Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 719. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1547  —  719. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Þórð Reynisson frá iðnaðarráðuneytinu. Þá bárust umsagnir frá Hafrannsóknastofnuninni, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun og Samtökum iðnaðarins.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, en tilefni þess er af tvennum toga. Í fyrsta lagi er það liður í undirbúningi næsta útboðs á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis í íslenskri efnahagslögsögu á svonefndu Drekasvæði við Jan Mayen-hrygginn og í annan stað er það komið til vegna þeirra athugasemda sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við það skilyrði núgildandi laga að leyfishafi verði að vera skráður aðili hér á landi.
    Með frumvarpinu er lögð fram skilgreining á samstarfssamningi um framkvæmd leyfis þegar handhafar leyfis til rannsókna eru fleiri en einn. Þessi samstarfssamningur skal kveða á um hlutverk og skyldur aðila sem og um skaðabætur, en ef handhafar leyfis eru fleiri en einn skal beina skaðabótakröfu beint að rekstraraðila leyfisins. Nefndin bendir á að hver og einn leyfishafi er engu að síður skattskyldur aðili. Hugtakið rekstraraðili er einnig skilgreint í frumvarpinu en það er sá aðili sem sér um daglega stjórn kolvetnisstarfseminnar fyrir hönd leyfishafa. Með þessu er sett fram það skilyrði fyrir sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis að rekstraraðili verði skipaður fyrir sérhvert leyfi sem veitt er. Nefndin er sammála því að mikilvægt sé að skilgreina stöðu rekstraraðila með hliðsjón af mikilvægi hans. Nefndin bendir einnig á að ekki er sett skilyrði um að rekstraraðili sé jafnframt leyfishafi og því er ekkert því til fyrirstöðu að utanaðkomandi aðili geti starfað sem rekstraraðili. Nefndin leggur á það áherslu að mikilvægt er í ljósi stöðu rekstraraðila að velja hann af kostgæfni.
    Í frumvarpinu er lagt til að íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum teljist sérstakt félag. Ekki var talin ástæða til að gera þá kröfu að stofnað yrði sérstakt félag hér á landi um starfsemina en það var skoðað með tilliti til skattalegra sjónarmiða. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið, að nægilegt sé að gera kröfu um íslenskt útibú eða umboðsskrifstofu félags. Vill nefndin benda á að norsk stjórnvöld hafa ekki gert kröfu um að stofnað sé og skráð sérstakt félag.
    Fram kom hjá umsagnaraðila að samkvæmt skilgreiningu á leyfishafa, sbr. 6. mgr. 2. gr. laganna, er verið að leggja íþyngjandi kröfur á herðar leitarleyfishafa hvað varðar skattlagningu og skráningarskyldu og það sé í engu samræmi við eðli þeirra framkvæmda. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið. Uppi hafa verið ýmis vandkvæði varðandi skattlagningu leyfishafa en leyfishafi hefur verið skilgreindur sem skráður aðili hér á landi sem hefur fengið leyfi til leitar, rannsóknar og/eða vinnslu kolvetnis. Nefndin bendir á að frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna skattlagningar á kolvetnisvinnslu er til meðferðar hjá efnahags- og skattanefnd Alþingis. Þar verða gerðar þær breytingar að skattskyldar tekjur skapist eingöngu af starfsemi sem bundin er við sérleyfi en ekki við leyfishafa. Nefndin tekur undir þessar breytingar. Nefndin vill einnig árétta varðandi skráningarskyldu leyfishafa að ekki er talin ástæða til að gera þá kröfu að aðili sem fær leyfi til leitar skv. III. kafla laganna sé skráður aðili hér á landi eða með skráð útibú hér á landi. Er þar um íþyngjandi kröfu á leyfishafa að ræða. Nefndin leggur til að hugtakið leitarleyfishafi merki í lögunum aðila sem hefur fengið leyfi til leitar að kolvetni skv. III. kafla laganna. Til nánari skýringar getur leitarleyfishafi verið skip sem á leið um svæðið og notar ferðina til leitar. Nefndin telur ekki ástæðu til að slíkur aðili sé skráður sérstaklega hér á landi. Nefndin leggur til að ekki sé gerð slík krafa um sérstaka skráningarskyldu til leitarleyfishafa á sama hátt og gert er til leyfishafa skv. IV. kafla laganna.
    Í gildandi löggjöf um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis er mælt fyrir um að kolvetnisstarfsemi og tengd starfsemi skuli rekin frá stöð á Íslandi, sbr. 7. mgr. 10. gr. laganna. Stjórnvöld hér á landi hafa verið í þeirri trú að ákvæðið rúmaðist innan þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland er bundið af, þar sem ákvæðið miði fyrst og fremst að því að tryggja öryggi og almannahagsmuni. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur hins vegar nýverið, með bréfi til íslenskra stjórnvalda, bent á að framangreint ákvæði feli í sér brot á skuldbindingum okkar að EES-rétti, nánar tiltekið að það eigi að vera hægt að veita þessa þjónustu frá stöð sem staðsett er innan Evrópska efnahagssvæðisins en ekki megi skuldbinda þjónustuna alfarið við Ísland. ESA hefur sent sams konar athugasemdir til Norðmanna sem hafa fallist á að gera breytingar á þessu lagaskilyrði. Nefndin bendir á að þær breytingar sem hér eru lagðar til taka mið af tillögum Norðmanna sem ESA hefur samþykkt. Breytingarnar miða við að koma til móts við athugasemdir ESA, sem og tryggja með sem bestum hætti öryggi og almannahagsmuni. Nefndin ítrekar að stjórnvöld geta eftir sem áður, undir vissum kringumstæðum, sett fram sérstakar kröfur til leyfishafa til að nota ákveðnar stöðvar sem og takmarkað fjarlægð þeirra frá viðkomandi rannsóknar- og vinnslusvæði, að teknu tilliti til þeirra reglna sem gilda um meðalhóf.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. maí 2011.



Kristján L. Möller,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Gunnar Bragi Sveinsson.


Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara.


Þráinn Bertelsson.



Magnús Orri Schram.


Jón Gunnarsson,
með fyrirvara.