Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 824. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1646  —  824. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum (í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga o.fl.).

Frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um virðisaukaskatt og fleiri lögum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var í tengslum við undirritun kjarasamninga 5. maí sl.
    Annar minni hluti gagnrýnir harðlega hversu seint frumvarpið er lagt fram og hvernig það hefur verið unnið í þinginu. Málshraðinn hefur verið mjög mikill og blandað er saman breytingum á gjörólíkum lögum, þ.e. lögum um tekjuskatt, lögum um virðisaukaskatt, lögum um gjald af áfengi og tóbaki, lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Að mati 2. minni hluta hefur þingið ekki fengið þann tíma sem nauðsynlegur er til að vinna málið vel og vandlega og er það skoðun 2. minni hluta að slíkt sé algjörlega óásættanlegt.
    Í 2., 4. og 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um sérstakt skatthlutfall fyrir þann hluta arðs sem skattleggja á sem laun. Árið 2009 var gerð sú breyting á 11. gr. tekjuskattslaga að fari heimil arðsúthlutun samtals yfir 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags telst það sem umfram er til helminga laun og arður, þegar móttakanda hans ber stöðu sinnar vegna að reikna sér endurgjald í samræmi við 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., sbr. 58. gr. laganna. Sú breyting hefur verið mikið gagnrýnd og m.a. hvað teljist vera ráðandi aðili. Breytingar meiri hluta nefndarinnar gera ráð fyrir því að viðbótartekjur muni falla í lægsta tekjuskattsþrep. Mikilvægt er að á milli 2. og 3. umræðu verði fulltrúar ríkisskattstjóra fengnir til þess að koma með álit sitt á þessari breytingartillögu. 2. minni hluti bendir enn fremur á að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæðin komi til framkvæmda 1. janúar 2010. Að mati 2. minni hluta mun það óhjákvæmilega hafa í för með sér óeðlilega afturvirkni þar sem ljóst sé að leiðrétta þarf staðgreiðsluskil og framtal þeirra sem ákvæðið nær til.
    Annar minni hluti fagnar þeim breytingum sem gerðar eru í 6. gr. frumvarpsins. Með því að kveða á um að persónuafsláttur skuli í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils er komið til móts við þá verðlagsþróun sem orðið hefur í landinu. 2. minni hluti bendir hins vegar á að persónuafslátturinn hækkaði ekkert um síðustu áramót og kom það hvað harðast niður á láglaunafólki og þeim sem þiggja bætur almannatrygginga.
    Annar minni hluti bendir á að með þeim breytingum sem lagðar eru til á skattlagningu lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja mun enn frekar aukast misvægið á milli réttinda starfsfólks á almennum vinnumarkaði annars vegar og starfsfólks hjá hinu opinbera hins vegar. Eitt af grundvallaratriðum við gerð kjarasamninga var að jafna réttindin en frumvarpið mun hins vegar hafa þveröfug áhrif og gæti hugsanlega sett kjarasamninga í uppnám. Í umsögn Alþýðusambands Íslands er þessi ráðstöfun harðlega gagnrýnd. Er þar bent á að hún muni eingöngu hafa áhrif á lífeyrisréttindi launafólks á almennum markaði og starfsfólks ríkis og sveitarfélaga sem eru félagsmenn í ASÍ-félögum. 2. minni hluti tekur undir þessa gagnrýni og leggst gegn fyrirhuguðum breytingum. Jafnframt vill 2. minni hluti taka undir álit 1. minni hluta fjárlaganefndar um frumvarpið en þar kemur eftirfarandi fram:
