Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 734. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1550  —  734. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um námsstyrki, nr. 79/2003.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur og Jennýju Báru Jensdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Þá bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi framhaldsskólakennara og Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og umboðsmanni barna.     Tilgangur laga um námsstyrki, nr. 79/2003, er einkum að veita námsstyrki til að jafna fjárhagslegan aðstöðumun framhaldsskólanema sem helgast af búsetu eða efnaleysi. Námsstyrkir eru einkum af tvennum toga: dvalarstyrkir og styrkir til skólaaksturs. Með frumvarpinu er ætlunin að auka jafnræði einstaklinga til náms á framhalds- og háskólastigi, með áherslu á að koma til móts við nemendur sem ekki uppfylla skilyrði um lánveitingar úr Lánasjóði íslenskra námsmanna. Dæmi eru um að nemendur sem ekki uppfylla skilyrði til töku námslána hafi misst námsstyrk við að hefja nám í háskóla áður en þeir ná 18 ára aldri. Til að mæta slíku ójafnræði er ætlunin að víkka út gildissvið laganna þannig að þau nái einnig til háskólanáms en ekki einungis náms í framhaldsskólum. Meðal helstu breytinga er að háskólanemar yngri en 18 ára sem ekki eru fjárráða og eiga þar af leiðandi ekki kost á námsláni geta nú sótt um námsstyrki verði frumvarpið að lögum. Þá er einnig leitast við að jafna aðstöðu þeirra námsmanna sem stunda nám erlendis í sérhæfðum skólum sem ekki telst lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna en svo háttar til að ekki er hægt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili viðkomandi námsmanns hér á landi. Þetta ákvæði snertir einkum afreksfólk í íþróttum og nemendur í listdansi á framhaldsskólastigi.
    Sú breyting er einnig gerð á námsstyrkjanefnd að nefndarmönnum er fækkað um tvo, úr fimm í þrjá. Með þeirri breytingu verður nefndin skipuð tveimur fulltrúum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti án tilnefningar og einn verður skipaður eftir tilnefningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndin leggur á það áherslu að annar fulltrúinn sem skipaður verður af mennta- og menningarmálaráðherra sé fulltrúi nemenda.
    Rétt er að vekja athygli á því að í athugasemdum við frumvarpið er hnykkt á þeim skilningi að lögin um námsstyrki veita erlendum ríkisborgurum tiltekinn rétt til námsstyrkja, þar á meðal ríkisborgurum Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, EES-ríkja og flóttamönnum sem veitt hefur verið dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
    Frumvarpið tekur fyrst og fremst til úthlutunarreglna námsstyrkja. Nefndin tekur undir með umsagnaraðilum að hér er skref stigið í þá átt að auka jafnrétti til náms á Íslandi sem er mikilvæg forsenda almennrar velferðar í samfélaginu. Nefndin leggur áherslu á að hugað verði að heildarendurskoðun opinberrar námsaðstoðar á Íslandi í þeirri vinnu sem framundan er við endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna til að tryggja jafnræði milli nemenda á mismunandi skólastigum.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 3. gr. bætist við nýr stafliður, a-liður, svohljóðandi: Í stað orðsins „Menntamálaráðherra“ í 1. málsl. kemur: Ráðherra.
     2.      4. gr. orðist svo:
                   Í stað orðsins „menntamálaráðherra“ í 6. og 8. gr. laganna kemur: ráðherra.

    Þuríður Backman var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. maí 2011.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Oddný G. Harðardóttir.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.


Íris Róbertsdóttir.