Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 56. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1508  —  56. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 20. maí.)



1. gr.

    Í stað 1. málsl. 3. mgr. 3. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Með foreldrum er átt við foreldra skv. I. kafla barnalaga. Í lögum þessum er með foreldrum einnig að jafnaði átt við þá sem fara með forsjá barns.

2. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Heimilt er að skjóta til hennar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
     b.      Í stað orðanna „2. og 4. mgr. 83. gr.“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: 3. mgr. 84. gr., 4. mgr. 89. gr. c.

3. gr.

    Á eftir 1. málsl. 6. mgr. 7. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Barnaverndarstofa getur einnig rekið sérhæfð úrræði fyrir börn sem glíma við fjölþættan vanda í samstarfi við önnur yfirvöld, t.d. á sviði fötlunar eða félags- eða heilbrigðisþjónustu.

4. gr.

    Við 4. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Vanræki sveitarstjórn þær skyldur er hvíla á sveitarfélaginu getur ráðuneytið beitt sér fyrir því að gripið verði til úrræða samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga.

5. gr.

    4. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er að framselja til einstakra starfsmanna nefndanna vald til að kveða upp úrskurði samkvæmt lögum þessum, taka ákvarðanir um málshöfðun skv. 28. og 29. gr., setja fram kröfu um sjálfræðissviptingu skv. 30. gr. og taka ákvarðanir um að krefjast brottvikningar heimilismanns eða nálgunarbanns skv. 37. gr.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Ef barn flyst úr umdæmi nefndar á meðan hún hefur mál til meðferðar skal nefndin tafarlaust tilkynna flutninginn til barnaverndarnefndar í umdæminu sem barnið flytur í, upplýsa viðtakandi barnaverndarnefnd um öll afskipti af málefnum barnsins og láta nefndinni í té öll nauðsynleg gögn þess. Barnaverndarnefnd í umdæminu sem barnið flytur í ber að taka strax við meðferð málsins og leitast við að tryggja samfellu í vinnslu og meðferð málsins.
     b.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ef ágreiningur rís milli barnaverndarnefnda getur Barnaverndarstofa ákveðið hvar barn telst eiga fasta búsetu, svo og mælt svo fyrir að önnur nefnd en sú þar sem barn á fasta búsetu fari með mál ef það er talið tryggja betur meðferð þess.
     c.      Í stað 1. málsl. 5. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef barn á ekki lögheimili á Íslandi eða er hér án forsjáraðila sinna skal barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn dvelst eða er statt fara með mál þess. Barnaverndarnefnd fer þá með umsjá barnsins eftir því sem þörf krefur og ber að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja hagsmuni þess.
     d.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ef barni, sem er hér á landi án forsjáraðila sinna, er veitt hæli eða dvalarleyfi á Íslandi ákveður Barnaverndarstofa hvaða barnaverndarnefnd skuli taka við forsjá barnsins og fara með málið eftir að leyfi er veitt. Ríkissjóður greiðir allan kostnað viðkomandi barnaverndarnefndar samkvæmt ákvæðum laganna vegna ráðstöfunar barnsins í fóstur eða aðra vistun.
     e.      6. mgr. (sem verður 7. mgr.) orðast svo:
                  Barnaverndarnefndir sem í hlut eiga geta skotið ákvörðunum Barnaverndarstofu skv. 3., 5. og 6. mgr. til kærunefndar barnaverndarmála.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:
              a.      búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
              b.      verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
              c.      stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Þá er hverjum manni skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu, t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu, eða með því að þunguð kona er beitt ofbeldi eða ef ástæða er til að ætla að þunguð kona sé beitt ofbeldi, eða um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarnefnd eigi að láta sig varða.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum barna eða þungaðra kvenna og verður var við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.
     b.      Á eftir orðinu „þroskaþjálfum“ í 2. mgr. kemur: náms- og starfsráðgjöfum.

9. gr.

    1. og 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. laganna orðast svo: Ef lögregla verður þess vör að barn búi við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. skal hún tilkynna barnaverndarnefnd um það. Þegar grunur leikur á að barn hafi framið eða framið hafi verið gegn barni brot gegn almennum hegningarlögum eða lögum þessum eða brot gegn öðrum lögum sem varðað getur þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi skal lögregla, þegar hún fær slíkt mál til meðferðar, tilkynna það barnaverndarnefnd og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn málsins.

