Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 650. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1849  —  650. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til safnalaga.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eirík Þorláksson og Ragnheiði H. Þórarinsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur frá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristínu Huld Sigurðardóttur og Þór Hjaltalín frá Fornleifavernd ríkisins, Helga Torfason, forstöðumann Náttúruminjasafns Íslands, Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð, Rakel Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra safnaráðs, og Halldór Björn Runólfsson, forstöðumann Listasafns Íslands. Þá bárumst umsagnir frá Fornleifafræðingafélagi Íslands, Fornleifavernd ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landbúnaðarsafni Íslands, Náttúruminjasafni Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, stjórn íslensku ICOMOS-nefndarinnar, Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands, safnaráði, FÍSOS og Íslandsdeild ICOM.
    Með frumvarpinu er kveðið á um skipulag og stjórnsýslu safnamála á Íslandi með það fyrir augum að efla starfsemi safna í landinu. Einnig er tilgangur frumvarpsins sá að tryggja markvissari nýtingu fjárveitinga ríkisins til málaflokksins og bætt aðgengi almennings að þeim menningar- og náttúruarfi sem er að finna í söfnum landsins. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Íslensk muna- og minjasöfn: Meðferð og nýting á ríkisfé, sem gerð var fyrir Alþingi í maí 2009, kemur fram mikilvægi þess að mótuð verði skýr safnastefna og forræði menntamálaráðuneytisins á safnamálum aukið. Jafnframt kemur fram að nauðsynlegt sé að móta langtímastefnu um fjárveitingar til safnamála, einfalda þurfi styrkjakerfi safna og setja fastmótaðar reglur um styrkveitingar, sem og að auka eftirlit með þeim. Einnig telur Ríkisendurskoðun að stefna eigi að öflugri og hagkvæmari rekstrareiningum safna sem standi undir faglegum kröfum og að koma þurfi á sjóðakerfi fyrir aðila sem starfa utan safnalaga. Frumvarpinu er m.a. ætlað að koma til móts við helstu ábendingar Ríkisendurskoðunar í fyrrgreindri skýrslu.
    Í skýrslunni kemur fram að í ársbyrjun 2009 hafi verið um 60 fullburða lista-, náttúru- og menningarminjasöfn í landinu. Því til viðbótar séu safnvísar, setur og sýningar rúmlega 200 talsins. Bent er á að söfnum hafi fjölgað mjög á Íslandi á sama tíma og þeim hefur fækkað til muna í Danmörku og Noregi þar sem söfn hafa verið sameinuð á undanförnum árum í færri og stærri einingar. Í fjárlögum ársins 2009 var 1,6 milljörðum kr. varið til safnamála, þar af 730 millj. kr. til safna sem ekki eru í ríkiseigu. Fjárlaganefnd úthlutaði meiri hluta þess fjár (52%) til einstakra safna, safnvísa, setra og sýninga en fjárlaganefnd hefur nú tekið þá skipan til gagngerrar endurskoðunar í því skyni að auka fagmennsku og eftirlit með ráðstöfun styrkveitinga, m.a. til samræmis við ábendingar Ríkisendurskoðunar.
    Almennt má segja um frumvarpið að þar birtist sú stefna stjórnvalda að stuðla að auknu samstarfi og skýrari verkaskiptingu safna í landinu, ýta undir samstarf safna innan landshluta sem og samstarf við höfuðsöfn og ábyrgðarsöfn sem geti tekið að sér að leiða samstarf safna á tilteknum sviðum.

Gildissvið og skilgreiningar.
    Frumvarpið tekur til safna í eigu ríkisins og annarra safna sem eru viðurkennd samkvæmt frumvarpinu. Gildissvið núgildandi safnalaga, nr. 106/2001, takmarkast við list- og minjasöfn en með frumvarpinu er ætlunin að önnur söfn, svo sem vísindasöfn, falli undir gildissvið laganna.
