Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 721. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1530  —  721. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 106/1999, um Byggðastofnun.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar að lokinni 2. umræðu. Hefur nefndin fengið á sinn fund Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Bjarna Jónsson, Ásmund Sverri Jónsson, Drífu Hjartardóttur og Sturlu Böðvarsson úr stjórn Byggðastofnunar.
    Nefndinni bárust ábendingar um að ekki væri tímabært að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á stjórn Byggðastofnunar meðan sérstök nefnd hefði það hlutverk að endurskoða lánahluta stofnunarinnar.
    Meiri hlutinn áréttar það sem fram kemur í áliti meiri hluta nefndarinnar um frumvarpið (þskj. 1409) að með þessari breytingu er hægt að ná fram hagræðingu án þess að það bitni á starfsemi stofnunarinnar. Það er í samræmi við stefnu stjórnvalda um fækkun stjórnarmanna í stjórnsýslustofnunum og hagræðingu í ríkisrekstri, eins og nokkur dæmi eru til um.
    Þá telur meiri hlutinn að samþykkt frumvarpsins hafi ekki áhrif á endurskoðun lánahluta stofnunarinnar. Meiri hlutinn tekur hins vegar undir það sjónarmið sem fram kom hjá stjórn Byggðastofnunar að þörf sé á heildarendurskoðun á lögum um Byggðastofnun. Vill meiri hlutinn beina því til iðnaðarráðherra að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að taka löggjöfina til gagngerrar endurskoðunar og horfa heildstætt á hlutverk stofnunarinnar og verkefni hennar og laga löggjöfina að breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu.
    Meiri hlutinn hvetur til þess að þeirri vinnu verði hraðað og frumvarp lagt fram í haust á nýju þingi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 25. maí 2011.



Kristján L. Möller,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir,           með fyrirvara.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.


Magnús Orri Schram.


Þráinn Bertelsson,


með fyrirvara.