Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 824. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1661  —  824. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum (í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga o.fl.).

Frá 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



Of mikill hraði og óskyld mál.
    Þriðji minni hluti gagnrýnir að flutt sé frumvarp, sem fer hraðferð í gegnum þingið til þess að framfylgja yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og að inn í það sé blandað óskyldum atriðum (í 7. gr. og 9.–15. gr.). Slík hraðferð kemur niður á gæðum nefndarstarfs og lagasetningar og hefur verið tíðkuð allt of oft undanfarið. Vinnubrögð sem þessi voru fordæmd í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (þskj. 1501, 705. mál á 138. löggjafarþingi). Þar var jafnframt að finna þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti með 63 samhljóða atkvæðum hinn 28. september 2010. Þar ályktar Alþingi m.a. að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Í skýrslunni kemur fram að auka beri fagmennsku við undirbúning löggjafar og lagði nefndin til að ríkisstjórn verði gert að leggja fram stjórnarfrumvörp með góðum fyrirvara þannig að þingmönnum gefist gott ráðrúm til að taka þau til faglegrar skoðunar, upplýstrar málefnalegrar umræðu og afgreiðslu. Þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við framlagningu frumvarpsins eru ekki í samræmi við þingsályktunina sem allur þingheimur var sammála um og verður að telja það ámælisvert. Þá er til vansa að ónauðsynlegum atriðum og óskyldum yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé blandað inn í frumvarpið, sem gera verður kröfu til að hefðu átt að koma inn á frumvarpsformi á réttum tíma. Mun 3. minni hluti almennt ekki fjalla um þau atriði. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi lögum sem sett voru haustið 2009. 3. minni hluti varaði þá við að innleiðing auðlegarskatts og breytingar á lögum um tekjuskattlagningu fyrirtækja væru ekki til bóta en stjórnarmeirihlutinn skellti skollaeyrum við því. Nú er verið að lagfæra og hverfa frá lögum sem einmitt varað var við að tækju gildi. Svona vinnubrögð eru ólíðandi og virðist eiga að endurtaka þau hér.
    Nokkur atriði frumvarpsins eru ótengd framangreindri yfirlýsingu vegna kjarasamninga. Flest atriði frumvarpsins eru leiðrétting á nýlega settum lögum sem einnig voru keyrð í gegn með miklum hraða og komið hefur í ljós að eru ekki í lagi. Þá þarf efnahags- og skattanefnd að breyta flestum ákvæðum frumvarpsins vegna þess að þau eru gölluð í frumvarpinu. Um er að ræða:

Lýsing Vegna yfirlýsingarinnar Leiðrétting á eldri lögum Gallar í frumvarpi
1. gr. Vextir til útlanda
2. gr., 4. gr., 5. gr. Skattlagning hluta arðs sem laun
3. gr. Skattlagning arðs/söluhagnaðar á milli félaga
6. gr. Verðtrygging persónuafsláttar nei
7. gr. Heimild skattstjóra til að leiðrétta álagningu nei
8. gr. Vegna auðlegðarskatts á hlutabréf
9. gr. Eignaskattar á lífeyrissjóði v. vaxtaniðurgreiðslu nei nei
10. gr., 11. gr. Virðisaukaskattur á rafrænni þjónustu nei
12. gr. Áfengi í fríhöfnum nei nei
13. gr. , 14. gr. Styrkir til nýsköpunar / ESA nei nei
15. gr. Skattur á fjármálafyrirtæki v. vaxtaniðurgreiðslu nei nei
16. gr. Skattur á iðgjöld lífeyrissjóða v. VIRK nei
17. gr. Gildistaka já/nei já/nei

Framsal löggjafarvalds.
    Þriðji minni hluti hlýtur að gagnrýna að í tengslum við kjarasamninga sé ríkisstjórnin að gefa yfirlýsingar sem þarfnast lagasetningar frá Alþingi. Þannig er Alþingi stillt upp við vegg. Ef það ekki afgreiðir nauðsynlega lagasetningu eru kjarasamningar í uppnámi. Nægir þar að nefnda ákvæði um skattlagningu lífeyrissjóða. Þannig hefur löggjafarvaldið verið flutt frá Alþingi í trássi við stjórnarskrá.

