Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 25. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1691  —  25. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rakel Sveinsdóttur frá Creditinfo Íslandi hf., Valgerði Rún Benediktsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Maríu Thejll og Sigríði Ármannsdóttur fyrir hönd eftirlitsnefndar með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar, Halldór Jónsson frá Samtökum atvinnulífsins, Andrés Magnússon frá Samtökum verslunar og þjónustu og Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um tillöguna frá Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Creditinfo Íslandi hf., eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna, iðnaðarnefnd Alþingis, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að setja á stofn ráðgjafarstofu fyrirtækja til að aðstoða fyrirtæki í greiðsluörðugleikum við endurskipulagningu rekstrar eða við að hætta rekstri. Gert er ráð fyrir því að ráðgjafarstofan verði þáttur í stuðningskerfi við atvinnulífið og að þar geti fyrirtæki fengið aðstoð og leiðbeiningar áður en þau eru komast í vandræði og lært að þekkja ýmis viðvörunarmerki.
    Flestar umsagnir um tillöguna voru jákvæðar en við umfjöllun um málið komu fram mismunandi sjónarmið um hvernig væri heppilegast að útfæra aðstoð við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja þannig að best þjóni hagsmunum þeirra. Bent var á þá þjónustu sem þegar er fyrir hendi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Byggðastofnun. Einnig var bent á að mikil fyrirhöfn væri fólgin í því að koma nýrri stofnun á fót, slíkt þarfnaðist undirbúnings og tæki tíma og þjónaði varla markmiði sínu. Þá var vísað til þess að e.t.v. væri eðlilegra að þjónusta af þessu tagi yrði veitt á vegum hagsmunasamtaka fyrirtækja. Ljóst er að gæta þarf að samkeppnissjónarmiðum enda eru þegar starfandi ráðgjafar sem þjónusta atvinnulífið hvort sem um fjárhagslega endurskipulagningu er að ræða eða annað. Fram kom það sjónarmið fyrir nefndinni að æskilegra væri að nýta þá þekkingu sem er þegar til staðar hjá ráðgjöfum og ráðgjafarstofum.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að komið verði á fót aðstoð við fyrirtæki í greiðsluörðugleikum en telur óheppilegt að setja á laggirnar sérstaka stofnun til að sinna því hlutverki. Að mati meiri hlutans er skynsamlegra að finna þessari þjónustu stað hjá stofnunum sem þegar eru starfandi, svo sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands, annaðhvort til framtíðar eða sem tímabundnu átaksverkefni. Meiri hlutinn leggur áherslu á að ráðgjafarhlutverkið verði útfært nánar og tryggja skal að það samræmist því hlutverki sem Nýsköpunarmiðstöð gegnir í dag. Verði tillagan samþykkt er nauðsynlegt að byggja sérstaklega upp hæfni og þekkingu á þessu sviði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
         Fari svo að þjónustu af þessu tagi verði fundinn staður hjá Nýsköpunarmiðstöð er mikilvægt að tryggt verði að þjónustan skarist ekki við ráðgjafarþjónustu á samkeppnismarkaði. Þá vekur nefndin athygli á því að margvísleg þjónusta Nýsköpunarmiðstöðvar byggist á aðkeyptri sérfræðiþekkingu, þ.e. þjónustu ýmissa ráðgjafa úr atvinnulífinu og því gæti þjónustu við fyrirtæki í greiðsluörðugleikum verið sinnt af utanaðkomandi aðilum rétt eins og ýmissi annarri þjónustu stofnunarinnar. Í þessu sambandi þarf einnig að gæta að samkeppnissjónarmiðum milli fyrirtækja í greiðsluörðugleikum og því telur nefndin mikilvægt að skilgreina hversu langt yrði gengið í stuðningsþjónustu við einstök fyrirtæki.
    Þá kom fram fyrir nefndinni að þrjú undanfarin ár hafi fjöldi þeirra fyrirtækja sem leita ráðgjafar Impru á Nýsköpunarmiðstöð aukist verulega en Impra veitir frumkvöðlum endurgjaldslausa handleiðslu við þróun viðskiptahugmynda. Úrræði Impru takmarkast þó enn við þann mannafla sem starfaði þar fyrir bankahrunið 2008. Fram kom að með því að bæta við tveimur starfsmönnum með þekkingu og reynslu af ráðgjöf til fyrirtækja væri unnt að starfrækja ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluerfiðleikum innan Impru á grundvelli aðferðafræði hennar.
    Það er því álit nefndarinnar að frekari ráðgjöf við fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum sé mjög ákjósanleg og að finna ætti þeirri þjónustu stað í starfandi stofnun, svo sem í Nýsköpunarmiðstöð Íslands, í stað þess að setja á fót nýja stofnun til að sinna þessu hlutverki.
    Magnús Orri Schram, Eygló Harðardóttir og Sigurður Kári Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Meiri hlutinn leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 6. júní 2011.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Auður Lilja Erlingsdóttir.



