Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 788. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1643  —  788. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum.

Frá 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Í frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði reglur um gjaldeyrismál sem Seðlabanki Íslands hefur gefið út með samþykki efnahags- og viðskiptaráðuneytis á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða I í lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, sbr. reglur um gjaldeyrismál nr. 370 frá 29. apríl 2010, sbr. og leiðbeiningar gefnar út 4. maí 2010 með viðbótum 13. ágúst og 20. september sama ár. Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á reglunum sem miða að því að herða enn höftin. Framangreint ákvæði til bráðabirgða rennur út 31. ágúst nk. en sú dagsetning tekur mið af lengd efnahagsáætlunar Íslands í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Inngangur.
    
Í inngangskafla kennslubóka um alþjóðaviðskipti er yfirleitt að finna almenn varnaðarorð um skaðsemi gjaldeyrishafta. Höftum er gjarnan komið á til að bregðast við ástandi sem vísir menn telja að geti leitt til ófarnaðar vegna gengisfalls gjaldmiðilsins. Nauðsynlegt sé að hefta frelsi borgaranna til að eiga viðskipti með gjaldmiðilinn. Innleiðing hafta ber með sér að erlendir gjaldmiðlar séu eftirsóknarverðari en sá innlendi að mati ríkisstjórnar og seðlabanka. Tiltrú á gjaldmiðilinn hverfur sem gerir alla hagstjórn erfiða.
    Með tímanum reyna borgararnir að finna leiðir fram hjá höftunum sem leiðir aftur til þess að reglur um gjaldeyrishöftin verða stöðugt flóknari og nákvæmari. Reynt er að stoppa í götin. Refsingar við brotum eru hertar. Eftirlit er aukið og hið opinbera hnýsist sífellt meira í einkahagi fólks og fyrirtækja. Yfirvöld treysta sumum betur en öðrum og veita þeim undanþágu frá reglunum og það verður eftirsóknarvert og verðmætt að komast í forréttindahópinn. Þeir sem fengið hafa undanþágur gæta þess að styggja hvergi valdhafana enda getur það leitt til þess að undanþágur þeirra falli niður.
    Eftir því sem tímar líða verður sífellt erfiðara að finna leiðina að því að afnema höftin. Þau skref sem stjórnvöld treysta sér til að stíga í þeim efnum verða æ styttri og að lokum fer svo að tíminn sem það tekur að afnema höftin virðist nánast óendanlegur. Sífellt er unnið að því að finna ný rök fyrir því að áhættan af afnámi gjaldeyrishafta sé svo mikil að enn sé ekki runnin upp hin eina og sanna stund til að afnema þau. Betra sé að bíða og sjá til – kannski muni rofa til síðar. Jafnframt leggjast þeir sem hafa hagsmuni af höftunum harðlega gegn afnámi þeirra. Þetta er í hnotskurn reynsla okkar Íslendinga af gjaldeyrishöftum. Síðast tók um 60 ár að afnema gjaldeyrishöft á Íslandi.

Almenn umsögn.
    Höftin sem sett voru á haustið 2008 voru rökstudd sem neyðarráðstöfun til þess að koma í veg fyrir hrun á gengi krónunnar og var þeim ætlað að gilda í skamman tíma – einungis nokkra mánuði. Höftin hafa hins vegar smám saman verið fest í sessi og er ekki fyrirsjáanlegt að þau verði aflögð á næstu árum með ríkjandi viðhorfum ríkisstjórnar og Seðlabankans. Ber frumvarpið vott um einbeittan vilja stjórnvalda til að viðhalda höftunum. Frumvarpið ber vott um algjöra uppgjöf fyrir verkefninu. Viljinn til að viðhalda höftum er að mestu órökstuddur og hræðsluáróður helst notaður.
    Ekki verður séð að í tengslum við frumvarpið hafi aðrar leiðir verið kannaðar en núverandi fyrirkomulag gjaldeyrishafta – leiðir sem hefðu í för með sér minni velferðarkostnað fyrir borgarana. Það er þó ljóst að aðrar og kostnaðarminni leiðir eru til. Má þar m.a. nefna að skattlagning gjaldeyrisútstreymis hefur í för með sér mun minni skaða fyrir þjóðarbúið þar sem skattlagning lokar ekki fyrir viðskipti og hún skilar ríkissjóði tekjum um leið og hún hamlar útflæði gjaldeyris.