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er hugtakið safn skilgreint en byggt er á þeirri skilgreiningu sem fram kemur í siðareglum Alþjóðaráðs safna (ICOM) og í 4. gr. gildandi safnalaga. Ákvæðið felur í sér það nýmæli að sérstaklega er tekið fram að söfn starfi í þágu almennings og að þau skuli ekki vera rekin í hagnaðarskyni. Við meðferð málsins var lagt til að tekin yrði afstaða til þess hvort lögvernda ætti heitið safn. Meiri hlutinn bendir á að almenn merking orðsins sé sú að safn sé stofnun þar sem safngripir eru geymdir en þó eru fleiri skýringar þekktar. Í löggjöf hér á landi eru til dæmi um lögverndun starfsstétta og starfsréttinda en almenn tegundaheiti, svo sem skóli og fjölmiðill eru ekki lögvernduð. Hið sama gegnir um heitið safn og er það mat nefndarinnar að ekki sé tilefni til að lögvernda hugtakið og það yrði ekki til þess fallið að efla safnastarf í landinu.
    
Safnvísar, setur og sýningar.
    Kveðið er á um safnvísa, setur og sýningar í 5. gr. frumvarpsins en þau teljast ekki til safna í skilningi 3. gr. þess. Þessi hugtök hafa ekki verið skilgreind í löggjöf hér á landi og slík safnastarfsemi hefur ekki haft aðgang að styrkjum úr safnasjóði.
    Stór hluti stofnana í landinu sem stundar safnatengda starfsemi telst fremur til safnvísa en safna. Í frumvarpinu segir að safnvísir starfi að nokkru leyti sem safn en uppfylli ekki öll skilyrði laganna um söfn, m.a. með tilliti til hlutverks, safnkosta og umfangs starfseminnar. Sú tillaga kom frá umsagnaraðilum að þar sem notkun þeirra hugtaka sem ákvæðið fjallar um sé ekki nægilega skýr sé rétt að fella ákvæðið brott. Talsverðar umræður urðu í nefndinni varðandi skilgreiningu á hugtökunum safnvísir, setur og sýningar. Meðal þeirra sem vinna að safnamálum eru hugtökin „safnvísir“, „setur“ og „sýning“ notuð til viðbótar við safnahugtakið til að greina á milli mismunandi tegunda safnastarfsemi. Í ljósi þessa er það mat meiri hlutans að rétt sé að skilgreina þessi hugtök í löggjöf og leggur til breytingar á ákvæðinu með það fyrir augum að skýra skilgreiningar hugtaka. Skv. 4. mgr. 22. gr. frumvarpsins geta önnur söfn, safnvísar, setur og sýningar notið styrks úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn. Viðurkennd söfn bera ábyrgð á þessum verkefnum og ábyrgjast gagnvart sjóðnum að allir samstarfsaðilar vinni samkvæmt ákveðnum faglegum gæðakröfum.

Safnaráð.
    Fjallað er um skipan safnaráðs í 7. gr. frumvarpsins. Þær breytingar eru gerðar á skipan ráðsins frá gildandi lögum að lagt er til að Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) tilnefni einn fulltrúa, auk þess sem Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag íslenskra safna og safnamanna tilnefni áfram hvort sinn fulltrúa. Ákvæðið felur einnig í sér það nýmæli að ráðherra skipi tvo fulltrúa án tilnefningar og skuli annar þeirra jafnframt vera formaður ráðsins. Samkvæmt ákvæðinu eiga forstöðumenn höfuðsafna ekki sæti í safnaráði en fram kemur í 3. mgr. 7. gr. að forstöðumenn höfuðsafnanna þriggja sitji fundi safnaráðs stöðu sinnar vegna til að tryggja eðlilegt samráð allra þessara aðila um málefni safna. Nokkur gagnrýni kom fram hjá umsagnaraðilum vegna þessa og þá aðallega í þá veru að forstöðumenn höfuðsafna eigi sæti í safnaráði stöðu sinnar vegna. Meiri hlutinn vill benda á að skv. 4. mgr. 22. gr. frumvarpsins geta höfuðsöfn í samvinnu við viðurkennd söfn átt aðild að verkefnum sem sótt er um styrki úr safnasjóði til að framkvæma. Eigi forstöðumenn höfuðsafna einnig sæti í ráðinu getur komið upp vanhæfi þar sem höfuðsöfn geta verið aðilar að styrkumsóknum sem ráðið veitir umsögn um skv. j-lið 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Telur meiri hlutinn að slík staða geti vakið réttmætan vafa um hlutlægni ráðsins í ákvörðunum sínum. Meiri hlutinn telur að áhrif höfuðsafna í safnaráði séu nægilega tryggð með rétti forstöðumanna til að sitja fundi ráðsins, auk þess sem kveðið er á um nánari samvinnu ráðsins og þeirra samkvæmt ákvæði 7. gr. frumvarpsins. Þar að auki áréttar meiri hlutinn að hlutverk safnaráðs er að vera ráðgefandi gagnvart ráðherra en jafnframt að hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu.