Ekkert samráð. Kjarasamningar í uppnám?
    Þriðji minni hluti fagnar því að kjarasamningar til langs tíma hafi náðst enda er það ein af forsendum þess að atvinnulífið geti farið í gang þó að ekki sé það nægileg forsenda. Hins vegar virðist frumvarpið vera unnið án nægilegs samráðs við aðila kjarasamningsins þannig að miklar efasemdir eru upp um að þeir telji að innihald yfirlýsingarinnar komi fram í frumvarpinu og jafnvel að það gangi þvert á yfirlýsinguna og að kjarasamningar kunni því að vera í uppnámi. Nægir þar að nefnda ákvæði um skattlagningu lífeyrissjóða. Í umsögn ASÍ kemur fram að fullyrðing í greinargerð frumvarpsins, um að fyrir liggi samkomulag um að tekna til niðurgreiðslu vaxta verði aflað með skattlagningu, sé ósönn. Ekkert slíkt samkomulag liggi fyrir.
    Þá mótmælir ASÍ því harðlega að fjármögnun VIRK starfsendurhæfingarsjóðs sé einungis tryggð í nokkra mánuði með ákvæðum 16. gr. Þannig hafi í þrígang verið samið um sjóðinn og langtímafjármögnun hans og það virðist ætla að bregðast enn einu sinni.
    Það eru helst þessi atriði í 9. gr. og 16. gr., sem varða skattlagningu lífeyrissjóðanna, sem virðast hafa komið aðilum vinnumarkaðarins og fleirum á óvart. Landssamtök lífeyrissjóða segja frumvarpið innihalda rangfærslur og að þeir munu aldrei semja um álagningu eignarskatta á lífeyrissjóðina. ASÍ segir frumvarpið auka á mismun á lífeyrisréttindum sem það lagði einmitt mikla áherslu á í yfirlýsingunni að yrði jafnaður. Ef samninganefnd ASÍ, sem kemur saman 22. júní nk., metur það svo að þær lagabreytingar sem heitið er í yfirlýsingunni hafi ekki náð fram að ganga rofna samningar í lok janúar 2012 og verður það að teljast mjög alvarlegt. Samtök atvinnulífsins gera alvarlega athugasemdir við skattlagningu á lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki benda á þá leið að þessara tekna verði aflað með fyrirhuguðum útboðum Seðlabankans vegna afnáms gjaldeyrishafta.
    Þriðji minni hluti varar við tilhneigingu ríkisstjórnar, sem virðist fara vaxandi, til að hunsa allt samráð við aðila sem frumvörp varða, sem og þingmenn, og hvetur hana til að hverfa af braut einræðistilburða og taka upp lýðræðislegri vinnubrögð.

Atriði til bóta.
    Nokkur atriði í frumvarpinu telur 3. minni hluti vera til bóta. 6. gr. fjallar um að persónuafsláttur verði í samræmi við yfirlýsinguna aftur verðtryggður og er það í takt við stefnu Sjálfstæðisflokksins þó að orðalagið í frumvarpinu sé gallað. Þetta atriði er mikilvægt til að vernda tekjulága launþega fyrir of mikilli skattlagningu í erfiðu árferði. Bendir 3. minni hluti þó á að í ákvæðið vantar hækkun vegna verðbólgu frá janúar 2009 til janúar 2011, sem svarar til 5.002 kr. á mánuði miðað við hækkun vísitölu neysluverð til verðtryggingar frá janúar 2009 til janúar 2011, sem svo mundi hækka enn frekar 1. janúar 2012.