    Höftin hafa haldið gengi krónunnar hærra en ella til skemmri tíma litið. Raungengi krónunnar er nú um 30% lægra en fyrir þremur árum og hefur ekki verið lægra síðan í byrjun síðustu aldar. Við innleiðingu gjaldeyrishaftanna var gengisvísitala krónunnar á bilinu 240–250 stig. Seðlabankinn og stjórnvöld reyndu með inngripum og fortölum að ná gengi krónunnar til baka og fyrri hluta marsmánaðar 2009 var gengisvísitalan komin í um 180–190 stig. Þá fór krónan lækkandi á ný og gengisvísitalan hefur síðastliðin tvö ár lengst af verið á bilinu 210–230 stig.
    Nýtt ójafnvægi hefur myndast í efnahagslífinu þar sem útflutningsgreinar hafa mikinn rekstrarafgang en heimamarkaðsgreinar eiga margar hverjar erfitt uppdráttar. Þessu var þveröfugt farið á tímabilinu 2004–2007. Ef gengi krónunnar helst svipað og nú, eins og gjaldeyrishöftin stuðla að, munu launahækkanir, sem fyrst koma fram í útflutningsgreinum og síðan verðbólga, hækka raungengið á ný og skerða samkeppnisstöðu landsins. Gjaldeyrishöftin og hið lága gengi eru þannig að leggja grunn að óðaverðbólgu á Íslandi næstu árin. Vandamálin hlaðast upp á bak við stífluna.
    Gjaldeyrishöftin halda jafnframt niðri kaupmætti og lífskjörum almennings. Auk stökkbreyttra lána hefur almenningur þurft að glíma við síhækkandi vöruverð og skatta. Stöðugt erfiðara er að ná endum saman í heimilisbókhaldinu. Með gjaldeyrishöftum er ólíklegt að gengi krónunnar muni hækka á næstu missirum. Í þessu samhengi er rétt að minna á að í nýgerðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði eru forsendurnar meðal annars þær að gengisvísitala íslensku krónunnar verði innan við 190 stig í desember næstkomandi og að verðbólgan síðustu 12 mánaða verði innan við 2,5%. Í nýbirtum tölum Hagstofunnar mælist verðbólga síðastliðna 12 mánuði hins vegar 3,4%. Seðlabankinn hefur enn á ný misst stjórn á verðbólguvæntingum landsmanna.
    Til að geta þrifist er nauðsynlegt fyrir fyrirtækin að búa við frjálst fjármagnsflæði og óheftan aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum. Gjaldeyrishöftin hafa því skaðað atvinnulífið stórkostlega. Fyrirtækin verða að geta sótt sér erlent lánsfé og eigið fé án þeirra viðskiptahindrana sem felast í höftunum. Höftin gera það að verkum að fyrirtækin geta ekki átt eðlilegt samstarf um rannsóknir og nýsköpun. Þau geta ekki leitað bestu leiða til að stunda markaðsstarf á erlendri grundu. Þau geta ekki fjárfest erlendis og nýtt þau tækifæri sem bjóðast. Höftin valda hærri fjármagnskostnaði en ella, takmarka aðgang að fjármagni og draga úr tiltrú á hagkerfið. Þótt í orði kveðnu sé erlendum aðilum heimilt að fjárfesta hér á landi þá vekja gjaldeyrishöftin tortryggni fjárfesta sem eðlilega spyrja sig hvort þeir geti treyst Íslendingum fyrir fjármunum sínum þar sem ekki einu sinni stjórnvöld hafa trú á eigin gjaldmiðli. Digurbarkalegar yfirlýsingar ráðherra um ónýta krónu hafa ekki bætt úr skák.
    Gjaldeyrishöftin valda því að fjárfestingar verða minni en ella og þau stuðla að röngum fjárfestingarákvörðunum. Lítil fjárfesting leiðir til þess að ný störf verða ekki til. Það dregst á langinn að nauðsynleg markmið um hagvöxt náist. Höftin lengja því kreppuna og gera það að verkum að íslenska hagkerfið og um leið hagur fólks og fyrirtækja mun halda áfram að dragast aftur úr samkeppnislöndum. Ísland er nú í 31. sæti af um 50 löndum hvað varðar samkeppnishæfni landa. Það fælir frá erlenda fjárfestingu.
