Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 827. máls.

Þskj. 1475  —  827. mál.



Frumvarp til laga

um stjórn fiskveiða.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

    Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru auðlind í óskoraðri þjóðareign. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindarinnar. Veita má einstaklingum eða lögaðilum tímabundinn rétt til afnota eða hagnýtingar á auðlindinni gegn gjaldi. Óheimilt er að selja auðlindina eða láta varanlega af hendi.
    Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og sjálfbærri og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda og gerð samninga um nýtingarleyfi á aflaheimildum samkvæmt lögum þessum myndar á gildistíma samninganna tímabundinn nýtingarrétt, með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum og samningum, en hvorki beinan né óbeinan eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

2. gr.

    Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um.
    Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

3. gr.

    Ráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á til að tryggja að veiðar fari fram með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Heimildir til veiða samkvæmt lögum þessum skulu miðast við það magn. Ráðherra getur gripið til annarra jafngildra ráðstafana til að veiðar séu stundaðar með sjálfbærum og ábyrgum hætti.
    Leyfður heildarafli botnfisktegunda skal miðaður við veiðar á 12 mánaða tímabili, frá 1. september ár hvert til 31. ágúst á næsta ári, og nefnist það tímabil fiskveiðiár. Skal heildarafli fyrir komandi fiskveiðiár ákveðinn fyrir 1. ágúst ár hvert. Ráðherra er heimilt innan fiskveiðiársins að auka eða minnka leyfðan heildarafla einstakra botnfisktegunda.
    Heildarafli annarra tegunda sjávardýra en þeirra sem tiltekin eru í 2. mgr. skal ákveðinn með hæfilegum fyrirvara fyrir upphaf viðkomandi vertíðar eða veiðitímabils og er ráðherra heimilt að auka hann eða minnka á meðan vertíð eða veiðitímabil varir.
    Eftirfarandi afli reiknast til heildarafla og skal dragast frá fyrir úthlutun samkvæmt flokkum og hlutum í þessari grein:
     1.      Áætlaður afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, sem og annarra rannsóknastofnana.
     2.      Áætlaður afli erlendra skipa í landhelgi Íslands.
     3.      Áætlaður afli til áframeldis á þorski eða öðrum tegundum.
     4.      Áætlaður afli sem fæst við veiðar sem fara fram í fræðsluskyni, enda séu veiðarnar óverulegar og aflinn ekki fénýttur.
     5.      Áætlaður afli tiltekinn í 9. mgr. 15. gr.
     6.      Annar afli sem fellur ekki undir flokka 1 og 2 í þessari grein.
    Frá og með fiskveiðiárinu 2011/2012 er ráðherra heimilt að skipta úthlutuðum heildarafla í einstaka flokka og hluta sem hér segir:
     1.      Flokkur 1: Samningar um nýtingarleyfi á aflaheimildum.
     2.      Flokkur 2: Aflamagn sem úthlutað er án nýtingarsamninga sem ráðherra ráðstafar árlega í eftirtalda hluta:
                  a.      Strandveiðihluta, sbr. 10. gr.
                  b.      Byggðahluta, sbr. 14. gr.
                  c.      Leiguhluta, sbr. þessa grein.
                  d.      Línuívilnunarhluta, sbr. 15 gr.
                  e.      Bótahluta, sbr. 14. gr.
    Ráðherra er heimilt að ákveða skiptingu úthlutaðs afla milli flokka 1 og 2 sem og hluta í flokki 2. Skal tilfærsla milli flokka og hluta gerast í áföngum á 15 ára tímabili. Í lok tímabilsins skulu að jafnaði 85% þorskígilda þeirra fisktegunda sem sæta takmörkunum skv. 2. mgr. þessarar greinar, að undanskildum þorski, ýsu, ufsa og steinbít, enda gilda sérreglur um þá stofna, renna til samninga um nýtingarleyfi á aflaheimildum í flokki 1.
    Skipting þorsks milli flokka 1 og 2 skal vera samkvæmt þessari málsgrein. Verði leyfilegur heildarafli þorsks fyrir fiskveiðiár meiri en 160.000 lestir skulu 55% aukningarinnar renna til flokks 1 og 45% til flokks 2 þar til leyfilegur heildarafli þorsks fer yfir meðalafla fiskveiðiáranna 1990/1991–2010/2011. Þegar þeim afla er náð skulu 50% aukningar umfram það magn renna til flokks 1 og 50% til flokks 2.
    Skipting ýsu milli flokka 1 og 2 skal vera samkvæmt þessari málsgrein. Verði leyfilegur heildarafli ýsu fyrir fiskveiðiár meiri en 50.000 lestir skulu 55% aukningarinnar renna til flokks 1 og 45% til flokks 2 þar til leyfilegur heildarafli ýsu fer yfir meðalafla fiskveiðiáranna 1990/1991–2010/2011. Þegar þeim afla er náð skulu 50% aukningar umfram það magn renna til flokks 1 og 50% til flokks 2.
    Skipting ufsa milli flokka 1 og 2 skal vera samkvæmt þessari málsgrein. Verði leyfilegur heildarafli ufsa fyrir fiskveiðiár meiri en 50.000 lestir skulu 55% aukningarinnar renna til flokks 1 og 45% til flokks 2 þar til leyfilegur heildarafli ufsa fer yfir meðalafla fiskveiðiáranna 1990/1991–2010/2011. Þegar þeim afla er náð skulu 50% aukningar umfram það magn renna til flokks 1 og 50% til flokks 2.
    Skipting steinbíts milli flokka 1 og 2 skal vera samkvæmt þessari málsgrein. Verði leyfilegur heildarafli steinbíts meiri en 12.000 lestir skulu 55% aukningarinnar renna til flokks 1 og 45% til flokks 2 þar til leyfilegur heildarafli steinbíts fer yfir meðalafla fiskveiðiáranna 1990/1991–2010/2011. Þegar þeim afla er náð skulu 50% aukningar umfram það magn renna til flokks 1 og 50% til flokks 2.
    Til strandveiðihluta renna í upphafi þær aflaheimildir sem tilteknar eru í 10. gr. Að auki skulu renna til strandveiðihluta aflaheimildir í eftirgreindum fisktegundum:
     1.      Verði leyfilegur heildarafli þorsks yfir 160.000 lestir, sbr. 7. mgr., skal sá hluti aukningarinnar sem fellur í flokk 2 renna til strandveiðihluta þar til 2.400 lestir þorsks hafa bæst við strandveiðihluta.
     2.      Verði leyfilegur heildarafli ufsa yfir 50.000 lestir, sbr. 9. mgr., skal sá hluti aukningarinnar sem fellur í flokk 2 renna til strandveiðihluta þar til 600 lestir af ufsa hafa bæst við strandveiðihluta.
    Til byggðahluta fara í upphafi þær aflaheimildir sem runnið hafa til aðgerða í byggðamálum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. Að auki skulu renna til byggðahluta þær aflaheimildir í eftirgreindum fisktegundum sem hér greinir:
     1.      Verði leyfilegur heildarafli þorsks yfir 160.000 lestir, sbr. 7. mgr, skal sá hluti aukningarinnar, sem fellur í flokk 2 og er umfram þær 2.400 lestir sem fyrst skulu renna til strandveiðihluta, ráðstafast til byggðahluta þar til 6.000 lestir þorsks hafa bæst við byggðahluta.
     2.      Verði leyfilegur heildarafli ýsu yfir 50.000 lestir, sbr. 8. mgr., skal sá hluti aukningarinnar sem fellur í flokk 2 renna til byggðahluta þar til 1.200 lestir ýsu hafa bæst við byggðahluta.
     3.      Verði leyfilegur heildarafli ufsa yfir 50.000 lestir, sbr. 9. mgr., skal sá hluti aukningarinnar, sem fellur í flokk 2 og er umfram þær 600 lestir sem fyrst skulu renna til strandveiðihluta, ráðstafast til byggðahluta þar til 800 lestir af ufsa hafa bæst við byggðahluta.
    Til leiguhluta skal ráðstafa því magni sem árlega bætist við til ráðstöfunar í flokki 2 þegar fyrrgreindri aukningu aflaheimilda í strandveiðihluta og byggðahluta hefur verið náð. Allar útgerðir fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 5. gr. geta boðið í aflaheimildir sem boðnar eru upp í leiguhluta, sbr. lög um kvótaþing. Ráðherra ákveður í reglugerð skiptingu magns af hverri fisktegund sem boðið er upp hverju sinni, hámarksmagn sem hver aðili getur boðið í og skiptingu milli tímabila, landsvæða og útgerðarflokka. Tekjur af leiguhluta skulu ráðstafast með sama hætti og tekjur af veiðigjaldi skv. 28. gr.
    Ráðherra er heimilt að ráðstafa tilteknu magni úr leiguhluta til nýrra nýtingarsamninga, sbr. ákvæði til bráðabirgða VI.
    Til línuívilnunarhluta renna þær aflaheimildir sem ráðstafað er skv. 8. mgr. 15. gr.
    Til bótahluta renna þær aflaheimildir sem ráðstafað er skv. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr., skel- og rækjubætur. Á sjötta fiskveiðiári eftir gildistöku laga þessara skulu skel- og rækjubætur samkvæmt þessum hluta falla niður og renna til byggðahluta.
    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

II. KAFLI
Veiðileyfi, samningar um nýtingarleyfi, aflahlutdeild og aflamark,
framsal og bann við veðsetningu.

4. gr.

    Enginn má stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi. Almenn veiðileyfi eru tvenns konar, þ.e. veiðileyfi með aflamarki og veiðileyfi með krókaaflamarki. Á sama fiskveiðiári getur skip aðeins haft eina gerð veiðileyfis. Veiðileyfi í atvinnuskyni fellur niður hafi fiskiskipi ekki verið haldið til fiskveiða í atvinnuskyni í tólf mánuði. Þá fellur veiðileyfi niður ef fiskiskip er tekið af skrá hjá Siglingastofnun Íslands og ef eigendur eða útgerðir þeirra fullnægja ekki skilyrðum 2. málsl. 5. gr.

5. gr.

    Við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni koma aðeins til greina þau fiskiskip sem hafa haffærisskírteini og eru skrásett á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

6. gr.

    Útgerðir, sem úthlutað hefur verið aflahlutdeild og eða krókaaflamarkshlutdeild á fiskveiðiárinu 2010/2011 og uppfylla skilyrði 5. gr., skulu eiga rétt á samningum um nýtingarleyfi á aflaheimildum. Heimilt er við samningsgerð að taka tillit til fjárhagsstöðu útgerðar, þ.m.t. skil á greiðslum opinberra gjalda, og að í gildi séu kjarasamningar við áhafnir.
    Samningur um nýtingarleyfi skal í upphafi að hámarki vera til fimmtán ára. Hafi samningsaðili staðið við allar samningsskuldbindingar sínar skal hann eiga rétt á viðræðum um endurskoðun og framlengingu samnings sem hefja skal sex árum fyrir lok gildistíma samnings en ljúki eigi síðar en fimm árum fyrir lok gildistíma samnings.
    Með fyrirvara um heimild Alþingis til frekari breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu og að forsendur samnings um nýtingarleyfi hafi ekki breyst er heimilt að framlengja samning um átta ár.
    Fiskistofa annast samningsgerð í umboði ráðherra.

7. gr.

    Varanlegt framsal aflahlutdeilda er óheimilt.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er framsal aflahlutdeilda heimilt sem hér segir:
     1.      Framsal aflahlutdeilda milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.
     2.      Framsal aflahlutdeilda milli ótengdra aðila er þó heimilt, með þeim takmörkunum að um jöfn skipti sé að ræða milli aðila í þorskígildum talið.
     3.      Krókaaflamarkshlutdeild verður aðeins flutt til báts sem er undir 15 brúttótonnum, enda hafi hann veiðileyfi með krókaaflamarki. Aðrar aflahlutdeildir verða ekki fluttar til báta með krókaaflamark.
    Leita skal staðfestingar Fiskistofu á að flutningur aflahlutdeilda sé innan heimilda. Öðlast slíkur flutningur ekki gildi fyrr en staðfesting Fiskistofu liggur fyrir. Heimilt er Fiskistofu að gera þjónustusamninga við útgerðir um rafrænar tilkynningar um flutning aflahlutdeilda milli fiskiskipa og skal greiða 12.000 kr. til Fiskistofu fyrir slíka samninga fyrir hvert fiskveiðiár. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um skilyrði fyrir gerð þjónustusamninga og reglur er lúta að framkvæmd flutnings aflahlutdeilda og greiðslu gjalds.

8. gr.

    Eigi er heimilt að veðsetja, hvort heldur með beinum eða óbeinum hætti, í heild eða hluta, aflahlutdeild fiskiskips eða önnur réttindi á grundvelli samnings um nýtingarrétt aflahlutdeildar. Hafi umrædd réttindi þegar verið skráð með samningi á skip eða annað veðandlag fyrir gildistöku laga þessara er óheimilt að endurnýja eða framlengja veðsetninguna þegar undirliggjandi veðsamningur rennur út. Óheimilt er að skilja aflahlutdeild eða réttindi sem henni tengjast frá skipi eða öðru fjárverðmæti nema með þinglýstu samþykki þeirra aðila sem stofnað hafa til veðréttinda í viðkomandi verðmæti frá 1. janúar 1998 sem enn voru í gildi við gildistöku laga þessara. Eigi er heimilt að veðsetja, hvort heldur með beinum eða óbeinum hætti, í heild eða hluta, aflahlutdeild fiskiskips eða önnur réttindi á grundvelli samnings um nýtingarrétt aflahlutdeildar.
    Hafi réttindi sem óheimilt er að veðsetja skv. 1. mgr. þegar verið skráð með samningi á veðsett skip eða annað fjárverðmæti fyrir gildistöku laga þessara og ekki má skilja þau frá því skv. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, heldur slík veðsetning gildi sínu.
    Veðréttur yfir skipi eða öðru fjárverðmæti, sem á hafa verið skráð réttindi sem óheimilt er að veðsetja skv. 1. mgr. fyrir gildistöku laga þessara, tekur eingöngu til þeirra skulda sem hann tók til, við gildistöku laga þessara.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að veðsetja það skip eða fjárverðmæti, sem aflahlutdeild fiskiskips eða önnur réttindi á grundvelli samnings um nýtingarrétt aflahlutdeilda eru skráð á, til tryggingar skuld sem stofnað er til eftir gildistöku laga þessara að því skilyrði uppfylltu að sams konar veðsetning sama veðandlags að sömu eða hærri fjárhæð falli niður samhliða hinni nýju veðsetningu.
    Óheimilt er að skilja aflahlutdeild eða réttindi sem henni tengjast frá skipi eða öðru fjárverðmæti nema með þinglýstu samþykki þeirra aðila sem stofnað hafa til veðréttinda í viðkomandi verðmæti frá 1. janúar 1998 sem enn voru í gildi við gildistöku laga þessara.

III. KAFLI
Frístundaveiðar, strandveiðar, krókaaflamark,
tegundir sem ekki sæta takmörkunum og ívilnanir.

9. gr.

    Heimilt er án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í frístundum til eigin neyslu, nema annað leiði af alþjóðlegum skuldbindingum. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla sem veiddur er samkvæmt heimild þessarar málsgreinar er einungis heimilt að hafa til eigin neyslu og er óheimilt að selja eða fénýta hann á annan hátt.
    Ráðherra er heimilt að ákveða að tilteknu magni skv. c-lið í flokki 2, leiguhluta, verði ráðstafað til opinberra stangveiðimóta enda komi leigugjald fyrir er taki mið af meðalleiguverði sl. sex mánuði fyrir viðkomandi tegund.
    Aðilum sem reka ferðaþjónustu og hyggjast nýta við þann rekstur báta til frístundaveiða er skylt að sækja um sérstakt leyfi til Fiskistofu fyrir hvern bát sem nota skal í því skyni.
    Einungis er heimilt að veita leyfi til frístundaveiða aðilum sem fengið hafa leyfi sem Ferðamálastofa gefur út með stoð í 8. gr. laga nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Aðeins er heimilt að stunda veiðar með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar á þeim bátum sem leyfi fá samkvæmt þessari grein.
    Leyfi til frístundaveiða, sbr. 3. mgr., eru tvenns konar:
     1.      Leyfi til að veiða tiltekinn fjölda fiska af kvótabundnum fisktegundum á hvert handfæri eða sjóstöng dag hvern og reiknast sá afli ekki til aflamarks viðkomandi báts. Ráðherra setur frekari reglur um þessi atriði í reglugerð.
     2.      Leyfi til veiða sem takmarkast af aflamarki eða krókaaflamarki viðkomandi báts. Allur afli þessara báta skal veginn í samræmi við gildandi reglur um vigtun og skráningu sjávarafla. Um afla báta sem eingöngu stunda frístundaveiðar gilda ekki ákvæði laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Ekki skal leitað staðfestingar Verðlagsstofu skiptaverðs skv. 4. málsl. 3. mgr. 15. gr. vegna flutnings aflamarks til þessara báta. Heimilt er að selja og fénýta á annan hátt þann afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið. Ráðherra er heimilt að ákveða að tiltekið magn skv. c-lið í flokki 2, leiguhluta, fari til frístundaveiða samkvæmt þessum tölulið enda komi leigugjald fyrir er taki mið af meðalleiguverði sl. sex mánuði fyrir viðkomandi tegund. Ráðherra setur frekari reglur um þessi atriði í reglugerð.
    Innan sama fiskveiðiárs er einungis heimilt að veita báti leyfi annaðhvort skv. 1. tölul. eða 2. tölul. 5. mgr. Við veitingu leyfa til frístundaveiða koma aðeins til greina bátar sem hafa haffærisskírteini og eru skrásettir á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða á sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Leyfi til frístundaveiða skulu veitt til eins fiskveiðiárs í senn. Frístundaveiðibátar, sbr. 2. tölul. 5. mgr., sem jafnframt hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni skulu tilkynna Fiskistofu með viku fyrirvara um upphaf og lok tímabils sem skipinu er haldið til veiða í atvinnuskyni.
    Rekstraraðili skal með sannanlegum hætti kynna fyrir áhöfn báts reglur um takmarkanir sem kunna að vera á veiðum á þeim svæðum þar sem líklegt má telja að báturinn stundi frístundaveiðar og enn fremur reglur um bann við brottkasti afla og reglur um meðferð afla.
    Ráðherra setur í reglugerð frekari skilyrði og reglur um frístundaveiðar, þ.m.t. um skil á skýrslum vegna veiða frístundaveiðibáta og á sjóstangaveiðimótum.
    Fiskistofa skal veita áminningar og svipta báta leyfi til frístundaveiða í samræmi við ákvæði VIII. kafla fyrir brot á ákvæðum þessarar greinar og reglum settum með stoð í henni.

