Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 707. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1481  —  707. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum (hreindýraveiðar).

(Eftir 2. umr., 19. maí.)



1. gr.


    Í stað 9. mgr. 14. gr. laganna koma sjö nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Enginn má stunda hreindýraveiðar nema hann hafi til þess veiðileyfi og sé í fylgd með leiðsögumanni. Áður en veiðimaður fer til hreindýraveiða skal hann hafa staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum. Veiðimaður þarf að skila inn staðfestingu á að hann hafi lokið verklegu skotprófi fyrir 1. júlí ár hvert. Skili veiðimaður ekki inn staðfestingu skal veiðileyfi hans úthlutað að nýju. Umhverfisstofnun er heimilt að veita veiðimanni sem fær úthlutað leyfi til hreindýraveiða eftir 1. júlí frest til að skila inn staðfestingu á verklegu skotprófi.
    Enginn getur tekið að sér leiðsögn með hreindýraveiðum nema hann hafi til þess leyfi Umhverfisstofnunar. Leyfi skal veitt til allt að fjögurra ára í senn og miðast við tiltekin veiðisvæði. Til að geta hlotið leyfi sem leiðsögumaður þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     1.      Hafa skotvopnaleyfi (B-flokk) og veiðikort.
     2.      Hafa staðfestingu á að hann hafi staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum.
     3.      Hafa þekkingu og reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra.
     4.      Hafa staðfestingu á þátttöku í námskeiðum Umhverfisstofnunar og að hann hafi lokið prófi í kjölfar þeirra með fullnægjandi árangri í:
                  a.      líffræði, sýklafræði, vistfræði og náttúruvernd með sérstöku tilliti til hreindýra,
                  b.      líffærafræði, þekkingu á helstu sjúkdómum og sníkjudýrum sem finnast á Íslandi og töku sýna,
                  c.      náttúruverndarlögum, lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, reglugerð um hreindýraveiðar og öðrum lögum sem máli skipta,
                  d.      leiðsögn,
                  e.      meðferð skotvopna,
                  f.      meðferð og notkun áttavita og GPS-staðsetningartækja,
                  g.      veiði villtra dýra og siðfræði og siðareglum veiðimanna,
                  h.      staðháttum á viðkomandi veiðisvæði.
     5.      Hafa tvisvar á sama veiðitímabili leiðsagt með hreindýraveiðum undir handleiðslu starfandi leiðsögumanns sem valinn er af Umhverfisstofnun.
     6.      Hafa sótt skyndihjálparnámskeið á síðustu tveimur árum.
     Umhverfisstofnun heldur námskeið skv. 4. tölul. 10. mgr. í samráði við hreindýraráð og skal Umhverfisstofnun m.a. meta þörf á að halda slík námskeið með tilliti til eðlilegrar nýliðunar í hópi leiðsögumanna. Umhverfisstofnun er heimilt að innheimta gjald fyrir námskeið á vegum hennar, próf í kjölfar námskeiða, verkleg skotpróf og fyrir útgáfu eða endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn. Gjöld skulu aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu. Ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar gjaldskrá fyrir námskeið á vegum hennar, próf í kjölfar námskeiða, verkleg skotpróf og fyrir útgáfu eða endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn.
     Umhverfisstofnun heldur verkleg skotpróf fyrir hreindýraveiðimenn og leiðsögumenn. Umhverfisstofnun er heimilt að fela öðrum framkvæmd verklegra skotprófa, svo sem rekstraraðilum skotvalla.
    Til að fá endurnýjun leyfis sem leiðsögumaður þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     1.      Hafa skotvopnaleyfi (B-flokk) og veiðikort.
     2.      Hafa staðfestingu á að hann hafi staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum.
     3.      Hafa staðfestingu á þátttöku í endurmenntunarnámskeiði Umhverfisstofnunar.
     4.      Hafa sótt skyndihjálparnámskeið á síðustu tveimur árum.
Vilji leiðsögumaður bæta við sig veiðisvæðum hvort sem er við endurnýjun eða í öðrum tilvikum þarf hann að auki að standast próf í staðháttum á viðkomandi veiðisvæði.
    Hlutverk leiðsögumanna með hreindýraveiðum er að fylgja veiðimanni um veiðisvæði, hjálpa honum að þekkja þau dýr sem hann má veiða, sjá til þess að veiðimaður fari rétt að við veiðarnar, skrái þær upplýsingar á veiðiskýrslur sem krafist er og skili inn veiðiskýrslum rétt útfylltum. Leiðsögumaður á að sjá til þess að veiðar séu í samræmi við lög og reglur. Brjóti leiðsögumaður gegn lögum og reglugerðum getur Umhverfisstofnun veitt honum áminningu eða svipt hann leyfi séu sakir alvarlegar eða ítrekaðar. Hafi leiðsögumaður verið sviptur leyfi getur hann öðlast slíkt leyfi á ný þegar fjögur ár eru liðin frá sviptingu enda fullnægi hann þeim kröfum sem gerðar eru þegar um nýtt leyfi er að ræða, sbr. 10. mgr. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á í reglugerð um hlutverk og skyldur leiðsögumanna með hreindýraveiðum að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og hreindýraráðs.
    Aðeins er heimilt að úthluta arði af hreindýraveiðum til þeirra sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu allt veiðitímabilið. Eigandi eða ábúandi jarðar skal fyrir 1. júlí ár hvert tilkynna til Umhverfisstofnunar hvort hann heimili veiðar á landi sínu eður eigi. Eigandi eða ábúandi þarf þó ekki að tilkynna afstöðu sína árlega hafi hann gert það einu sinni og ekki orðið breyting á afstöðu hans. Umhverfisstofnun er heimilt að miða við afstöðu eiganda eða ábúanda frá fyrri veiðitímabilum hafi hann ekki tilkynnt um afstöðu sína fyrir 1. júlí.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó taka 2.–5. málsl. 1. mgr. 1. gr. ekki gildi fyrr en 1. janúar 2012.