10. gr.

    2. og 3. málsl. 2. mgr. 19. gr. laganna orðast svo: Ákvörðun barnaverndarnefndar um nafnleynd og synjun um að aflétta nafnleynd er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála. Leiðbeina skal tilkynnanda og foreldri um rétt til að kæra ákvörðun barnaverndarnefndar.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „áreitni eða ofbeldis af hendi annarra“ í 1. mgr. kemur: ofbeldis eða vanvirðandi háttsemi af hendi annarra.
     b.      Á eftir orðunum „eða eigin hegðunar þess“ í 1. mgr. kemur: eða að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu eins og lýst er í 16. gr.
     c.      3. mgr. fellur brott.
     d.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Ákvörðun barnaverndarnefndar um að hefja könnun máls eða að hefja ekki könnun er hvorki kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála né annars stjórnvalds.
     e.      Við 2. málsl. 4. mgr. bætist: innan viku frá því að ákvörðunin var tekin.
     f.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Barnaverndarnefnd ber einnig að staðfesta við tilkynnanda að tilkynning hafi borist og gefa almennar upplýsingar um málsmeðferð vegna tilkynningar.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli á þessu stigi geta foreldrar skotið til kærunefndar barnaverndarmála.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli þegar áætlun rennur út geta foreldrar skotið til kærunefndar barnaverndarmála.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Barnaverndarnefnd skal ætíð meta þörf á samstarfi við aðra aðila við gerð og framkvæmd áætlunar. Sérstaklega ber að meta þörf á samstarfi við þá sem vinna með málefni viðkomandi barns og nefndir eru í 2. mgr. 17. gr. Ef barnaverndarnefnd telur hagsmuni barns kalla á samstarf við þessa aðila ber nefndinni að leggja áherslu á að afla samþykkis foreldra til að samstarfi verði komið á.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Við 3. málsl. 2. mgr. bætist: og tekur barnaverndarnefnd þá við forsjá þess.
     b.      Við 2. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef fóstur eða vistun varir þar til barn verður lögráða ber barnaverndarnefnd eigi síðar en þremur mánuðum áður en það verður 18 ára að meta þarfir barnsins fyrir frekari úrræði. Barnaverndarnefnd getur ákveðið með samþykki ungmennis að ráðstöfun haldist eftir að það verður 18 ára, allt til 20 ára aldurs. Ungmenni getur skotið synjun barnaverndarnefndar, um að ráðstöfun í fóstur eða vistun haldist eftir að viðkomandi verður 18 ára, til kærunefndar barnaverndarmála.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
     a.      Á eftir b-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður, svohljóðandi: kveðið á um að heimilt sé að láta aðilum, sem vinna með mál viðkomandi barns og nefndir eru í 2. mgr. 17. gr. og 18. gr., í té upplýsingar um líðan barns eða meðferð máls ef það er talið nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Foreldrar geta skotið úrskurði til kærunefndar barnaverndarmála.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Heimilt er með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Ef krafist er framlengingar vistunar skv. 27. eða 28. gr. eða forsjársviptingar skv. 29. gr. áður en vistunartíma lýkur helst ráðstöfun þar til úrskurður eða dómur liggur fyrir.

16. gr.

    Orðin „sbr. 3. mgr. 21. gr.“ í 1. mgr. 30. gr. laganna falla brott.

17. gr.

    Fyrri málsliður 2. mgr. 31. gr. laganna orðast svo: Barnaverndarnefnd skal án tafar taka málið til meðferðar og innan 14 daga kveða upp úrskurð, eða taka ákvörðun um málshöfðun fyrir dómi skv. 28. eða 29. gr., að öðrum kosti fellur ákvörðun skv. 1. mgr. úr gildi.

18. gr.

    Við 33. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Val barnaverndarnefndar á þeim sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis skv. 25. og 27.–29. gr. er ekki kæranlegt til kærunefndar barnaverndarmála eða annars stjórnvalds, sbr. þó 67. gr. b.

19. gr.