    „Í 16. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir skattlagningu á lífeyrissjóði sem eru uppsafnaður skyldusparnaður almennings til eftirlauna að lokinni starfsævi. Hér er ríkisvaldið að leggja eignarskatt á lífeyrissjóði til að standa undir starfsendurhæfingu vegna örorku. Hér er verið að velta skyldum og kostnaði almannatryggingakerfisins yfir á þá sem eru skyldaðir með lögum til að greiða í lífeyrissjóði. Þessar aðferðir minna á flótta undan þeirri staðreynd að ríkissjóður stendur ekki lengur undir velferðarkerfinu og er um eins konar fjallabaksleið fjármálaráðherra og stjórnarmeirihlutans að ræða til fjármögnunar þess. Lífeyrisgreiðslur munu í staðinn lækka og í einhverjum tilvikum munu einstaklingar falla undir viðmiðunarmörk lágmarkslífeyris. Skattlagningin kann þar af leiðandi að leiða til aukinna útgjalda hins opinbera til ellilífeyris. Þessu atriði eru engin skil gerð í frumvarpinu. Þrátt fyrir eftirgrennslan hafa heldur ekki fengist viðhlítandi svör frá fjármálaráðuneytinu eða fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna í fjárlaganefnd um hvers vegna þetta ákvæði er í frumvarpinu og á hvern hátt það á að hafa liðkað fyrir kjarasamningum.“
    Samkomulag ríkisstjórnarinnar við lánastofnanir, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði um víðtækar aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna fól m.a. í sér aukningu vaxtabóta. 2. minni hluti telur að ákvæði 9. og 15. gr. frumvarpsins muni ekki koma að fullu til móts við skuldug heimili og fyrirtæki. Ríkisstjórnin mun þannig ekki standa við áðurnefnt samkomulag þar sem svigrúm verður enn til staðar að hækka skatthlutfallið meira. 2. minni hluti gagnrýnir að þrátt fyrir ríkisstjórnin hafi endurreist bankana með miklum afföllum af lánasöfnum halda fjármálafyrirtækin áfram að rukka einstaklinga og heimili um 100% hlutfall af skuldum. Ríkisstjórnin hefur þannig tekið sér stöðu með fjármálastofnunum og eigendum þeirra, sem eru erlendir kröfuhafar, í stað þess að verja heimili landsins sem hafa þurft að glíma við óleiðrétt lán og síhækkandi verðbólgu undanfarin ár. Jafnframt er rétt að benda á að með þessum tillögum er verið að skattleggja lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki um 2,5 milljarða kr. til að fjármagna sérstaka vaxtaniðurgreiðslu um 6 milljarða kr. á árinu 2011 og aftur árið 2012. Þannig standa enn út af 3,5 milljarðar kr. sem fjármagna þarf árið 2011 og 6 milljarðar kr. árið 2012. Greinilegt er að alvarlegur misskilningur virðist hafa átt sér stað í samkomulagi ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var með mikilli flugeldasýningu, við fjármálastofnanir, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði um hvernig staðið yrði að þessari fjármögnun. Að gera samninga við núverandi stjórnvöld er ekki beinlínis traustvekjandi og er rétt að benda á stöðugleikasáttmálann sáluga sem aðilar vinnumarkaðarins sögðu sig frá vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar. Þessi vinnubrögð og hvernig staðið er að efndum á samningum er ekki til þess fallið að auka tiltrú og traust á íslenskum stjórnvöldum og má segja að hér sé um að ræða birtingarmynd þess hversu hægt gengur að byggja upp íslenskt efnahagslíf. Ríkisstjórnin er þar stærsta vandamálið.
    Annar minni hluti gagnrýnir vinnubrögð við umfjöllun málsins harðlega. Málið var seint lagt fram og málshraðinn hefur verið mikill. Frumvarp sem átti að vera lagt fram vegna nýgerðra kjarasamninga breyttist yfir í að vera samansafn breytinga á ólíkum lögum. 2. minni hluti áréttar að 10., 11., 12. og 13. gr. eiga alls ekki heima í frumvarpinu og lýsir jafnframt yfir óánægju með það í hversu miklum flýti frumvarpið var greinilega unnið. Til marks um hversu hroðvirknislega frumvarpið var unnið bendir 2. minni hluti á að heiti laganna í VI. kafla frumvarpsins er vitlaust. Rétt heiti laganna er lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða en í frumvarpinu bera þau heitið lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrisréttinda. 2. minni hluti styður því fram komnar tillögur um brottfall 10. og 11. gr. frumvarpsins.
