Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 334. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Nr. 30/139.

Þskj. 1480  —  334. mál.


Þingsályktun

um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.


    Alþingi ályktar skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/ 2008, að samþykkja eftirfarandi áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2011– 2014:

A.     Stjórnsýslan.
1.     Ráðherranefnd um jafnrétti kynja.
    Ráðherranefnd um jafnrétti kynja starfi í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 15. september 2009 í því skyni að samþætta kynja- og jafnréttismál inn í stefnumörkun og aðgerðir ríkisstjórnarinnar, samhæfa starf hennar og fylgja eftir framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.
    Tímaáætlun: Viðvarandi.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneytanna.
    Ábyrgð: Forsætisráðherra, velferðarráðherra, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra.

2.     Framkvæmdasjóður jafnréttismála.
    Varið verði 30 millj. kr. samtals af fjárlögum tímabundið til þriggja ára, 2012–2014, 10 millj. kr. árlega, til jafnréttisverkefna á vegum ráðuneyta til að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu eða innleiða tillögur sem telja má til afraksturs af verkefnum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ráðherranefnd um jafnrétti kynja úthlutar þessu fé. Viðmið við úthlutun verði kynnt ráðuneytum fyrir árslok 2011.
    Tímaáætlun: 2012–2014.
    Kostnaðaráætlun: 30 millj. kr.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti, velferðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

3.     Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna móti í samstarfi við Jafnréttisstofu heildstæða áætlun til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og opinberra stofnana. Í henni felist m.a.:
     1.      Stofnun stýrihóps með þátttöku æðstu stjórnenda í ráðuneytum.
     2.      Sérstakir fundir ráðherra, æðstu embættismanna og sérfræðinga á sviði jafnréttismála um stefnu, áherslur og aðferðir á sviði jafnréttismála.
     3.      Fræðsla fyrir starfsfólk ráðuneyta og stofnana um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.
     4.      Árlegar tillögur um a.m.k. tvö verkefni á málefnasviði hvers ráðuneytis sem tilraunaverkefni og skal þeim lokið í lok hvers árs.
     5.      Mælitölur eða lykiltölur á öllum helstu sviðum í starfsemi ráðuneyta og stofnana verði greindar til að jafnan séu fyrir hendi upplýsingar greindar eftir kynjum til stuðnings stefnumörkun og ákvörðunum. Greint verði á hvaða sviðum reglulegri upplýsingaöflun er ábótavant og úrbætur gerðar.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 2,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti og velferðarráðuneyti.

4.     Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna vinni að kynjasamþættingu á málefnasviði hlutaðeigandi ráðuneytis. Enn fremur fjalli jafnréttisfulltrúar um jafnréttisstarf og hafi eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess. Þar á meðal komi þeir að gerð og endurskoðun jafnréttisáætlana ráðuneyta og gæti þess að allar skýrslur og rannsóknir sem gerðar eru á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis eða stofnana þess séu kyngreindar.
    Jafnréttisfulltrúar afli sér þekkingar á sviði jafnréttismála og starfi eftir samþykktri starfs- og fræðsluáætlun. Við framkvæmd fræðsluáætlunar verði höfð samvinna við námsbraut í kynjafræðum við Háskóla Íslands. Sérfræðingur Stjórnarráðsins í jafnrétti kynja og Jafnréttisstofa gegni ráðgjafarhlutverki fyrir jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 700.000 kr. vegna fræðslu fyrir jafnréttisfulltrúa.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

5.     Kynjuð fjárlagagerð.
    Kynjuð fjárlagagerð verði innleidd í áföngum á árunum 2011–2014. Í því skyni verði efnt til tilraunaverkefna í ráðuneytum og stofnunum sem hafi að markmiði að þróa verkferla og aðferðir við undirbúning kynjaðra fjárlaga. Útgáfu handbókar um kynjaða fjárlagagerð verði fylgt eftir með markvissri fræðslu. Verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð mun stýra verkefninu.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 5,2 millj. kr.
    Ábyrgð: Fjármálaráðuneyti.