Skúli Helgason.


Margrét Tryggvadóttir.




Fylgiskjal.


Álit

um till. til þál. um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur að beiðni viðskiptanefndar tekið til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum (25. mál). Nefndin kynnti sér þær umsagnir sem borist hafa um þingsályktunartillöguna. Að mati nefndarinnar gera flestir umsagnaraðilar ekki verulegar athugasemdir við tillöguna og fagna henni margir.
    Markmið tillögunnar er að setja á stofn ráðgjafarstofu fyrirtækja sem eiga í greiðsluörðugleikum og aðstoða þau við endurskipulagningu rekstrar eða við að hætta rekstri.
    Nefndin telur ljóst að brýn þörf er til staðar fyrir að setja á fót ráðgjafarstofu vegna greiðsluörðugleika fyrirtækja en ráðgjöf á því sviði getur verið fyrirtækjum hjálpleg. Slík ráðgjafarstarfsemi er líkleg til að draga úr fjölda fyrirtækja sem fara í greiðsluþrot í kjölfar fjárhagserfiðleika. Fram kemur í umsögn Creditinfo að fjöldi fyrirtækja sem lent hafa í greiðsluþroti hefur aukist um tæplega 50% á milli áranna 2008 og 2009, en tæplega 30% aukning hefur orðið á fjölda gjaldþrota. Af þessu má sjá að afar mikilvægt er að koma á fót hlutlausri ráðgjöf fyrir fyrirtæki sem eru í fjárhagslegum erfiðleikum.
    Fram kemur í greinargerð með tillögunni að tilvalið væri að ráðgjafarstofan starfaði með Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem veitir frumkvöðlum endurgjaldslausa handleiðslu við þróun viðskiptahugmynda. Þar er einnig hægt að leita aðstoðar vegna viðskiptahugmynda og almennan rekstur fyrirtækja. Hjá Impru/Nýsköpunarmiðstöð er veitt handleiðsla um viðvörunarmerki í rekstri og hvað beri að forðast. Þær áherslur sem nefndar eru í þingsályktunartillögunni ganga mun lengra en núverandi þjónusta Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands nær til.
    Fram kemur hjá nokkrum umsagnaraðilum að huga verði að því að nú þegar eru til fjölmörg ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfa sig í lausnum á skuldavanda fyrirtækja og endurskipulagningu þeirra. Stofnun opinberrar ráðgjafarstofu gæti því skekkt samkeppnisstöðu einkafyrirtækja á þessum markaði. Lögð hefur verið áhersla á að starfsemi Impru skarist ekki á við ráðgjafarþjónustu á samkeppnismarkaði en starfsemin fer ekki inn á starfssvið hefðbundinna rekstrarráðgjafa. Miðað við þingsályktunartillöguna verður þó gengið lengra en almennt er gert. Með hliðsjón af samkeppnissjónarmiðum telur nefndin að mikilvægt sé að skilgreina hversu langt yrði gengið í stuðningsþjónustu við einstök fyrirtæki í rekstrarvanda. Einnig þarf að liggja fyrir hversu mikla vinnu er hægt að leggja í til að greiða úr rekstrarerfiðleikum fyrirtækja og eftirfylgni við málarekstur vegna slíka mála. Nefndin telur að hagkvæmt geti talist að bæta úrræðum fyrir fyrirtæki í greiðsluörðugleikum við þjónustuna sem þegar er fyrir hendi hjá Impru í stað þess að stofna nýja stofnun til að sinna þessu hlutverki. Engu síður er vert að hafa í huga að með þátttöku á þessu sviði verður Nýsköpunarmiðstöð Íslands farin að teygja sig út fyrir kjarnastarfsemi sína og orðin meiri þátttakandi í hagsmunamálum og rekstri fyrirtækja en fordæmi eru fyrir.
    Iðnaðarnefnd lýsir yfir stuðningi sínum við umrædda þingsályktunartillögu og telur fulla þörf á því að koma henni til framkvæmda. Hins vegar er nauðsynlegt að kanna hvort fela ætti Nýsköpunarmiðstöð Íslands þetta hlutverk, hvort sem það er til frambúðar eða sem tímabundnu átaksverkefni. Útfæra þyrfti nánar hlutverk ráðgjafarstofu af þessu tagi og tryggja að það samræmist því hlutverk sem Impra gegnir í dag. Ef tillagan nær fram að ganga er nauðsynlegt að byggja sérstaklega upp hæfni og þekkingu á þessu sviði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Alþingi, 1. júní 2011.

Kristján L. Möller, form.,
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Magnús Orri Schram,
Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara,
Gunnar Bragi Sveinsson,
Margrét Tryggvadóttir, með fyrirvara,
Þuríður Backman,
Jón Gunnarson, með fyrirvara,
Sigmundur Ernir Rúnarsson.