10. gr.

    Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra ráðstafa þeim aflaheimildum sem tiltekið er í 5. mgr. 3. gr., a-lið í flokki 2, strandveiðihluta, til veiða með handfæri á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu. Í lögum þessum eru slíkar veiðar nefndar strandveiðar og leyfin til þeirra veiða strandveiðileyfi. Afli sem fæst við strandveiðar reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra skipa er þær veiðar stunda.
    Heimilt er að ákveða að hluti heildaraflamarks umfram 6.000 lestir, sbr. ákvæði til bráðabirgða IX, renni til flokks minni fiskiskipa með strandveiðileyfi. Minni fiskiskip teljast skip allt að 3 brúttótonn. Skipum sem þannig flokkast til minni fiskiskipa er þó heimilt að tilheyra flokki stærri fiskiskipa með strandveiðileyfi sé þess óskað. Óheimilt er að skipta um flokk eftir að veiðar eru hafnar. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa.
    Þeim heimildum sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt þessari grein skal skipt á fjögur landsvæði. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skiptingu landsvæða og aflaheimilda á tímabili og landsvæði. Þá skal ráðherra með reglugerð stöðva strandveiðar frá hverju landsvæði þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers tímabils verði náð.
    Strandveiðar eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Fiskistofu er aðeins heimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða að fullnægt sé ákvæðum 5. gr. og einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á fiskiskipi sínu. Óheimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verið flutt af því. Eftir útgáfu leyfis til strandveiða er skipum óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skips.
    Frá útgáfudegi strandveiðileyfis er fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Strandveiðileyfi eru bundin við tiltekið landsvæði, sbr. 1. málsl. 3. mgr. Skal leyfið veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og skal öllum afla fiskiskips landað í löndunarhöfn innan þess landsvæðis. Sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á hverju veiðitímabili.
    Leyfi til strandveiða samkvæmt þessari grein eru bundin eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Óheimilt er að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Ráðherra er heimilt með reglugerð að banna strandveiðar á almennum frídögum.
     2.      Hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 14 klukkustundir. Miðað er við þann tíma er fiskiskip lætur úr höfn til veiða til þess tíma er það kemur til hafnar aftur til löndunar. Aðeins er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi.
     3.      Tilkynna skal Fiskistofu um sjósókn fiskiskipsins í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
     4.      Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í fiskiskipi. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.
     5.      Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.
     6.      Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar og skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi. Um vigtun, skráningu og meðferð afla fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og ákvæðum gildandi reglugerðar þar um.
    Þá skal beita ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, fari afli fiskiskips umfram hámark sem ákveðið er í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim. Gjald skal lagt á afla í samræmi við hlutfallslega skiptingu afla eftir tegundum. Skal gjaldið nema því meðalverði sem fengist hefur fyrir samsvarandi afla á fiskmörkuðum á þeim stað og því tímabili þegar hann barst að landi.
    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd strandveiða.

11. gr.

    Bátum sem veiðileyfi hafa með krókaaflamarki er heimilt að stunda veiðar úr þeim tegundum sem þeir hafa krókaaflamark í og enn fremur tegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Ráðherra skal þó setja reglur um leyfðan meðafla. Krókaaflamark er óheimilt að nýta á annan hátt en við línu- og handfæraveiðar. Þó er ráðherra heimilt að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum. Við hrognkelsaveiðar báta með krókaaflamarksleyfi skulu hrognkelsi vera meiri hluti landaðs heildarafla.

12. gr.

    Veiðar á þeim tegundum sjávardýra sem ekki sæta takmörkun á leyfilegum heildarafla skv. 3. gr. eru frjálsar öllum þeim skipum sem leyfi fá til veiða í atvinnuskyni skv. 4. gr. með þeim takmörkunum sem leiðir af almennum reglum um veiðisvæði, veiðarfæri og veiðitíma.
    Veiðiheimildum í flokki 1 á þeim tegundum sem heildarafli er takmarkaður af skal úthlutað til einstakra skipa, að því tilskildu að viðkomandi útgerð hafi gert samning við stjórnvöld um nýtingarleyfi á aflahlutdeild. Skal hverju skipi úthlutað tiltekinni hlutdeild í leyfðum heildarafla tegundarinnar sem fellur til flokks 1. Nefnist það aflahlutdeild skips í flokki 1 og helst hún óbreytt samningstímann.
    Aflamark veiðiskips á hverju fiskveiðiári, veiðitímabili eða vertíð ræðst af leyfðum heildarafla í viðkomandi tegund og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla skv. 2. mgr. Þó skulu aflaheimildir sem ráðstafað er í tilteknum fisktegundum árlega til eflingar sjávarbyggðum skv. 14. gr., línuívilnunar skv. 15. gr. og strandveiða koma til frádráttar í aflamarki sömu tegunda hjá öllum veiðiskipum hlutfallslega miðað við hlut einstakra skipa í heildarúthlutun, reiknað í þorskígildum á grundvelli laga þessara og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Ekki koma til frádráttar aflaheimildir sem renna frá aukningu til strandveiðihluta og byggðahluta skv. 3. gr. Skal miðað við samanlagða úthlutun í upphafi hvers fiskveiðiárs og síðustu heildarúthlutun í þeim tegundum sem ekki er úthlutað í upphafi fiskveiðiárs, miðað við þorskígildi við úthlutun. Hafi skip engar eða ekki nægar heimildir í einhverri tegund til að mæta skerðingu samkvæmt þessari grein, að teknu tilliti til heimildar til breytinga milli tegunda skv. 1. mgr. 15. gr. og flutnings milli fiskveiðiára skv. 3. og 4. mgr. 15. gr., skal Fiskistofa veita hlutaðeigandi útgerð tveggja mánaða frest til að flytja fullnægjandi veiðiheimildir á skipið eða greiða fyrir sömu heimildir, sbr. lög nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Hafi það ekki verið gert innan þess frests fellur leyfi þess til veiða í atvinnuskyni niður tímabundið þar til úr hefur verið bætt. Ráðstöfun tekna samkvæmt þessari grein skal fara eftir ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa.
    Ákvæði laganna um úthlutun, nýtingu og framsal aflahlutdeilda og aflamarks gilda einnig um krókaaflahlutdeild og krókaaflamark nema öðruvísi sé kveðið á um í þeim.

13. gr.

    Verði veiðar takmarkaðar skv. 3. gr. á tegundum sjávardýra sem samfelld veiðireynsla er á, en ekki hafa áður verið bundnar ákvæðum um leyfðan heildarafla, er ráðherra heimilt að ákveða skiptingu heildaraflaheimilda á milli flokka 1 og 2, sem og hluta í flokki 2. Jafnframt er ráðherra heimilt að úthluta aflahlutdeild á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila. Getur hann einnig við þá ákvörðun m.a. tekið mið af stærð eða gerð skips, veiðiaðferð, búnaði, svæðum, heimahöfn skips og útbreiðslu stofna. Hafi skip sem aflareynsla er bundin við, sbr. 1. málsl., horfið úr rekstri þegar úthlutun á sér stað er síðasta eiganda skipsins áður en það hvarf úr rekstri heimilt að ákveða á hvaða skip sú hlutdeild skuli skráð.
    Ef ekki er fyrir hendi samfelld veiðireynsla á viðkomandi tegund er ráðherra heimilt að ákveða skiptingu heildaraflaheimilda á milli flokka 1 og 2, sem og hluta í flokki 2. Jafnframt er ráðherra heimilt að ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Getur hann við þá ákvörðun m.a. tekið mið af fyrri veiðum, veiðiaðferð, stærð eða gerð skips, svæðum, heimahöfn skips og útbreiðslu stofna. Getur ráðherra bundið úthlutun samkvæmt þessari málsgrein því skilyrði að skip afsali sér heimildum til veiða á öðrum tegundum og að útgerð viðkomandi skips hafi gert samning við stjórnvöld um nýtingarleyfi á aflaheimildum.
    Ráðherra er einnig heimilt að nota aðrar aðferðir við fiskveiðistjórn tímabundið á tegundum sem ekki eru bundnar ákvæðum um leyfðan heildarafla, enda liggi fyrir ákvörðun um að aflahlutdeildum verði ekki úthlutað.
    Úthlutun skv. 1. og 2. mgr. er háð því að viðkomandi útgerð geri samning við stjórnvöld um nýtingarleyfi.

14. gr.

    Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski og hann getur ráðstafað þannig:
     1.      Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda.
     2.      Til stuðnings byggðarlögum þannig:
                  a.      Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski.
                  b.      Til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og það hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Aflaheimildir samkvæmt þessari grein skulu skiptast milli tegunda í hlutfalli við leyfilegt heildarmagn í tegundunum og skulu dregnar frá leyfðum heildarafla þessara tegunda áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeilda. Í reglugerðum sem ráðherra setur skv. 3. og 4. mgr. skal kveðið á um hvaða botnfisktegundir komi til úthlutunar.
    Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um ráðstöfun aflaheimilda skv. 1. tölul. 1. mgr.
    Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um ráðstöfun aflaheimilda skv. 2. tölul. 1. mgr. Þar skal kveðið á um skilgreiningu á byggðarlagi, viðmiðunar- og útreikningsreglur og aðrar reglur um úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga. Sveitarstjórn getur ákveðið að úthlutun aflaheimilda skv. 2. tölul. fari eftir ákvæðum 10. mgr. þessarar greinar. Skal sveitarstjórn tilkynna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu ákvörðun sína fyrir 1. ágúst ár hvert vegna komandi fiskveiðiárs.
    Ráðherra setur í reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda skv. 2. tölul. 1. mgr. til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar. Einnig er ráðherra heimilt að setja reglur um að ekki sé heimilt að úthluta aflaheimildum til skipa sem fluttar hafa verið meiri aflaheimildir frá en þær heimildir sem fluttar hafa verið til skipanna á tilteknu fiskveiðiári.
    Framsal aflaheimilda, sem úthlutað er skv. 2. tölul. 1. mgr., er óheimilt en þó skulu heimil jöfn skipti á aflaheimildum í þorskígildum talið. Þó skal heimilt að flytja aflamark samkvæmt þessu ákvæði á milli skipa í eigu sama lögaðila. Framsal aflaheimilda samkvæmt töluliðnum skal þó vera heimilt hafi fiskiskip efnt löndunar- og vinnsluskyldu í samræmi við 7. mgr.
    Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemur í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Vinnsla telst í þessu tilfelli vera öll sú vinnsla fisks sem er umfram slægingu og ísun.
    Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda, sem koma í hlut einstakra byggðarlaga, til fiskiskipa. Ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessari grein er heimilt að kæra til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Kærufrestur er tvær vikur frá tilkynningu Fiskistofu um úthlutun eða höfnun umsóknar um úthlutun og skal úthlutun ekki fara fram fyrr en að þeim fresti liðnum. Skal ráðuneytið leggja úrskurð á kærur innan tveggja mánaða. Ráðuneytið getur ákveðið að úthlutun aflaheimilda til skipa í tilteknu byggðarlagi verði frestað að hluta eða öllu leyti þar til það hefur lokið afgreiðslu á kærum sem borist hafa vegna úthlutunar þar.
    Heimilt er að flytja aflamark einstakra fiskveiðiára sem úthlutað er samkvæmt þessari grein yfir á næsta fiskveiðiár og úthluta því með þeim aflaheimildum sem koma til úthlutunar á því fiskveiðiári. Aflamark sem er flutt frá eldra fiskveiðiári skal tilheyra aflamarki þess fiskveiðiárs sem hófst 1. september næst á undan úthlutun aflamarks.
    Heimilt er ráðherra að ráðstafa aflaheimildum skv. 2. tölul. 1. mgr. þannig að úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga fari fram á sérstök byggðarlagsnúmer sem lúti sérstökum reglum. Fiskistofa skal halda skrá um þessi númer og annast úthlutun aflaheimilda sem koma í hlut einstakra byggðarlaga. Sveitarstjórnir hafa forræði yfir aflaheimildum sem úthlutað er samkvæmt framangreindum hætti. Þrátt fyrir ákvæði 19. gr., þar sem kveðið er á um takmarkanir á framsali aflaheimilda fiskiskipa, er heimilt á hverju fiskveiðiári að flytja allt aflamark af hverju byggðarlagsnúmeri til fiskiskipa. Óski sveitarstjórn eftir forræði yfir aflaheimildum samkvæmt ákvæðum 3. mgr. skal birta tillögur sveitarstjórnar með aðgengilegum hætti, svo sem á vefsíðu viðkomandi sveitarfélags, sjö dögum áður en formleg afstaða er tekin til þeirra. Endanlegar reglur sveitarfélags skulu auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda.
    Sveitarstjórn skal úthluta þessum aflaheimildum til fiskiskipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni þannig að úthlutunin byggist á gagnsæi og málefnalegum og staðbundnum ástæðum og sé í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlags. Sveitarstjórn skal tryggja að aflaheimildum samkvæmt þessari grein sé úthlutað til fiskiskipa sem eiga heimahöfn í viðkomandi byggðarlagi, útgerð eigi þar heimilisfesti og að afla sé landað til vinnslu í sveitarfélaginu. Vinnsla samkvæmt þessari málsgrein telst vera öll sú meðhöndlun fisks sem er umfram slægingu og ísun. Útgerð fiskiskips sem fær úthlutun frá sveitarstjórn með þessum hætti er óheimilt að framselja þessar aflaheimildir. Þó skal heimilt að flytja aflamark samkvæmt þessu ákvæði á milli skipa í eigu sama lögaðila.
    Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar.

15. gr.

    Heimilt er að veiða umfram aflamark í einstökum botnfisktegundum, enda skerðist aflamark annarra botnfisktegunda hlutfallslega í samræmi við verðmætahlutföll einstakra tegunda, sbr. 23. gr. Heimild þessi takmarkast við 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks en umframafli í hverri botnfisktegund má þó ekki vera meiri en sem nemur 2% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks. Tilfærsla úr einstakri botnfisktegund getur þó aldrei orðið meiri en 30% af aflamarki skips í viðkomandi tegund. Heimild þessarar málsgreinar nær þó ekki til veiða umfram aflamark í þorski. Ráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða að takmörkun á heimild skv. 2. málsl. skuli í ákveðnum fisktegundum miðast við hærra hlutfall en 2% af heildaraflaverðmæti botnfiskaflamarks.
    Hafi aflamark verið flutt milli skipa skv. 19. gr. flyst heimild til breytinga skv. 1. mgr. frá skipi sem flutt er af til þess skips sem flutt er til.
    Heimilt er að flytja allt að 15% af aflamarki hverrar botnfisktegundar og aflamarki úthafsrækju, humars og síldar, 10% af aflamarki hörpudisks og 5% af aflamarki innfjarðarrækju frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta. Ráðherra getur að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar hækkað fyrrgreint hlutfall aflamarks í einstökum tegundum telji hann slíkt stuðla að betri nýtingu tegundarinnar.
    Þá er heimilt að veiða 5% umfram aflamark hverrar botnfisktegundar, síldar, úthafsrækju og humars og 3% umfram aflamark innfjarðarrækju og hörpudisks, enda dregst sá umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs á eftir.
    Beita skal skerðingarákvæðum 1. mgr. áður en heimild 3. mgr. er nýtt. Heimild 4. mgr. rýmkar ekki heimildir til breytinga milli fisktegunda skv. 1. mgr.
    Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta með í aflamarki.
    Þá getur ráðherra ákveðið að afli á ákveðnum fisktegundum, sem fluttur er óunninn á erlendan markað, skuli reiknaður með álagi þegar metið er hversu miklu af aflamarki skips er náð hverju sinni. Skal álagið vera allt að 20% á þorsk og ýsu en allt að 15% á aðrar tegundir.
    Við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem beitt er í landi má landa 20% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Einnig er heimilt við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem stokkuð er upp í landi að landa 15% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Dagróðrabátur telst bátur sem kemur til hafnar til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að hann heldur til veiða. Ákvæði þetta tekur aðeins til þeirra báta sem tilkynna staðsetningu um sjálfvirkt tilkynningarkerfi íslenskra skipa, sbr. lög nr. 41 20. mars 2003, um vaktstöð siglinga. Línuívilnun í þorski skal á hverju fiskveiðiári takmarkast við 3.375 lestir af óslægðum þorski og skal það magn skiptast innan hvers fiskveiðiárs á fjögur þriggja mánaða tímabil frá 1. september að telja, hlutfallslega með hliðsjón af þorskveiðum línubáta á árinu 2002. Fiskistofa fylgist með línuafla og tilkynnir ráðuneytinu hvenær telja megi líklegt að leyfilegu viðmiðunarmagni hvers tímabils verði náð. Ráðuneytið tilkynnir síðan frá hvaða tíma þorskafli á línu skuli reiknast að fullu til aflamarks. Þá getur ráðherra ákveðið hámark á heildarmagn ýsu og steinbíts til línuívilnunar og jafnframt ákveðið að ýsu- og steinbítsafli skuli reiknast að fullu til aflamarks þegar því er náð. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Skipstjóra fiskiskips er heimilt að ákveða að hluti af afla skipsins reiknist ekki til aflamarks þess. Sá hluti sem þannig reiknast ekki til aflamarks skipsins skal þó aldrei nema meira en 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem hlutaðeigandi skip veiðir á hverju tímabili. Ráðherra getur ákveðið skiptingu afla samkvæmt þessari heimild á tímabil. Heimild þessi er háð eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
     2.      Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.
    Sé heimild í 9. mgr. nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 20% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.
    Ráðherra getur í reglugerð ákveðið að skylt sé að vinna einstakar tegundir uppsjávarfisks til manneldis. Hlutfall uppsjávarafla einstakra skipa sem ráðstafað er til vinnslu á því tímabili sem ráðherra ákveður skal ekki vera ákveðið hærra en 85%.
    Því aflamarki viðkomandi skips, sem eftir stendur þegar heimildir samkvæmt grein þessari og 19. gr. hafa verið nýttar og ekki hefur verið veitt á fiskveiðiárinu, er ráðherra heimilt að ráðstafa í flokk 2, skv. c-lið, leiguhluta, á næsta fiskveiðiári. Þetta skal gert að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar.

IV. KAFLI
Hámarkshlutdeild, yfirráð og tengdir aðilar, flutningur aflamarks.
16. gr.

    Farist skip skal útgerð þess halda aflamarki þess við úthlutun í upphafi næsta fiskveiðiárs eða veiðitímabils þar á eftir, enda hafi aflahlutdeild þess ekki verið flutt til annars fiskiskips.
    Við eigendaskipti að fiskiskipi þar sem ætlun er að aflahlutdeild þess fylgi skal ávallt fullnægt ákvæðum ákvæðis til bráðabirgða VI og 7. gr.

17. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 12. gr. og 16. gr. má samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu aðila sem eiga í samstarfi, aldrei nema hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild eftirtalinna tegunda en hér segir:

Tegund Hámarksaflahlutdeild
Þorskur 12%
Ýsa 20%
Ufsi 20%
Karfi 35%
Grálúða 20%
Síld 20%
Loðna 20%
Úthafsrækja 20%

Nemi heildarverðmæti aflamarks annarra tegunda en að framan greinir, sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla samkvæmt lögum þessum, við upphaf fiskveiðiárs hærra hlutfalli en 2% af heildarverðmæti aflamarks allra tegunda, sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla, má samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila aldrei nema hærra hlutfalli af heildaraflahlutdeild viðkomandi tegunda en 20%. Skal ráðherra við upphaf fiskveiðiárs tilgreina í reglugerð þær tegundir sem um er að ræða. Við mat á heildarverðmæti aflamarks skal annars vegar miða við verðmætahlutföll einstakra tegunda á viðkomandi fiskveiðiári eða veiðitímabili, sbr. 23. gr., og hins vegar úthlutað aflamark einstakra tegunda á tímabilinu. Þó skal samanlögð krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila ekki nema hærra hlutfalli en 4% af þorski og 5% af ýsu miðað við heildarkrókaaflahlutdeild í hvorri tegund.
    Þá má samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila ekki nema meira en 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla samkvæmt lögum þessum og 5. gr. laga nr. 151/1996 eða meira en 5% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar. Við mat á heildarverðmæti aflahlutdeildar skal annars vegar miða við verðmætahlutföll einstakra tegunda á viðkomandi fiskveiðiári eða veiðitímabili, sbr. 23. gr., og hins vegar úthlutað aflamark einstakra tegunda á tímabilinu.
    Til aflahlutdeildar fiskiskipa í eigu einstakra aðila skv. 1. og 2. mgr. telst einnig aflahlutdeild fiskiskipa sem aðilar hafa á kaupleigu eða leigu til sex mánaða eða lengur.
    Tengdir aðilar teljast:
     1.      Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar. Fyrrnefndi aðilinn telst móðurfyrirtæki en hinn síðarnefndi dótturfyrirtæki.
     2.      Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, hefur með öðrum hætti en greinir í 1. tölul. raunveruleg yfirráð yfir hinum. Fyrrnefndi aðilinn telst móðurfyrirtæki en hinn síðarnefndi dótturfyrirtæki.
     3.      Lögaðilar, þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eða tengdir aðilar skv. 1. eða 2. tölul., eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef aðili eða aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eða tengdir aðilar skv. 1. eða 2. tölul., sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum skv. 1.–3. tölul. telst jafnframt eignarhluti og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.
     4.      Aðilar sem hafa með sér samstarf. Samstarf skal vera talið á milli aðila sem gert hafa með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái yfirráðum yfir einum eða fleiri lögaðilum eða hafi sameiginleg yfirráð yfir aflaheimildum, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti. Samstarf skal þó alltaf talið vera fyrir hendi þegar um eftirfarandi tengsl er að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða:
                  a.      Hjón, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í skráðri sambúð.
                  b.      Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, c- og d-lið.
                  c.      Félög sem aðili á með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í, þ.e. að aðili eigi með beinum eða óbeinum hætti að minnst að kosti . hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, b- og d-lið.
                  d.      Tengsl á milli félags og stjórnarmanna þess og félags og framkvæmdastjóra þess.
                  e.      Bein eða óbein tengsl á milli aðila innan eða utan þess félags sem í hlut á, hvort sem um er að ræða rík hagsmunatengsl eða persónuleg tengsl, reist á skyldleika, tengdum eða vináttu, eða tengsl reist á fjárhagslegum hagsmunum eða samningum, sem líkleg eru til að leiða til samstöðu aðila um að stýra málefnum félagsins í samráði hvor eða hver við annan þannig að þeir ráði yfir því.

18. gr.

    Aðila ber, þegar fyrirsjáanlegt er að aflahlutdeild fiskiskipa aðila fari umfram þau mörk sem sett eru í 1. eða 2. mgr. 17. gr., að tilkynna Fiskistofu flutning aflahlutdeilda, samruna lögaðila sem eiga fiskiskip með aflahlutdeild, kaup á eignarhlut í slíkum lögaðilum og kaup, kaupleigu eða leigu á fiskiskipi með aflahlutdeild. Þegar um tengda aðila er að ræða skv. 1. og 2. tölul. 4. mgr. 17. gr. hvílir tilkynningarskyldan á móðurfyrirtæki en annars á þeim aðila er að gerningnum stendur. Þá ber lögaðilum, sem eiga fiskiskip með aflahlutdeild, að láta Fiskistofu reglubundið í té upplýsingar um eignarhluta allra þeirra sem eiga 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í viðkomandi lögaðila. Jafnframt skal veita upplýsingar um eignarhluta einstaklinga og maka þeirra og skyldmenna í beinan legg sé samanlagður eignarhluti eða atkvæðisréttur þeirra 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í viðkomandi lögaðila. Þá skal án tafar upplýsa Fiskistofu um samstarf um yfirráð í skilningi 2. tölul. 4. mgr. 17. gr. Lögaðilum, sem eiga fiskiskip með aflahlutdeild, ber enn fremur að upplýsa Fiskistofu um lögaðila sem þeir eiga eignarhlut eða atkvæðisrétt í og eiga fiskiskip með aflahlutdeild.
    Fiskistofa skal meta þær upplýsingar sem aðili hefur látið í té og innan hæfilegs frests tilkynna aðila hver aflahlutdeild fiskiskipa hans er. Ef aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila fer umfram framangreind mörk skal Fiskistofa tilkynna viðkomandi aðila að svo sé og hve há umframaflahlutdeild hans er. Aðila skal veittur sex mánaða frestur, frá því að honum sannanlega barst tilkynningin, til að gera ráðstafanir til að koma aflahlutdeildinni niður fyrir mörkin. Hafi aðili ekki veitt Fiskistofu upplýsingar um að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar fyrir lok frestsins fellur umframaflahlutdeildin niður. Skerðist þá aflahlutdeild fiskiskipa í eigu viðkomandi hlutfallslega miðað við einstakar tegundir. Við úthlutun aflahlutdeildar í upphafi næsta fiskveiðiárs eftir lok frestsins skal skerðingin koma til hækkunar aflahlutdeildar fiskiskipa í eigu annarra. Hækkunin skal vera í réttu hlutfalli við aflahlutdeild fiskiskipanna af þeim tegundum sem um ræðir.

19. gr.

    Þegar fiskiskipi hefur verið úthlutað aflamarki er heimilt að flytja aflamarkið milli skipa enda leiði flutningurinn ekki til þess að veiðiheimildir skipsins verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Tilkynning um flutning aflamarks skal hafa borist Fiskistofu eigi síðar en 15 dögum eftir að veiðitímabili lýkur.
    Tilkynna skal Fiskistofu um flutning aflamarks og öðlast hann ekki gildi fyrr en stofnunin hefur staðfest flutninginn. Í tilkynningu skulu m.a. koma fram upplýsingar um magn aflamarks sem flytja skal, auk upplýsinga um verð, nema þegar aflamark er flutt á milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.
    Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks skal stofnunin skrá upplýsingar um flutning aflamarksins samkvæmt tilkynningu þar að lútandi. Ráðherra skal með reglugerð ákveða í hvaða formi tilkynningar til Fiskistofu um flutning aflamarks skuli vera. Sá sem tilkynnir um flutning aflamarks skal greiða Fiskistofu gjald að fjárhæð 3.200 kr. með hverri tilkynningu. Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks til fiskiskips skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum. Heimilt er Fiskistofu að gera þjónustusamninga um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks milli fiskiskipa og skal greiða 12.000 kr. til Fiskistofu fyrir slíka samninga fyrir hvert fiskveiðiár. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um skilyrði fyrir gerð þjónustusamninga og víkja frá ákvæðum 1.–3. mgr. að því leyti sem þau lúta að framkvæmd flutnings aflamarks og greiðslu gjalds vegna hans.
    Fiskistofa skal daglega birta aðgengilegar upplýsingar um flutning aflamarks, þar á meðal um magn eftir tegundum, auk upplýsinga um verð, þar sem við á.
    Á hverju fiskveiðiári er heimilt að flytja af fiskiskipi 25% þess aflamarks sem skipi var úthlutað í þorskígildum talið á grundvelli verðmætahlutfalla einstakra tegunda, sbr. 23. gr. Heimild til framsals er áunnin með veiðum, en þó er ávallt heimilt að flytja allt að 5% aflamarks í upphafi fiskveiðiárs. Auk þess er heimilt að flytja frá skipi það aflamark í einstökum tegundum sem flutt hefur verið til skips. Heimilt er Fiskistofu að víkja frá þessari takmörkun á heimild til flutnings á aflamarki vegna varanlegra breytinga á skipakosti útgerða eða þegar skip hverfur úr rekstri um lengri tíma vegna alvarlegra bilana eða sjótjóns, samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
    Framsal aflamarks milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila sætir ekki takmörkunum.
    Framsal aflamarks milli ótengdra aðila er þó heimilt með þeim takmörkunum að um sé að ræða jöfn skipti milli aðila í þorskígildum talið.
    Ekki er heimilt að flytja aflamark milli krókaaflamarkskerfis og aflamarkskerfis.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð varðandi framkvæmd þessarar greinar.

V. KAFLI
Framkvæmd og eftirlit.
20. gr.

    Ráðherra getur sett nánari reglur varðandi framkvæmd laga þessara.

21. gr.

    Skipstjórnarmenn veiðiskipa, sem hljóta veiðileyfi í atvinnuskyni skv. 5. gr., skulu halda rafrænar afladagbækur sem Fiskistofa leggur til. Skal með reglugerð kveða nánar á um þær upplýsingar sem skrá skal í afladagbækur, form þeirra, undanþágur frá rafrænni afladagbók og skil til Fiskistofu. Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni vegna vanskila á afladagbókum og skal leyfissvipting standa þar til skil hafa verið gerð eða skýringar hafa verið gefnar á ástæðum vanskila.
    Útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum og kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum, lánastofnunum og opinberum stofnunum, er skylt að láta ráðuneytinu eða Fiskistofu ókeypis í té og í því formi, sem ráðherra ákveður, allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara.
    Eigendaskipti á fiskiskipi, eða aðra breytingu á útgerðaraðild fiskiskips, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, skal innan 15 daga frá undirritun samnings tilkynna til Fiskistofu. Bæði seljandi og kaupandi, eða leigusali og leigutaki þegar um leigu er að ræða, skulu sameiginlega undirrita tilkynningu um breytta útgerðaraðild á sérstöku eyðublaði sem Fiskistofa leggur til í þessu skyni. Afrit af þinglýstum kaupsamningi eða leigusamningi skal fylgja tilkynningu. Ábyrgð á tilkynningu til Fiskistofu hvílir á kaupanda skips eða leigutaka þess eftir atvikum. Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd tilkynningarskyldu. Vanefndir á tilkynningarskyldu varða viðurlögum skv. 30. gr.

22. gr.

    Fiskistofa annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og hefur í því skyni sérstaka eftirlitsmenn í sinni þjónustu.
    Jafnframt því sem þessir eftirlitsmenn sinna verkefnum samkvæmt lögum nr. 79/1997, lögum nr. 57/1996 og lögum nr. 151/1996 skulu þeir hafa eftirlit með löndun, vigtun, flutningi og vinnslu afla. Enn fremur skulu þeir hafa eftirlit með útflutningi afla eða afurða eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim og í erindisbréfi.
    Eftirlitsmönnum er heimilt að fara í veiðiferðir með fiskiskipum og að fara um borð í skip til athugunar á farmi og veiðarfærum og er skipstjórum skylt að veita þeim aðstoð, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 79 26. maí 1997. Enn fremur skal þeim heimill aðgangur að skipum, vinnslusölum fiskverkenda, birgðageymslum, húsnæði fiskmarkaða og vigtunarleyfishafa og flutningsförum sem flytja afla eða afurðir til að Fiskistofa geti sinnt eftirlitshlutverki sínu lögum samkvæmt.
    Fiskvinnslum, fiskmörkuðum og vigtunarleyfishöfum er skylt að veita eftirlitsmönnum Fiskistofu alla þá aðstoð og aðstöðu sem nauðsynleg er til þess að þeir geti sinnt eftirlitsstörfum sínum, þ.m.t. mælingar á afla og nýtingu afla.
    Fiskistofa skal reka útibú og deildir í landshlutum og skulu þeim útibúum falin stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni.
    Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að settur skuli, á kostnað útgerða, sjálfvirkur eftirlitsbúnaður til fjareftirlits um borð í fiskiskip.

VI. KAFLI
Þorskígildi.
23. gr.

    Sjávarútvegsráðuneytið skal reikna þorskígildi fyrir 15. júlí ár hvert fyrir hverja tegund sem sætir ákvörðun um stjórn veiða, sbr. 24. gr., og taka mið af tólf mánaða tímabili sem hefst 1. maí næstliðið ár og lýkur 30. apríl. Sé tekin ákvörðun um stjórn veiða á tegund sem ekki hefur áður sætt slíkri ákvörðun skal þegar reikna þorskígildi fyrir tegundina miðað við sama tímabil og greinir í 1. málsl. Þorskígildi skulu reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sæta ákvörðun um stjórn veiða af verðmæti slægðs þorsks. Til grundvallar verðmætaútreikningi skal leggja heildaraflamagn og heildarverðmæti þessara tegunda samkvæmt upplýsingum Fiskistofu þar um. Þegar fiskur er seldur ferskur erlendis skal miða við 88% af söluverðmæti hans. Varðandi botnfisk, að undanskildum karfa, skal miða við slægðan fisk. Miða skal við slitinn humar.

VII. KAFLI
Veiðigjald.
24. gr.

    Leggja skal á veiðigjald fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli þessara laga, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða í samræmi við 26. gr.
    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um útreikning, álagningu og innheimtu veiðigjalds á grundvelli þessa kafla.

25. gr.

    Ráðherra skal ákvarða veiðigjald komandi fiskveiðiárs samkvæmt þessari grein fyrir 15.
júlí ár hvert. Til grundvallar veiðigjaldinu skal leggja aflaverðmæti miðað við tímabil sem
hefst 1. maí næstliðið ár og lýkur 30. apríl.
    Fiskistofa skal reikna aflaverðmæti fyrir tegundir sem sæta ákvörðun um stjórn veiða, sbr.
24. gr., og miða við tímabil 1. mgr.
    Aflaverðmæti skv. 2. mgr. skal margfalda með sama hlutfalli og hlutfall vergrar hlutdeildar fjármagns (EBITDA) af tekjum nemur í nýjasta rekstraryfirliti fiskveiða sem Hagstofa reiknar og birtir.
    Þeirri upphæð sem þannig fæst skal skipt jafnt á aflamagn sama tímabils umreiknað til þorskígilda miðað við þorskígildisstuðla næsta fiskveiðiárs, sbr. 23. gr. Veiðigjald komandi fiskveiðiárs skal síðan reiknað sem 19% af þeirri niðurstöðu og lagt í krónum á þorskígildiskílógramm.
    Ráðherra er heimilt að taka tillit til mismunandi framlegðar útgerðarflokka við ákvörðun
veiðigjalds, sbr. rekstraryfirlit fiskveiða sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir.

26. gr.

    Fiskistofa leggur á veiðigjald. Eigendur skipa skulu greiða veiðigjald fyrir hvert þorskígildiskílógramm úthlutaðra veiðiheimilda eða landaðs afla einstakra tegunda eins og það er ákvarðað í 25. gr. Gjald á hvert skip skal þó aldrei vera lægra en 5.000 kr.
    Þegar um er að ræða tegundir sem úthlutað er til einstakra skipa skal gjaldið miðast við úthlutaðar veiðiheimildir í kílógrömmum talið. Fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en greinir í 1. málsl. skal gjaldið miðast við landaðan afla skips í viðkomandi tegund samkvæmt aflaupplýsingakerfi Fiskistofu á tólf mánaða tímabili sem lýkur einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Gjald vegna strandveiða miðast við landaðan afla í strandveiðum. Miða skal við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum sem þeir eru ekki bundnir aflatakmörkunum í en sæta ákvörðun um heildarafla.

27. gr.

    Fiskistofa skal innheimta veiðigjald. Gjaldið fellur í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum ár hvert, 1. október, 1. janúar og 1. maí. Taki úthlutun veiðiheimilda gildi á tímabilinu 1. september til 31. ágúst fellur gjaldið þó í gjalddaga við útgáfu tilkynningar um úthlutaðar veiðiheimildir. Fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en greinir í 1. málsl. 2. mgr. 26. gr. er gjalddagi veiðigjalds vegna landaðs afla skips 1. október. Gjaldið er ekki afturkræft þótt veiðiheimildir séu ekki nýttar. Gjalddagi veiðigjalds vegna afla sem veiddur er við strandveiðar er 1. október.
    Eindagi er 15 dögum eftir gjalddaga. Hafi greiðsla ekki borist innan mánaðar frá gjalddaga fellur veiðileyfi skips niður. Lögveð er í skipi fyrir gjaldinu. Ef gjald er ekki greitt á eindaga reiknast dráttarvextir af fjárhæð gjalds frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við reglur laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Sé tekin ákvörðun um að lækka á tímabilinu 1. september til 31. ágúst áður leyfðan heildarafla einstakra tegunda skal Fiskistofa endurgreiða eiganda skips hluta gjaldsins sem nemur sömu grunnfjárhæð og innheimt var fyrir hvert þorskígildi sem aflaheimildir skips skerðast um.

28. gr.