Skattlagning lífeyrissjóða.
    Með lögum 1974 og 1980 var öllum launþegum og síðan sjálfstæðum atvinnurekendum gert að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs viðkomandi starfstéttar eða starfshóps þannig að fólk áynni sér lífeyrisrétt í samræmi við tekjur yfir starfsæfina. Þar með urðu lífeyrissjóðirnir veigamikill hluti af velferðakerfi landsins og eiga að tryggja fólki áframhaldandi lífskjör og framfærslu þó að það og fjölskyldan lendi í tekjumissi vegna ótímabærs dauða, örorku eða hárrar elli. Ásamt Tryggingastofnun, sem tryggir framfærslu, eru þeir undirstaða tryggingakerfisins. Þess vegna hefur engum dottið í hug að skattleggja lífeyrissjóðina á nokkurn máta enda eru lífeyrisgreiðslur þeirra skattaðar eins og launatekjur. Með þessu frumvarpi er ríkisstjórnin að fara út á nýja og mjög hála braut með því a gefa fordæmi fyrir því að skattleggja lífeyrissjóðina vegna „góðra“ mála eða til að leysa brýnan vanda. „Góð“ mál munu alltaf finnast og ætíð er við einhvern brýnan vanda að etja.
    Sérstakan varhug ber að gjalda við ákvæðum 9. gr. um eignarskatt á lífeyrissjóðina til þess að greiða fyrir sérstakar vaxtabætur. Lífeyrissjóðirnir eiga enga „eign“ eins og rökstutt er hér á eftir og þessi skattlagning kemur fram sem neikvæðir vextir á fé sjóðanna sem nemur 0,0972% og lækkar því raunávöxtun sjóðanna sem því nemur. Staða sjóðanna er mjög viðkvæm fyrir slíkri skattheimtu en lauslegt tryggingafræðilegt mat er að til að mæta 0,5% varanlegri lækkun raunvaxta lífeyrissjóðs (úr 3,5% í 3,0%) þurfi að hækka iðgjald varanlega um 1,5% af launum allra sjóðsfélaga (úr 12% í 13,5%) eða skerða lífeyri varanlega um 11% eða hækka ellilífeyrisaldur um tæplega þrjú ár (úr 67 árum í 70 ár). Sjá fylgiskjal um 3,5% vaxtaviðmið lífeyrisjóðanna.

Eignir lífeyrissjóða.
    Eignir lífeyrissjóðanna eru ætlaðar til að greiða sjóðfélögum þeirra lífeyri, ef þeir og fjölskylda þeirra verða fyrir tekjumissi vegna ótímabærs dauða, örorku og elli. Þessar skuldbindingar sjóðanna eru reiknaðar árlega af tryggingafræðingum og eiga eignir þeirra að standa undir skuldbindingunum með 10% vikmörkum. Hrunið olli sjóðunum miklum búsifjum og hafa margir almennu sjóðanna þurft að skerða lífeyri (sem þeir höfðu reyndar sumir hækkað áður í góðærinu) eða þeir eru við neðri vikmörk. Þess vegna er alls ekki um einhverja „eign“ að ræða sem hægt er að seilast í. Eignir sjóðanna nægja yfirleitt ekki fyrir skuldbindingum sem stendur en eiga að standast á skuldbindingarnar samkvæmt lögum. Er Ísland eitt af örfáum löndum í heimi, sem eiga fullfjármagnað lífeyriskerfi (B-deild LSR undanskilin) og hefur það verið Íslandi mikill styrkur í hremmingum undanfarinna ára.
    Til að átta sig á skuldbindingunum má nefna að einstaklingur sem greiðir 12% (áður 10%) iðgjald til lífeyrissjóðs frá 27 ára aldri til 67 ára aldurs (venjuleg starfsæfi) er búinn að greiða á þessum 40 árum 400%–480% af meðalárslaunum til sjóðsins eða sem svarar 4–5 árslaunum. Hann lifir hins vegar og tekur ellilífeyri í 12–15 ár (eftir kyni) eftir 67 ára aldur og duga því fimmföld árslaun skammt ef ekki kom til raunvextir umfram laun. Svo koma barna-, maka- og örorkulífeyrir til viðbótar og eru þær greiðslur umtalsverðar.