6.     Siðareglur.
    Siðareglum fyrir ráðherra og ríkisstarfsmenn, þar sem m.a. er gert ráð fyrir ákvæðum um bann við kaupum á kynlífsþjónustu, verði fylgt eftir með kynningu og fræðslu fyrir starfsfólk ráðuneyta og stofnana.
    Tímaáætlun: Viðvarandi.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

7.     Hlutur kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum stjórnvalda.
    Ráðuneytin fylgi lögbundnu 40:60 viðmiði við skipun í nefndir, ráð og stjórnir og viðhaldi því, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnréttisstofa og ráðuneytin birti upplýsingar um hlut kynjanna a.m.k. árlega á vef stofunnar og allra ráðuneyta, sundurgreindar eftir ráðuneytum.
    Tímaáætlun: Viðvarandi.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneytanna.
    Ábyrgð: Öll ráðuneyti.

8.     Jafnréttisáætlanir Stjórnarráðsins, ráðuneyta og stofnana.
    Ný jafnréttisáætlun fyrir Stjórnarráðið verði samþykkt og jafnréttisáætlanir einstakra ráðuneyta endurskoðaðar með hliðsjón af henni í samráði við Jafnréttisstofu. Átak verði gert í því að tryggja að allar stofnanir ríkisins starfi eftir jafnréttisáætlunum með sundurliðuðum markmiðum og aðgerðum í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Tímaáætlun: Árslok 2011.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneyta.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

9.     Jafnréttissjóður.
    Rannsóknir og verkefni sem unnin hafa verið með styrk úr Jafnréttissjóði verði gerð aðgengileg á vefsvæði Stjórnarráðsins í þeim tilgangi að þau nýtist sem best til aðgerða í þágu jafnréttis kynjanna. Úthlutanir úr Jafnréttissjóði hefjist að nýju á árinu 2012. Fagráð skipað m.a. sérfræðingum á sviði kynjafræða leggi faglegt mat á umsóknir.
    Tímaáætlun: 2012–2014.
    Kostnaðaráætlun: 10 millj. kr. á ári.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.

10. Kynjagreining upplýsinga.
    Tryggt verði að farið sé eftir 16. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við opinbera hagskýrslugerð og í viðtals- og skoðanakönnunum með því að upplýsingar verði greindar eftir kyni, þar sem það á við. Upplýsingar í stjórnsýslunni verði kyngreindar eftir 1. janúar 2012. Í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verði þeir áminntir sem bera ábyrgð á því að ekki er farið eftir þessu markmiði.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti/forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

11. Jafnréttismat á frumvörpum.
    Við endurskoðun á reglum um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa verði tryggt að frumvörpum fylgi gátlisti um jafnréttismál þar sem farið er yfir það hvort og þá hvernig frumvarp hefur áhrif á jafnrétti. Endurskoðuðum reglum og gátlista verði fylgt eftir með kynningu og fræðslu.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti/forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

B.     Vinnumarkaður – launamisrétti kynjanna.
12.     Framkvæmdaáætlun gegn launamisrétti kynjanna.
    Gerð verði heildstæð framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir gegn launamisrétti kynjanna með það að markmiði að útrýma því. Framkvæmdaáætlunin feli m.a. í sér eftirfarandi:
     1.      Skipuð verði framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem hafi með höndum yfirumsjón og samhæfingu aðgerða í því skyni að draga úr launamisrétti kynjanna.
     2.      Lokið verði við gerð jafnréttisstaðals á tímabilinu og honum fylgt eftir með markvissri fræðslu um innleiðingu hans.
     3.      Launaumsjónarkerfi ríkisins verði endurbætt tæknilega þannig að unnt verði að gera marktækar og reglulegar úttektir á launum karla og kvenna í ráðuneytum og stofnunum ríkisins.
     4.      Fram fari athugun á árangri starfsmats sveitarfélaga við að draga úr launamisrétti kynja og við endurmat hefðbundinna kvennastarfa og metinn ávinningur ríkisins af því að innleiða starfsmat.
     5.      Efnt verði til samstarfs við samtök aðila vinnumarkaðarins um innleiðingu Vegvísis um launajafnrétti og þróaðar verði áfram hugmyndir um jafnréttisvottun.
     6.      Gefinn verði út bæklingur til leiðbeiningar um túlkun ákvæðis laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf, m.a. með hliðsjón af Evrópurétti.
     7.      Gefinn verði út gátlisti fyrir forstöðumenn stofnana um viðmið varðandi endurskoðun á launum þannig að markmiðum um launajafnrétti verði náð.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 6,4 millj. kr. (þar af 3,4 millj. kr. vegna jafnlaunastaðals).
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

