Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 891. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1787  —  891. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um prófessorsstöðu tengda nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

Frá forsætisnefnd.



    Alþingi ályktar – í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta 17. júní 2011 – að stofnuð verði prófessorsstaða tengd nafni hans.
    Prófessorsstaðan verði við Háskóla Íslands en starfsskyldur þess sem henni gegnir verði m.a. við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða.
    Staðan verði auglýst og skipað í hana á fimm ára fresti eftir almennum reglum um prófessora. Heimilt verði að endurnýja skipunartímann einu sinni.
    Prófessorinn hafi rannsókna- og kennsluskyldu í sínu fagi. Eitt lykilverkefna verði að halda árlega ráðstefnur og námskeið í sumarháskóla á Hrafnseyri með innlendum og erlendum kennurum og fyrirlesurum.
    Við skipun í prófessorsembættið verði höfð hliðsjón af því hvernig áætlun umsækjenda um rannsóknarstarf og kennslu tengist lífi, starfi og arfleifð Jóns Sigurðssonar og efli þekkingu á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa málið þannig að prófessorinn geti tekið til starfa frá og með næstu áramótum.

Greinargerð.


    Jón Sigurðsson skipar sérstakan heiðurssess í íslenskri sögu. Sem forustumaður Íslendinga í þeirri þjóðfrelsisbaráttu sem hófst um miðbik 19. aldar greyptist persóna hans og minning í þjóðarvitund Íslendinga. Fæðingardagur hans var valinn sem þjóðhátíðardagur hér á landi og lýðveldisstjórnarskráin látin taka gildi þann dag 1944.
    17. júní 1911, þegar öld var liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, var Háskóli Íslands stofnsettur í Alþingishúsinu. Minningarmörk Jóns Sigurðssonar blasa hvarvetna við; í þingsalnum er mynd af honum og á Austurvelli, fyrir framan Alþingishúsið, er stytta. Ár hvert er lagður blómsveigur frá íslensku þjóðinni við fótstall þeirrar styttu til að minnast forustu hans í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Reykvíkingar leggja blómsveig á leiði Jóns og konu hans í kirkjugarðinum við Suðurgötu ár hvert á þjóðhátíðardaginn.
    Afmælis Jóns Sigurðssonar hefur verið minnst með margvíslegum hætti á þessu ári. Nefnd var skipuð 2007 til þess að skipuleggja ýmsa viðburði, sýningar o.fl. til að minnast starfa Jóns. Starfsvettvangur hans var breiður. Hann var ekki aðeins forustumaður frelsisbaráttunnar heldur líka einn fremsti vísindamaður í norrænum fræðum um sína daga. Víðsýni hans og þekking var einstæð. Það, ásamt ríkri réttlætiskennd, var sá grundvöllur sem málstaður hans var reistur á, að Ísland yrði frjálst og fullvalda ríki og efldar yrðu framfarir í atvinnuháttum og lífskjörum þjóðarinnar. „Vísindi og kunnátta eru lykill að allri framför manna og hagsældum“ sagði Jón Sigurðsson í grein sinni „Um alþíng“ árið 1842.
    Jón Sigurðsson var forseti Alþingis lengi, forseti neðri deildar og forseti sameinaðs Alþingis við lok þingsetu sinnar. Af þessu tilefni vill Alþingi að stofnuð verði staða prófessors er verði tengd nafni Jóns í þakklætis- og virðingarskyni fyrir framlag hans á Alþingi, bæði sem stjórnmálaleiðtoga þingsins og hins formlega forustumanns þess.
    Vel þykir fara á því að starfsstöð prófessorsins verði á heimaslóðum Jóns Sigurðssonar því höfuðviðfangsefni prófessorsins verður rannsóknir og kennsla á þeim sviðum sem tengjast lífi og starfi Jóns. Æskilegt er að prófessorinn hafi búsetu nálægt starfsstöð sinni; sú er reynslan af þátttöku vísindamanna í starfi háskólasetranna, en aðstæður vísindamanna og mat hæfnisnefndar verður þó að ráða niðurstöðu um það atriði hverju sinni. Um ráðningu prófessorsins gildi að öðru leyti allar almennar reglur um ráðningu prófessora við Háskóla Íslands, um akademískar kröfur og dómnefnd. Ráðgert er að prófessorinn heyri undir rektor nema rektor ákveði aðra skipan á því.
    Síðastliðin tíu til fimmtán ár hefur eitt af áherslusviðum Háskóla Íslands verið uppbygging rannsókna- og fræðasetra á landsbyggðinni. Um þessar mundir eru þau átta talsins um allt land. Setrin hafa orðið mikil lyftistöng fyrir fræða- og menningarstarf í þeim byggðum þar sem þau eru, eins og skýrsla um starfsemi þeirra á árinu 2010 sýnir. Þar kemur skýrt fram hversu vel akademískir starfsmenn rannsóknasetranna tengjast deildum, nemendum og öðrum kennurum við Háskóla Íslands, bæði í kennslu- og rannsóknastarfi.
    Megintilgangur rannsóknasetranna er að styrkja uppbyggingu rannsókna- og fræðastarfs með hliðsjón af aðstæðum og sérstöðu svæðanna. Sérstaðan getur verið landfræðileg, líffræðileg eða sögu- og samfélagsleg. Tilgangur starfseminnar er enn fremur að stuðla að fjölbreyttara atvinnu- og menningarlífi. Prófessorsstaða eins og hér er lögð til yrði lyftistöng fyrir starfsemi minningarsafns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri, m.a. fyrir sumarháskólann sem haldinn er þar árlega. Auk þess yrði staðan styrkur fyrir sagn- og stjórnmálafræðirannsóknir á Vestfjörðum, en þar er nú þegar unnið að ýmsum hug- og félagsvísindaverkefnum. Alþingi hefur fyrir sitt leyti styrkt Stofnun rannsóknasetra við Háskóla Íslands um árabil með fjárveitingum sem fara árlega til setranna. Þær fjárveitingar eru í umsjá mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Akademískir starfsmenn rannsóknasetra Háskóla Íslands eru valdir eftir sömu hæfniskröfum og aðrir kennarar háskólans. Þeir njóta fullra réttinda sem háskólakennarar, hafa m.a. aðgang að rannsókna- og vinnumatssjóðum háskólans.