Opinberir lífeyrissjóðir og almennir.
    Opinberu lífeyrissjóðirnir (ríkis og sveitarfélaga) tryggja sjóðfélögum sínum föst lífeyrisréttindi með lögum og þó að sjóðirnir verði fyrir áfalli (hruni) eða skattlagningu eða nái ekki viðmiðinu um ávöxtun (3,5%) þá skiptir það sjóðfélagana engu máli. Ríkið eða sveitarfélagið verða að hækka iðgjaldið og til þess þarf aukna skatta. Almennu lífeyrissjóðirnir hafa ekki slíkan bakhjarl og því þurfa þeir að skerða lífeyri, hækka iðgjald eða hækka ellilífeyrisaldur. Hærra iðgjald fyrirtækja skerðir getu fyrirtækja til að greiða hærri laun. Skattlagning lífeyrissjóða kemur því beint eða óbeint niður á kjörum fólks á almennum vinnumarkaði og svo þarf það að standa undir aukinni skattgreiðslu til að greiða hækkað iðgjald til opinberu lífeyrisjóðanna. Skattlagningin kemur því tvöföld í bakið á þessu fólki eins og hrunið gerði líka.
    Talið er að hækka þurfi iðgjald ríkisins til A-deildar LSR úr 11,5% af launum í 15,5% af launum að hluta til vegna hrunsins. Opinberir starfsmenn greiða 4% og því þarf heildariðgjaldið að hækka í 19,5% af launum. Þá eru ógreiddar 360 milljarðar kr. til að standa undir skuldbindingum B-deildar LSR og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (1,1 millj. kr. á hvern íbúa landsins) og hafa þær skuldbindingar ekki verið færðar sem slíkar í fjárlög. Þá vantar skuldbindingu sveitarfélaganna vegna starfsmanna sinna. Þetta mun þýða verulegar skattahækkanir sem allir launþegar þurfa að greiða beint eða óbeint.

Markmið yfirlýsingarinnar um lífeyrissmál.
    Geta almennu lífeyrissjóðanna til að greiða lífeyri versnar vegna skattlagningar á lífeyrissjóði á meðan opinberir starfsmenn njóta óskerts lífeyris. Þannig eykur sérhver skattlagning á lífeyrissjóði þann mun sem er á lífeyriskjörum landsmanna. En það var einmitt undirstrikað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að stefnt skuli að því að jafna þann mun. 9. og 16. gr í frumvarpinu um nýja skatta á lífeyrissjóði ganga því þvert á þetta markmið og er ekki furða þó að aðilar kjarasamninga sú óánægðir með þessi ákvæði. Leggur 3. minni hluti til að ríkisstjórnin ræði við þessa aðila um aðrar leiðir en skattlagningu.