    Tekjum af veiðigjaldi skal ráðstafað þannig:
     1.      50% tekna af veiðigjaldi hvers fiskveiðiárs skulu renna í ríkissjóð.
     2.      30% tekna af veiðigjaldi hvers fiskveiðiárs skulu renna til ráðstöfunar sveitarfélaga. Skipting í landshluta og sveitarfélög samkvæmt þessum tölulið fer samkvæmt skilgreiningu Hagstofu Íslands 1. desember á sama fiskveiðiári og veiðigjaldið fellur til.
                  a.      Skipta skal helmingi tekna samkvæmt þessum tölulið jafnt á milli landshlutanna Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands vestra, Norðurlands eystra, Austurlands, Suðurlands, Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins.
                  b.      Hinn helmingur tekna samkvæmt þessum tölulið skal skiptast milli landshlutanna Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands vestra, Norðurlands eystra, Austurlands, Suðurlands og Suðurnesja þannig:
                      i.      Fiskistofa skal reikna aflaverðmæti alls landaðs afla í landshlutunum sjö næstliðin fimmtán fiskveiðiár. Árlegt aflaverðmæti skal uppreiknað til meðalverðs síðasta heila fiskveiðiárs miðað við meðalvísitölu neysluverðs á sama tímabili.
                      ii.      Frá aflaverðmæti skv. i. lið skal draga verðmæti afla hvers landshluta sem unninn var úti á sjó á sama tímabili uppreiknað til meðalverðs síðasta heila fiskveiðiárs miðað við meðalvísitölu neysluverðs á sama tímabili. Með vinnslu samkvæmt þessum lið er átt við alla frekari vinnslu afla um borð í skipum en blóðgun, slægingu og flokkun, sbr. 1. gr. laga nr. 54/1992, um vinnslu afla um borð í skipum.
                  Þannig reiknað aflaverðmæti hvers landshluta skv. i. lið að frádregnum ii. lið og samanlagt aflaverðmæti landshlutanna sjö, sbr. i. og ii. lið, reiknað með sama hætti, er grundvöllur skiptingar þessa hluta teknanna á milli þeirra. Skal hver landshluti njóta sömu tekna af þessum hluta og hlutfall hans er af samanlögðu aflaverðmæti landshlutanna sjö.
                  c.      Samanlögðum tekjum hvers landshluta skv. a- og b-lið skal skipt þannig milli sveitarfélaga innan landshlutans að þær renni til hvers sveitarfélags í sama hlutfalli og hlutfall sveitarfélagsins var í reiknuðu aflaverðmæti landshlutans, sbr. b-lið.
                  d.      Fyrir miðjan desember ár hvert skal Fiskistofa reikna hlut hvers landshluta og sveitarfélags af innheimtu veiðigjaldi næstliðins fiskveiðiárs og greiða þeim sinn hlut.
     3.      20% hluti tekna af veiðigjaldi skal nýtt með það að markmiði að efla nýsköpun, rannsóknir og þróun ásamt sameiginlegum markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi.

VIII. KAFLI
Viðurlög o.fl.
29. gr.

    Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni, eða eftir atvikum leyfi til strandveiða, fyrir brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Ákvörðunum Fiskistofu um áminningar og veiðileyfissviptingar verður skotið til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

30. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim og ákvæðum leyfisbréfa varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að sex árum.
    Við fyrsta brot skal sekt eigi nema hærri fjárhæð en 12.000.000 kr. eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekað brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 1.200.000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 24.000.000 kr., sömuleiðis eftir eðli og umfangi brots.
    Beita skal ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla vegna brota gegn lögum þessum eftir því sem við á.

31. gr.

    Sektir má jafnt gera lögaðila sem einstaklingi. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 30. gr. má ákvarða lögaðila sekt þótt sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Með sama skilorði má einnig gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa hafa gerst sekir um brot.
    Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

32. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi, en jafnframt falla úr gildi lög nr. 116/2006, með síðari breytingum. Lög þessu skulu hafa gildi í 23 ár frá gildistöku þeirra.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Núverandi handhafar aflaheimilda skulu hafa lokið gerð samninga um nýtingarleyfi aflahlutdeilda sem gerðir eru á grundvelli 6. gr. eigi síðar en 1. september 2011. Tefjist samningagerð umfram frest þennan af ástæðum sem stjórnvöldum verður ekki kennt um falla aflaheimildir hlutaðeigandi niður og falla til ríkissjóðs.

    

II.


    Skel- og rækjubætur, sem byggjast á ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 14. gr., skulu falla úr gildi að loknu fiskveiðiárinu 2015/2016.

III.


    Á fiskveiðiárunum 2011/2012 til og með 2014/2015 hefur ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 500 lestum af óslægðum þorski. Þessum aflaheimildum skal ráðstafað til tilrauna með áframeldi á þorski í samráði við Hafrannsóknastofnunina sem fylgist með tilrauninni og birtir niðurstöður um gang hennar. Ráðherra setur frekari reglur um skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessu ákvæði.

IV.


    Þrátt fyrir ákvæði 14. mgr. 3. gr. um ráðstöfun tekna af leiguhluta skulu tekjur af þessum hluta renna í ríkissjóð fyrstu fimm fiskveiðiárin eftir að lög þessi taka gildi. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. skal þetta ákvæði sæta endurskoðun þremur árum eftir gildistöku laga þessara.

V.


    Hefja skal heildarendurskoðun laga þessara á sjöunda ári frá gildistöku þeirra.

VI.


    Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. er á fiskveiðiárunum 2011/2012 til og með 2026/2027 heimild til framsals aflahlutdeildar háð samþykki ráðherra og sætir eftirfarandi takmörkunum, enda leiði flutningur aflahlutdeildar og annarra réttinda ekki til þess að veiðiheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess:
     a.      Ráðherra skal fyrir hönd ríkissjóðs eiga forleigurétt á þeim réttindum sem eru andlag framsals. Ákveði ráðherra að nýta forleigurétt skal greiðsla fyrir réttindin miðast við annað tveggja, samningsverð eða viðmiðunarverð, samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur í upphafi hvers fiskveiðiárs, hvort sem lægra reynist. Kostnaður ríkisins vegna forleiguréttar skal fjármagnaður af tekjum þess af veiðigjaldi.
     b.      Falli ráðherra frá forleigurétti skal það sveitarfélag þar sem framseljandi hefur lögheimili eiga forleigurétt á þeim réttindum sem eru andlag framsals. Ákveði sveitarfélag að nýta forleigurétt skal greiðsla fyrir réttindin ákvarðast á sama hátt og kveðið er á um í a-lið þessa ákvæðis.
     c.      Falli ráðherra, sem og sveitarfélag, frá forleigurétti skulu framseljandi og framsalshafi senda Fiskistofu beiðni um staðfestingu á heimild til framsals réttinda samkvæmt samningi um nýtingarleyfi. Að skilyrðum laga þessara uppfylltum gerir Fiskistofa samning við samningshafa um nýtingarleyfi á aflaheimildum og staðfestir þar með heimildina til varanlegs framsals. Skal þá fyrri samningur, sem var andlag framsalsins, falla niður. Fiskistofa skal halda skrá um verð á aflahlutdeildum í viðskiptum.
     d.      Ráðherra getur ákveðið hvort hann ráðstafi forleigðri aflahlutdeild með nýjum nýtingarsamningi eða ráðstafi aflamarki í leiguhluta skv. 3. gr. Kjósi ráðherra að ráðstafa aflahlutdeild í flokk 1 ber honum að auglýsa hlutdeild fyrst í viðkomandi sveitarfélagi. Beri það ekki árangur skal hann auglýsa hlutdeildina í viðkomandi landshluta, en um skilgreiningar á landshlutum skal fara samkvæmt skilgreiningu Hagstofu Íslands, en síðan á landsvísu. Heimilt er að taka sérstakt tillit til nýliðunar í atvinnugreininni við beitingu þessa ákvæðis. Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd þessa.
    Til framsals aflahlutdeilda telst allur flutningur aflaheimilda milli lögaðila, þ.m.t. flutningur aflaheimilda til annars lögaðila við gjaldþrot.

VII.


    Ráðherra skal setja á fót óháða nefnd sem úrskurða skal í ágreiningsmálum um verð í viðskiptum með aflaheimildir kjósi ráðherra eða sveitarstjórnir að beita forleigurétti sínum. Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd þessa.

VIII.


    Ráðherra skal skipa nefnd sem athuga skal mögulegar aðgerðir til að stuðla að frekari fullvinnslu sjávarafla hér á landi. Nefndin skal skila áliti sínu til ráðherra fyrir 1. desember 2011.

IX.


    Skipa skal nefnd með fulltrúum forsætis-, sjávarútvegs- og landbúnaðar- og fjármálaráðherra undir forustu þess síðasttalda sem falið verður það verkefni að móta heildstæða stefnu um framtíðarfyrirkomulag skattlagningar í sjávarútvegi. Verður þar horft til þess hvað sé eðlilegt endurgjald fyrir aðgang að hinni sameiginlegu auðlind og þar á meðal hvernig útfæra megi sérstakan skatt eða álag á veiðigjald þegar aðstæður eru með þeim hætti að hreinn hagnaður samkvæmt árgreiðsluaðferð Hagstofu Íslands er yfir tilteknum mörkum, t.d. 10 milljörðum kr. Jafnframt skal nefndin skoða hvort rétt sé að hreinn hagnaður sem sprettur af viðskiptum með veiðiheimildir verði skattlagður eftir því sem slík viðskipti eru áfram heimil.
    Nefndin skal taka mið af þeim breytingum sem fólgnar eru í lögum þessum, svo og lögum um breytingar á stjórn fiskveiða sem sett eru samhliða þessum lögum. Einnig skal hún hafa hliðsjón af niðurstöðu greiningar á hagrænum áhrifum fyrirhugaðra breytinga á sjávarútveginn og ljúka störfum fyrir 1. október 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hér skal lögð á það áhersla að í frumvarpi þessu er höfð hliðsjón af skýrslu vinnuhóps um endurskoðun á stjórn fiskveiða sem lokið var í september á sl. ári. Frumvarpið er unnið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, undir formerkjum mjög viðamikils samráðs milli stjórnarflokkanna. Að því samráði komu sex stjórnarþingmenn allt frá því í nóvember 2010, ásamt fjórum ráðherrum sem að málum komu á seinni stigum.
    Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var sett fram stefna um að endurskoða ætti lög um stjórn fiskveiða með það að markmiði að „… fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar …“. Einnig segir að mikilvægt sé að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða og að „… gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind“.
    Með þetta að markmiði og til að skapa vettvang um samráð var skipaður starfshópur um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem skilaði áliti í september 2010. Í vinnu hópsins kom fram að fulltrúar töldu að byggja ætti á aflamarks- eða aflahlutdeildarkerfi, en rétt væri að skoða einstaka þætti kerfisins nánar. Við úthlutun aflaheimilda bæri að gæta þjóðhagslegrar hagkvæmni og langtímasjónarmiða til að tryggja afkomu sjávarútvegsins, að hámarka afrakstur auðlindarinnar og tryggja sjálfbæra nýtingu fiskstofna við landið. Þá var lögð áhersla á að huga þyrfti að atvinnufrelsi í greininni sem og að hagsmunaaðilar fengju eðlilegan aðlögunarfrest að breyttu fyrirkomulagi. Meiri hluti starfshópsins taldi að með tilliti til markmiða um „jafnræði og meðalhóf [væri] rétt að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið með sjálfstæðri löggjöf sem [tæki] hliðsjón af auðlindastefnu almennt er [byggðist] á hugmyndum um samningaleið“. Því var lagt til að „gerðir [yrðu] samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni [væri] ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins [væri] skýr“. Mælt er með að „aflaheimildum verði skipt í „potta“ þar sem annars vegar eru aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir“. Tilgangur þeirrar leiðar, en pottar eru í þessu frumvarpi nefndir hlutar, er fyrst og fremst að tryggja réttlátari skiptingu og dreifingu aflaheimildanna.
    Til að koma til móts við sjónarmið um atvinnufrelsi er í frumvarpinu áhersla á málefni nýliða. Grunnhugmyndin er að búa þeim möguleika til að komast inn í atvinnugreinina. Það er hins vegar undir þeim sjálfum komið hvernig þeir möguleikar eru nýttir. Ný ákvæði um strandveiðar, þar sem tryggt er að eigandi þurfi að vera lögskráður á bát, munu koma í veg fyrir útgerð fleiri en eins báts í eigu sama aðila og þar með auka möguleika nýliða í því kerfi. Aukning afla í strandveiðikerfinu ásamt byggðahluta mun einnig stuðla að þessu markmiði. Tiltekið er að ef nýtt fyrirkomulag er virkjað muni sveitarfélög geta styrkt sérstaklega stöðu nýliða í sinni heimabyggð. Þá er einnig gert ráð fyrir að nýliðar hafi forgang að forleigðum heimildum og jafnframt verður mögulegt að umbreyta heimildum í leiguhluta í nýtingarsamninga fyrir nýliða. Jafnframt mun leiguhluti rýmka aðgengi nýra aðila. Takmörkun á heildarmagni sem hver aðili getur boðið í úr leiguhluta mun einnig tryggja réttlátari dreifingu heimilda. Sveitarfélög munu geta gefið nýliðum forgang við úthlutun heimilda úr byggðahluta, kjósi þau svo.
    Í frumvarpinu er lagt til í bráðabirgðaákvæði að lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð á sjönda ári frá gildistöku nýrra laga. Þá hafa þær kerfisbreytingar sem hér eru lagðar til fest sig í sessi og hægt verður að taka mið af reynslunni við endurskoðunina. Tímabundinn nýtingarréttur eins og hér er lagður til er grundvöllur þeirrar umgjörðar sem þá er nauðsynleg.
    Með framangreinda stefnu og skýrslu starfshópsins að leiðarljósi má segja að meginatriði frumvarpsins séu eftirfarandi:
          Áfram verði lögfest að nytjastofnar á Íslandsmiðum verði þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögunum. Óheimilt verði að selja auðlindina eða láta varanlega af hendi. Með sérstökum samningi megi veita einstaklingum og lögaðilum tímabundinn rétt til afnota eða hagnýtingar á auðlindinni gegn gjaldi.
          Úthlutun veiðiheimilda og gerð samninga um nýtingarleyfi á aflaheimildum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
          Samningar um nýtingarleyfi á aflaheimildum verði í upphafi að jafnaði til 15 ára og nýtingarleyfishafi á rétt á viðræðum um endurskoðun og hugsanlega framlengingu samnings.
          Samningshafar eiga ekki óskoraðan rétt á framlengingu samnings.
          Komi til framlengingar á nýtingarsamningum skal hún vera átta ár.
          Með gerð tímabundinna nýtingarsamninga er rofið hið meinta eignarréttarlega samband veiðiheimilda og það er tvímælalaust mikilvægasta atriðið sem þetta frumvarp felur í sér.
          Bann verði lagt við veðsetningu á aflahlutdeild og réttindum á grundvelli nýtingarsamninga um aflahlutdeild. Gera þarf breytingar á ýmsum lögum til að tryggja þetta, sbr. frumvarp sem lagt verður fram samhliða þessu frumvarpi.
          Aflaheimildum sé skipt í tvo flokka, flokk 1, nýtingarsamninga, og flokk 2, sem síðan skiptist í svokallaða „hluta“. Áætlað er að allt að 15% þorksígilda séu í lok 15 ára samningstíma í flokki 2. Þó gilda sérreglur um þorsk, ýsu, ufsa og steinbít.
          Sérreglur um þorsk, ýsu, ufsa og steinbít gera ráð fyrir að eingöngu aukning aflamarks verði flutt til flokks 2. Af aukningu aflamarks renni 55% til flokks 1 og 45% til flokks 2 þar til leyfilegur heildarafli þessara fisktegunda fer yfir meðalafla fiskveiðiáranna 1990/1991–2010/2011. Þegar þeim afla er náð skulu 50% aukningar umfram það magn renna til flokks 1 og 50% til flokks 2.
          Hlutir undir flokki 2 eru þessir: a. strandveiðihluti; b. byggðahluti; c. leiguhluti; d. línuívilnunarhluti; e. bótahluti.
          Veiðigjald verði tvöfaldað frá því sem nú er.
          Gert er ráð fyrir að tekjur af veiðigjaldi skiptist þannig að 50% renni í ríkissjóð, 30% til sjávarbyggða og 20% til þróunar- og markaðsmála í sjávarútvegi.
          Varanlegt framsal aflaheimilda er bannað. Þó er í bráðabirgðaákvæði til 15 ára heimild til varanlegs framsals, með þeim takmörkunum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi, f.h. ríkissjóðs, sem og sveitarfélög, skýran forleigurétt. Framsal innan sömu útgerðar verði þó heimilt, án þess að forleiguréttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sveitarfélaga eigi við. Við ákvörðun um hvort forleiguréttur sé nýttur skal gæta að jafnræði, byggðasjónarmiðum og hagkvæmri nýtingu auðlindarinnar.
          Framsal á aflamarki verði takmarkað innan fiskveiðiársins við 25% og réttindi til framsals verði áunnin með veiðum.
          Kvótaþingi verði komið á laggirnar á nýjan leik.
          Þær breytingar eru lagðar til á fyrirkomulagi byggðakvóta að sveitarfélögum verði gefinn sá kostur að úthluta veiðiheimildum sem þeim falla í hlut.
          Gildistími frumvarps þessa er 23 ár sem samsvarar tíma upphafssamnings auk einnar framlengingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með 1. mgr. er tekið af skarið um að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru auðlind í þjóðareign. Löggjafinn er bær til að ráðstafa auðlindum sjávar með þeim hætti sem lagt er til í krafti valdheimilda sinna og á grundvelli fullveldisréttar síns. Skv. 2. og 3. málsl. er ráðherra heimilað að veita einstaklingum eða lögaðilum tímabundinn rétt til afnota eða hagnýtingar á auðlindinni gegn gjaldi. Nánar er mælt fyrir um tímalengd samninga, réttindi og skyldur aðila og þess háttar í 6. gr. frumvarpsins. Í lokamálslið 1. mgr. er áréttað að óheimilt sé að selja auðlindina eða láta varanlega af hendi. Þetta ræðst af því að auðlindin er þjóðareign sem ekki verður varanlega látin af hendi.
    Eignarréttarleg staða handhafa réttinda samkvæmt samningi um tímabundinn rétt til afnota eða hagnýtingar á auðlindinni er slík að þau réttindi eru varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar, með þeim almennu takmörkunum sem löggjafanum er heimilt að setja. Því er ekki um að ræða bein eignarréttindi. Þeim réttindum eru settar almennar skorður með lögum og samningum, svo sem með banni við veðsetningu sem lagt er til að verði fært í lög með frumvarpi sem lagt verður fram samhliða frumvarpi þessu. Hins vegar er áréttað að gerð slíkra samninga felur með engum hætti í sér óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Markmið laganna skv. 2. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 2. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Nokkrar grundvallarbreytingar felast í þessari grein. Í núverandi lögum er kveðið á um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli ákveða heildarafla að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, en í frumvarpinu segir einnig: „Ráðherra getur gripið til annarra jafngildra ráðstafana til að veiðar séu með sjálfbærum og ábyrgum hætti.“ Í þessu felst að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra getur beitt öðrum aðferðum við fiskveiðistjórn en úthlutun heildaraflamarks, svo sem sóknarstýringu.
    Önnur grundvallarbreyting er sú að allur áætlaður afli skv. 1.–6. tölul. 4. mgr. þessarar greinar skal dragast frá heildaraflamarki áður en til úthlutunar kemur.
    Einnig felst í þessu ákvæði sú grundvallarbreyting að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi heimild til að ákvarða skiptingu úthlutaðs afla í tvo flokka, flokk nýtingarsamninga um aflaheimildir (flokkur 1) og flokk sem nær til úthlutunar utan nýtingarsamninga (flokkur 2). Hér er um að ræða útfærslu á svokallaðri „pottaleið“ sem fjallað er um í skýrslu endurskoðunarnefndarinnar og nefndin mælti með.
    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði heimilt að ákveða tilfærslu heildaraflamagns milli flokka 1 og 2. Skal tilfærsla milli flokka á fisktegundum, að undanskildum þorski, ýsu, ufsa og steinbít, en um þær tegundir gilda sérreglur, gerast í áföngum á 15 ára tímabili. Í lok tímabilsins verða að jafnaði 85% þorskígilda í flokki 1, með fyrirvara um aðrar aðgerðir og sérreglur er frumvarp þetta felur í sér.
    Hér á eftir fer nánari lýsing á fyrirkomulaginu:
     I.      Flokkur 1: Nýtingarsamningar.
     II.      Flokkur 2: Aflamagn sem úthlutað er án nýtingarsamninga sem ráðstafað er í eftirtalda hluta:
                  a.      Strandveiðihluta.
                  b.      Byggðahluta.
                  c.      Leiguhluta.
                  d.      Línuívilnunarhluta.
                  e.      Bótahluta.
    Skipting milli flokka 1 og 2 skal gerast þannig að á því fiskveiðiári þegar nýtt fyrirkomulag tekur gildi skulu 4% af þorskígildum þeirra fisktegunda sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthlutar heildarafla í renna til flokks 2, að undanskildum afla í þorski, ýsu, ufsa og steinbít, en um hann gilda sérreglur. Á næstu fjórtán fiskveiðiárum þar á eftir skulu 0,79% af þorskígildum flytjast úr flokki 1 í flokk 2 á hverju ári þar til 85% þorskígilda fisktegunda, annarra en þorsks, ýsu, ufsa og steinbíts, eru í flokki 1 og 15% í flokki 2 að jafnaði.
    Skipting þorsks milli flokka 1 og 2 skal vera sem hér segir: Verði leyfilegur heildarafli þorsks fyrir fiskveiðiár meiri en 160.000 lestir skulu 55% aukningarinnar renna til flokks 1 og 45% til flokks 2 þar til leyfilegur heildarafli þorsks fer yfir meðalafla fiskveiðiáranna 1990/1991–2010/2011. Þegar þeim afla er náð skulu 50% aukningar umfram það magn renna til flokks 1 og 50% til flokks 2.
    Skipting ýsu milli flokka 1 og 2 skal vera sem hér segir: Verði leyfilegur heildarafli ýsu fyrir fiskveiðiár meiri en 50.000 lestir skulu 55% aukningarinnar renna til flokks 1 og 45% til flokks 2 þar til leyfilegur heildarafli ýsu fer yfir meðalafla fiskveiðiáranna 1990/1991– 2010/2011. Þegar þeim afla er náð skulu 50% aukningar umfram það magn renna til flokks 1 og 50% til flokks 2.
    Skipting ufsa milli flokka 1 og 2 skal vera sem hér segir: Verði leyfilegur heildarafli ufsa fyrir fiskveiðiár meiri en 50.000 lestir skulu 55% aukningarinnar renna til flokks 1 og 45% til flokks 2 þar til leyfilegur heildarafli ufsa fer yfir meðalafla fiskveiðiáranna 1990/1991– 2010/2011. Þegar þeim afla er náð skulu 50% aukningar umfram það magn renna til flokks 1 og 50% til flokks 2.
    Skipting steinbíts milli flokka 1 og 2 skal vera sem hér segir: Verði leyfilegur heildarafli steinbíts meiri en 12.000 lestir skulu 60% aukningarinnar renna til flokks 1 og 40% til flokks 2 þar til leyfilegur heildarafli steinbíts fer yfir meðalafla fiskveiðiáranna 1990/1991–2010/ 2011. Þegar þeim afla er náð skulu 50% aukningar umfram það magn renna til flokks 1 og 50% til flokks 2.
    Allur þorskur og ufsi sem þannig rennur til flokks 2 skal fyrst fara í strandveiðihluta þar til 2.400 lestir af þorski og 600 lestir af ufsa hafa bæst við strandveiðihluta. Þorskur og ufsi sem til flokks 2 rennur umfram þetta skal ráðstafast til byggðahluta þar til 6.000 lestir af þorski og 800 lestir af ufsa hafa bæst við byggðahluta.
    Allur ýsuafli sem rennur til flokks 2 skal ráðstafast í byggðahluta þar til 1.200 lestir af ýsu hafa bæst við byggðahluta.
    Er 2.400 lestir af þorski og 600 lestir af ufsa hafa bæst við strandveiðihluta, sem og 6.000 lestir af þorski, 800 lestir af ufsa og 1.200 lestir af ýsu við byggðahluta, skulu allar viðbótaraflaheimildir í flokki 2 af þessum fisktegundum renna til leiguhluta.
    Allar aflaheimildir annarra fisktegunda en þorsks, ýsu og ufsa, sem renna til flokks 2 á hverju fiskveiðiári, skulu ráðstafast í leiguhluta.
    Til nánari útskýringar á hlutum í flokki 2:
     a. Strandveiðihluti.
    Til þessa hluta renna í upphafi 6.000 lestir af óslægðum botnfiski eins og tiltekið er í 6. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. 10. gr. frumvarps þessa. Þar að auki rennur til þessa hluta það magn af þorski og ufsa sem bætist við flokk 2 á hverju fiskveiðiári og tiltekið er hér á undan þar til 2.400 lestir af þorski og 600 lestir af ufsa hafa bæst við strandveiðihlutann. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að aukning aflamagns í strandveiðihluta geti runnið til flokks minni skipa með strandveiðileyfi. Landaður afli annarra fisktegunda en þorsks og ufsa í strandveiðum skal dreginn af hluta c-liðar í flokki 2, leiguhluta.
     b. Byggðahluti.
    Til þessa hluta rennur óbreytt það aflamagn sem tiltekið er í 10. gr. gildandi laga, sbr. 14. gr. frumvarpsins, þ.e. magn í núverandi byggðakvóta. Þar að auki rennur til þessa hluta það magn af þorski og ufsa sem bætist við flokk 2 á hverju fiskveiðiári og tiltekið er hér á undan þar til 6.000 lestir af þorski og 800 lestir af ufsa hafa bæst við byggðahlutann. Að auki rennur til þessa hluta sú aukning á ýsuafla í flokki 2 sem tiltekin er að framan þar til 1.200 lestir af ýsu hafa bæst við.
     c. Leiguhluti.
    Til þessa hluta skal renna það magn sem til ráðstöfunar er í flokki 2, að undanskildu því magni af þorski, ýsu og ufsa sem ráðstafast til strandveiði- og byggðahluta. Jafnframt getur runnið til þessa flokks aflamark sem til er komið vegna þess að ríkið beiti forleigurétti sínum, sbr. ákvæði til bráðabirgða VI. Aflaheimildir leiguhluta skulu boðnar upp á kvótaþingi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveður í reglugerð nánari útfærslu þessa, svo sem skiptingu magns milli tímabila, landsvæða og útgerðarflokka og það magn sem renna skal til sjóstangaveiðimóta og frístundaveiða, sbr. 9. gr., sem og hámark þeirra aflaheimilda sem hver útgerð getur boðið í á hverju tímabili. Einnig getur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekið tillit til sérstakra umhverfishvata, t.d. til orkusparnaðar. Til leiguhluta geta einnig runnið heimildir samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VI.
    Gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti ráðstafað aflaheimildum úr leiguhluta til nýrra nýtingarsamninga.
     d. Línuívilnunarhluti.
    Til þessa hluta rennur það aflamagn sem til ráðstöfunar er skv. 8. mgr. 15. gr. frumvarps þessa.
     e. Bótahluti.
    Til þessa hluta rennur það aflamagn sem til ráðstöfunar er, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. frumvarps þessa, skel- og rækjubætur. Í ákvæði til bráðabirgða II er gert ráð fyrir að magn, skel- og rækjubætur, sem ráðstafast samkvæmt þessum hluta falli til byggðahluta að fimm fiskveiðiárum liðnum.
    Tekjum af leiguhluta skal ráðstafað með sama hætti og tekjum af veiðigjaldi skv. 28. gr. frumvarpsins. Þó er kveðið á um í ákvæði til bráðabirgða IV að tekjur þessar renni í ríkissjóð fyrstu fimm fiskveiðiárin eftir að lögin taka gildi.

