Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 661. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1814  —  661. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 30/1987, um orlof, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá velferðarráðuneyti. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi, Hrunamannahreppi, Persónuvernd, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting til rýmkunar á rétti starfsmanna til töku orlofs í kjölfar veikinda. Samkvæmt gildandi lögum um orlof þarf starfsmaður, sem vegna veikinda gat ekki farið í orlof á þeim tíma sem ákveðið hafði verið, að ljúka orlofi fyrir 31. maí næstan á eftir ellegar fá orlof sitt greitt út. Felur frumvarpið í sér að þetta skilyrði verði fellt niður en áfram gert ráð fyrir því að starfsmaðurinn taki orlof eins fljótt og unnt er. Þá er jafnframt lagt til að felld verði niður skylda til að greiða orlofslaunin til starfsmanns hafi hann ekki lokið töku orlofs fyrir 31. maí.
    Nefndin hefur fjallað um málið og kynnt sér umsagnir sem borist hafa. Enginn af átta umsagnaraðilum gerir athugasemd við málið sem unnið hefur verið í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Telur nefndin efni frumvarpsins til hagsbóta fyrir starfsmenn þar sem réttur þeirra til orlofs er rýmkaður og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásmundur Einar Daðason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. ágúst 2011.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Pétur H. Blöndal.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Guðmundur Steingrímsson.


Unnur Brá Konráðsdóttir.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.