Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 306. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1538  —  306. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um undirbúning að stofnun björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsögn frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er lagt til að dómsmála- og mannréttindaráðherra í samvinnu við utanríkisráðherra verði falið að skipa starfshóp sem vinni að undirbúningi stofnunar björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna. Lagt er til að starfshópurinn skili ráðherra tillögum sínum eigi síðar en 1. desember 2011.
    Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni er á Íslandi mikil þekking á björgunarmálum, jafnt hjá opinberum aðilum sem félagasamtökum. Hér er náttúra og allar aðstæður þannig að óvíða í heiminum er slíkt að finna. Íslenskir björgunarmenn hafa reynslu af björgun úr sjávarháska, eru vanir að takast á við foráttuveður á landi, snjóflóð, jarðskjálfta, björgun af jökli, umfangsmiklar leitir á erfiðum landsvæðum o.s.frv. Af þeim sökum virðast hér vera kjöraðstæður, fyrir þjóðir með veikar stoðir á þessu sviði, að læra af reynslu Íslendinga og öðlast þar með meiri færni við björgunarstörf.
    Nefndin hefur kynnt sér það öfluga starf sem unnið er innan stofnana Háskóla Sameinuðu þjóðanna hérlendis, Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans og Landgræðsluskólans auk tilraunaverkefnis um jafnréttisskóla sem nú er í gangi. Meiri hlutinn telur fulla ástæðu til að kanna grundvöll þess að stofna björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en telur ekki rétt að kveða afdráttarlaust á um að slíkan undirbúning skuli hefja nema að undangenginni rækilegri skoðun. Meiri hlutinn leggur því til þær breytingar á tillögugreininni að starfshópi verði falið að meta kosti þessa og galla og skuli skila niðurstöðu sinni til ríkisstjórnarinnar fyrir 1. janúar 2012.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að kanna grundvöll fyrir stofnun björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna, kosti þess og galla. Starfshópurinn skili niðurstöðu sinni til ríkisstjórnarinnar eigi síðar en 1. janúar 2012.

    Birgitta Jónsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. maí 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Helgi Hjörvar.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.