Um 4. og 5. gr.


    Ákvæðin eru óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Í greininni, sem er nýmæli, er mælt fyrir um hvaða aðilar eigi rétt á samningum um nýtingarleyfi á aflaheimildum, skilyrði sem þeir þurfa að uppfylla sem og tímalengd slíkra samninga og forsendur fyrir framlengingu. Þá er mælt fyrir um að Fiskistofa annist samningsgerð í umboði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
    Lagt er til að útgerðir, sem úthlutað hefur verið aflahlutdeild og eða krókaaflamarkshlutdeild á fiskveiðiárinu 2010/2011 og uppfylla tiltekin skilyrði eigi rétt á samningum eins og hér eru lagðir til. Byggist þetta m.a. á minnisblaði í fylgiskjali 3 með skýrslu starfshóps um endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Meðan samningur er í gildi geta rétthafar nýtt réttindi sín í samræmi við ákvæði samningsins og þau lög sem um fiskveiðistjórn gilda.
    Ekki þykir rétt að gera kröfu um ákveðið félagaform. En heimilt er að taka tillit til fjárhagsstöðu útgerðar við samningsgerð og að hlutaðeigandi sé í skilum með greiðslu skatta og opinberra gjalda og hafi gilda kjarasamninga við áhafnir.
    Lagt er til að samningar um nýtingarleyfi skuli í upphafi að hámarki vera til 15 ára. Ekki þykir rétt að mæla fyrir um að allir samningar skuli vera til jafnlangs tíma, enda er nauðsynlegt að ákveðið svigrúm verði til staðar, m.a. með tilliti til hve samningagerð reynist tímafrek. Þó er rétt að árétta að fulls jafnræðis skuli gætt. Þannig ber að leysa með sama hætti úr samningum aðila sem eins er ástatt um.
    Hafi samningsaðili staðið við allar samningsskuldbindingar sínar skal hann eiga rétt á viðræðum um endurskoðun og hugsanlega framlengingu samnings sem hefjast skulu sex árum fyrir lok gildistíma samnings og ljúka skal eigi síðar en fimm árum fyrir lok gildistíma samnings. Áréttað skal að ekki er um skýlausan rétt til framlengingar samnings að ræða. Rétturinn einskorðast við að aðilar sem staðið hafa við allar samningsskuldbindingar á samningstímanum geti óskað eftir viðræðum um framlengingu.
    Sé samningur framlengdur skal sú framlenging vera til átta ára. Tvíþætt skilyrði eru gerð fyrir framlengingu. Í fyrsta lagi er gerður fyrirvari um heimild Alþingis til frekari breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu og í annan stað að aðrar forsendur hafi ekki breyst frá upphaflegri samningsgerð. Ógjörningur er að tilgreina fyrir fram í löggjöf hvaða breyttu forsendur geti valdið því að samningur verður ekki framlengdur, en litið verður til meginreglna samningalaga um brostnar forsendur í þessu sambandi.
    Að síðustu er Fiskistofu fengið það hlutverk að annast samningsgerð í umboði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Stjórnsýslulög gilda um ákvarðanir Fiskistofu samkvæmt ákvæði þessu.

Um 7. gr.


    Í 1. mgr. er tiltekið að varanlegt framsal aflahlutdeilda er óheimilt. Þó er að finna undantekningar frá því.
    Í 1. og 2. tölul. 2. mgr. eru undanþáguákvæði frá 1. mgr. sem kveða á um heimildir til framsals aflahlutdeildar og þær takmarkanir sem þessar undanþágur sæta. Jöfn skipti aflaheimilda eru hér leyfð svo framarlega að þau séu jöfn í þorskígildum talið.
    Í 3. tölul. 2. mgr. felst sú breyting að aflahlutdeild verður ekki flutt á milli almenna aflahlutdeildarkerfisins annars vegar og krókaaflamarkskerfisins hins vegar, en samkvæmt gildandi lögum er heimilt að flytja aflaheimildir úr aflahlutdeildarkerfinu til báta með krókaaflamark.
    Í 3. mgr. er að finna heimild Fiskistofu til að gera þjónustusamninga um rafrænar tilkynningar um flutning aflaheimilda og gjaldtöku fyrir þær.

Um 8. gr.


    Í greininni er að finna reglur um veðsetningu aflahlutdeilda fiskiskips eða réttindi á grundvelli samnings um nýtingarrétt aflahlutdeildar. Til samræmis við breytingar á gildistíma slíkra réttinda sem felast í öðrum greinum frumvarps þessa eru veðsetningu slíkra réttinda verulegar skorður settar í þeim tilgangi að óbein veðsetning slíkra réttinda á grundvelli 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, heyri sögunni til með tíð og tíma án þess þó að hagsmunir veðsala og veðtaka af þeim veðsetningum sem til staðar eru við gildistöku laganna séu fyrir borð bornir.
    Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að óheimilt sé með öllu að veðsetja aflahlutdeild fiskiskips eða réttindi á grundvelli samnings um nýtingarrétt aflahlutdeildar eftir gildistöku laganna.
    Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 75/1997, um samningsveð, kemur fram að sá sem taki veðrétt í veiðiskipi taki með sama hætti og eigandi skipsins þá áhættu að hin úthlutuðu nýtingarréttindi verði skert vegna almennra ráðstafana ríkisvaldsins eða þau jafnvel afnumin á gildistíma veðsamnings. Þá er tiltekið að ekki sé ætlunin að hefta svigrúm löggjafans til slíkra almennra ráðstafana þannig að leitt geti af sér bótaskyldu ríkissjóðs, hvorki gagnvart eigendum veiðiskipa né heldur gagnvart þeim sem öðlast hafa takmörkuð réttindi yfir slíkum verðmætum.
    Þrátt fyrir framangreind ummæli frumvarpsins er algengt að aflahlutdeild fiskiskipa hafi verið skráð með samningi á skip eða annað veðandlag og séu með því með óbeinum hætti andlag veðsetningar, enda er óheimilt að skilja þessi réttindi frá skipi nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi skipi, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð. Í 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins er sérstaklega tekið fram að ekki sé mælt fyrir um að slík veðsetning tapi gildi sínu og réttarvernd.
    Í 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að sú veðsetning sem þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. greinarinnar heldur gildi sínu skv. 2. mgr. hennar sé bundin við þær skuldir sem veðsetningin stóð til tryggingar á við gildistöku laganna. Málsgreininni er ætlað að koma í veg fyrir að tryggingarbréfi sem gefið er út til tryggingar tilteknum skuldum veðsala við veðhafa sé breytt á þann veg að það taki til nýrra skulda og að skuldum sem allsherjarveðsetning taki til fjölgi eftir gildistöku laganna. Ákvæðinu er ekki ætlað að koma í veg fyrir að endurgreiðsluskilmálum skulda sem veðréttur tók til við gildistöku laganna sé breytt. Dómstólum er eftirlátið að meta í hvaða tilvikum skilmálabreytingar skulda feli í raun í sér nýja lántöku sem óheimilt væri að veðsetja réttindi á grundvelli samnings um nýtingarrétt aflahlutdeildar til tryggingar á eftir gildistöku laganna skv. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins er að finna mikilvæga undantekningarreglu sem tekur til endurfjármögnunar skuldar sem tryggð var með veði sem heldur gildi sínu eftir gildistöku laganna skv. 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Skilyrði slíkrar veðsetningar er að hin nýja skuld sé ekki hærri en hin eldri skuld og er þá miðað við að höfuðstóll hinnar nýju skuldar jafngildi endurgreiðsluvirði eldri skuldarinnar á þeim degi sem veð til tryggingar henni er fellt niður en ekki upphaflegum höfuðstól eldri skuldarinnar. Líkt og varðandi 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins er dómstólum er eftirlátið að meta í hvaða tilvikum slík endurfjármögnun feli í sér nýja lántöku sem óheimilt væri að veðsetja réttindi á grundvelli samnings um nýtingarrétt aflahlutdeildar til tryggingar á eftir gildistöku laganna skv. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 5. mgr. greinarinnar er óheimilt að skilja aflahlutdeild eða réttindi á grundvelli samnings um nýtingu aflahlutdeildar frá veðsettu skipi eða öðru veðsettu fjárverðmæti, nema með þinglýstu samþykki þeirra aðila sem öðlast hafa veðréttindi í viðkomandi veðandlagi frá 1. janúar 1998. þ.e. frá og með gildistöku laga um samningsveð og fram að gildistöku laga þeirra sem lögð eru til með frumvarpi þessu. Með þessu móti er tryggt að reglan um bann við óbeinni veðsetningu sé ekki afturvirk.

Um 9. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða núgildandi lögum, með eftirfarandi viðbótum.
    Samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum Íslands eru frjálsar veiðar tiltekinna fisktegunda til eigin neyslu óheimilar. Þetta hefur fyrst og fremst gildi hvað varðar veiðar á Austur-Atlantshafsbláuggatúnfiski.
    Fram til þessa hefur afli veiddur á stangveiðimótum og af ferðaþjónustuaðilum ekki verið dreginn frá leyfilegum heildarafla. Skv. 2. mgr. þurfa þeir aðilar sem standa fyrir stangveiðimótum að leigja heimildir þegar ljóst er hver landaður afli hvers móts er. Gert er ráð fyrir að frá verði tekinn ákveðinn heildarafli til þessa úr leiguhluta.
    Í gildandi lögum er aðeins heimilt að fénýta afla veiddan á stangveiðimótum til að standa straum af kostnaði við mótshald. Hér er lagt til að full heimild verði veitt til að fénýta afla, en á móti komi að aðilar þurfi að greiða leigugjald fyrir aflaheimildir, sem og að veiðigjald leggist á landaðan afla.