13.     Launamisrétti kynjanna á landsbyggðinni.
    Byggðastofnun, sem heyrir undir iðnaðarráðuneyti, greini orsakir launamisréttis kynjanna eftir landsvæðum með það að markmiði að móta tillögu að aðgerðaáætlun til að útrýma launamisrétti kynjanna. Verkefnið er m.a. afrakstur vinnu að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við endurskoðun byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013. Í tillögu að nýrri byggðaáætlun, sem lögð hefur verið fram á Alþingi, er kveðið á um að jafnrétti og þátttaka beggja kynja í atvinnulífi og samfélagsmótun sé sérstakt viðfangsefni sem líta þurfi til. Árangursmat á verkefninu verði gert á miðju tímabili áætlunarinnar. Verkefnið er unnið af Byggðastofnun í samstarfi við Jafnréttisstofu, Hagstofu Íslands, háskóla og rannsóknastofnanir.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneyti.

14.     Úttekt á launamisrétti kynja í sjávarútvegi og landbúnaði og aðstöðu til náms í greinunum.
    Gerð verði úttekt á annars vegar launum karla og kvenna í landbúnaði og sjávarútvegi og hins vegar stöðu karla og kvenna til náms í greinunum sem og námsframboði á framhaldsskóla- og háskólastigi.
    Tímaáætlun: Lokið 2014.
    Kostnaðaráætlun: 5 millj. kr.
    Ábyrgð: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

15.     Fæðingarorlof.
    Gerð verði könnun á töku foreldra á fæðingarorlofi og áhrifum þess á verkaskiptingu þeirra á heimilum og atvinnuþátttöku kvenna og karla. Þá verði könnuð staða mæðra og feðra eftir að fæðingarorlofstímabili lýkur. Sérstaklega verði könnuð áhrif niðurskurðar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á töku foreldra á fæðingarorlofi. Upplýsingar verði greindar eftir kyni, aldri og stöðu foreldra. Verkefnið verði unnið í samvinnu við Jafnréttisstofu.
    Tímaáætlun: 2010–2012.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

16.     Nefnd um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.
    Nefnd skipuð í samræmi við áherslur jafnréttisráðs árið 2010 kanni leiðir sem ætlað er að auðvelda virkum þátttakendum á vinnumarkaði að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Nefndin afli upplýsinga um það hvernig virkum þátttakendum á innlendum vinnumarkaði finnst þeim takast að samhæfa fjölskyldu- og atvinnulíf og leggi til við velferðarráðherra hvernig unnt sé að auðvelda fólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
    Tímaáætlun: Skýrsluskil í janúar 2012.
    Kostnaður: Rúmast innan fjárheimilda velferðarráðuneytis og jafnréttisráðs.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

17.     Aðgengi kvenna að fjármagni til stofnunar fyrirtækja.
    Sjóðir sem heyra undir stofnanir iðnaðarráðuneytis, þ.e. Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Byggðastofnun, Orkusjóður og Tækniþróunarsjóður, haldi kerfisbundið til haga upplýsingum um kynjaskiptingu styrkþega fyrir árið 2011 þannig að unnt verði á árinu 2012 að leggja mat á hvernig starfsemi sjóðanna nýtist hvoru kyni fyrir sig og endurskoði úthlutunarreglur komi í ljós að halli á annað kynið meðal styrkþega.
    Tímaáætlun: 2011–2012.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda sjóðanna.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneyti.