    Hvað fjármálafyrirtækin varðar sérstaklega þá ber frumvarpið með sér að allan metnað skortir til að byggja þeim góða umgjörð til að takast á við afnám gjaldeyrishafta. Höftin draga úr hvata til að viðhalda þekkingu og getu fyrirtækja til að takast á við fjármagnsflutninga. Með höftunum er verið að leggja grunn að neikvæðri hringrás sem erfitt getur reynst að brjótast út úr.
    Eftir því sem frá líður reyna þeir sem hafa tekjur í erlendum myntum að viðhalda eign sinni á erlendum gjaldeyri. Þeir sem hafa þess kost leitast við að koma upp sjóðum í öðrum myntum en krónunni og nýta innlenda gjaldmiðilinn einungis til að greiða innlendan kostnað og til að greiða af lánum. Eins og dæmin sanna og þróunin hér á landi sýnir þá hefur þungamiðja starfsemi íslenskra alþjóðlegra fyrirtækja verið að flytjast úr landi. Sú þróun mun halda áfram ef höftunum verður viðhaldið. Ekkert bannar fyrirtækjum að flytja framleiðslutæki sín úr landi, hefja framleiðslu á vöru sinni erlendis og jafnvel að selja hana hingað til lands gegn greiðslu í erlendum gjaldmiðli.
    Því er nauðsynlegt að afnema höftin sem fyrst og mynda þannig eðlilegan markað með krónuna. Þá fyrst skapast skilyrði til þess að gengi hennar geti hækkað og lífskjör batnað. Það er afar mikilvægt að raungengi krónunnar hækki smám saman með hækkun á nafngengi fremur en með kostnaðarhækkunum og verðbólgu umfram það sem gerist í nágrannalöndum.
    Heppilegasta leiðin til að afnema höft er sú að ríkið og Seðlabankinn bjóði fram skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til lengri tíma á móti eignum í krónum sem eigendur svokallaðra aflandskróna vilja koma í aðra gjaldmiðla. Samtímis þarf að tilkynna um afnám gjaldeyrishafta innan skamms tíma – nokkurra vikna eða mánaða. Þá standa kröfueigendur frammi fyrir því að geta valið að skipta á núverandi gengi eða taka áhættuna af því hvort krónan fellur eða hækkar í framhaldinu. Sá sem telur að krónan falli mun væntanlega frekar vilja skuldabréf í erlendum gjaldmiðli og sá sem telur að krónan haldist eða hækki mun væntanlega halda sig við krónubréfin. Að líkindum mun gengið lækka um skamma hríð í kjölfarið, því að um leið og botninn á gengi krónunnar hefur verið fundinn í óheftum markaðsviðskiptum, hækkar hún fljótt aftur og þá fer allt að vinna með henni. Eftir því sem fleiri trúa því að botninum sé náð og þora að skipta erlendum gjaldeyri fyrir krónur án þess að vera neyddir til þess lengur kemur krónan til með að hækka.
    Lífeyrissjóðir eiga töluverðar eignir erlendis. Líklegt er að þeir sjái kauptækifæri í krónum í þessu ferli geti þannig náð til baka hluta af því tjóni sem þeir urðu fyrir í hruninu. Um leið og krónan kemst í hækkunarferil breytast verðbólguvæntingar og meiri von er til þess að launabreytingar verði hóflegri og raunveruleg verðbólga lægri. Afnám gjaldeyrishaftanna er því ein veigamesta aðgerðin sem þarf til að ná tökum á verðbólgu á næstu árum.
    Frumvarp ríkisstjórnarinnar er ekki áætlun um afnám gjaldeyrishafta heldur er það áætlun um að festa höftin í sessi til langs tíma. Í frumvarpinu felast skilaboð um að hér séu gjaldeyrishöft komin til að vera og um leið eru þau ávísun stjórnvalda á að samkeppnisstaða íslenska hagkerfisins muni halda áfram að versna á næstu árum. Lögfesting gjaldeyrishafta lýsir uppgjöf stjórnvalda fyrir gjaldmiðlavandanum.