    Í stað orðanna „kröfu á hendur barnaverndarnefnd og fósturforeldrum“ í 2. mgr. 34. gr. laganna kemur: kröfu á hendur barnaverndarnefnd, foreldri sem fer með forsjá skv. 67. gr. a eða 67. gr. b og fósturforeldrum.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Barnaverndarstofa á rétt til upplýsinga úr sakaskrá um menn sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Við ráðningu til starfa hjá barnaverndaryfirvöldum eða á heimilum eða stofnunum samkvæmt lögum þessum, hvort sem þau eru rekin af einkaaðilum, ríki eða sveitarfélögum, skal ávallt liggja fyrir sakavottorð og upplýsingar úr sakaskrá um það hvort umsækjandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Óheimilt er að ráða til starfa einstakling sem hlotið hefur refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og eðlis brotsins.
     c.      3. mgr. fellur brott.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „Ef barnaverndarnefnd þykir“ í 1. málsl. kemur: heilsu eða lífi ófædds barns stefnt í hættu eða.
     b.      Við 1. málsl. bætist: eða þungaða konu.
     c.      Við 2. málsl. bætist: eða þungaðrar konu.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „upplýsingar um heilsu barns og foreldra þess“ í 1. mgr. kemur: upplýsingar og afrit af nauðsynlegum gögnum um heilsu barns, foreldra þess og annarra heimilismanna.
     b.      Í stað orðanna „upplýsingar sem þessar stofnanir búa yfir um barn og foreldra þess og varðað geta málið“ í 3. mgr. kemur: upplýsingar og afrit nauðsynlegra gagna sem þessar stofnanir búa yfir um barn, foreldra þess og aðra heimilismenn sem varðað geta málið.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
     a.      Síðari málsliður 2. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „skal hún þegar taka afstöðu til þess“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: skal hún taka afstöðu til þess.
     c.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Að jafnaði skal skipa barni talsmann áður en gripið er til ráðstafana skv. 25., 27. eða 28. gr. og áður en sett er fram krafa um sviptingu forsjár skv. 29. gr. nema barn njóti aðstoðar lögmanns, sbr. 2. mgr. 47. gr.

24. gr.

    Orðið „óháðra“ í 48. gr. laganna fellur brott.

25. gr.

    51. gr. laganna orðast svo:
    Aðilar barnaverndarmáls geta skotið úrskurði eða ákvörðun skv. 1. mgr. 6. gr. til kærunefndar barnaverndarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun.
    Kærunefnd getur ákveðið að formaður nefndarinnar fari einn með mál og kveði upp úrskurð ef mál þykir ekki varða mikilsverða hagsmuni barns.
    Kærunefnd skal innan tveggja vikna frá því að henni berst kæra taka mál til meðferðar og úrlausnar. Kærunefnd skal kveða upp úrskurð í máli svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að úrskurður barnaverndarnefndar var kærður til hennar.
    Kærunefnd barnaverndarmála getur metið að nýju bæði lagahlið máls og sönnunargögn. Nefndin getur ýmist staðfest úrskurðinn að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur kærunefndin einnig vísað málinu til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju.

26. gr.

    Á eftir 53. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 53. gr. a og 53. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (53. gr. a.)

Lögsaga.


    Dómsmál samkvæmt lögum þessum er unnt að höfða hér á landi ef:
     a.      aðili er búsettur hér á landi,
     b.      barn er búsett hér á landi eða
     c.      barn dvelst eða er statt hér á landi og nauðsynlegt þykir að leita atbeina dómstóla til að tryggja öryggi þess.

    b. (53. gr. b.)

Flýtimeðferð.


    Mál samkvæmt ákvæðum þessa kafla skulu sæta flýtimeðferð í samræmi við ákvæði XIX. kafla laga um meðferð einkamála.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Í málum samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal kveðja til sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi nema útivist verði af hálfu aðila eða máli vísað frá vegna augljósra annmarka.
     b.      3. mgr. fellur brott.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Um sérfróða meðdómsmenn og þinghöld.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, 1. málsl., svohljóðandi: Gefa skal barni kost á að tjá sig um mál í samræmi við aldur þess og þroska.
     b.      3. mgr. fellur brott.

29. gr.