VIRK starfsendurhæfingarsjóður.
    Fjölgun öryrkja hefur verið mjög mikil undanfarna tvo áratugi. Hefur örorkulífeyrisþegum hjá Tryggingastofnun fjölgað úr 4.646 í 14.714 eða 3,9% af mannfjölda (16 ára til 66 ára) á tuttugu árum, frá 1990 til 2010. Þetta er mjög uggvænleg þróun að mati margra og benda sumir á að um kerfislægan vanda sé að ræða. Of lítið sé gert til að viðhalda og efla tengsl þeirra sem verða öryrkjar við atvinnulífið og virkja og efla getu þeirra. Einblínt sé á vangetuna, ör-orkuna.
    Þá er matskerfið, 75% örorka, mjög varasamt. Sá sem metinn er meira en 75% öryrki fær fullar bætur, sem svo eru skertar vegna annarra tekna. Hins vegar ef hann endurhæfist þannig að hann verði 74% öryrki fær hann mjög litlar bætur. Þetta er ekki beint hvati til þess að endurhæfast.
    Kvartað hefur verið undan því að starfsendurhæfing og aðlögun að vinnumarkaði sé í skötulíki. Sá sem verður öryrki er því í mjög slæmri stöðu. Hann verður óvirkur og fær fljótlega á tilfinninguna að hann sé óþarfur. Margir öryrkjar kvarta undan fordómum, einangrun og stefnuleysi sem afleiðingu af þessu sinnuleysi kerfisins. Kerfið gerir því hlutskipti öryrkja verra en ella og oft má líkja því við harmleik þegar fólk verður öryrkjar sem eftir áfall hefði geta orðið virkt aftur með nauðsynlegum stuðningi.
    Þess vegna hefur undanfarin 10 ár, að atbeina Landssamtaka lífeyrissjóðanna, aðila vinnumarkaðarins og seinna í nefnd á vegum forsætisráðuneytisins, verið unnið að því að ráða bót á þessu. VIRK er í reynd afrakstur af þessu starfi. Það er sannfæring 3. minni hluta að með slíku starfi megi hemja fjölgun öryrkja og allir munu hagnast á því. Öryrkinn sem virkjar getu sína og fær starf við hæfi og tilgang. Atvinnulífið sem nýtur starfskrafta fyrrverandi öryrkja og reynslu. Lífeyrissjóðurinn og Tryggingastofnun sem lækka útgjöld sín. Svo þjóðfélagið í heild. Þess vegna styður 3. minni hluti allar aðgerðir, sem geta styrkt þetta starf en bendir á að einnig sé mikilvægt að taka á matinu, 75% örorkunni, sem sé kerfislæg villa.
    Mikilvægt er að þessari starfsemi sé fundin fjármögnun til frambúðar og ættu allir að leggjast á eitt að hún finnist. T.d. með því að heimila lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun að greiða til hennar eingreiðslur, sem t.d. svara til þriggja ára lífeyrisgreiðslna, þegar öryrki endurhæfist, enda spara þessir aðilar fé sem ella færi í lífeyrisgreiðslur. Einnig gætu ríkið og sveitarfélög komið að fjármögnun með sama hætti þannig að andvirði t.d. þriggja ára skattgreiðsla viðkomandi yrði endurgreitt til starfseminnar. Mest af öllu varðar að koma þessari starfsemi á þannig að fjöldi öryrkja verði ekki meiri en nauðsynlegt er og eðlilegt. Það er miður ef ríkisvaldið stendur ár eftir ár gegn þróun þessarar starfsemi vegna misskilnings og deilna um hver eigi að gera hvað.
    Í umsögnum var bent á að lagagrunn skorti fyrir starfsemi VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. 3. minni hluti tekur undir nauðsyn þess að starfseminni sé settur slíkur rammi enda er sjóðnum ætlaðir miklir fjármunir.

Frumvarpið.
Einstakar greinar.
    Með 1. gr. er að einhverju leyti tekin til baka breyting sem gerð var fyrir ári á skattlagningu vaxta, sem greiddir eru til útlanda en 3. minni hluti varaði við því á þeim tíma. Verður að telja ámælisvert að gerðar séu svo vanhugsaðar breytingar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skattleggja skuli vexti greidda til tengdra aðila. Það getur verið snúið að finna út hvað aðilar eru tengdir vegna þess hve auðvelt er að dylja eignahald í félögum erlendis, t.d. í Lúxemborg eða á Tortóla-eyju. Þá geta aðilar tengst og orðið ótengdir eftir viðskipti erlendis. 3. minni hluti leggur til að þetta atriði verði skoðað seinna í ljósi líklegra breytinga erlendis.     Þriðji minni hluti er hlynntur breytingum sem gerðar eru í 3. gr. frumvarpsins en þar er slakað á kröfum sem gilda þurfa um frádráttarbærni arðs og söluhagnaðar. Eðlilegra hefði þó verið að fella þessi skilyrði alveg niður.