    Krafa á banka um afhendingu krónu (hvort sem bankinn er innlendur eða erlendur) felur í sér stjórnarskrárvarin kröfuréttindi að fá tafarlaust afhentan lögeyri landsins til frjálsrar ráðstöfunar. Kröfur sem þessar eru grundvöllur efnahagslegrar velferðar borgaranna og öll inngrip í kröfuréttindi sem þessi verða að standast ákvæði stjórnarskrár um vernd eignarréttar. Með frumvarpinu eru lagðar viðamiklar kvaðir á meðferð borgaranna á peningalegum eignum sínum í krónum. Í mörgum tilvikum er ljóst að slíkar kvaðir lúta að viðskiptum sem með engu móti tengjast gjaldeyrishreyfingum úr landi og það má draga í efa að frumvarpið standist að þessu leyti. Frumvarpið felur í sér margháttaðar hömlur á fjármagnsflutninga til og frá landinu og mismunar í mörgum tilvikum innlendum og erlendum aðilum. Ekki er fjallað um hvernig slíkt standist ákvæði Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES- samningsins) um frjálst flæði fjármagns.
    Í 2. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, kemur fram að Ísland skuldbindi sig til að láta meginmál EES-samningsins hafa lagagildi hér á landi, þ.m.t. ákvæðið um frjálst flæði fjármagns (sem var svo tekið upp með lögum á sínum tíma).
    Í 3. gr. EES-samningsins segir að Ísland skuldbindi sig til að: „… gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir. Þeir skulu varast ráðstafanir sem teflt geta því í tvísýnu að markmiðum samnings þessa verði náð.“
    Í 41. gr. EES-samningsins kemur m.a. fram að greiðslur í tengslum við fjármagnsflutninga skuli lausar við öll höft. Gjaldeyrishöftum var aflétt á Íslandi á sínum tíma en nú er verið að leggja til lögleiðingu hafta á nýjan leik. Það er erfitt að sjá hvernig það getur staðist miðað við framangreint ákvæði.
    Í 4. mgr. 45. gr. EES-samningsins segir að hlutaðeigandi samningsaðili geti gripið til nauðsynlegra fyrirbyggjandi verndarráðstafana ef ójafnvægi skapast – sem var gert hér á landi í kjölfar neyðarlaganna haustið 2008. En í sömu málsgrein segir svo: „Ráðstafanirnar skulu hafa í för með sér eins litla röskun á framkvæmd samnings þessa og kostur er á og mega ekki vera víðtækari en brýnasta nauðsyn krefur til að ráða bót á þeim skyndilega vanda sem komið hefur upp.“ Ljóst er því að sett er skýrt skilyrði um að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefst með þær ráðstafanir sem gripið er til og gætt sé meðalhófs. 3. minni hluti bendir á að ekki hefur verið leitað leiða til að grípa til annarra vægari ráðstafana sem hafa í för með sér minni röskun á framkvæmd EES-samningsins. Jafnframt má spyrja hvort það sé „brýn nauðsyn“ að lögleiða gjaldeyrisreglur Seðlabankans sem hingað til hafa verið settar til skamms tíma í senn, en slík tímabundin ráðstöfun er í mun meira samræmi við ákvæði EES-samningsins? 3. minni hluti hafnar þeirri túlkun.
    Það blasir því við að meginmál EES-samningsins á að hafa lagagildi á Íslandi. Í því felst að kveðið er á um frjálst flæði fjármagns. Með lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, gengst Ísland jafnframt undir þá skyldur að skýra lög og reglur til samræmi við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggjast, sbr. 3. gr. laganna. Með fyrirliggjandi frumvarpi er brotið gegn þessu ákvæði laganna enda er verið að leggja til alvarleg höft á frjálst fjármagnsflæði.