    Síðari málsliður 61. gr. laganna orðast svo: Ákvæði 53. gr. b og ákvæði 1. mgr. 54. gr. gilda ekki um meðferð mála samkvæmt þessum kafla.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Þegar foreldrar eða barn leita úrlausnar teljast þau sóknaraðilar en barnaverndarnefnd varnaraðili. Þegar barnaverndarnefnd telst varnaraðili er nefndinni heimilt að gera í greinargerð sjálfstæða kröfu um úrskurð skv. 28. gr.
                  Dómari getur ákveðið að sameina mál sem rekin eru á sama tíma skv. X. og XI. kafla.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „svo fljótt sem verða má“ í 1. mgr. kemur: innan viku.
     b.      Í stað orðanna „stuttan frest“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: frest sem skal að jafnaði ekki vera lengri en tvær vikur.
     c.      3. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þegar sérstaklega stendur á er dómara heimilt að veita frekari fresti til gagnaöflunar en taka skal mál aftur fyrir svo fljótt sem unnt er.
     d.      Við 5. mgr. bætist: að jafnaði innan tveggja vikna.

32. gr.

    Á eftir 63. gr. laganna kemur ný grein, 63. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Réttindi barns við málsmeðferð.


    Barn sem er aðili máls samkvæmt ákvæðum þessa kafla hefur öll þau réttindi sem aðild fylgja.
    Gefa skal barni sem ekki er aðili kost á að tjá sig um mál í samræmi við aldur þess og þroska nema dómari telji að afstaða barns komi fram með nægilega skýrum hætti í gögnum máls.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Með fóstri er í lögum þessum átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum umsjá barns í a.m.k. þrjá mánuði þegar fyrir liggur að:
                  a.      foreldrar hafa afsalað sér forsjá eða umsjá og samþykkt fósturráðstöfun,
                  b.      kveðinn hefur verið upp úrskurður um heimild til að fóstra barn utan heimilis þegar samþykki foreldra og barns eftir atvikum liggur ekki fyrir,
                  c.      foreldrar hafa verið sviptir forsjá með dómi,
                  d.      barn er forsjárlaust vegna andláts forsjáraðila eða
                  e.      barn sem komið hefur til landsins án forsjáraðila sinna er í umsjá barnaverndarnefndar eða fær hæli eða dvalarleyfi á Íslandi.
     b.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Með tímabundnu fóstri er átt við að fóstur vari í afmarkaðan tíma þegar ætla má að unnt verði að bæta aðstæður þannig að barnið muni geta snúið aftur til foreldra sinna án verulegrar röskunar á högum þess eða þegar áætlað er að annað úrræði taki við innan afmarkaðs tíma. Tímabundið fóstur skal ekki vara samanlagt lengur en tvö ár nema í algerum undantekningartilvikum þegar það þjónar hagsmunum barns.

34. gr.

    Síðari málsliður 2. mgr. 66. gr. laganna orðast svo: Barnaverndarstofa veitir væntanlegum og starfandi fósturforeldrum fræðslu, almennar leiðbeiningar og annan almennan faglegan stuðning.

35. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 67. gr. laganna fellur brott.

36. gr.

    Á eftir 67. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 67. gr. a og 67. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (67. gr. a.)

Réttarstaða foreldris sem ekki fer með forsjá barns.


    Ef foreldri sem fer eitt með forsjá barns afsalar sér umsjá eða forsjá þess skv. 25. gr., eða kveðinn er upp úrskurður um tímabundna vistun barns utan heimilis skv. 27. eða 28. gr., eða forsjársvipting á sér stað skv. 29. gr. skal barnaverndarnefnd kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til hins foreldrisins.
    Sé talið barni fyrir bestu að hitt foreldrið taki við umsjá meðan tímabundin ráðstöfun varir gilda um það sömu reglur og um tímabundið fóstur eftir því sem við á .
    Barnaverndarnefnd er heimilt, ef hún telur hagsmuni barns best tryggða með þeim hætti, að afsala forsjá þess til hins foreldrisins. Í þeim tilvikum metur barnaverndarnefndin hæfni foreldrisins og gerir skriflegan samning um breytta forsjá. Um réttindi barns fer skv. 70. gr.
    Áður en barni er ráðstafað í fóstur skal barnaverndarnefnd ávallt leita umsagnar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns.

    b. (67. gr. b.)

