Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 797. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1427  —  797. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Flm.: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir.


1. gr.

    Við 15. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó er ráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að breyta þessum fjárhæðum til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar skal ráðherra breyta þeim með reglugerð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga aðila á almennum vinnumarkaði frá 5. maí 2011. Í aðdraganda kjarasamninganna áttu stjórnvöld og aðilar á almennum vinnumarkaði víðtækt samráð um ýmsa þætti sem lúta að efnahags- og kjaramálum. Með efni yfirlýsingarinnar lögðu stjórnvöld sitt af mörkum til að kjarasamningar yrðu gerðir til þriggja ára á íslenskum vinnumarkaði. Enn fremur hafa stjórnvöld haft samráð við aðila á opinberum vinnumarkaði vegna efnis yfirlýsingarinnar.
    Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram vilji stjórnvalda til að endurskoða bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þannig að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur njóti hliðstæðra kjarabóta og um hefur verið samið í kjarasamningum. Heimilt er að hækka atvinnuleysisbætur með reglugerð, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Hið sama gildir um fjárhæðir almannatrygginga, sbr. 69. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, en engu síður var samþykkt ákvæði til bráðabirgða þar sem fram kemur að bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr. laganna, breytist ekki á árinu 2011 í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2011. Því er lagt til í frumvarpi þessu að heimilt verði að hækka bætur almannatrygginga ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Meðal annars er vísað til nýgerðra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá 5. maí sl. sem og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar vegna þeirra.