18.     Lánatryggingasjóður kvenna.
    Starfsemi Lánatryggingasjóðs kvenna sem starfaði á árunum 1998–2003 á vegum félagsmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og Reykjavíkurborgar verði endurvakin. Markmið sjóðsins verði að styðja við nýsköpun í atvinnurekstri kvenna með því að veita ábyrgðir á lánum. Verkefnið verði unnið í samstarfi við fjármálastofnanir og aðila sem veita ráðgjöf og handleiðslu við framkvæmd verkefna, en fé til starfseminnar sé fyrir hendi í sjóði.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 60 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.

19.     Úttekt á túlkun jafnréttislaga í álitum kærunefndar jafnréttismála.
    Lögfræðileg úttekt á málum sem kærð hafa verið til kærunefndar jafnréttismála verði gerð og þróun á túlkun jafnréttislaga hjá kærunefnd jafnréttismála og í dómum Hæstaréttar Íslands verði skoðuð.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

C.     Kyn og völd.
20.     Starfsumhverfi og starfskjör í sveitarstjórnum.
    Starfshópur verði skipaður til að kanna starfsumhverfi og starfskjör kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum með tilliti til kynjasjónarmiða og áhrifa þeirra á þátttöku kvenna í sveitarstjórnarstarfi. Í starfi hópsins verði m.a. unnið í samræmi við tillögur starfshóps um aðgerðir til að jafna betur stöðu kynja í sveitarstjórnum, sbr. greinargerð frá október 2009. Verkefnið verði unnið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Tímaáætlun: 2011–2012.
    Kostnaðaráætlun: 300.000 kr.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

21.     Gagnagrunnur um jafnrétti kynjanna í sveitarfélögum.
    Gagnagrunnur Jafnréttisstofu sem hún vann innan vébanda Evrópuverkefnisins Jafnréttisvogin (e. Tea for two) verði uppfærður og honum viðhaldið þannig að hann gefi á hverjum tíma upplýsingar um skilgreinda þætti er varða jafnrétti kynjanna innan sveitarstjórna, svo sem kynjahlutfall innan sveitarstjórna, í nefndum og ráðum, skiptingu íbúa, þjónustuþætti o.fl. Grunnurinn verði þróaður áfram í samvinnu við sveitarfélögin og nýtist til að leggja mat á stöðu jafnréttismála í sveitarfélögunum og sem hvatning til góðra verka.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaður: 700.000 kr.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

22.     Hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja og stofnana.
    Staðið verði fyrir upplýsingagjöf og samið kynningarefni til að vekja athygli á gildistöku laga nr. 13/2010 sem kveða á um að í hlutafélögum og einkahlutafélögum þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum. Þegar stjórn er skipuð fleiri en þremur verði tryggt að hlutfall annars kyns sé ekki lægra en 40%.
    Efnt verði til fræðslu um ábyrgð og skyldur stjórnenda og stjórnarmanna í fyrirtækjum. Markmiðið verði að auka hæfni þessara aðila til að gegna stöðum sínum með áherslu á að ná til kvenna. Komið verði upp gagnagrunni með upplýsingum um þá sem hlotið hafa slíka fræðslu til að gera stjórnendum og stjórnarmönnum kleift að mynda með sér tengsl og auðvelda fyrirtækjum að finna hæfa stjórnendur og stjórnarmenn.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda efnahags- og viðskiptaráðuneytis.
    Ábyrgð: Efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

D.     Kynbundið ofbeldi.
23.     Ný aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi.
    Unnið verði að gerð nýrrar aðgerðaáætlunar stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi fyrir tímabilið 2011–2015. Í nýrri aðgerðaáætlun verði tekið mið af rannsóknum úr gildandi aðgerðaáætlun frá 2006 auk rannsóknar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá verði sérstök áhersla lögð á að skoða samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu. Auk þessa verði mótuð afstaða til meðferðar nýs sáttmála Evrópuráðsins í málaflokknum og verkefni endurskilgreind með hliðsjón af honum. Skipuð verði nefnd til að vinna að framangreindri áætlun um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: 600.000 kr. við gerð áætlunar.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

24.     Úrræði vegna heimilisofbeldis.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um nálgunarbann verði lagt fram á Alþingi til þess að leiða í lög heimild fyrir þar til bæra aðila innan réttarvörslukerfisins til að fyrirskipa að einstaklingur, sem beitir heimilismenn sína ofbeldi, yfirgefi heimilið. Svonefnd „austurrísk leið“ liggi til grundvallar þeirri vinnu.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

