falli brott.
     4.      Ákvæði til bráðabirgða IV falli brott.

Alþingi, 9. maí 2011.



Vigdís Hauksdóttir.