Um 10. gr.


    Greinin er að mestu efnislega samhljóða 6. gr. a gildandi laga, með þeim viðbótum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að aukning aflamagns í strandveiðum geti runnið til flokks minni skipa með strandveiðileyfi. Minni skip í þessu sambandi teljast skip allt að 3 BT. Skipum sem þannig flokkast til minni fiskiskipa er þó heimilt að tilheyra flokki stærri fiskiskipa með strandveiðileyfi. Ekki er þó um að ræða að mögulegt sé að tilheyra báðum flokkum í senn, né fara á milli flokka eftir að veiðar eru hafnar.
    Einnig er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilt að skipta leyfilegum heildarafla á tímabil í stað mánaða og áréttað er að einungis sé heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila eitt leyfi til strandveiða. Þetta ákvæði stuðlar að meiri aðgangsjöfnuði milli stórra og öflugra strandveiðibáta og lítilla báta í þeim flokki. Jafnframt er lagt til að eigandi fiskiskips skuli vera lögskráður á skip sitt með strandveiðileyfi.

Um 11. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 7. gr. gildandi laga með þeirri viðbót að gert er að skilyrði fyrir hrognkelsaveiðum í net að hrognkelsi séu meiri hluti landaðs heildarafla hlutaðeigandi krókaaflamarksbáts. Þetta er gert til að koma í veg fyrir aðrar beinar veiðar séu stundaðar á grundvelli hrognkelsaleyfis krókaaflamarksbáts.

Um 12. gr.


    Greinin er að hluta samhljóða 8. gr. gildandi laga en þó með tveimur viðbótum. Í 2. mgr. kemur fram að veiðiheimildum í flokki 1 á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af, skuli úthlutað til einstakra skipa, að því tilskildu að viðkomandi útgerð hafi gert samning við stjórnvöld um nýtingarleyfi á aflahlutdeild. Þykir nauðsynlegt að setja samning um nýtingarleyfi á aflahlutdeild sem skilyrði fyrir úthlutun aflahlutdeildar.
    Um langt skeið hefur það verið tíðkað að nýta hluta aflaheimilda til ýmiss konar jöfnunaraðgerða, ívilnana og uppbóta. Þetta á þó eingöngu við um fjórar fisktegundir, þ.e. þorsk, ýsu, ufsa og steinbít, og þeir aðilar sem þar hafa átt hlutdeild óneitanlega fengið minna í hlut sem því nemur. Þetta hefur því verið umdeilt fyrirkomulag, en það á rætur sínar að rekja til lagasetningar sem flestir þingflokkar hafa komið að með einhverjum hætti. Hér er sett fram tillaga um sanngjarnara fyrirkomulag þessara tilfærslna, með því að miða útreikning út frá heildarþorskígildum, sem tryggir þátttöku allra aflahlutdeildarhafa, en ekki á grundvelli úthlutana á fjórum fisktegundum eins og nú er miðað við. Gert er ráð fyrir að þær útgerðir sem ekki ná, innan tveggja mánaða, að skila sínum hluta í þessar sameiginlegu ráðstafanir sæti ákvörðunum um gjald vegna ólögmæts sjávarafla.
    Framkvæmd þessarar jöfnunaraðgerðar yrði sett fram í reglugerð af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
    Til nánari skýringar vísast að öðru leyti til frumvarps til laga sem Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson voru flutningsmenn að, sjá nánar þskj. 808, 468. mál, á 138. löggjafarþingi 2009–2010.

Um 13. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 9. gr. gildandi laga með þeirri viðbót að gert er samsvarandi skilyrði um gerð samninga um nýtingarleyfi aflaheimilda og í 12. gr. að framan. Vísast til umfjöllunar um 12. gr. hvað þetta skilyrði varðar.
    Jafnframt er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilt, sem er nýlunda, að taka mið af stærð eða gerð skips, veiðiaðferð, búnaði, svæðum, heimahöfn og útbreiðslu stofna þegar aflahlutdeild vegna nýrra stofna er úthlutað. Við úthlutun aflahlutdeildar skal jafnframt ávallt vera fyrir hendi nýtingarsamningur við stjórnvöld.
    Í þessari grein er einnig heimild til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að beita tímabundið öðrum aðferðum fiskveiðistjórnunar, svo sem að úthluta veiðidögum.

Um 14. gr.


    Núgildandi ákvæði um aðstoð við byggðir í lögum um stjórn fiskveiða hafa verið framkvæmd þannig í stuttu máli að ákvæði hafa tekið til skel- og rækjubóta og síðan til sérstakra úthlutana aflaheimilda til minni byggða, sem úthlutað hefur verið á einstök skip. Sveitarfélög hafa átt þess kost að móta sérreglur við þessar úthlutanir, en annars hefur verið stuðst við almennar reglur sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gefur út. Reynslan af stjórnsýslulegri framkvæmd þessa ákvæðis hefur verið misgóð og er umdeild.
    Í þessari grein er sveitarstjórnum gefinn sá kostur að velja á milli úthlutunarreglna ráðuneytisins eins og þær birtast í reglugerð hverju sinni eða nýs fyrirkomulags. Þetta fyrirkomulag felur í sér að byggðarlögum er gefið sérstakt númer í kerfi Fiskistofu sem aflaheimildum byggðarlags er úthlutað til. Samkvæmt því er það sveitarstjórn sem úthlutar aflaheimildum til fiskiskipa, með sérstakri 100% framsalsheimild, en þau skilyrði eru sett að þau eigi heimahöfn á viðkomandi stað, útgerð eigi þar heimilisfesti og aflanum sé landað þar til vinnslu. Vinnsla telst vera öll sú meðhöndlun fisks sem er umfram slægingu og ísun. Þetta fyrirkomulag gefur sveitarstjórnum ákveðið svigrúm til að stuðla að framgangi ýmissa atriða eins og nýliðunar í greininni og stuðnings við kvótalitlar útgerðir eða ákveðinna veiðiaðferða og útgerðarflokka, t.d. línu- og handfæraveiða. Þá gefst einnig sá möguleiki að sveitarstjórnir veiti aflaheimildir til úrlausnar ákveðnum vandamálum sem kunna að felast í meðafla við ákveðnar veiðar, svo sem við grásleppuveiðar. Gerð er skýr krafa til sveitarstjórna um gagnsæi, jafnræði og málefnaleg sjónarmið við þessa úthlutun á aflaheimildum. Útgerðum sem fá þessar heimildir er óheimilt að framselja þær.
    Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnir birti tillögur sínar um úthlutun með aðgengilegum hætti fyrir almenning, t.d. á vefsíðu viðkomandi sveitarstjórnar, a.m.k. sjö dögum áður en tillagan er tekin til formlegrar samþykktar á fundi sveitarstjórnar. Að samþykkt lokinni skulu úthlutunarreglur svo birtar með formlegum hætti í B-deild Stjórnartíðinda.

Um 15. gr.


    Greinin er að mestu efnislega samhljóða 11. gr. gildandi laga, þó með þeirri viðbót að við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: „Tilfærsla úr einstakri botnfisktegund getur þó aldrei orðið meiri en 30% af aflamarki skips í viðkomandi tegund.“ Tegundatilfærslur eru nauðsynlegar vegna meðafla og til að koma í veg fyrir brottkast. Þó er lagt til að hámark tilfærslna úr tegundum verði sett í lög. Þekkt er að vissar tegundir eru mikið nýttar til tilfærslna umfram aðrar. Dæmi eru um að allt að 80% af heildaraflamarki slíkrar tegundar séu ekki veidd en þess í stað breytt í aðrar tegundir. Tekur þessi breyting mið af skýrslu starfshóps um endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
    Í 9. mgr. er að finna nýtt ákvæði sem heimilar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipta VS-afla niður á tímabil. Við þá skiptingu getur hann m.a. tekið tillit til árstíðabundinna veiða. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra getur í reglugerð ákveðið að skylt sé að vinna einstakar tegundir uppsjávarfisks til manneldis. Í núgildandi lögum er heimilt að setja 70% vinnsluskyldu (til manneldis) á uppsjávarafla. Hér er lagt til að þetta hámarkshlutfall verði hækkað í 85%. Hækkunin er rökstudd með þeirri meginstefnu að ákveðnar uppsjávarfisktegundir skuli fyrst og fremst nýta til manneldisvinnslu.
    Loks er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veitt heimild til að flytja til næsta fiskveiðiárs þær aflaheimildir sem eftir standa í lok tímabils, enda hafi allar heimildir til flutnings milli ára og tegunda verið fullnýttar útgerð skips. Þetta skal þó eingöngu gilda ef ákvæði í alþjóðasamningum kveða ekki á um annað. Flutningur er þó ávallt háður umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar. Þeim aflaheimildum sem þannig flytjast með þessum hætti milli ára getur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthlutað til flokks 2, skv. c-lið, leiguhluta.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.


    Greinin er að mestu leyti efnislega samhljóða 13. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að nú hefur verið tekið upp hugtakið samstarf um yfirráð í 2. tölul. 4. mgr. í stað hugtaksins „raunveruleg yfirráð“. Við framkvæmd gildandi laga hafa komið í ljós erfiðleikar við að staðreyna að um tengda aðila sé að ræða þar sem kveðið er á um raunveruleg yfirráð. Þannig sýnir reynslan að jafnvel þótt sterkar vísbendingar séu til staðar, svo sem veruleg eignatengsl (þó undir 50%), samstarf, sami maður í lykilstöðu í tveimur fyrirtækjum o.s.frv., þá hefur Fiskistofa ekki talið gerlegt, gegn andmælum aðila, að sanna að um raunveruleg yfirráð sé að ræða.
    Af þessum sökum er lagt til í þessari grein, að sú breyting sem gerð var á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. lög nr. 22/2009, sé einnig gerð hér. Þar er farin sú leið að leggja áherslu á samstarf milli aðila og sönnunarbyrði snúið við, þannig að þegar aðstæður eru með tilteknum hætti beri að líta svo á að um samstarf sé að ræða nema sýnt sé fram á hið gagnstæða.

Um 18. gr.


    Greinin er samhljóða 14. gr. gildandi laga, þó að teknu tilliti til hugtaksins „samstarf um yfirráð“, sbr. umfjöllun um 17. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 15. gr. gildandi laga. Ákvæði 5. og 6. mgr. þeirrar greinar, um veiðiskyldu falla þó niður. Þá er gerð sú breyting á 7. mgr. þeirrar greinar að á hverju fiskveiðiári verði heimilt að flytja af fiskiskipi 25% þess aflamarks sem skipi var úthlutað í þorskígildum í stað 50% heimildar gildandi laga. Heimild til framsals skal áunnin með veiðum, þó er unnt strax í upphafi veiðiárs að framselja 5%. Jöfn skipti á aflaheimildum, í þorskígildum talið, verða áfram án sérstakra takmarkana. Er þetta í samræmi við niðurstöður starfshóps um endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins.
    Heimild til framsals skapast þannig að hafi skip fengið úthlutað aflaheimildum á fiskveiðiárinu sem svarar til 100 tonna skal útgerð skipsins frjálst að framselja 5 tonn í upphafi fiskveiðiárs, áður en skip hefur veiðar og þar til það hefur veitt alls 20 tonn á fiskveiðiárinu. Eftir að skip hefur veitt 20 tonn skapast að nýju heimild til framsals í hlutfalli við veiddan afla að frádregnum þeim tonnum sem þegar hafa verið framseld.

Veiddur afli Framseljanlegar heimildir
0–20 tonn 5 tonn
20–75 tonn 5–25 tonn

    Skip sem hafði í upphafi fiskveiðiársins 100 tonna aflaheimildir í viðkomandi fisktegund getur því aldrei framselt meira en 25 tonn á því fiskveiðiári og þarf að lágmarki að veiða 75 tonn. Þetta þýðir jafnframt að þótt keyptar séu viðbótaraflaheimildir af fisktegundinni til skipsins getur framsal aldrei orðið meira en 25 tonn innan fiskveiðiársins. Útreikningur á leyfðu framsali miðast því ætíð við upphafsstöðu fiskveiðiársins.
    Þrengingu framsalsréttar frá núgildandi lögum er ætlað að stuðla að því að skip veiði sínar úthlutuðu aflaheimildir. Á hinn bóginn er mikilvægt að viðhaldið sé svigrúmi til hagræðingar sem og að útgerðir geti brugðist við breyttum aðstæðum og því er takmarkað framsal enn leyft. Einnig þarf að hafa í huga að nokkuð er um að minni útgerðir án aflaheimilda treysti á það að leigja til sín heimildir og með þessu ákvæði má ætla að nokkuð sé komið til móts við þær, ásamt heimildum sem samkvæmt þessu frumvarpi renna til flokks 2, skv. c-lið, leiguhluta, sem munu nýtast þeim.
    Lögð er til sú breyting að óheimilt er að flytja aflamark milli skipa sem eru í krókaaflamarkskerfi og aflamarkskerfi. Í núgildandi lögum er heimild til að flytja aflamark frá skipum í aflamarkskerfi til skipa í krókaaflamarkskerfi, en ekki öfugt. Er þetta gert þar sem veiðiskylda er afnumin og það sem kann að vera eftir af óveiddum heimildum innan hvors kerfis um sig fellur til ríkisins við lok veiðitímabils, sbr. lokamálsgrein 15. gr.

Um 20. gr.


    Þessi grein er óbreytt frá fyrri lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 21. gr.


    Skipstjórnarmenn veiðiskipa, sem hljóta veiðileyfi í atvinnuskyni skv. 5. gr., skulu halda sérstakar rafrænar afladagbækur sem Fiskistofa leggur til. Skal með reglugerð kveða nánar á um þær upplýsingar sem skrá skal í afladagbækur, form þeirra, undanþágur frá rafrænni afladagbók og skil til Fiskistofu. Með þessari breytingu er verið að árétta það að skip haldi rafrænar afladagbækur.
    Í 3. málsl. 3. mgr. er áréttuð nauðsyn þess að kaupsamningar og leigusamningar á fiskveiðiskipum eða aðrar breytingar á útgerðaraðild skuli vera þinglýstir.

Um 22. gr.


    Í þessari grein er verið að skerpa á framkvæmd eftirlits Fiskistofu sem ekki þarfnast frekari skýringa.

Um 23. og 24. gr.


    Þessar greinar eru óbreyttar frá fyrri lögum og þarfnast ekki skýringa.

    Um 25. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á veiðigjaldi, jafnt forsendum sem og heildargjaldtöku.
    Lagt er til að hætt verði að framreikna kostnað af launum, olíu og öðrum rekstrargjöldum
vegna útreikninga á framlegð eins og nú er gert. Þess í stað verði notað nýjasta framlegðarhlutfall sem birt er af Hagstofu Íslands. Þetta framlegðarhlutfall er byggt á ársreikningum útgerðarfyrirtækja sem Hagstofan safnar, vinnur úr og birtir. Meginhagræðið við þessa breytingu er að nýjustu opinberu tölur um framlegð eru ætíð notaðar. Í greininni er jafnframt er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti tekið tillit til mismunandi framlegðar útgerðarflokka.
    Ljóst er að afkoma útgerðarflokka er afar misjöfn og telja verður sanngjarnt að hægt sé að taka tillit til þess við ákvörðun veiðigjalds.
    Í frumvarpinu er lögð til tvöföldun á veiðigjaldi úr 9,5% í 19%. Með þessari hækkun er
talið að komið sé til móts við þau sjónarmið að þjóðin eigi að njóta meiri hlutdeildar í þeim
arði sem auðlindir sjávar gefa.
    Hér fylgir dæmi um útreikning veiðigjalds árið 2010/11:
    Fiskistofa reiknar aflaverðmæti frá 1. maí 2009 til 30. apríl 2010 (A). Aflaverðmæti er margfaldað með síðasta birta framlegðarhlutfalli í fiskveiðum frá Hagstofu Íslands sem er verg hlutdeild fjármagns (EBITDA) í hlutfalli af tekjum (B). Nýjasta hlutfall sem Hagstofan hafði birt þegar veiðigjald ársins 2010/2011 var reiknað var hlutfall ársins 2008 sem var 25%. Upphæðin sem fæst með að margfalda aflaverðmæti með framlegðarhlutfalli er reiknuð framlegð (A*B) og myndar grunn fyrir veiðigjald. Fiskistofa reiknar þau þorskígildi sem mynduðu aflaverðmætið sem að framan greinir (C). Í reiknaða framlegð er deilt með þeim þorskígildum ((A*B)/C)). Veiðigjald er 19% af þessari reiknuðu fjárhæð (D) og er lagt á úthlutaðar veiðiheimildir fiskveiðiársins eða landaðan afla ef við á sem krónur á þorskígildiskíló (((A*B)/C)*D).

Aflaverðmæti 1. maí 2009 – 30. apríl 2010 (Fiskistofa) 128.748.644.396 kr. A
Nýjasta framlegðarhlutfall (Hagstofa) 25%   B
Reiknuð framlegð 32.187.161.099 kr. = A*B
Afli í þorskígildiskílóum á bak við aflaverðmæti (Fiskistofa) 471.841.115 þorskígildiskg C
Viðmið til útreiknings veiðigjalds 68,22 kr./þorskígildiskg = (A*B)/C
Veiðigjaldsprósenta 19%   D
Veiðigjald á hvert þorskígildiskíló til álagningar fiskveiðiárið 2010/11 12,96 kr./þorskígildiskg = ((A*B)/C)*D

Um 26. gr.


    Þessi grein er óbreytt frá fyrri lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 27. gr.


    Þessi grein er óbreytt frá fyrri lögum að öðru leyti en því að tekið er tillit til þeirra aðstæðna ef stjórn veiða fer fram með öðrum hætti en um getur skv. 1. málsl. 2. mgr. 26. gr. en þá er gjalddagi 1. október ár hvert.

Um 28. gr.


    Núgildandi ákvæði um veiðigjald gera ráð fyrir að allar tekjur af gjaldinu renni til ríkissjóðs. Með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að 50% tekna af veiðigjaldi renni í ríkissjóð, 30% veiðigjaldsins verði ráðstafað eftir tilteknu skiptihlutfalli til sveitarfélaga og 20% séu nýtt með það að markmiði að styrkja rannsóknir, þróun, nýsköpun og markaðsmál í íslenskum sjávarútvegi. Með þessu er stefnt að meiri sátt um ráðstöfun veiðigjalds og komið til móts við þau sjónarmið að eðlilegt sé að sjávarbyggðir njóti sanngjarns hlutar af arðinum af auðlindinni.
    Gert er ráð fyrir að helmingur af hluta landshluta af veiðigjaldi skiptist jafnt á milli þeirra. Hinn helmingurinn skiptist milli sjö landshluta, án höfuðborgarsvæðisins, í hlutfalli við verðmæti landaðs afla að frádregnum afla vinnsluskipa sl. fimmtán ár, allt reiknað á sama verðlagi. Með því að hluti tekna renni til sjávarbyggða utan höfuðborgarsvæðisins er áréttað mikilvægi sjávarútvegs fyrir þær byggðir umfram höfuðborgarsvæðið í atvinnulegu tilliti. Tekjur hvers landshluta skiptist síðan þannig milli sveitarfélaga innan landshlutans að þær renni til hvers sveitarfélags í sama hlutfalli og hlutfall sveitarfélagsins var í reiknuðu aflaverðmæti landshlutans á þann veg sem gert er í b-lið.