Réttarstaða foreldris sem barn býr ekki hjá


þegar um sameiginlega forsjá er að ræða.


    Ef foreldri sem barn býr hjá þegar báðir fara sameiginlega með forsjána afsalar sér umsjá barns skv. 25. gr. eða kveðinn er upp úrskurður um tímabundna vistun barns utan heimilis skv. 27. eða 28. gr. skal barnaverndarnefnd kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til hins foreldrisins.
    Sé talið barni fyrir bestu að hitt foreldrið taki við umsjá meðan tímabundin ráðstöfun varir metur barnaverndarnefnd hæfi foreldrisins og gerir skriflegan samning um umsjána. Ef barnaverndarnefnd telur barni fyrir bestu að aðrir taki við umsjá getur hitt foreldrið sem óskað hefur eftir að fá umsjá barns skotið synjun til kærunefndar barnaverndarmála.
    Ef foreldri sem barn býr hjá þegar báðir fara sameiginlega með forsjána afsalar sér forsjá skv. 25. gr. eða er eitt svipt forsjá skv. 29. gr. þá fer hitt foreldrið eftir það eitt með forsjá barnsins. Um réttindi barns fer skv. 70. gr.

37. gr.

     Í stað orðsins „kynforeldra“ í e-lið 68. gr. laganna kemur: foreldra.

38. gr.

    1. og 2. mgr. 70. gr. laganna orðast svo:
    Eftir að foreldri hefur afsalað sér umsjá eða forsjá eða verið svipt umsjá eða forsjá barns samkvæmt ákvæðum laga þessara á barn rétt á umgengni við foreldra eða aðra sem eru því nákomnir enda samrýmist það hagsmunum þess. Um umgengni fer í öllum tilvikum skv. 74. gr. óháð því hver tekur við umsjá eða forsjá barns.
    Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur skal veita barni nauðsynlegan stuðning samkvæmt fóstursamningi á meðan fóstur varir. Ef foreldri barns tekur við umsjá eða forsjá þess skv. 67. gr. a eða 67. gr. b skal barnaverndarnefnd sem farið hefur með málið kanna sérstaklega þörf barns fyrir áframhaldandi stuðning. Ef þörf krefur skal barnaverndarnefnd í þessum tilvikum gera áætlun um stuðningsúrræði í samvinnu við foreldri skv. 23. gr.

39. gr.

    71. gr. laganna fellur brott.

40. gr.

     Í stað orðsins „kynforeldrum“ í 72. gr. laganna kemur: foreldrum.

41. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 74. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „kynforeldra“ í 1., 3. og 4. mgr., orðsins „Kynforeldrar“ í 2. mgr., orðsins „kynforeldri“ í 4. mgr. og orðsins „kynforeldrum“ í 7. mgr. kemur: foreldra; Foreldrar; foreldri; og: foreldrum.
     b.      3. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      8. mgr. orðast svo:
                  Þeir sem umgengni eiga að rækja geta skotið úrskurði samkvæmt þessari grein til kærunefndar barnaverndarmála.

42. gr.

    Á eftir 74. gr. laganna kemur ný grein, 74. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Réttarstaða fósturforeldra við ákvörðun um umgengni.


    Ávallt skal kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið er frá samningi eða kveðinn upp úrskurður um umgengni.
    Fósturforeldrar barns í varanlegu fóstri eru aðilar að máli um umgengni skv. 74. gr. Þessir fósturforeldrar taka þannig þátt í gerð samnings um umgengni, geta óskað breytinga á áður ákvarðaðri umgengni, eru aðilar að úrskurðarmáli og geta skotið úrskurði um umgengni til kærunefndar barnaverndarmála.

43. gr.

