Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 679. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1489  —  679. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu samnings milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur.

Frá utanríkismálanefnd.



     Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas Heiðar frá utanríkisráðuneytinu og Kristin Einarsson frá Orkustofnun.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur sem undirritaður var af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra Íslands, og Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, í Reykjavík 3. nóvember 2008. Um er að ræða rammasamning um einingarnýtingu kolvetnisauðlinda sem er að finna beggja vegna markalína landgrunns Íslands og Noregs. Þar er að finna meginreglur um einingarnýtingu en með því hugtaki er átt við að viðkomandi auðlind er nýtt sem ein eining samkvæmt samkomulagi aðila. Samkvæmt samningnum skal í þeim tilvikum þegar olíu- eða gasauðlind nær yfir á landgrunn beggja ríkjanna gera sérstakan samning um skiptingu auðlindarinnar milli ríkjanna og um nýtingu hennar sem einingar.
    Í athugasemdum við tillöguna er vísað til samkomulags milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál frá 28. maí 1980, samkomulags ríkjanna um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen frá 22. október 1981, viðbótarbókun frá 11. nóvember 1997 við samkomulagið frá 28. maí 1980 og samkomulagið frá 22. október 1981, og loks til samþykktrar fundargerðar um afmörkun landgrunns utan 200 sjómílna milli Íslands, Færeyja og Noregs í suðurhluta síldarsmugunnar frá 20. september 2006. Í athugasemdunum segir að með fyrirliggjandi samningi um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur sé kveðið á um meginreglur um einingarnýtingu auðlinda sem eru almennt sambærilegar við ákvæði annarra milliríkjasamninga á þessu sviði en taka sérstakt tillit til hins sameiginlega nýtingarsvæðis, þar á meðal þeirra sérstöku réttinda sem Ísland nýtur þar umfram Noreg samkvæmt samkomulaginu frá 22. október 1981. Reglurnar gilda ekki aðeins um markalínu landgrunnsins milli Íslands og Jan Mayen, heldur um markalínu landgrunnsins milli Íslands og Noregs í heild.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. maí 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.



Bjarni Benediktsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Helgi Hjörvar.



Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.