Leiðrétting.
    Í 2. gr., 4. gr. og 5. gr. er gerð tilraun til að leiðrétta og skýra nánar atriði sem lögfest var með lögum nr. 128/2009. Lögunum var ætlað að koma í veg fyrir misnotkun sem fólst í því að sjálfstætt starfandi menn stofnuðu einkahlutafélög um reksturinn og greiddu sér hluta tekna sinna sem arð og greiddu þá tekjuskatt fyrirtækja (15%, nú 20%) og fjármagnstekjuskatt (10%, nú 20%) af því sem eftir var. Þeir greiddu ekki tryggingagjald og önnur launatengd gjöld. Hefur þessi breyting valdið miklum heilabrotum og bitnað á starfsmönnum venjulegra fyrirtækja. Þá þykir mörgum undarlegt að sömu tekjur séu skattlagðar bæði sem fjármagnstekjur og launatekjur. Telur 3. minni hluti að réttast væri að þessi breyting frá 2009 yrði dregin til baka enda hefur ávinningur af slíkum æfingum minnkað mikið við hækkun á tekjuskatti fyrirtækja úr 15% í 20% og á fjármagnstekjuskatti úr 10% í 20%. Má álykta að þessar breytingar hafi verið gerðar þar sem skattyfirvöld hafi gefist upp á að beita ákvæðum skattalaga um reiknað endurgjald.
    Líkt og fram hefur komið telur 3. minni hluti mikilvægt að persónuafsláttur hækki í samræmi við verðbólgu en bendir á að orðalag 6. gr. frumvarpsins þarf að lagfæra eigi að lögfesta það þannig að það sé til samræmis við það hvernig vísitala neysluverðs til verðtryggingar er reiknuð út.
    Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað þess að miða ákvörðun auðlegðarskattsstofns við raunvirði hlutabréfa (hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé) verði miðað við stofnverð, þ.e. kostnaðarverð hlutabréfa við kaup þeirra eða stofnun félagsins. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ástæða þessarar breytingartillögu séu vandkvæði á því að meta raunvirði hlutabréfa en í umsögn ríkisskattstjóra var ekki fallist á að það sjónarmið gæti réttlætt svo róttæka breytingu. 3. minni hluti gerir alvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð. Hér er verið að breyta afturvirkt forsendum skattstofns sem getur bæði verið til hagsbóta og til skaða fyrir skattþegna. Hér enn að koma í ljós sá flumbrugangur sem einkennt hefur þær gífurlegu skattbreytingar undanfarin ár sem gjörbreytt hafa ásýnd þjóðfélagsins.
    Fjármálaráðuneytið kom með tillögu til efnahags- og skattanefndar um breytingu á þessu ákvæði og leggur meiri hlutinn til breytingu því til samræmis. Er þar lagt til að auðlegðarskattur verði ekki lagður á í tvennu lagi, þ.e. á nettóeignir aðrar en eigið fé að baki hlutafjár á fyrra ári og síðan endurmetið eigið fé að baki hlutafjár á síðara ári, heldur í einu lagi. Það mun hafa í för með sér að matið á nettóeignum í formi eigin fjár/hlutafjár byggist á skattalegu uppgjöri fyrirtækja einu ári fyrr. Þannig verður mat á skattalegu eigin fé við álagningu 2012 byggt á skattalegu uppgjöri fyrirtækja vegna rekstrarársins 2010 og skattlagt með annarri nettóeign aðila eins og hún stóð í árslok 2011. Endurreikningur auðlegðarskattsstofns og álagning auðlegðarskatts á árinu 2013 fellur niður. Leggur meiri hlutinn til að breytingin komi til framkvæmda við álagningu opinbera gjalda árið 2012.

Álagningarár Eign (án hlutabréfa) í árslok Hlutabréfaeign í árslok Hlutabréfaeign endurreiknuð álagningarár
2010 2009 2009 2011
2011 2010 2010 2012
2012 2011 2010
2013 fellur niður

    Í tillögunni virðist ekki gert ráð fyrir að eignarhald manna á hlutabréfum breytist á árinu 2011. Ef maður hefur selt hlutabréf fyrir 20 millj. kr. á árinu 2011 og keypt fyrir andvirðið íbúð eða lagt inn á bankareikning þá telja báðar eignirnar. Eins virðist ekki vera gert ráð fyrir að hlutabréfin tapist alveg á árinu 2011. Ef hann hins vegar hefur keypt hlutabréf fyrir 20 millj. kr. og notað til þess sparifé á bankabók eða tekið til þess lán telur hvorug eignin eða lánið lækkar stofn til auðlegðarskatts. Þeir sem ekki kæra sig um að greiða auðlegðarskatt munu leika þann leik að kaupa hlutabréf í árslok gegn láni og selja svo aftur eftir áramót. Hlutabréfið telur ekki en lánið dregst frá eignum. Þetta gengur auðvitað ekki upp. Allur þessi málatilbúnaður, skyndilausnir og árlegar, illskiljanlegar breytingar, jafnvel afturvirkar, gerir skattgreiðandann óöruggan og tortrygginn. Fyrir nú utan það að svokölluð „auðlegð“, 75 millj. kr. nettóeign, er hjá mörgum afrakstur sparnaðar og ráðdeildar um árabil og finnst þeim illa verðlaunuð sú hegðun. 3. minni hluti áréttar að ákvæði frumvarpsins sem og breytingatillaga meiri hlutans eru illa ígrunduð
    Hér að framan hefur verið rætt ýtarlega um ákvæði 9. gr. um eignarskatta á lífeyrissjóði. 3. minni hluti er andvígur því ákvæði. Rétt er jafnframt að benda á að ákvæði 9. og 15. gr. um skatt á lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki eru ekki tilkomin vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. 3. minni hluti fjallar að öðru leyti ekki um ákvæði sem ekki eru tilkomin vegna yfirlýsingarinnar en áréttar þá afstöðu sína að með þeim ákvæðum er blandað saman óskyldum hlutum og því ættu þau ákvæði með réttu ekki að vera hluti af fyrirliggjandi frumvarpi.