Um 29.–31. gr.


    Greinar þessar eru óbreyttar frá fyrri lögum og þarfnast ekki frekari skýringa. Þó er sú breyting lögð til í 2. mgr. 30 gr. að sektarfjárhæðir þrefaldist frá núgildandi lögum, enda hafa þær verið óbreyttar um nokkurt skeið.

Um 32. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Í ákvæðinu er kveðið á um að réttindi útgerðar falli niður náist ekki samningar fyrir tiltekinn tíma.
    Ljóst má vera t.d. að ef útgerð hafnar samningum, vegna hækkunnar veiðigjalds eða annarra sambærilegra tilvika getur slík höfnun ekki flokkast undir ástæðu sem stjórnvöldum verður kennt um.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Bráðabirgðaákvæði þetta er sambærilegt við ákvæði til bráðabirgða I í núgildandi lögum og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða V.


    Eðlilegt er að skýrt sé kveðið á um endurskoðun laganna strax og nokkur reynsla er komin af þeim, þ.e. á sjöunda ári.

Um ákvæði til bráðabirgða VI.


    Í a-lið 1. mgr. er að finna mikilvægt ákvæði um forleigurétt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra f.h. ríkissjóðs. Er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætlað töluvert svigrúm við ákvörðun um hvort hann nýtir forleiguréttinn. Þó verður að gera ráð fyrir að hann gæti ávallt jafnræðis við slíka ákvörðunartöku og að baki henni liggi byggðasjónarmið og/eða önnur málefnaleg sjónarmið. Einnig er kveðið á um hvernig verð skuli ákveðið þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýtir forleiguréttinn. Gert er ráð fyrir að hann geti nýtt forleigurétt á því verði sem samningur kveður á um, eða á verði sem sett er í reglugerð fyrir upphaf hvers fiskveiðiárs, hvort verðið sem lægra er. Verð samkvæmt reglugerð mun taka mið af verði landaðs afla sem og markaðsverði á leigðu aflamarki.
    Í b-lið 1. mgr. er að finna ákvæði sem veitir sveitarfélögum forleigurétt falli ríkissjóður frá sínum forleigurétti.
    Í c-lið 1. mgr. er að finna ákvæði um fyrirkomulag framsals og hlutverk Fiskistofu.
    Í d-lið 1. mgr. koma fram heimildir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til ráðstöfunar á forleigðri aflaheimild. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að taka sérstaklega tillit til mögulegrar nýliðunnar í atvinnugreininni við úthlutun hlutdeilda. Jafnframt er tiltekið að framsal aflahlutdeilda og aflamarks milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila sæti ekki takmörkunum skv. a-lið 1. mgr.
    Áréttað skal að aðilar geta ekki byggt væntingar á bráðabirgðaákvæði þessu um að aflaheimildir hafi framsalsverðmæti eftir að það fellur úr gildi.

Um ákvæði til bráðabirgða VII.


    Í ákvæðinu er kveðið á um skipun óháðrar úrskurðarnefndar sem skera skal úr ágreiningi um verð í viðskiptum með aflaheimildir þegar forleigurétti er beitt.

Um ákvæði til bráðabirgða VIII.


    Mikilvægt er að stuðla að sem mestri fullvinnslu sjávarafla hér á landi. Í því skyni er í þessu ákvæði lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi nefnd er hafi það verkefni að leggja til aðgerðir sem stuðlað gætu að þessu markmiði.

Um ákvæði til bráðabirgða IX.


    Í ákvæðinu er lagt til að skipuð verði nefnd til að fara yfir skattamál sjávarútvegsins með heildstæðum hætti.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.


