Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 700. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1469  —  700. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

Frá viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hörpu Theodórsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Þór Clausen frá Háskólanum í Reykjavík, Júlíu Sigurbergsdóttur frá Félagi viðurkenndra bókara og Ingu Jónu Óskarsdóttur úr prófnefnd sem annast námskeið og próf fyrir viðurkennda bókara.
    Með frumvarpinu er lagt til að fellt verði brott ákvæði laga um bókhald þess efnis að efnahags- og viðskiptaráðherra hlutist til um að haldin séu námskeið fyrir þá sem vilja fá viðurkenningu sem bókarar. Slík námskeið hafa verið haldin í Háskólanum í Reykjavík á grundvelli samnings milli skólans og fjármálaráðuneytis sem fór áður með málaflokkinn.
    Verði frumvarpið að lögum mun hlutverk ráðherra skv. 43. gr. laganna vera að sjá til þess að haldin verði próf fyrir þá sem óska eftir viðurkenningu sem bókari. Þannig munu fleiri menntastofnanir geta boðið upp á námskeið og fá þá einnig þeir sem hafa starfsreynslu og treysta sér til að fara beint í próf möguleika til að öðlast viðurkenningu sem bókarar án þess að sækja námskeið.
    Verði frumvarpið að lögum verður áfram kveðið á um það að ráðherra geti gert vissar kröfur sem mælt verði fyrir um í reglugerð. Í frumvarpinu kemur því fram að ráðherra setji reglugerð þar sem kveðið verði nánar á um skilyrði próftöku, prófgreinar, framkvæmd prófa og lágmarksárangur til að standast próf.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Eygló Harðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 2011.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Ásbjörn Óttarsson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Björn Valur Gíslason.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Skúli Helgason.


Margrét Tryggvadóttir.