Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 824. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1638  —  824. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum (í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga o.fl.).

Frá 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um virðisaukaskatt og fleiri lögum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var í tengslum við undirritun kjarasamninga 5. maí sl.
    1. minni hluti fagnar 6 gr. frumvarpsins sem á að tryggja að persónuafsláttur taki breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Persónuafslátturinn mun breytast frá og með 1. janúar 2012 og þaðan í frá árlega. Vísitölubindingin mun koma í veg fyrir að skattbyrði þeirra sem lægstu tekjurnar hafa þyngist vegna rýrnunar persónuafsláttar. Hér er þó um 3 milljarða kr. kostnaðarauka fyrri ríkisjóð að ræða sem ekki verður séð að sé mætt annars staðar í frumvarpinu með nýrri tekjuöflun.
    Breytingartillögur meiri hlutans á ákvæðum frumvarpsins sem viðkoma álagningu auðlegðarskatts og arðs eru til bóta. Tillögurnar miða að því að einfalda fyrirkomulag auðlegaðarskatts og er lagt til að hann verði ekki lagður á í tvennu lagi, þ.e. á nettóeignir aðrar en eigið fé/hlutafé á 1. ári og síðan eigið fé/hlutafé á 2. ári, heldur í einu lagi. Meiri hlutinn leggur til þrenns konar breytingar á skattlagningu arðs. Í fyrsta lagi er lagt til að viðmið um lágmarkseignarhald við mat á því hver sé ráðandi aðili verði hækkað úr 2% í 20% til að ákvæðið vinni ekki gegn dreifðu eignarhaldi. Í öðru lagi er lagt til að sá hluti arðsins sem skattleggst sem laun verði skattlagður í hærra þrepi en samkvæmt frumvarpinu til þess m.a. að bæta ríki og sveitarfélögum upp tekjutap vegna breytinga á ákvæðinu um hver sé ráðandi aðili. Í þriðja lagi gerir meiri hlutinn tillögu um að sá hluti arðsins sem skattleggst sem laun myndi hvorki stofn til tryggingagjalds né lífeyrisiðgjalds og hann myndi ekki heldur frádráttarbæran rekstrarkostnað hjá greiðanda.
    1. minni hluti telur mikilvægt að 10 gr. frumvarpsins verði samþykkt til að draga sem fyrst úr tapi ríkissjóðs vegna rafrænna kaupa á þjónustu frá útlöndum. Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði sú breyting varðandi rafrænt afhenta þjónustu að þegar aðili sem er með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis selur þjónustu til aðila sem ekki er skráður skv. 5. gr. og með heimilisfesti eða fasta starfsstöð á Íslandi skuli seljandi skila virðisaukaskattinum í ríkissjóð. Samkvæmt núgildandi ákvæði ber aðila sem kaupir rafrænt afhenta þjónustu að innheimta og skila virðisaukaskatti vegna kaupanna nema hann hafi heimild til að telja virðisaukaskattinn til innskatts.
    Í 9 gr. frumvarpsins er lagt til að lífeyrissjóðirnir greiði sérstakan eignarskatt til að fjármagna hluta af sérstakri vaxtaniðurgreiðslu til heimila á árunum 2011 og 2012. Reiknað er með að heildarupphæð hinnar sérstöku vaxtaniðurgreiðslu nemi 12 milljörðum kr. sem koma til greiðslu tvisvar á ári, 1. maí og 1. ágúst, á þessu ári og árinu 2012. Gert er ráð fyrir að ríkið fjármagni greiðsluna og innleiðingu sérstaks eignaskatts á lífeyrissjóði og með hækkun svokallaðs bankaskatts (15 gr.). Fjármálaeftirlitið (FME) bendir á að hér sé um að ræða grundvallarbreytingu á meginreglu laga um tekjuskatt sem undanskilur lífeyrissjóði frá tekjuskattsskyldu. Ekkert fordæmi er að finna um slíkan eignaskatt á lífeyrissjóði í skattalögum nágrannalandanna. 1. minni hluti tekur undir með FME um að sérstakur eignaskattur skapi varasamt fordæmi um skattlagningu eigna lífeyrissjóðanna til að fjármagna einstaka verkefni. Gagnrýnisvert er að ekki skuli liggja fyrir útreikningar á hvaða áhrif skattlagning þessi muni hafa á tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðanna. Skatturinn leggst auk þess þyngra á sjóði sem eru að fullu fjármagnaðir með sjóðssöfnun en þeim sem byggjast á meira mæli á gegnumstreymi. 1. minni hluti leggur því til að 9 gr. falli brott.