    Þá er aðferð löggjafans sem er beitt í frumvarpinu vafasöm. Frumvarpið felur í sér langa upptalningu á fjármagnshreyfingum sem lýstar eru ólögmætar. Síðan er undirsettu stjórnvaldi, Seðlabanka Íslands, veitt nánast ótakmörkuð heimild til að veita undanþágur frá bannákvæðunum. Í þessu felst framsal löggjafarvalds sem virðist í andstöðu við ákvæði 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sbr. lög nr. 33/1944. Þá verður ekki annað séð en að brotið sé gegn grundvallarreglu stjórnarskrárinnar um jafnræði og eignarrétt, þ.e. 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar sem felur í sér að borgarar eiga rétt á að hömlur á eignarréttindi þeirra ráðist af lögum, fremur en geðþótta stjórnvalda við beitingu undanþáguheimilda. Slík undanþáguheimild stjórnvalda gerir öll samskipti borgaranna við viðkomandi stjórnvald afar erfið og vandmeðferðin og rýrir mjög getu þeirra til að leita réttar síns ef þeir telja á sér brotið. Ekkert kemur fram um hvernig þessi heimild hafi verið nýtt hingað til eða hvernig ætlunin er að beita henni í framhaldinu. Minna má á að nýlega þurfti sérstaka ákvörðun aðstoðarbankastjóra Seðlabanka Íslands til að fyrirtæki í alþjóðaviðskiptum gæti tekið út gjaldeyri af bankareikningum sínum vegna hóflegs kostnaðar við ferðir starfsmanna sinna á sölusýningu erlendis. Þá leikur vafi á lagalegum grunni Seðlabankans til að takmarka viðskipti með lögeyri lýðveldisins eins og höft á svokölluðum aflandskrónum bera með sér.
    
Um einstakar greinar.
    Með a-lið 3. gr. (13. gr. a) eru gjaldeyrishöftin fest í sessi fram til loka árs 2015 eða í 55 mánuði. Í tillögunni felast skýr skilaboð ríkisstjórnarinnar um að hún trúi ekki á gjaldmiðilinn og hafi ekki neina sýn um hvernig koma eigi íslenska hagkerfinu upp úr þeirri kreppu sem gjaldeyrishöftin eiga stóran þátt í að viðhalda.
    Auk annars er í b-lið 3. gr. (13. gr. b) Íslendingum bannað að taka lán erlendis án þess að því fylgi sérstakur rökstuðningur. Erfitt er að sjá fyrir sér hvers vegna það eigi að banna erlendar lántökur íslenskra fyrirtækja eða einstaklinga. Því skyldu þeir sem geta fengið erlend lán ekki fá að taka slík lán. Hér er þá um að ræða erlendan gjaldeyri sem kemur til landsins sem getur nýst til góðra verka. Vandamálið tengist hugsanlega því að ríkissjóður hefur ekki treyst sér til að sækja sér lánsfé á erlendan markað og þá er einfaldast að banna öðrum það líka.
    Í d-lið 3 gr. (13. gr. d) er að finna afar smásmugulegar reglur um ferðagjaldeyri einstaklinga. Afar fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig ríkisstjórnin hyggst hafa eftirlit með því að þessum ákvæðum laganna verði fylgt verði fyrirliggjandi frumvarp að lögum. Áhugavert verður að sjá hvernig tryggt verði að menn kaupi einungis gjaldeyri fyrir eigin fjármuni og hvernig gengið verði eftir því að menn skili innan tveggja vikna því sem afgangs er af gjaldeyri þegar heim er komið. Þar hljóta að liggja fyrir hugmyndir og jafnvel tillögur sem áhugavert hefði verið að sjá í greinargerð frumvarpsins. Meiri hluta nefndarinnar farnaðist þó að leggja til breytingu á 3. mgr. þar sem kveðið er á um skilaskyldu gjaldeyris innan tveggja vikna. Er það vel enda ljóst að með ákvæðinu yrði lögð ríkari skilaskylda á einstaklinga en aðra innlenda aðila sem hafa þrjár vikur til að skila gjaldeyri sínum til fjármálafyrirtækis, sbr. l-liður 3. gr. (13. gr. l) Ekki er þó ljóst hvert á að skila klinki þar sem fjármálastofnanir taka ekki á móti smápeningum. Þá er ekki ljóst hvernig það að borgari eigi t.a.m. eitt evrusent eða 100 dollara ógni fjármálalegum stöðugleika lýðveldisins Íslands. Í greininni er einnig að finna undanþáguheimild þar sem fjármálastofnun nærri millilandaflughöfnum og við hafnir farþegaskipa getur fengið að selja gjaldeyri öðrum en viðskiptavinum sínum með því nauðsynlega ákvæði að skylda Seðlabankann til að birta opinberlega upplýsingar um þessa aðila.
    Í e-lið 3. gr. (13. gr. e) er að finna víðtækt bann við fjárfestingu í fjármálagerningum sem útgefnir eru í erlendum gjaldeyri. Bannið útilokar fjárfestingar einstaklinga og fyrirtækja fyrir eigin reikning í atvinnuskyni og setur þannig skorður við atvinnufrelsi. Ekki verður séð að almannahagur geti krafist svo víðtækrar skerðingar. Ákvæði greinarinnar gengur þannig í berhögg við 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins þar sem meginreglan er sú að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.