25.     Karlar til ábyrgðar.
    Meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar verði eflt og boðið upp á þjónustu víðar um land. Brugðist verði við væntanlegri heimild til að fjarlægja ofbeldismann af heimili með því að bjóða upp á meðferð til að losna úr vítahring ofbeldis. Kannað verði hvort rétt sé að heimila að menn verði dæmdir til meðferðar. Þá verði úrræðið árangursmetið og árangur borinn saman við sambærileg verkefni erlendis.
    Tímaáætlun: 2010–2014.
    Kostnaðaráætlun: 12,7 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

26.     Forvarnir gegn vændi.
    Fræðsluherferð sem beinist að mögulegum kaupendum vændis verði hleypt af stokkunum, meðal annars með áherslu á unga karlmenn til að koma í veg fyrir að þeir gerist kaupendur á kynlífsmarkaði.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

27. Staða kvenna sem búa við fötlun.
    Könnuð verði staða þeirra kvenna sem búa við fötlun með það að markmiði að greina stöðu þessara einstaklinga sem eru í áhættuhóp hvað varðar ofbeldi, misnotkun og misneytingu og hvort grípa þurfi til sértækra aðgerða til að tryggja að konurnar njóti mannréttinda og mannfrelsis til fulls í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    Tímaáætlun: 2012–2013.
    Kostnaðaráætlun: 1,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

E.     Menntir og jafnrétti.
28.     Kynungabók.
    Handbók fyrir ungt fólk með upplýsingum um kynferði og jafnrétti sem gefin var út á árinu 2010 verði fylgt markvisst eftir með kynningum, m.a. í tengslum við innleiðingu nýrra námskráa og námsefnisgerð. Upplýsingar verði endurnýjaðar og gefnar út aftur á tímabilinu.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

29.     Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum.
    Verkefninu Jafnrétti í skólum verði fram haldið til þess að hugmyndir og verkefni sem unnin voru nýtist fleiri skólum og sveitarfélögum en verkefnið felur í sér jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum. Verkefnið var unnið í grunnskóla og leikskóla í fimm sveitarfélögum, samtals í tíu skólum, og eru upplýsingar um það á vefnum jafnrettiiskolum.is. Verkefnið verði unnið í samráði við sérfræðinga í kynjafræðum og sveitarfélög.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 1,1 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

30.     Jafnrétti í framhaldsskólum.
    Áföngum í kynja- og jafnréttisfræðum verði komið inn í framhaldsskóla á sviði jafnréttismála. Reynslu verði miðlað milli skóla með kynningum, fundum og samstarfi. Árin 2013 og 2014 verði veitt jafnréttisverðlaun til þeirra þátttakenda sem sýnt hafa mestan árangur á sviði jafnréttismála.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

31. Jafnrétti í háskólum.
    Fræðslu í jafnréttismálum verði komið á innan háskóla. Skipaður verði starfshópur til að skipuleggja og innleiða slíkt ferli, en í hópnum eigi sæti fulltrúar háskóla og mennta- og menningarmálaráðuneytis og sérfræðingar í kynjafræðum. Reynslu verði miðlað milli skóla með kynningum, fundum og samstarfi. Árin 2013 og 2014 verði veitt jafnréttisverðlaun til þeirra þátttakenda sem sýnt hafa mestan árangur á sviði jafnréttismála.
    Tímaáætlun: 2012–2014.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

32.     Félagslíf í framhaldsskólum.
    Þátttaka pilta og stúlkna í félagslífi verði könnuð með það að markmiði að stuðla að jöfnum tækifærum pilta og stúlkna. Út frá þeirri vinnu verði skoðað, í samráði við nemendafélög, hvort grípa þurfi til sértækra aðgerða til að hvetja annað kynið til frekari þátttöku. Birtingarmyndir framhaldsskólans í ríkisfjölmiðlum (RÚV) verði skoðaðar sérstaklega til að tryggja að ekki halli óeðlilega á annað kynið.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