Skattlagning vegna VIRK.
    Í 16. gr. er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir greiði 0,13% af iðgjaldsstofni til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Eins og getið er um hér að framan hefur þetta ákvæði eingöngu áhrif á almennu lífeyrissjóðina því opinberu sjóðirnir fá þetta bætt með hærra iðgjaldi frá opinberum aðilum, launagreiðendum sínum.

Gildistaka í 17. gr.
    Margir umsagnaraðilar bentu á að gildistaka greiðslu til VIRK ætti að eiga sér stað eftir að viðkomandi lagaákvæði er fallið úr gildi. Nái frumvarpið fram að ganga er augljóst að þetta þarf að laga.
    Með vísan til framangreindra athugasemda og í ljósi þeirra verulega vankanta sem eru á fyrirliggjandi frumvarpi leggur 3. minni hluti til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 7. júní 2011.



Pétur H. Blöndal,


frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson.



Fylgiskjal.


Pétur H. Blöndal:

3,5% vaxtaviðmið lífeyrissjóða.


    Nokkur umræða hefur spunnist um þau 3,5% vaxtaviðmið sem notuð er af tryggingafræðingum til að núvirða væntanlegan lífeyri og framtíðariðgjöld, sem og verðbréfaeign lífeyrissjóða, og kveðið er á um í 19. og 20. gr. reglugerðar 391/1998, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sumir halda því fram að þessi viðmið hafi áhrif og virki jafnvel sem lágmark fyrir raunvexti í landinu. Þeir geti ekki farið undir þessi mörk. Þeir ættu að setja sig í spor sjóðstjóra hjá lífeyrissjóði sem þarf að ráðstafa fé en vill ekki sætta sig við lægri vexti en 3,5% vegna þess að lífeyrissjóðurinn hans missir eign við slíka aðgerð eins og lýst er hér á eftir. Hann gerir tilboð aftur og aftur á markaði og í útboðum en fær aldrei vegna þess að meira framboð er af fé en eftirspurn og aðrir fá öll bréfin vegna þess að þeir sætta sig við t.d. 3,0% markaðsávöxtun á verðtryggð ríkistryggð skuldabréf. Ef hann bíður eftir því að markaðsávöxtun hækki og tekur áhættu af því og hún hækkar ekki þá er hann með fjármagn lífeyrissjóðsins á mjög lágum vöxtum (0,15%) á hlaupareikningi. Hann getur sætt sig við meiri áhættu eða reynt fyrir sér erlendis en þar eru öruggir markaðsvextir enn lægri, jafnvel óverðtryggðir og gengisáhætta bætist við. Í öllu falli tekur hann áhættu og getur tapað enn meira. Hann verður því að hlýða markaðsvöxtum og „tapa“ á fjárfestingunni í þeim skilningi að eign lífeyrissjóðsins rýrnar við kaupin. 20 ára skuldabréf með einni greiðslu, 100 millj. kr. í lokin kostar til að mynda 55,4 millj. kr. (=100/1,030^20) miðað 3,0% ávöxtunarkröfu en er metið á 50,3 millj. kr. (=100/1,035^20) við útreikning í eignasafni sjóðsins miðað við 3,5% vaxtaviðmiðið. Eign sjóðsins lækkar því, „rýrnar“, um 5,1 millj. kr. þ.e. 9,2% þegar 55,4 millj. kr. eru notaðar af handbæru fé til að kaupa þetta skuldabréf. Sjóðurinn „tapar“ 5,1 millj. kr. á aðgerðinni. En ef ekkert er að gert tapar sjóðurinn enn meiru með því að fá lága nafnvexti og enga verðtryggingu á þetta fé.