    Með g-lið 3. gr. (13. gr. g) er innlendum aðilum óheimilt að framlengja lánveitingar eða lántökur ef samkomulag hefur orðið um önnur kjör en upphaflega. Undarlegt er að ekki megi semja um ný og betri kjör ef svo verkast. Raunar er stórfurðulegt að ekki megi semja um ný kjör yfirhöfuð. Þannig gæti aðili sem hefur verulegar gjaldeyristekjur haft hagsmuni af framlengingu láns þótt kjörin séu ekki jafn góð og áður. Eins getur aðili sem er sammála því mati að krónan sé vanmetin verið því mótfallinn að innleysa gengistap ef honum gefst kostur á framlengingu í erlendri mynt.
    Með l-lið 3. gr. (13. gr. l) er innlendum aðilum gert að skila öllum erlendum gjaldeyri sem þeir eignast til fjármálafyrirtækis hérlendis innan þriggja vikna. Er hér um að ræða grófa tilraun til að lögfesta skerðingu á eignarréttinum. Ákvæðið gengur þannig þvert á 72. gr. stjórnarskrár.
    Í n-lið 3. gr. (13. gr. n) er fyrirtækjum í eigu ríkis og sveitarfélaga veitt undanþága frá verulegum þáttum gjaldeyrishaftanna sem er til þess fallið að mismuna aðilum þar sem sum fyrirtæki búa við alger höft en önnur ekki. Sérstaklega kemur þetta við fyrirtæki á samkeppnismarkaði, hvort sem er á sviði orkuframleiðslu eða fjölmiðlunar. Þannig rekur Orkuveita Reykjavíkur víðtæka starfsemi og sama á við um Landsvirkjun og svo hlýtur Ríkisútvarpið að falla undir þetta ákvæði. Hvers eiga samkeppnisaðilar þessara fyrirtækja, t.a.m. HS-orka o.fl., að gjalda?
    Ákvæði 5. mgr. n-liðar 3. gr. (13. gr. n), þar sem kveðið er á um að þeir sem eru með 80% tekjum og 80% af gjöldum erlendis geta fengið undanþágu frá stórum hluta gjaldeyrishaftanna, leiðir augljóslega til þess að fyrirtæki sem eru nálægt þessum mörkum kaupa frekar þjónustu erlendis í stað þess að beina þeim til innlendra þjónustuaðila. Jafnframt er stórfurðulegt að ekki skuli vera tekið tillit til stærðar fyrirtækis hér. Tekjur eins stærsta fyrirtækis landsins, Icelandair-Group, eru t.a.m. að um 70% í erlendri mynt sem útilokar fyrirtækið frá erlendum lántökum nema með undanþágum. Á fundi nefndarinnar kom fram í máli fjármálastjóra fyrirtækisins að hugsanlega mundi ákvæðið neyða það til að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi.
    Það verður afar athyglisvert að fylgjast með því þegar Seðlabankinn fer að refsa fyrir brot á lögum og reglum um gjaldeyrishöft, t.d. þegar einstaklingur skilar ekki gjaldeyri í samræmi við l-lið 3. gr. (13. gr. l). Nokkra mynd af því eftirlitskerfi sem verið er að koma upp má fá með því að lesa úrskurð Persónuverndar frá 3. mars sl. um ákvörðun um heimildir Seðlabankans til vinnslu persónuupplýsinga í þágu gjaldeyriseftirlits. Það reyndar vekur upp spurningar um hvort eðlilegt geti verið að sami aðili sjái um reglusetningu, veitingu undanþága, eftirlit, rannsókn brota og að hluta refsingar þegar um er að ræða svo mikil inngrip í réttindi borgaranna.

Niðurstaða.
    Ef frumvarpið verður gert að lögum er verið að senda skýr skilaboð um að gjaldeyrishöftin séu komin til að vera. Því gæti hér verið um ein alvarlegustu hagstjórnarmistök í gjörvallri Íslandssögunni að ræða. 3. minni hluti leggur því til að frumvarpið verði alls ekki samþykkt.

Alþingi, 4. júní 2011.



Tryggvi Þór Herbertsson,


frsm.


Pétur H. Blöndal.