    75. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélag sem ráðstafar barni í fóstur ber ábyrgð á að greiða fósturforeldrum framfærslueyri, fósturlaun og eftir atvikum annan útlagðan kostnað vegna barnsins sem leiðir af ákvæðum laga þessara.
    Um fjárhæðir skv. 1. mgr. og skiptingu kostnaðar vegna fósturs á grundvelli 4. mgr. 65. gr. fer samkvæmt reglugerð í samræmi við ákvæði 2. mgr. 88. gr.
    Fósturforeldrar og fósturbarn eiga rétt á allri almennri þjónustu samkvæmt lögum og fer almennt um kostnað vegna þeirrar þjónustu samkvæmt þeim lögum sem gilda á hverju sviði. Hverju sveitarfélagi er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn, sem ráðstafað hefur verið í tímabundið fóstur til fósturforeldra sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar. Um greiðslu kostnaðar vegna skólagöngu barnsins fer samkvæmt grunnskólalögum.

44. gr.

    76. gr. laganna fellur brott.

45. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 79. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Ráðuneytið ber ábyrgð á að tiltæk séu heimili og stofnanir til að:
                  a.      veita börnum móttöku í bráðatilvikum til að tryggja öryggi þeirra eða vegna eigin hegðunar þeirra,
                  b.      greina vanda barna, kanna aðstæður þeirra og meta þörf fyrir meðferð eða stuðning,
                  c.      veita börnum sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota og
                  d.      veita börnum móttöku vegna ófullnægjandi heimilisaðstæðna eða sérstakra þarfa barna, svo sem í kjölfar meðferðar.
     b.      Í stað 3. og 4. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Heimili og stofnanir skv. 1. mgr. lúta faglegri og fjárhagslegri yfirstjórn Barnaverndarstofu og getur hún mælt fyrir um tiltekna sérhæfingu þeirra.

46. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 80. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimili sem barn er tengt tilfinningalegum tengslum skal ganga fyrir um vistun uppfylli það skilyrði laganna að öðru leyti og ef talið er barni fyrir bestu að vistast þar.
     b.      3. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðanna „samninga um vistun barns, skyldur barnaverndarnefnda og eftirlit með heimili“ í 5. mgr. kemur: samninga um vistun barns og skyldur barnaverndarnefnda.

47. gr.

     Í stað orðsins „kynforeldra“ í 1. og 4. mgr., orðsins „Kynforeldrar“ í 2. mgr., orðsins „kynforeldri“ í 4. mgr. og orðsins „kynforeldrum“ í 8. mgr. 81. gr. laganna kemur: foreldra; Foreldrar; foreldri; og: foreldrum.

48. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Öll starfsemi heimila og stofnana skv. 79. gr. skal miða að því að tryggja börnum rétt til einkalífs, rétt til að ráða persónulegum högum sínum og rétt til að hafa samskipti við aðra, allt eftir því sem samræmist best aldri barnsins og þroska þess og að því marki sem það samræmist tilganginum með vistun þess á heimili eða stofnun og ábyrgð á starfseminni, velferð og öryggi barnsins og annarra.
     b.      B- og c-liður 3. mgr. orðast svo:
        b.     beita þvingunarráðstöfunum eða alvarlegum agaviðurlögum nema það teljist nauðsynlegt til að ná lögmætum markmiðum, til verndar lífi, heilsu og þroska viðkomandi barns eða annarra barna, lífi eða heilsu starfsmanna eða til verndar eignum,
        c.     hafa eftirlit með póstsendingum, tölvusamskiptum og símtölum barns nema nauðsyn beri til, m.a. að teknu tilliti til markmiðs vistunar.

49. gr.

    83. gr. laganna fellur brott.

50. gr.

    84. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Vistúrræði á vegum barnaverndarnefnda.


    Barnaverndarnefndir skulu gera samninga við vistforeldra á einkaheimili eða skipuleggja vistúrræði á annan hátt, til að veita barni móttöku sem nauðsynlegt reynist að vista utan heimilis, þegar slíkt úrræði þykir henta barninu betur en vistun á heimili eða stofnun skv. 79. gr.
    Heimilt er að vista barn á einkaheimili samkvæmt þessari grein að jafnaði í allt að þrjá mánuði. Ef vistun er ætlað að vara í lengri tíma fer að jafnaði um það eftir ákvæðum laganna um fóstur.
    Barnaverndarnefnd sem óskar eftir að gera samning við vistforeldri eða setja á laggirnar annað úrræði fyrir tiltekið barn skal sækja um leyfi Barnaverndarstofu. Ef vistforeldri er búsett í umdæmi annarrar barnaverndarnefndar skal fylgja yfirlýsing barnaverndarnefndar þess umdæmis um að hún sjái ekkert því til fyrirstöðu að leyfi verði veitt.
    Barnaverndarnefnd veitir þeim vistforeldrum sem starfa á vegum nefndarinnar fræðslu og annan faglegan stuðning eftir því sem þörf krefur.
    Ákvæði 1. og 3. mgr. 80. gr. og 81. og 82. gr. eiga við um vistun barns skv. 1. mgr. eftir því sem við á.
    Ráðherra setur reglugerð að fengnum tillögum Barnaverndarstofu um úrræði samkvæmt þessu ákvæði þar sem m.a. skal kveða á um skilyrði fyrir leyfisveitingu, útgáfu leyfis, ráðstöfun barns og samninga um vistun.

