Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 467. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Nr. 34/139.

Þskj. 1657  —  467. mál.


Þingsályktun

um ferðamálaáætlun 2011–2020.


    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að stefna að eftirfarandi meginmarkmiðum í ferðamálum á tímabilinu 2011–2020:
     a.      að auka arðsemi atvinnugreinarinnar,
     b.      að standa að markvissri uppbyggingu áfangastaða, öflugri vöruþróun og kynningarstarfi til að skapa tækifæri til að lengja ferðamannatímabilið um land allt, minnka árstíðasveiflu og stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið,
     c.      að auka gæði, fagmennsku, öryggi og umhverfisvitund ferðaþjónustunnar,
     d.      að skilgreina og viðhalda sérstöðu Íslands sem áfangastaðar ferðamanna, m.a. með öflugu greiningar- og rannsóknarstarfi.
    Þessi fjögur meginmarkmið ferðaþjónustunnar hvíli á eftirfarandi:

1.     Innviðir og grunngerð.
     a.      Íslensk náttúra er auðlind ferðaþjónustunnar. Mikilvægt er að byggja upp, vernda og viðhalda ferðamannastöðum um allt land. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar sameinist um leiðir til að fjármagna slíkar umbætur.
     b.      Uppbygging innviða ferðaþjónustunnar miði að því að vernda náttúru Íslands og ferðamálaáætlun stefni að því að innleiða hugarfar sjálfbærni og ábyrgðar á náttúru og menningu landsins.
     c.      Lagaumhverfi ferðamála taki mið af þeirri áætlun sem hér liggur fyrir.
     d.      Leyfis- og öryggismál í ferðaþjónustu verði tekin til gagngerrar endurskoðunar í samræmi við þær áherslur sem birtast í þessari áætlun.
     e.      Samgöngur eru mikilvægasta forsenda allrar ferðaþjónustu á Íslandi og mikilvægt að við áætlanagerð og framkvæmdir í tengslum við samgöngumál verði tekið tillit til hagsmuna ferðaþjónustunnar.
     f.      Unnin verði viðbragðsáætlun vegna náttúruhamfara fyrir ferðaþjónustuna sem byggist á reynslu af þeim tveimur eldgosum sem valdið hafa töluverðum truflunum á flugi og öðrum samgöngum.

2.     Kannanir, rannsóknir, spár.
     a.      Mikilvægt er að stutt sé við þróun ferðaþjónustunnar og uppbyggingu með verulega aukinni áherslu á greiningar, rannsóknir og spár.
     b.      Sjálfstæði rannsókna verði tryggt en Ferðamálastofa hafi yfirsýn yfir og beri ábyrgð á mótun stefnu varðandi framkvæmd og úrvinnslu kannana og að gerðar séu framtíðarspár um þróun greinarinnar í samvinnu við Hagstofu Íslands, háskóla og Rannsóknamiðstöð ferðamála.
     c.      Hagstofa Íslands beri ábyrgð á opinberri hagskýrslugerð í ferðaþjónustu samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði hagskýrslugerðar í ferðaþjónustu.
     d.      Í þjóðhagsreikningi liggi alltaf fyrir töluleg gögn um þróun ferðaþjónustunnar frá ári til árs.
     e.      Farnar verði bestu fáanlegar leiðir til að tryggja að gerðar verði samræmdar ítarlegar úttektir á auðlindum og innviðum ferðaþjónustunnar um allt land.

3.     Vöruþróun og nýsköpun.
     a.      Vöruþróunarverkefni í ferðaþjónustu verði byggð á klasahugmyndafræði og grundvallist á sérstöðu og stefnumótun svæða.
     b.      Leitað verði nýrra leiða við vöruþróun með klasasamstarfi og tækni- og þekkingaryfirfærslu.
     c.      Stoðkerfi ferðaþjónustunnar verði einfaldað og tryggt að öflugar einingar séu til staðar úti um allt land sem hafa gott faglegt bakland og næga burði til að styðja við þróun áfangastaða, vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu.
     d.      Opinbert fjármagn til vöruþróunar á sviði ferðaþjónustu fari einkum til samstarfsverkefna sem hafi meðal markmiða að lengja ferðamannatímabilið.

4.     Markaðsmál.
     a.      Opinbert kynningarstarf tengt ferðaþjónustu taki mið af markmiðum ferðamálaáætlunar.
     b.      Leitað verði nýrra leiða í opinberu kynningarstarfi og einnig til að auka faglegt samstarf opinberra aðila á sviði vöruþróunar og kynningarmála.
     c.      Við mótun samstarfs ferðamálayfirvalda við Íslandsstofu er mikilvægt að sett séu mælanleg markmið og mælikvarðar á árangur.
     d.      Mælikvarðar á árangur í kynningarstarfi eru meðal annars ferðaútgjöld samkvæmt ferðaþjónustureikningum, gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum, dreifing gistinátta yfir árstíðir og landsvæði og fjöldi ferðamanna auk kannana um væntingar og upplifun ferðamanna.

Samþykkt á Alþingi 7. júní 2011.