Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 707. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1432  —  707. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum (hreindýraveiðar).

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Írisi Bjargmundsdóttur frá umhverfisráðuneytinu, Kjartan Ingvarsson frá Umhverfisstofnun, Elías Blöndal Guðjónsson frá Bændasamtökum Íslands og Davíð Ingason og Arne Sólmundsson, stjórnarmenn í Skotveiðifélagi Íslands. Nefndin átti einnig símafund með Jóni Hávarði Jónssyni, varaformanni Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Þá bárust umsagnir frá Bændasamtökum Íslands, Félagi leiðsögumanna með hreindýraveiðum, Hreindýraráði, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skotveiðifélagi Íslands og Umhverfisstofnun.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Breytingarnar ná til reglna um hreindýraveiðar, um leiðsögumenn með þeim og skiptingu arðs af veiðunum. Ætlunin er að gera reglur um útgáfu leyfa fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum skýrari, gera meiri kröfur til veiðimanna, styrkja lagastoð ákvæða sem hafa verið í reglugerðum og skýra kröfur um þekkingu leiðsögumanna.
    Nefndin fjallaði um málið á fundum sínum. Þau atriði sem fengu mesta umfjöllun voru skotpróf veiðimanna, samstarf Umhverfisstofnunar og skotfélaga, arður til landeigenda sem heimila veiðar á löndum sínum og samskipti leiðsögumanna og landeigenda.
    Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er í gangi heildarendurskoðun á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, og þar á meðal þeim ákvæðum og reglum sem gilda um hreindýraveiðar. Nefndin gerir ráð fyrir að í endurskoðun laganna felist allsherjarstefnumótun um hreindýraveiðar á Íslandi og telur því ekki ástæðu til að fjalla um aðra þætti þeirra en um er fjallað í frumvarpinu. Þeirri tillögu var til dæmis komið á framfæri við nefndina að reyndir veiðimenn ættu að geta fengið leyfi til að veiða einir án leiðsögumanns, e.t.v. eftir sérstakt próf. Nefndin telur þetta athyglisverða nýbreytni og beinir því til endurskoðunarnefndar villidýralaga að kanna nánar hvort heppilegt sé að koma á slíkri skipan og þá með hvaða hætti.
    Nefndin fjallaði nokkuð um skotpróf veiðimanna. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að dýraverndarsjónarmið ráði alltaf för þegar farið er til veiða. Nefndin fékk þær upplýsingar að of mörg dýr væru illa skotin og því nauðsynlegt að veiðimenn gætu sýnt fram á færni sína áður en þeim er úthlutað veiðileyfi. Nefndin bendir á að annars staðar á Norðurlöndum eru slík skotpróf forsenda þess að fá úthlutað veiðileyfi. Þeirri athugasemd var komið á framfæri að frumvarpið kvæði ekki nógu skýrt á um að veiðimaður þyrfti ekki að taka skotpróf nema hann fengi úthlutað leyfi. Nefndin bendir á að með því að gera kröfu um að veiðimaður skili ekki inn staðfestingu á verklegu skotprófi fyrr en 1. júlí ár hvert er komið í veg fyrir að þeir sem ekki hafa fengið úthlutað veiðileyfi gangist undir slíkt skotpróf að óþörfu. Nefndin hefur hins vegar fengið þær upplýsingar að stundum sé veiðileyfum úthlutað eftir 1. júlí, einkum sakir þess að veiðimaður hættir við og öðrum á biðlista er úthlutað leyfinu. Nefndin leggur því til að Umhverfisstofnun verði heimilt að veita veiðimanni sem fær úthlutað leyfi til hreindýraveiða eftir 1. júlí frest til að skila inn staðfestingu um verklegt skotpróf. Ljóst er að skammur tími er til stefnu til að uppfylla skilyrðið um skotpróf á komandi veiðitímabili og nefndin leggur því til breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að 2.–4. málsl. 1. mgr. taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2012.
    Við umfjöllun nefndarinnar var nokkuð rætt um framkvæmd skotprófa. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar var ætlunin að Umhverfisstofnun gerði samning við skotfélög um að annast framkvæmd skotprófanna. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að félagasamtök og einstaklingar með viðeigandi aðstöðu, menntun og reynslu annist framkvæmd prófanna undir eftirliti Umhverfisstofnunar. Skotvellir sem skotfélögin eiga eru nú á fimm stöðum og skynsamlegast að þeir séu nýttir til prófanna. Til að taka af öll tvímæli um þetta leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu í þá veru að Umhverfisstofnun verði heimilt að semja við skotfélög eða aðra um umsjá verklegs skotprófs samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um framkvæmd þeirra.