33.     Starfsgreinar.
    Kannaðar verði ástæður þess að stúlkur leita fremur í starfsgreinar sem skilgreindar hafa verið sem hefðbundnar kvennagreinar og piltar í þær sem hafa verið skilgreindar sem hefðbundnar karlagreinar. Enn fremur verði kannað hvernig opna megi aðgang að þeim starfsgreinum sem virðast lokaðar ýmist körlum eða konum. Með samstilltu átaki starfsgreinaráða, skóla og atvinnufyrirtækja verði leitast við að nemendur hafi jöfn tækifæri til að velja sér nám og störf óháð kyni.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 200.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

34.     Kennaramenntun.
    Inntak kennaramenntunar verði endurskoðað og háskólar hvattir til að innleiða skyldunámskeið í kynjafræði fyrir alla nemendur. Starfshópur sem vinnur að endurskoðun kennaramenntunar og reglugerð taki mið af þessum markmiðum.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárveitingar til endurskoðunar kennaramenntunar.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

35.     Konur og kvikmyndagerð.
    Kannað verði hvers vegna konur sækja síður en karlar um styrki úr kvikmyndasjóði. Fundin verði leið til þess að hvetja konur reglulega til að sækja um styrki fyrir eigið efni til handritsgerðar og framleiðslu kvikmynda, heimildarmynda og sjónvarpsþátta. Leitað verði leiða til þess að viðfangsefni með kvenlægum gildum njóti viðurkenningar til jafns við karllæg viðmið í mati á umsóknum. Markmiðið verði að fá fleiri myndir og þætti unna út frá kvenlægum sjónarhornum. Fundin verði leið til að hvetja skólastúlkur frá unga aldri til að skapa og miðla sínu sjónarhorni með kvikmyndasköpun ekki síður en pilta. Grunn- og framhaldsskólar verði hvattir til að standa fyrir átaksverkefnum í stuttmyndagerð stúlkna.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

36. Aðgengi kvenna og karla að fjármagni til vísindarannsókna.
    Sjóðir sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og starfa á grundvelli laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir haldi kerfisbundið til haga upplýsingum um kynjaskiptingu fagráða, umsækjenda og styrkþega, og styrkupphæðir í öllum styrkjaflokkum fyrir árið 2012. Þannig verði á árinu 2013 unnt að leggja mat á hvernig starfsemi sjóðanna nýtist hvoru kyni fyrir sig. Komi í ljós að halli á annað kynið meðal styrkþega verði kannað hvort grípa skuli til aðgerða til að rétta þann halla, t.d. með því að gera styrkumsóknir aðgengilegri eða endurskoða úthlutunarreglur. Upplýsingar og viðeigandi aðgerðir nái jafnframt til verkefna sem Rannís styrkir til endurúthlutunar.
    Tímaáætlun: 2012–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda sjóðanna.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

F.     Karlar og jafnrétti.
37.     Karlar um borð.
    Skipaður verði starfshópur sem geri tillögur um hvernig auka megi þátttöku karla í umræðum um jafnrétti kynja og auka aðild karla að jafnréttisstarfi. Greining á stöðu karla í samfélaginu og möguleikum þeirra til virkrar þátttöku á nýjum og breyttum forsendum verði gerð. Starfshópurinn leiti samstarfs um verkefni sem stuðla að því að slík greining fari fram. Markmiðið sé að fá fram tillögur um m.a. hvernig megi auka náms- og starfsval karla sem og annað hlutverkaval þeirra, vinna gegn staðalímyndum kynjanna og auka þátttöku í verkefnum fjölskyldunnar. Hugað verði að neikvæðum þáttum, svo sem áhættuhegðun, ofbeldi og sjálfsvígum. Starfshópurinn hafi sér til fulltingis stærri ráðgjafahóp karla sem endurspegli breiðan bakgrunn með tilliti til aldurs og reynslu.
    Tímaáætlun: 2011–2012.
    Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