51. gr.

    Fyrirsögn XIV. kafla laganna verður: Úrræði á ábyrgð sveitarfélaga.

52. gr.

    Við 87. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sveitarstjórn sem ráðstafar barni í vistun á heimili eða stofnun skv. 79. gr. greiðir til ríkisins gjöld sem nema hluta kostnaðar við rekstur úrræða í samræmi við ákvæði 2. mgr. 88. gr.

53. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 88. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: að frádregnum gjöldum skv. 2. mgr. 87. gr.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Ráðuneytið setur að fengnum tillögum Barnaverndarstofu, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fóstur- og vistforeldra , reglugerð um fjárhæð gjalda sem sveitarfélögum ber að greiða skv. 2. mgr. 87. gr., svo og um greiðslutilhögun og önnur atriði. Ráðuneytið setur með sama hætti reglugerð um fjárhæðir sem greiddar eru vegna barna í fóstri skv. 75. gr. og um hlut ríkisins í kostnaði vegna fósturs á grundvelli 4. mgr. 65. gr. Verði vanhöld á því að sveitarfélag greiði þau gjöld sem því ber samkvæmt reglugerðinni skal Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiða Barnaverndarstofu það sem eftir verður eigi síðar en 31. desember ár hvert. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga innheimtir þá greiðslu hjá viðkomandi sveitarfélagi með því að draga umrædda greiðslu af jöfnunarframlögum til viðkomandi sveitarfélags.

54. gr.

    Á eftir XV. kafla laganna kemur nýr kafli, XV. kafli A, Mat og eftirlit með gæðum úrræða og vistun barna utan heimilis, með fjórum nýjum greinum, 89. gr. a – 89. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (89. gr. a.)

Markmið.


    Markmið mats og eftirlits með gæðum úrræða og vistun barna utan heimilis er að:
     a.      tryggja að fyrirkomulag úrræða og framkvæmd vistunar barna utan heimilis sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða, staðla og reglna samkvæmt ákvæðum laga þessara,
     b.      tryggja að ráðstöfun nái tilgangi sínum og að réttindi barna séu virt,
     c.      auka gæði úrræða og stuðla að umbótum og
     d.      safna upplýsingum um vistun barna utan heimilis, þörf fyrir úrræði, nýtingu, árangur og þróun.

    b. (89. gr. b.)

Hlutverk barnaverndarnefndar.


    Hver barnaverndarnefnd metur gæði og árangur vistúrræða á vegum barnaverndarnefndar.
Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í vistun eða fóstur skal fylgjast náið með aðbúnaði og líðan barnsins og því að ráðstöfun nái tilgangi sínum. Barnaverndarnefnd aflar nauðsynlegra upplýsinga í þessu skyni eftir því sem ástæða þykir til. Barnaverndarnefnd skal leitast við að vera í reglubundnu sambandi við barn sem vistað er utan heimilis og gefa barni kost á að tjá sig um aðbúnað og líðan sína í samræmi við aldur og þroska.
    Barnaverndarnefnd skal heimsækja með reglubundnum hætti börn sem vistuð eru á vegum nefndarinnar á heimilum og stofnunum. Barnaverndarnefnd skal heimsækja fósturheimili eins oft og ástæða þykir til, þó eigi sjaldnar en tvisvar sinnum fyrsta árið sem ráðstöfun varir og einu sinni á ári eftir það.
    Barnaverndarnefnd skal grípa til viðeigandi ráðstafana vegna barns, svo sem að rifta samningi um fóstur eða vistun, ef í ljós kemur að meðferð barnsins í fóstri, á heimili, stofnun eða í öðru vistúrræði er óviðunandi eða aðstæður hafa breyst þannig að ekki sé sýnt að aðbúnaður og öryggi barnsins sé tryggt.
     Ráðherra setur að höfðu samráði við Barnaverndarstofu reglugerð um eftirlit barnaverndarnefnda, m.a. um heimsóknir á fósturheimili.

    c. (89. gr. c.)