    Lífeyrissjóðakerfið byggist á greiðslum iðgjalda í sjóðina til öflunar lífeyrisréttinda. Sjóðamyndunin hefur jafnframt verið byggð upp með því að fresta skattlagningu iðgjaldagreiðslna og ávöxtunar iðgjalda þar til að útgreiðslu kemur. Um 40% af fjármagni sjóðanna er því skattfé sem þeir ávaxta fyrir hið opinbera. Þegar sjóðirnir ná ekki hærri ávöxtun en sem nemur fjármagnskostnaði ríkis og sveitarfélaga eru engin fjármálaleg rök fyrir því að skattleggja ekki inngreiðslur í sjóðina. Íslenskir lífeyrissjóðir eru þeir næststærstu innan OECD miðað við landsfraleiðslu en raunávöxtun þeirra á sparifé landsanna hefur verið lægri en almennt gerist frá því fyrir hrun. Það bendir til þess að þeir séu orðnir of stórir fyrir íslenskt efnahagslíf. Fjárfestingartækifæri hefur skort í íslensku atvinnulífi vegna tregðu stjórnvalda og banka til að leiðrétta skuldbindingar fyrirtækja og heimila. Gjaldeyrishöftin koma auk þess í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir geti fjárfest erlendis. Á hverju ári þurfa lífeyrissjóðirnir að finna fjárfestingartækifæri fyrir 120–150 milljarða kr. sem tryggi þeim a.m.k. 3,5% raunávöxtun. Skortur á arðbærum fjárfestingarkostum setur mikinn þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar en gengi hennar er varið með fjármagnshöftum til að koma í veg fyrir gengishrun.
    1. minni hluti hvetur stjórnarflokkanna til að taka til skoðunar skattlagningu iðgjaldagreiðslna við fjárlagagerð næsta árs og falla frá álagningu sérstaks eignaskatt sem mun leiða til skerðingar á kjörum lífeyrisþega, þar sem nota á skattinn til að fjármagna sérstakar vaxtaniðurgreiðslur en ekki til að efla hlut almannatryggingakerfisins í lífeyri. Jafnframt hvetur 1. minni hluti til þess að gerðar verði ráðstafanir til að leggja skatt á tekjuauka útflutningsfyrirtækja vegna of lágs gengis krónunnar. Of lágt gengi gjaldmiðils býr til mikinn tekjuauka hjá útflutningsfyrirtækjum sem veldur verðbólguþrýstingi. Draga má úr verðbólguþrýstingnum með því að skattleggja þann hluta tekjuaukans sem er til kominn vegna of lágs gengis.
    Í 15 gr. er kveðið á um hækkun sérstaks bankaskatts til að fjármagna sérstaka vaxtaniðurgreiðslu einstaklinga. Hækkun er að mati 1. minni hluta réttlætanleg í ljósi mikils hagnaðar bankanna á þessu ári. Hagnaðurinn er fyrst og fremst tilkominn vegna tregðu bankanna að láta niðurfærsluna á útlánasöfnunum sem færð voru yfir til þeirra frá gömlu bönkunum ganga til lántakenda. Auk þess er mikilvægt að allar fjármálastofnir taki þátt í aðgerðum sem hraða endurreisn efnahagslífsins.
    1. minni hluti leggst gegn 16 gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að samkomulag aðila vinnumarkaðarins um skyldu lífeyrissjóða og launagreiðenda til að greiða 0,13% af iðgjaldastofni sínum til VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs verði lögfest. Markmið VIRK er að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum. Á fjárlögum eru sex endurhæfingarstofnanir sem fá samtals tæpa 2,5 milljarða kr. úthlutað á þessu ári. Auk þess kostar rekstur Grensáss um 600 millj. kr. á ári. Framlag ríkisins til stofnana sem hafa með höndum endurhæfingu hefur lækkað umtalsvert frá hruni til að koma til móts við markmið ríkisstjórnarinnar um samdrátt í útgjöldum. Ef greiðsluskylda launagreiðenda og lífeyrissjóða verður lögfest má gera ráð fyrir að inn í VIRK renni álíka miklir fjármunir og nú fara til reksturs heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. 1. minni hluti tekur undir með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra um að þungbært sé að horfa á það gerast að framlög til endurhæfingar fatlaðs og sjúks fólks séu skorin niður innan almannaþjónustunnar en launþegasamtökin hafi þagað þunnu hljóði frá hruni og nánast reist þá kröfu eina í velferðarmálum að fá peninga inn í nýjar stofnanir, nýja sjóði undir eigin handarjaðri ( www.ogmundur.is/news.asp? ID=658&type=one&news_ID=5191).
    Eins og FME bendir á í umsögn sinni, felur greiðsluskylda lífeyrissjóðanna í sér grundvallarbreytingu á lögum um lífeyrissjóði. Framlagi í lífeyrissjóði verður þá varið til annarra verkefna en að tryggja sjóðsfélögum lífeyrisréttindi og það skapar varasamt fordæmi.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að skipun samráðsnefndar aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda skili af sér tillögum um annars vegar skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála og hins vegar um lagaramma um VIRK fyrir 1. nóvember nk. Lagarammann á innleiða fyrir 1. janúar 2012 en þá er gert ráð fyrir að 16 gr. falli úr gildi. Mikilvægt er að fyrir liggi áður en greiðsluskylda launagreiðenda og lífeyrissjóða verður lögfest hvernig skipulagi og samhæfingu starfsendurhæfingarmála verði háttað til að koma í veg fyrir þróun tvöfalds endurhæfingarkerfis, þ.e. eitt fyrir fólk á vinnumarkaði og annað fyrir þá sem standa þar fyrir utan. 1. minni hluti leggur því til að 16 gr. frumvarpsins falli brott, þannig að greiðsluskyldan verði ekki virk fyrr en samráðsnefndin hefur lokið störfum sínum og þær reglur sem eðlilegt er að settar verði um starfsemi VIRK liggja fyrir.
    1. minni hluti leggur til eftirfarandi

BREYTINGAR:



     1.      9. gr. falli brott.
     2.      16. gr. falli brott.

Alþingi, 6. júní 2011.



Lilja Mósesdóttir.