G.     Alþjóðastarf.
38.    Eftirfylgni við aðgerðaáætlun um framkvæmd ályktunar öryggisráðsins nr. 1325 og tengdar ályktanir um konur, frið og öryggi á alþjóðavettvangi.
    Áætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325 frá árinu 2000 um konur, frið og öryggi verði endurskoðuð með framsetningu skýrra og tímasettra markmiða. Tekið verði mið af öðrum ályktunum öryggisráðsins sem samþykktar hafa verið með skírskotun til ályktunar 1325 (ályktanir nr. 1820 (2008), 1888 (2009), 1889 (2009) og 1960 (2010)). Ísland efli jafnframt stöðu sína sem málsvari málaflokksins á alþjóðavettvangi bæði í marghliða og tvíhliða starfi með frumkvæði, sterkum áherslum og eftirfylgni á grundvelli framkvæmdaáætlunarinnar. Markvisst verði unnið að því að fræða starfsfólk utanríkisráðuneytisins og friðargæsluliða í málefnum öryggisráðsályktunar 1325 og tengdra ályktana.
    Tímaáætlun:     2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 2,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneyti.

39.     Verkefni um Jafnréttisskóla.
    Starf Jafnréttisskóla á vegum Háskóla Íslands verði stutt sem liður í uppbyggingu þekkingarsamfélags á Íslandi á sviði jafnréttismála. Markmið verkefnisins sé að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna með styttri námskeiðum fyrir sérfræðinga frá þróunarríkjum, átakasvæðum og samfélögum þar sem nýlega hefur komist á friður að átökum loknum. Unnið verði markvisst að því að Jafnréttisskólinn verði hluti af tengslaneti Sameinuðu þjóðanna. Markhópurinn sé starfsmenn stjórnsýslu og félagasamtaka sem starfa að jafnréttismálum í framangreindum ríkjum og svæðum. Utanríkisráðuneytið kosti verkefnið samkvæmt árlegri fjárhagsáætlun og samþykktum fjárlögum.
    Tímaáætlun:     2010–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Háskóli Íslands og utanríkisráðuneyti.

40.     Kyn og loftslag.
    Umhverfisráðuneyti og utanríkisráðuneyti haldi áfram kynjasjónarmiðum á lofti í samningaviðræðum um loftslagsmál. Ráðuneytin eigi samstarf um að kynna mikilvægi kynjasjónarmiða hvað varðar loftslagsmálin innan lands, svo sem með málþingum. Rannsóknir á kynjaþætti loftslagsmála verði efldar og áhersla lögð á kynjasjónarmið og loftslagsmál, ekki síst í fræðslu hvað málaflokkinn varðar í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.
    Tímaáætlun: 2010–2012.
    Kostnaðaráætlun: 1,4 millj. kr.
    Ábyrgð: Umhverfisráðuneyti og utanríkisráðuneyti.

41.     Könnun á áhrifum mismunandi hegðunar kynjanna á loftslag á Íslandi.
    Gerð verði könnun á þeim þáttum í hegðun kynjanna hér á landi sem ýmist auka eða minnka losun gróðurhúsalofttegunda, svo sem með akstri einkabíla, notkun á almenningssamgöngum, orkunotkun, flokkun sorps, kaupum á umhverfisvænum vörum, kjötneyslu og öðru. Metið verði hversu mikil áhrif hvort kyn um sig hefur og til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Markmiðið sé að vekja fólk til vitundar um áhrif einstaklinganna á umhverfi sitt.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaður: 1 millj. kr.
    Ábyrgð: Umhverfisráðuneyti.

H.     Eftirfylgni og endurskoðun.
42.     Eftirfylgni.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta annist eftirfylgni með framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum á vettvangi sinna ráðuneyta í samstarfi við Jafnréttisstofu og sérfræðing Stjórnarráðsins í jafnrétti kynja. Framvinduskýrsla fylgi árlegri greinargerð jafnréttisfulltrúa til Jafnréttisstofu. Skýrsla um stöðu verkefna samkvæmt framkvæmdaáætluninni verði lögð fyrir ráðherranefnd um jafnrétti kynja og jafnréttisþing.
    Tímaáætlun: 2010–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

43.     Árangursmat.
    Áætlunin verði árangursmetin og eftir atvikum endurskoðuð að tveimur árum liðnum frá samþykkt hennar.
    Tímaáætlun: 2012.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 2011.