Hlutverk Barnaverndarstofu.


    Barnaverndarstofa metur þörf fyrir úrræði fyrir börn sem vistast utan heimilis, safnar upplýsingum um ráðstafanir og metur árangur tiltekinna úrræða með það að markmiði að auka gæði og stuðla að umbótum.
    Barnaverndarstofa metur gæði og árangur þeirra úrræða sem ríkið ber ábyrgð á að séu tiltæk skv. 79. gr.
    Barnaverndarstofa hefur eftirlit með því að úrræði á ábyrgð sveitarfélaga skv. 84. gr. uppfylli hverju sinni þær kröfur sem gerðar eru í lögum, reglugerðum og stöðlum. Ef Barnaverndarstofa telur að úrræði uppfylli ekki þær kröfur sem eru gerðar getur stofan svipt barnaverndarnefnd leyfi til að nýta tiltekið úrræði.
    Barnaverndarnefnd getur skotið ákvörðunum Barnaverndarstofu um leyfisveitingar og leyfissviptingar til kærunefndar barnaverndarmála.

    d. (89. gr. d.)

Hlutverk ráðuneytisins.


    Ráðuneytið hefur eftirlit með því að úrræði á ábyrgð ríkisins uppfylli hverju sinni þær kröfur sem gerðar eru í lögum, reglugerðum, stöðlum og þjónustusamningum þegar það á við. Í þessu skyni felur ráðuneytið óháðum sérfræðingi að heimsækja heimili og stofnanir skv. 79. gr. að lágmarki einu sinni á ári. Sérfræðingur skal sérstaklega leitast við að gefa börnum kost á að tjá sig um aðbúnað og líðan sína í samræmi við aldur og þroska og markmið með vistun.
    Ráðuneytið setur reglugerð að fengnum tillögum Barnaverndarstofu um mat og eftirlit samkvæmt ákvæðum kafla þessa, m.a. nánar um markmið, áherslur og aðferðir.

55. gr.

     Við 91. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sækja skal um leyfi samkvæmt ákvæði þessu fyrir heimili fyrir börn sem glíma við fjölþættan vanda þó svo að starfsemi slíkra heimila heyri jafnframt undir önnur lög, t.d. lög um málefni fatlaðs fólks.

56. gr.

    2. mgr. 99. gr. laganna orðast svo:
    Hver sá sem hvetur barn til lögbrota, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða annarrar hegðunar sem stefnir heilsu barnsins og þroska eða lífi og heilsu annarra í alvarlega hættu skal sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.

57. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Lög þessi gilda um öll þau mál sem eru í gangi við gildistöku þeirra, óháð því hvort atvik þau sem mál er sprottið af hafi að einhverju eða öllu leyti átt sér stað í tíð eldri laga, þó með þeim frávikum sem tilgreind eru í 3.–9. mgr.
    Ákvæði a-liðar 2. gr. gildir um úrskurði og ákvarðanir sem teknar eru eftir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 18. gr. gildir um val á þeim sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis eftir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 2. efnismgr. 25. gr. gildir um þau mál sem berast kærunefnd eftir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði b-liðar 26. gr. og 27. gr. gilda um þau mál sem þingfest eru eftir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 31. og 32. gr. gilda um mál sem borin eru undir dóm eftir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 2. málsl. 1. efnismgr. og 2. og 3. málsl. 2. efnismgr. 38. gr. gilda um umgengni og stuðning í tilvikum foreldra sem tekið hafa við umsjá eða forsjá barns með sérstökum samningi samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga eftir gildistöku laga þessara.
    Ákvæði 2. mgr. 43. gr. og 44.–46. og 49.–54. gr. taka gildi 1. janúar 2013.