    Þessi vaxtaviðmið, 3,5%, eru ætluð til að jafna aðstöðu sjóðfélaga, sem eru á misjöfnum aldri og eiga eftir að greiða mislengi í lífeyrissjóðinn sinn og sumir hafa jafnvel hafið töku lífeyris. Ef vaxtaviðmið lífeyrissjóðsins væru til langframa lægri en markaðsvextir, væru lífeyrisgreiðslur of lágar eða iðgjald of hátt og sjóðurinn mundi safna eignum umfram skuldbindingu. Fyrstu lífeyrisþegarnir mundu fá of lágan lífeyri en þeir sem seinna kæmu fengju miklu hærri lífeyri vegna „of“ góðrar stöðu lífeyrissjóðsins. Þess vegna er þetta vaxtaviðmið ekkert annað en tilraun til að meta hvaða raunávöxtun lífeyrissjóðirnir muni ná til framtíðar og jafna þannig aðstöðu sjóðfélaga. Eftir að 3,5% vaxtaviðmið var tekið upp um 1980 hafa öruggir raunvextir oft verið hærri og stundum lægri en ekki hefur komið upp umræða um að breyta viðmiðinu fyrr en nú enda hefur það endurspeglað örugga raunvexti í landinu nokkuð vel.
    Raunvextir hafa verið mjög háir hér á landi, bæði vegna þess að frjáls sparnaður er mjög lítill, neysla mikil og mörg fjárfestingartækifæri hafa verið mjög gjöful. Nú kann að verða breyting á vegna samdráttar og því kann að reynast nauðsynlegt að lækka þetta viðmið, t.d. í 2,5%, sem hefði mjög mikil áhrif á stöðu lífeyrissjóða til hins verra. Við því er hægt að bregðast með hækkun iðgjalds, sem skerðir kjör vinnandi fólks eða með skerðingu lífeyris, sem skerðir kjör þeirra sem hættir eru að vinna eða með því að hækka ellilífeyrisaldurinn. Eflaust verður farin blanda af öllum þessum leiðum.
    Í töflunni hér á eftir er sýnt nauðsynlegt iðgjald sem þarf til að standa undir núverandi lífeyrisréttindum almennu lífeyrissjóðanna miðað við ýmsar forsendur um viðmiðunarvextir (raunvaxtastig í þjóðfélaginu) og ellilífeyrisaldur. Taflan byggist á mjög lauslegum útreikningum. Á töflunni sést að þriggja ára hækkun ellilífeyrisaldurs svarar nokkurn veginn til 0,5% lækkunar á ávöxtun. Þannig krefst núverandi staða, 3,5% vaxtaviðmið, 67 ára ellilífeyrisaldur 12,0% iðgjalds, sem er í gildi. Ef vaxtaviðmiðið, langtímaávöxtun sjóðanna, lækkar um 0,5% í 3,0%, þarf að hækka iðgjaldið í 13,5%, eða um 1,5% af öllum launum landsmanna, eða hækka ellilífeyrisaldurinn í 70 ár (sem krefst 11,8% iðgjalds) eða skerða lífeyri varanlega um 11%. (Hann stendur á móti iðgjaldstekjum sem væru 12% en þyrftu að vera 13,5% (=1-12/13,5).)

    Nauðsynlegt iðgjald fyrir hefðbundinn íslenskan lífeyrissjóð.

Raunvextir

Ellilífeyrisaldur

67 ár 68 ár 69 ár 70 ár
1,0% 22,4% 21,3% 20,4% 19,5%
1,5% 19,6% 18,7% 17,9% 17,1%
2,0% 17,2% 16,5% 15,7% 15,1%
2,5% 15,2% 14,5% 13,9% 13,3%
3,0% 13,5% 12,9% 12,3% 11,8%
3,5% 12,0% 11,5% 11,0% 10,5%