    Með frumvarpi þessu er lögð til heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða til að koma á fót breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi. Í upphafi frumvarpsins er kveðið á um það að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu auðlind í óskoraðri þjóðareign sem óheimilt sé að selja eða láta varanlega af hendi en veita megi einstaklingum og lögaðilum tímabundinn rétt til afnota eða hagnýtingar á þeim gegn gjaldi. Samkvæmt frumvarpinu myndar úthlutun veiðiheimilda og gerð samninga um nýtingarleyfi á aflaheimildum ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Eins og í gildandi lögum er meginmarkmið frumvarpsins að stuðla að verndun nytjastofna á Íslandsmiðum og sjálfbærri og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir að í ýmsum veigamiklum málum verði farnar aðrar leiðir að þeim markmiðum. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi um breytingar á gildandi lögum um stjórn fiskveiða sem tekur til fiskveiðiáranna 2010/2011 og 2011/2012. Í þessari umsögn er því miðað við að ýmis ákvæði frumvarpsins, verði það að lögum, muni gilda frá og með fiskveiðiárinu 2012/2013. Þá er rétt að vekja athygli á því að í báðum frumvörpunum eru lagðar til breytingar sem vekja upp álitaefni sem fjallað er um í báðum umsögnunum þannig að sú umfjöllun er að stórum hluta samhljóða. Einnig er bent á að í þessari umfjöllun er ekki vikið að hugsanlegum þjóðhagslegum áhrifum breytts fiskveiðistjórnunarkerfis eða breyttri gjaldtöku á rekstrarskilyrði og þróun sjávarútvegsins heldur er gengið út frá forsendum við núverandi aðstæður. Hafa verður í huga að lögfesting frumvarpsins gæti leitt til þess að þróun sjávarútvegsins verði á annan veg en felst í stöðu hans nú. Því verður að hafa þann fyrirvara á að þessar forsendur sem gengið er út frá til einföldunar fela í sér að tölur sem hér eru settar fram eru fyrst og fremst vísbendingar um stærðargráður. Fyrir liggur að áformað er að sérstakri hagfræðinganefnd verði falið að vinna hagfræðilega greiningu á áhrifum fyrirhugaðra breytinga á rekstrarskilyrði og starfsumhverfi sjávarútvegsins og er ætlunin að fulltrúar stjórnvalda og hagsmunaðila fari sameiginlega yfir niðurstöður hennar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar á ýmsum sviðum frá gildandi lögum. Helstu breytingarnar eru í fyrsta lagi að lagt er til að ráðherra skipti úthlutuðum heildarafla í tvo flokka. Í flokk 1 falla samningar um nýtingarleyfi á aflaheimildum en í flokk 2 fellur aflamagn sem úthlutað er án nýtingarsamninga. Hlutir undir flokki 2 eru strandveiðihluti, byggðahluti, leiguhluti, línuívilnunarhluti og bótahluti. Ráðherra verður heimilt að ákveða skiptingu úthlutaðs afla milli flokka 1 og 2 sem og hluta í flokki 2. Til leiguhluta skal ráðstafa því magni sem bætist í flokk 2 þegar tiltekinni aukningu aflaheimilda í strandveiðihluta og byggðahluta hefur verið náð. Gert er ráð fyrir að tilfærsla milli flokka og hluta fari fram í áföngum á 15 ára tímabili þannig að í lok þess verði að jafnaði 15% þorskígilda þeirra fisktegunda sem sæta takmörkunum í flokki 2, að undanskildum þorski, ýsu, ufsa og steinbít, enda gilda sérreglur um þá stofna.
    Í öðru lagi er lagt til að í stað árlegrar úthlutunar aflahlutdeildar eða krókaaflamarkshlutdeildar verði gerðir tímabundnir samningar við útgerðir um nýtingarleyfi á aflaheimildum. Skulu útgerðir, sem úthlutað hefur verið aflahlutdeild eða krókaaflamarkshlutdeild á fiskveiðiárinu 2010/2011 og uppfylla tiltekin skilyrði, eiga rétt á slíkum samningum. Samningarnir skulu í upphafi vera að hámarki til fimmtán ára með möguleika á framlengingu um átta ár. Fiskistofa skal annast samningsgerð í umboði ráðherra.
    Í þriðja lagi er lagt til að varanlegt framsal aflahlutdeilda verði óheimilt nema í undantekningartilvikum. Þó er í bráðabirgðaákvæði VI heimild til varanlegs framsals aflahlutdeildar til 15 ára sem háð er samþykki ráðherra og tilteknum skilyrðum. Skal ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, eiga forleigurétt á þeim réttindum sem eru andlag framsals. Kostnaður ríkisins vegna forleiguréttar skal fjármagnaður með tekjum af veiðigjaldi. Falli ráðherra frá forleigurétti flyst hann til lögheimilissveitarfélags framseljandans.
    Í fjórða lagi er lagt til að framsal á aflamarki milli skipa óskyldra aðila innan fiskveiðiársins verði takmarkað við 25% í stað 50% heimildar gildandi laga og að réttindi til framsals verði að mestu áunnin með veiðum.
    Í fimmta lagi er lagt til að óheimilt verði að veðsetja aflahlutdeild fiskiskips eða önnur réttindi á grundvelli samnings um nýtingarrétt aflahlutdeildar. Þegar gerðar veðsetningar skulu þó halda gildi sínu en óheimilt verður að endurnýja eða framlengja veðsetninguna þegar undirliggjandi veðsamningur rennur út. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að miðað sé við að slík veðréttindi verði ekki aðfararhæf og falli því niður við gjaldþrot en til að tryggja það þurfi að gera breytingar á ýmsum lögum og er annað frumvarp boðað í þeim efnum.
    Í sjötta lagi er lagt til að veiðigjald verði tvöfaldað þannig að það verði 19% í stað 9,5%. Einnig er gert ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti tekið tillit til mismunandi framlegðar útgerðarflokka en ekki er tilgreint á hvaða reglum eða viðmiðum það eigi að byggjast og því erfitt meta hvaða áhrif það kynni að hafa á þessa tekjuöflun ríkissjóðs. Sömuleiðis er lagt til að við ákvörðun veiðigjalds verði útreikningi framlegðar breytt þannig að í stað þess að draga reiknaðan rekstrarkostnað frá aflaverðmæti verði notað nýjasta framlegðarhlutfall (EBITDA) í rekstraryfirliti fiskveiða sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir. Undanfarinn áratug hefur þetta hlutfall framlegðar yfirleitt verið rétt um eða yfir 20% af tekjum fiskveiða. Árið 2009, síðasta árið sem reikningar liggja fyrir frá Hagstofunni, hafði hlutfallið hækkað í um 26% og er gert ráð fyrir að það haldist áfram hátt í ár. Endurspeglar það væntanlega þá miklu veikingu íslensku krónunnar sem varð við efnahagsáfallið árið 2008. Núverandi áætlanir um tekjur af veiðigjaldinu byggjast á þessari framlegð og verður því að hafa fyrirvara á því að draga kunni úr framlegðinni ef gengi krónunnar tekur að styrkjast á komandi árum.
    Gjaldstofn þessa 19% veiðigjalds, verg hlutdeild fjármagns, felur í sér hina svokölluðu auðlindarentu að svo miklu leyti sem ekki er greidd leiga fyrir veiðiheimildir. Hann felur einnig í sér framlag til greiðslu vaxta af fjármagni sem bundið er í öflun teknanna. Í hefðbundnum útreikningum er reiknað með að þetta fjármagn beri 6% vexti. Í nýjustu tölum Hagstofunnar um afkomu sjávarútvegs á árinu 2009 er þessi kostnaðarliður 1/3 af vergri hlutdeild fjármagns. Sjálf auðlindarentan er því nær því að vera 2/3 af vergri hlutdeild fjármagns. Má því líta svo á að veiðigjaldið sé hærra hlutfall af eiginlegri auðlindarentu eða nálægt 29%. Jafnvel má færa rök fyrir því að gjaldstofninn ætti fremur að vera hreinn hagnaður (EBT) og þá teldist hlutfall veiðigjaldsins vera enn þá hærra.
    Í sjöunda lagi er lagt til að í stað þess að tekjur af veiðigjaldi renni að fullu í ríkissjóð eins og verið hefur skuli 50% teknanna renna í ríkissjóð en 30% til sveitarfélaga samkvæmt nánari reglum og 20% skuli nýtt með það að markmiði að efla nýsköpun, rannsóknir og þróum og markaðsmál í sjávarútvegi. Þá er gert ráð fyrir að aflaheimildir leiguhluta verði boðnar upp á kvótaþingi, sem áformað er að koma á laggirnar á ný, og að tekjunum verði ráðstafað með sama hætti og tekjum af veiðigjaldi en þó með þeirri undantekningu að fyrstu fimm fiskveiðiárin renni leigutekjurnar allar í ríkissjóð.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til ýmsar tæknilegar og aðrar veigaminni breytingar frá gildandi lögum um stjórn fiskveiða.
    Samkvæmt frumvarpinu skal skipta 30% framlagi sveitarfélaga af tekjum bæði af veiðigjaldi og af leigu á aflaheimildum þannig að helmingur teknanna skiptist jafnt á milli allra landshluta að höfuðborgarsvæðinu meðtöldu. Hins vegar er gert ráð fyrir að hinn helmingurinn af hluta sveitarfélaganna skiptist á sjö landshluta að undanskildu höfuðborgarsvæðinu í hlutfalli við verðmæti landaðs afla að frádregnum afla vinnsluskipa sl. 15 ár á föstu verðlagi. Tekjur hvers landshluta að frátöldu höfuðborgarsvæðinu samanstandi því af þessu tvennu en skiptist síðan milli sveitarfélaga innan landshlutans alfarið eftir hlutfalli sveitarfélagsins í reiknuðu aflaverðmæti landshlutans. Sá hluti teknanna sem rynni til sjö sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar sem um 65% íbúa landsins búa, væri um 1/53 hluti eða sem svarar til 1,9% af heildartekjunum og skiptist milli sveitarfélaga á því svæði á sama hátt eftir lönduðum afla í viðkomandi sveitarfélögum. Þetta fyrirkomulag mundi því jafnframt fela í sér að sveitarfélög þar sem engum afla er landað, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða í öðrum landshlutum, fengju enga hlutdeild í útleigu aflaheimilda í eigu ríkisins né í auðlindagjaldi á sjávarútveginn. Í greinargerð frumvarpsins kemur ekki fram rökstuðningur fyrir þessum skiptihlutföllum í úthlutun teknanna til landshluta eða sveitarfélaga, svo sem hvers vegna hlutdeild sveitarfélaga skuli vera 30% eða höfuðborgarsvæðisins 1/53, og verður því með engu móti lagt mat á hvort hlutdeildin í tekjuöfluninni er skilvirk eða réttmæt miðað við tiltekinn tilgang eða markmið.
    Einnig er vert að vekja athygli á því að ákvæði frumvarpsins, þess efnis að nýta skuli 20% tekna af veiðigjaldi og leigu aflaheimilda til að efla nýsköpun, þróun og markaðsstarf í sjávarútvegi, er mjög opið og óútfært þannig að hvorki í því né í greinargerð frumvarpsins felst viðhlítandi fyrirsögn um með hvaða hætti eða undir hvers forsjá fjármunum ríkisins skuli varið til slíkra verkefna. Telja má að umbúnaður lagaákvæðisins sé ófullnægjandi grundvöllur fyrir framkvæmd þess. Í frumvarpinu kemur ekki fram rökstuðningur fyrir því að hluta teknanna verði varið með þessum hætti né á því á hvaða forsendu þetta hlutfall er byggt. Miðað við að áætlanir frumvarpsins væru að fullu komnar til framkvæmda gætu þessi framlög á vegum ríkisins orðið umtalsverð eða sem svarar til rúmlega 2% af veltu fiskveiða. Sú spurning vaknar hvaða tilgangi það þjóni fyrir ríkið að leggja gjöld á sjávarútveginn ef ætlunin er að ráðstafa þeim í svo miklum mæli í slík stuðningverkefni fyrir greinina því allt eins mætti þá hafa gjaldtökuna lægri þannig að fyrirtækin hefðu þá sjálf meira fjármagn til ráðstöfunar til að annast um sitt þróunar- og markaðsstarf eins og verið hefur. Með þessu móti væri umfang og jafnvel einnig inntak nýsköpunar og markaðsstarfs sjávarútvegsins komið í einhverjum mæli á forræði ríkisins fremur en að ákvarðanataka um þá framþróun fari alfarið fram innan fyrirtækjanna sjálfra.
    Miðað við áætlanir um tekjur af veiðigjaldi á yfirstandandi fiskveiðiári gæti tvöföldun veiðigjaldsins aukið árlegar tekjur af gjaldinu um 2,8 mia.kr. þannig að heildartekjur af gjaldinu yrðu 5,6 mia.kr. Samkvæmt frumvarpinu yrði allri aukningu tekna af veiðigjaldinu ráðstafað til sveitarfélaga og til nýsköpunar í sjávarútvegi. Til sveitarfélaga mundu renna um 1,7 mia.kr., þar af um 105 m.kr. til höfuðborgarsvæðisins, og um 1,1 mia.kr. til nýsköpunar o.fl. skyldra verkefna í sjávarútvegi. Talið er að tekjur af leiguhlutanum gætu orðið 0,8 mia.kr. á fyrsta ári eftir gildistöku laganna en þær mundu síðan fara vaxandi og hefur verið áætlað lauslega að þær gætu orðið um 7 mia.kr. á ári að 15 árum liðnum. Miðað við það mundi 2,1 mia.kr. af leigutekjunum vera ráðstafað til sveitarfélaga, þar af um 130 m.kr. til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og 1,4 mia.kr. vera varið til nýsköpunar í sjávarútvegi eftir að lögin eru að fullu komin í framkvæmd. Samanlagt næmu viðbótarframlög til sveitarfélaga þá um 3,8 mia.kr. og framlögin til nýsköpunar og markaðsmála sjávarútvegsins um 2,5 mia.kr. að þessum tíma liðnum. Eins og áður segir miðast þessar tölur við núverandi framlegð í fiskveiðum og verður að hafa fyrirvara á því að hún kunni að fara lækkandi ef gengi krónunnar styrkist í framtíðinni.
    Reikningshaldslegt fyrirkomulag á þessum fjármagnstilfærslum milli stjórnsýslustiganna þarfnast frekari skoðunar. Gera má þó fastlega ráð fyrir að litið verði á ákvæði um ráðstöfun veiðigjaldsins og leiguteknanna til sveitarfélaga sem mörkun á hluta ríkisteknanna þótt slík skipting á tekjum hins opinbera sé óvanaleg og líklega fordæmalaus hér á landi. Veiðigjaldið og aflaheimildaleigan væru þá sett fram í fjárlögum sem ríkistekjur á tekjuhlið ríkissjóðs en ráðstöfun á hluta þeirra sem tilfærsluframlag til sveitarfélaga á útgjaldahlið sem fjármagnað væri með mörkuðum hluta teknanna. Sú fjárveiting væri væntanlega færð á lið hjá innanríkisráðuneytinu sem fer með málefni sveitarstjórna. Samkvæmt frumvarpinu væri Fiskistofu ætlað að annast um að reikna framlag hvers landshluta og sveitarfélags af innheimtu veiðigjaldi og leigu aflaheimilda og greiða þeim sinn hlut.
    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir grundvallarbreytingu á meðferð tekna af veiðigjaldi frá því sem nú er. Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu auðlind í óskoraðri þjóðareign. Tekjur af veiðigjaldinu hafa til þessa runnið óskiptar í sameiginlegan sjóð landsmanna. Nú er lagt til að tilteknum hluta þeirra verði ráðstafað til sveitarfélaga með aðferð sem mun leiða til þess að mikill mismunur verður á framlagi til einstakra landshluta en þó einkanlega til einstakra sveitarfélaga miðað við fjölda íbúa sem þar búa. Gert er ráð fyrir að sama fyrirkomulag verði haft á ráðstöfun nýrra tekna sem ríkissjóður hafi af leigu á veiðiréttinum. Ljóst má vera að mörg sveitarfélög munu ekki fá neina beina hlutdeild í veiðigjaldinu en önnur munu fá umtalsverð viðbótarframlög. Þannig má áætla að miðað við 12,6 mia.kr. heildartekjur af veiðigjaldi og leigu aflaheimilda að 15 árum liðnum, núverandi íbúafjölda og landað aflaverðmæti undanfarinna 15 ára að framlag á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu gæti legið nærri 1 þús. kr. á ári en á Austurlandi og Vestfjörðum gæti það orðið nálægt 55 - 60 þús. kr. eða um fimmtíufalt hærra. Enn þá meiri munur væri á framlagi á hvern íbúa í mismunandi sveitarfélögum miðað við sömu forsendur, þar sem ekkert framlag færi til sveitarfélaga þar sem engum afla er landað, t.d. í Hveragerði, Mosfellsbæ eða á Egilsstöðum, en framlagið gæti orðið í kringum 90 þús. kr. eða jafnvel nokkru hærra á hvern íbúa í sveitarfélögum þar sem sjávarútgerð er mjög öflug, t.d. í Vestmannaeyjum, Grindavík eða Bolungarvík. Í þessu sambandi þarf einnig að hafa í huga að fiskiskip landa afla í umtalsverðum mæli annars staðar en í heimahöfn. Þá verður ekki séð að aðrir tekjustofnar sveitarfélaga sem fá úthlutað framlagi af veiðigjaldi muni rýrna þótt veiðigjald verði hækkað umtalsvert eða hugsanlega tekin upp leiga á fiskikvótum að einhverju marki heldur muni þær tekjur koma til viðbótar núverandi tekjustofnum þeirra.
    Þessi breyting á meginreglunni í uppbyggingu tekjustofna ríkisins með því að marka hluta þeirra til sveitarfélaga gefur tilefni til þess að litið verði til ýmissa álitaefna sem þessu tengjast og að tillagan fái gaumgæfilega umfjöllun og skoðun við þinglega meðferð málsins. Breytingar af þessum toga gætu einnig í sjálfu sér líka falið í sér fordæmi sem erfitt gæti verið að sjá fyrir hvaða afleiðingar hafi fyrir tekjuöflunarkerfi og fjármálastjórn hins opinbera að öðru leyti verði haldið áfram á þessari braut.
    Fyrst má nefna að auðlindarentan sem veiðigjaldinu er ætlað að ná til myndast í sjávarútgerð fyrst og fremst vegna almennra lagareglna um fiskveiðistjórnun sem íslenska ríkið setur og framfylgir á grundvelli þess að um sameiginlega auðlind þjóðarinnar er að ræða. Það kann því að orka tvímælis að almenn skattlagning á sameiginlega auðlind eigi að koma sumum landsmönnum meira til góða en öðrum eftir því hvar á landinu þeir búa, þ.m.t. þeim sem starfa við annað en sjávarútveg eins og á við um meiri hluta þeirra sem búa í sjávarbyggðum. Fram hafa komið ábendingar um að slíkt fyrirkomulag kunni að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en þó er engin umfjöllun eða rökstuðningur um það í greinargerð frumvarpsins. Þar segir einungis að ætlunin sé að stuðla að meiri sátt um ráðstöfun veiðigjaldsins og að eðlilegt sé að sjávarbyggðir njóti sanngjarns hluta af þessum ríkistekjum af auðlindinni. Í þessu sambandi hafa þó einnig verið sett fram sjónarmið um að fremur væri tilefni til þess að byggðarlög sem ekki njóta góðs af fiskveiðiauðlindinni, t.d. vegna landfræðilegrar staðsetningar, ættu að gera það með meiri hlutdeild í veiðigjaldinu. Á sama hátt kynnu að vakna spurningar um hvort t.d. auðlindagjöld sem lögð væru á vatnsafls- eða jarðhitavirkjanir ættu fremur að renna til sveitarfélaga þar sem svo vill til að orkuvinnslan er staðsett, eða hvort skattar af veltu af verslun og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu ættu að renna til þeirra sveitarfélaga en ekki annarra, eða að eldsneytisgjöld af umferð á höfuðborgarsvæðinu ætti ekki að renna til að fjármagna samgöngumannvirki sem staðsett væru í öðrum landshlutum.
    Í annan stað er ástæða til að vekja athygli á því að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að úthlutun veiðigjalds til sveitarfélaga tengist á nokkurn hátt opinberum verkefnum þeirra eða t.d. erfiðri fjárhagsstöðu. Má reyndar ætla að sveitarfélög séu þess betur sett fjárhagslega sem meira af aflaverðmæti er landað hjá þeim og því muni aukin framlög til þeirra auka á misvægi í rekstrarskilyrðum sveitarfélaganna í landinu. Þriðja atriðið sem vert er að skoðað verði í þessu sambandi er að fyrirkomulagið á úthlutun veiðigjaldsins verður til þess að sveitarfélög hafa hagsmuni af því hvort og hvar afla er landað. Það kynni að hafa áhrif á þær ákvarðanir útgerða burtséð frá rekstrarlegri hagkvæmni. Í fjórða lagi má telja að viðkomandi sveitarfélög yrðu smám saman að einhverju marki háð þessum framlögum til að standa undir starfsemi sinni og þar með meira háð sveiflum í framlegð sjávarútvegsins og ekki síður ákvörðunum ríkisvaldsins um hugsanlegar breytingar á hlutfalli veiðigjalds eða hlutfalli framlags til sveitarfélaga af tekjunum. Það kann að vera mikið álitamál hvort heppilegt sé að þessi tekjuöflun ríkisins og tilfærsluframlög til sveitarfélagastigsins verði reist á framangreindum forsendum.
    Þá virðist full ástæða til að huga að samhengi þessara áforma við þá stjórnskipan fyrir stjórnsýslustig hins opinbera sem er til staðar í landinu. Sú skipan felur í sér skýrt afmarkað tekjuöflunarkerfi og fjárstjórnarvald sem skoða þarf hvort verið er að veikja eða flækja með þessum breytingum. Sérstakur lagarammi hefur lengi gilt um tekjustofna sveitarfélaga, nú lög nr. 4/1995, þar sem allir tekjustofnar þeirra eru nánar skilgreindir. Þannig hefur sveitarstjórnarstiginu verið tryggt fullt sjálfstæði og skýr afmörkun gerð á tekjuöflunarkerfum og verkaskiptingu stjórnsýslustiganna. Ákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru óaðskiljanlegur hluti af þessu fyrirkomulagi. Jöfnunarsjóðurinn fær lögbundin framlög úr ríkissjóði, sem nú nema um 11 mia.kr. á ári, miðað við tiltekin viðmið um hlutfall af skatttekjum ríkisins og útsvarsstofni. Með því móti hefur verið tryggð nauðsynleg jöfnun á rekstrarskilyrðum sveitarfélaga eftir ákveðnum reglum og viðmiðum í formi tekjujöfnunarframlaga og útgjaldaframlaga úr sjóðnum. Ætla verður að þær úthlutunarreglur miðist við þær forsendur sem máli skipta til að jafna aðstöðumun sveitarfélaga og samkomulag er um á milli þeirra. Tillögur um ráðstöfun á veiðigjaldi og gjaldi fyrir leigu fiskikvóta til sveitarfélaga með skiptingu eftir lönduðu aflaverðmæti fara fram hjá þessu stjórnkerfi og má raunar telja að þær fari á skjön við markmið þess. Að óbreyttu hljóta þessu nýju framlög til sveitarfélaganna að leiða til þess að tekjuskipting þeirra riðlast innbyrðis með réttu eða röngu. Ef rök eru talin standa til þess að veita aukin framlög til sveitarfélaga af tekjustofnum ríkisins vaknar sú spurning hvort ekki kæmi fremur til álita að gera það með því fyrirkomulagi sem byggt hefur verið á í stjórnsýslunni til þessa. Þá væri það gert með því móti að annaðhvort hækki útsvar sveitarfélaga á móti lækkun tekjuskatts ríkisins eða að viðmið um hlutfall skatttekna væri hækkað vegna framlags til Jöfnunarsjóðsins og þeim fjármunum væri síðan miðlað áfram til sveitarfélaganna, eftir atvikum með óbreyttum eða breyttum úthlutunarreglum. Þetta er sú leið sem jafnan hefur verið farin við breytta verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nú síðast við yfirfærslu á málefnum fatlaðra milli stjórnsýslustiganna við síðustu áramót, og hefur þótt gefast vel.
    Í þessu sambandi má einnig benda á að mörkun ríkistekna með ráðstöfun framlaga til tiltekinna verkefna, í þessu tilviki til ótilgreindra verkefna tiltekins hluta sveitarfélaga og nýsköpunar og rannsókna í sjávarútvegi, bindur hendur fjárveitingavaldsins og skerðir þar með fjárstjórnarvald Alþingis sem kveðið er á um í stjórnarskránni. Mörkun teknanna mun leiða til þess að þessi útgjöld munu breytast sjálfkrafa eftir því hvernig afkoma sjávarútvegsins verður og breyta verður fjárheimildum til þessara framlaga og verkefna eftir á í lokafjárlögum á grundvelli endanlegs uppgjörs teknanna. Fjárlagaskrifstofa hefur lengi bent á að þetta fyrirkomulag hefur reynst vera óheppilegt og að það samrýmist illa nútímalegri rammafjárlagagerð. Einnig hefur fjárlaganefnd gagnrýnt mjög slíkar ráðstafanir sem leiða af mörkun tekna í nefndarálitum og umræðum.
    Fyrir liggur að afar erfið staða blasir við í ríkisfjármálunum sem kallar á það að leita verður allra leiða til að afla aukinna tekna og að engin slík tækifæri verði látin fara forgörðum til að draga úr og stöðva mikla skuldasöfnun ríkissjóðs um þessar mundir. Þörf fyrir það hefur enn ágerst við það að ríkissjóður hefur nýverið axlað auknar skuldbindingar til að greiða fyrir ásættanlegum lyktum kjarasamninga til lengri tíma sem ætti að geta stuðlað að auknum hagvexti og orðið öllum aðilum til hagsbóta. Mörkun teknanna til aukinna framlaga til sveitarfélaga og annarra verkefna styður því ekki eins og unnt væri við markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum.
    Ljóst er að frumvarpið felur í sér umtalsverða viðbót í öflun skatttekna fyrir ríkissjóð þegar hún verður að fullu komin til framkvæmda því gera má ráð fyrir að heildartekjuöflun með þessum hætti verði um 12,6 mia.kr. Sú fjárhæð svarar til tæplega 3% af skatttekjum ríkissjóðs. Þessi skattlagning mun einnig hafa áhrif á aðra tekjuöflun ríkissjóðs í mynd tekjuskatta, bæði á fyrirtæki og einstaklinga (laun sjómanna sem ákvarðast í hlutaskiptakerfi). Í ljósi þessara áforma um stóraukið umfang virðist full ástæða til þess að við umfjöllun frumvarpsins verði tekið til vandlegrar skoðunar að ábyrgð á þessari skattheimtu verði hjá fjármálaráðuneytinu eins og almennt á við um skattkerfi ríkisins.
    Loks er ástæða til að minna á í þessu samhengi að ríkið leggur árlega fram verulega fjármuni í að vernda, rannsaka, þróa og auka verðmæti fiskveiðiauðlindarinnar. Beinn kostnaður við það kemur að stærstum hluta fram í rekstrarútgjöldum Hafrannsóknastofnunarinnar, Fiskistofu, Rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs og Landhelgisgæslunnar. Lauslega áætlað nemur sá kostnaður um 5 mia.kr. á ári ef miðað er við að um 70% af veltu Landhelgisgæslunnar séu vegna eftirlits og björgunarviðbúnaðar í tengslum við fiskveiðar. Þessu til viðbótar hafa kostnaðarsömustu tækja- og búnaðarkaup sem ríkið hefur ráðist í verið til að endurnýja og auka við farkosti Hafrannsóknastofnunarinnar og Landhelgisgæslunnar, nú síðast á árunum 2008–2011 með kaupum á varðskipi og flugvél fyrir síðarnefndu stofnunina sem samtals kostuðu um 10 mia.kr. miðað við verðlag í dag.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má áætla að tekjur af veiðigjaldi geti aukist um 2,8 mia.kr. og að tekjur af kvótaleigu geti orðið um 7 mia.kr., þannig að aukning tekna ríkissjóðs gæti orðið samtals um 9,8 mia.kr. þegar lögin væru að fullu komin til framkvæmda að 15 árum liðnum. Á móti kemur að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti útgerðarfyrirtækja kunna að lækka frá því sem annars hefði orðið þar sem veiðigjald og kvótaleiga eru frádráttarbær útgjöld. Vitað er að leigukostnaður hefur verið fyrir hendi en ekki er að finna útgefnar upplýsingar um hann. Því er erfitt að segja til um hvort sá kostnaður muni aukast við þessa breytingu. Ef reiknað væri með því að um hreinan viðbótarkostnað yrði að ræða mundu bætast nálægt 10 mia.kr. við rekstrarkostnað útgerðarinnar sem rýrir tekjuskattsstofn og þar með tekjur ríkissjóðs um allt 2 mia.kr. Ef hins vegar gert er ráð fyrir að umfang kvótaleigu verði óbreytt en að tekjuskattsstofn lækki sem nemur hækkun veiðigjaldsins mundi tekjuskattur af þessum fyrirtækjum lækka um allt að 560 m.kr. Nettóáhrif frumvarpsins á tekjuhlið ríkissjóðs yrðu þá um 9,2 mia.kr. til hækkunar tekna og er miðað við það í niðurstöðutölum hér. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að af 9,8 mia.kr. tekjuauka af veiðigjaldi og kvótaleigu verði 6,3 mia.kr. veitt með tilfærsluframlögum á útgjaldahlið til sveitarfélaga og til að efla nýsköpun, rannsóknir, þróun og markaðsstarf í sjávarútvegi.
    Í bráðabirgðaákvæðum í frumvarpinu er gert ráð fyrir að komið verði á fót tveimur nefndum. Annarri nefndinni er ætlað að athuga mögulegar aðgerðir til að stuðla að frekari fullvinnslu sjávarafla hér á landi. Hinni nefndinni er ætlað að móta heildstæða stefnu um framtíðarfyrirkomulag skattlagningar í sjávarútvegi. Báðar nefndirnar eiga að skila tillögum sínum á yfirstandandi ári. Gera má ráð fyrir að ekki þurfi að greiða þóknanir til fulltrúa opinberra aðila í þessum nefndum en að einhver kostnaður kunni að hljótast af þóknunum til annarra aðila og af aðkeyptri sérfræðiþjónustu. Ekki er talin ástæða til að ætla að sá kostnaður verði teljandi og má gera ráð fyrir að hann rúmist innan óskiptra fjárheimilda á safnliðum sem viðkomandi ráðuneyti hafa til ráðstöfunar til að standa að slíkum úttektum og nefndarstarfi.
    Ekki liggur fyrir heildstæð áætlun um kostnað Fiskistofu við að framkvæma og fylgja eftir þeim breytingum sem kveðið er á um í frumvarpinu en lausleg áætlun gerir ráð fyrir 24 m.kr. aukningu rekstrarkostnaðar vegna fjölgunar um þrjú stöðugildi og 5 m.kr. tímabundnum kostnaði við hugbúnaðargerð. Ekki liggur heldur fyrir af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins rekstraráætlun fyrir kvótaþing, sem ætlunin er að verði komið á fót á ný til að annast um uppboð á leigu aflaheimilda. Lauslega má áætla að sá rekstrarkostnaður gæti orðið 20–30 m.kr. á ári en hér er gert ráð fyrir að hann verði fjármagnaður með þóknunargjaldi á þá sem bjóða í leigu á kvóta þannig að það hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þannig má ætla að verði frumvarpið óbreytt að lögum gætu tekjur ríkissjóðs aukist um nálægt 9,2 mia.kr. nettó að 15 árum liðnum en að útgjöld aukist á móti um 6,3 mia.kr. vegna aukinna framlaga til sveitarfélaga og stuðningsverkefna fyrir sjávarútveg, auk um 30 m.kr. rekstrarkostnaðar. Árleg afkomuáhrif fyrir ríkissjóð að þessum tíma liðnum væru því um 2,9 mia.kr. til batnaðar að öðru óbreyttu. Miðað við að fiskveiðiárið 2012/2013 verði fyrsta árið sem lögin gildi má hins vegar gera ráð fyrir að áhrif á tekjuhlið yrðu um 3 mia.kr. en að útgjöldin aukist um 2,8 mia.kr. þar sem helmingi veiðigjalds væri ráðstafað til sveitarfélaga og stuðningsverkefna fyrir sjávarútveg. Áhrif til batnaðar á afkomu ríkissjóðs á fyrsta árinu yrðu því óveruleg eða 0,2 mia.kr.