    Í 12. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki. Breytingarnar hafa í för með sér talsvert rýmri heimildir fyrir ferðamenn til að kaupa á áfengi í fríhöfn. 2. minni hluti furðar sig á því hvernig breytingar á lögum um gjald af áfengi og tóbaki tengjast breytingum á öðrum lögum sem nauðsynlegar eru vegna nýrra kjarasamninga og telur að breytingarnar eigi alls ekki heima í frumvarpinu. Að auki bendir 2. minni hluti á að skatttekjur af áfengi muni lækka og talið er að heildaráhrifin á afkomu ríkissjóðs verði 100–150 millj. kr. á ársgrundvelli.
    Annar minni hluti bendir á að frumvarpið, sem átti upphaflega að snúa að málum tengdum gerð kjarasamninga, felur einnig í sér aðrar breytingar sem í raun snúa ekki að kjarasamningunum. Þannig er fjölmörgum öðrum atriðum smyglað með. Er það skoðun 2. minni hluta að ákvæði IV. kafla, þ.e. breytingar á lögum nr. 125/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, eigi ekki heima í frumvarpinu. Þær breytingar snúa að leiðréttingum á mistökum sem gerð voru með lögum nr. 165/2010, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Í athugasemdum við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar kemur fram að eingöngu er um að ræða lagfæringu á texta en ekki efnisbreytingu. 2. minni hluti telur að um leið og mistökin voru uppgötvuð hefði átt að flytja frumvarp til leiðréttingar á þeim í stað þess að koma þeim fyrir í frumvarpi sem flutt er vegna nýrra kjarasamninga.
    Í 16. gr. frumvarpsins er lagt til að greiðsluskylda atvinnurekenda og lífeyrissjóða í Starfsendurhæfingarsjóð verði lögbundin tímabundið. Vísað er til þess í ákvæðinu að velferðarráðherra og ráðherra lífeyrismála eigi að skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingar fyrir 1. nóvember nk. 2. minni hluti bendir á að með ákvæðinu sé verið að lögfesta undirbúning að ramma sem liggi ekki fyrir. Slíkur rammi á betur heima í samkomulagi en ekki löggjöf og þar að auki hefur við umfjöllun nefndarinnar komið í ljós að dagsetningar í ákvæðinu munu engan veginn standast. Það er því skoðun 2. minni hluta að það sé með öllu óásættanlegt að Alþingi samþykki ákvæðið í ljósi þeirrar óvissu sem er um málið.
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að samþykkt frumvarpsins mun hafa í för með sér 5 milljarða kr. tekjulækkun ríkissjóðs. Þar að auki verði lækkun tekna vegna breytinga á heimild ferðamanna til kaupa á áfengi á lægri gjöldum um 100–150 millj. kr. Í frumvarpinu er eingöngu gert ráð fyrir tekjuaukningu um 3,5 milljarða kr. vegna sérstakrar tímabundinnar skattlagningar á fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði. 2. minni hluti gagnrýnir að ekki sé ennþá ljóst hvernig fjármögnun á þeim 2,5 milljörðum kr. sem á vantar verði háttað heldur sé það tekið fram að það muni skýrast þegar líður á árið. Slíkt er að öllu leyti óásættanlegt og telur 2. minni hluti að grundvöllur fyrir samþykkt frumvarpsins hljóti að velta á því hvernig ríkissjóður muni að fullu mæta tekjulækkun þeirri sem gert er ráð fyrir.
Þær breytingar sem gerðar voru í störfum nefndarinnar á frumvarpinu áttu sér margar mjög skamman aðdraganda. Því var samþykkt að beiðni 2. minni hluta að fulltrúar ríkisskattstjóra fengju breytingarnar til umfjöllunar og eftir atvikum kallaðir fyrir efnahags- og skattanefnd Alþingis á milli 2. og 3. umræðu um málið.

Alþingi, 6. júní 2011.

Birkir Jón Jónsson.