    Nefndin fjallaði nokkuð um úthlutun arðs til landeigenda og samskipti leiðsögumanna við landeigendur. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi skipulagi þannig að landeigandi verður að leyfa veiðar allt veiðitímabilið vilji hann fá úthlutað arði af veiðunum. Eins og fram kemur í greinargerð er nauðsynlegt að sem flestir landeigendur leyfi veiðar á landi sínu til þess að kerfið virki sem skyldi. Með því fyrirkomulagi arðgreiðslna sem lagt er upp með í frumvarpinu er líklegt að álag dreifist betur en nú á veiðisvæðin, og er það því hvati fyrir landeiganda til að leyfa veiðar á landi sínu. Með breytingunum er jafnframt girt fyrir að landeigendur hafi bein afskipti af veiðunum, t.d. hverjir veiða og hvenær, sem ekki er eðlilegt í þessari skipan. Nefndin tekur hins vegar undir sjónarmið landeigenda um að eðlilegt sé að þeir geti fylgst með umferð á landi sínu og að samráð sé haft við þá, t.d. vegna smalamennsku, áður en haldið er til veiða. Nefndin var jafnframt upplýst að um bændur væru misáhugasamir um þessar veiðiupplýsingar. Sumir vilja fylgjast náið með umferð á landi sínu en öðrum gæti þótt ónæði að sífelldum tilkynningum. Telur nefndin nauðsynlegt að upplýsingaveita sé sett í einhvers konar farveg, t.d. með reglugerðarákvæði, þannig að flæði upplýsinga verði ávallt tryggt á sem bestan hátt. Nefndin var upplýst um starf umsjónarmanns Umhverfisstofnunar á Austurlandi og telur að hann ætti að geta annast nauðsynlega upplýsingamiðlun milli veiðihópa og landeigenda, svo sem á hreindýravefsíðu stofnunarinnar, hreindyr.is, sem nú þegar er helsti upplýsingavefurinn um veiðarnar. Þá háttar svo til í einhverjum tilvikum að margir eiga land saman og er þá ekki alltaf ljóst hver er í forsvari fyrir eigendur. Þegar sú er raunin er nauðsynlegt að landeigendur skipi ákveðinn forsvarsmann sem getur leyft eða bannað veiðar á landinu.
    Nefndin ræddi um störf núverandi leiðsögumanna með hreindýraveiðum og hefur verið upplýst um að þeir leiðsögumenn haldi réttindum sínum að fullu út leyfistíma sinn. Fyrir nefndinni var hins vegar komið á framfæri þeirri athugasemd að skortur væri á leiðsögumönnum. Jafnvel hafi komið fyrir að veiðimenn séu hvattir til að drífa af veiðarnar þar sem leiðsögumaðurinn þurfi að taka við öðrum hópi veiðimanna sem sé farinn að bíða. Þetta getur valdið streitu og óþoli sem ekki eru heppilegir fylgifiskar veiða af þessu tagi. Nefndin leggur því til breytingar á 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins þannig að þegar Umhverfisstofnun metur þörf á að halda námskeið fyrir leiðsögumenn sé meðal annars miðað við eðlilega nýliðun í hópi leiðsögumanna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr.
              a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umhverfisstofnun er heimilt að veita veiðimanni sem fær úthlutað leyfi til hreindýraveiða eftir 1. júlí frest til að skila inn staðfestingu á verklegu skotprófi.
              b.      1. málsl. 3. mgr. orðist svo: Umhverfisstofnun heldur námskeið skv. 4. tölul. 10. mgr. í samráði við hreindýraráð og skal Umhverfisstofnun m.a. meta þörf á að halda slík námskeið með tilliti til eðlilegrar nýliðunar í hópi leiðsögumanna.
              c.      Á eftir 3. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Umhverfisstofnun heldur verkleg skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn og leiðsögumenn. Umhverfisstofnun er heimilt að fela öðrum framkvæmd verklegra skotprófa, svo sem rekstraraðilum skotvalla.
     2.      2. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó taka 2.–5. málsl. 1. mgr. 1. gr. ekki gildi fyrr en 1. janúar 2012.

    Kristján Þór Júlíusson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. maí 2011.

Mörður Árnason,
form., frsm.
Ólína Þorvarðardóttir.
Birgir Ármannsson,
með fyrirvara.

Björn Valur Gíslason.
Vigdís Hauksdóttir,
með fyrirvara.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Skúli Helgason.
Birgitta Jónsdóttir.