    Fram kemur í f-lið 7. gr. frumvarpsins að það sé eitt af hlutverkum safnaráðs að setja skilmála um skráningarkerfi safna og viðurkenningu á þeim. Fram kom sú ábending við meðferð málsins að ákvæðinu yrði breytt á þann veg að safnaráð setti skilmála um staðla fyrir skráningarkerfi safna í stað þess að það setji skilmála um skráningarkerfin. Meiri hlutinn tekur undir þessa athugasemd þar sem með ákvæðinu átti að tryggja að öll söfn notuðu í starfi sínu skráningarkerfi sem eru samhæfanleg við netið og að auðvelt yrði að flytja upplýsingar milli kerfa, fremur en að safnaráð geti sagt fyrir um að öll söfn skuli nota sömu skráningarkerfin.
    Fram kom sú gagnrýni í máli einstakra umsagnaraðila að ekki væri nægilega tryggt með ákvæðinu að safnaráð verði skipað fagaðilum á sviði safnamála. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið og leggur til þá breytingu að fulltrúar í safnaráði og varamenn þeirra skuli hafa til að bera fagþekkingu á sviði safnamála, nánar tiltekið menntun og/eða starfsreynslu á umræddu sviði.

Viðurkennd söfn.
    Fram kemur í 9. gr. frumvarpsins að ráðherra veiti safni viðurkenningu að fenginni tillögu safnaráðs. Um er að ræða formlegt ferli sem er nýmæli í íslenskri löggjöf en hefur verið almenn regla í nágrannalöndum okkar. Ferlið felur í sér að öll söfn sem hingað til hafa notið rekstrarstyrkja úr safnasjóði þurfa við gildistöku laganna að sækja um viðurkenningu. Í 10. gr. frumvarpsins er fjallað um þau skilyrði sem söfn þurfa að uppfylla til þess að öðlast viðurkenningu.
    Í 10. gr. frumvarpsins er fjallað um þau skilyrði sem söfn þurfa að uppfylla til þess að öðlast viðurkenningu. Fram kemur í 2. tölul. að til þess að hljóta viðurkenningu skuli safn hafa sjálfstæðan fjárhag, aðskilinn frá öðrum rekstri eiganda. Fulltrúar sveitarfélaga lýstu yfir áhyggjum af því að þetta gæti haft í för með sér röskun á starfsemi safna í eigu sveitarfélaga. Bent var á að safn sem rekið er af sveitarfélagi lúti reglum sveitarfélagsins, m.a. um hvernig fara skuli með rekstrarafgang eða rekstrarhalla á milli ára. Meiri hlutinn bendir á að með þessu ákvæði sé fyrst og fremst verið að tryggja að rekstur safna sé aðgreinanlegur í bókhaldi eigenda þeirra en ekki sé ætlunin að breyta stöðu safna í eigu sveitarfélaga hvað varðar fjárhag og reikningsskil.
    Til þess að öðlast viðurkenningu skal safn skv. 4. tölul. 10. gr. starfa í samræmi við skilmála safnaráðs um húsnæði, öryggismál, skráningarkerfi og faglega starfsemi. Með þessu ákvæði á að tryggja ákveðið samræmi í starfsemi safna og jafna stöðu þeirra varðandi ytri aðstæður og starfshætti. Við meðferð málsins komu fram þær athugasemdir að þetta skilyrði kunni að vera svo íþyngjandi að það muni reynast erfitt að uppfylla án verulegra útgjalda fyrir viðkomandi söfn. Þetta geti haft í för með sér þrýsting á sveitarfélög um aukin fjárútlát. Meiri hlutinn bendir á að viðurkenning safna byggist á alþjóðlegum viðurmiðunum. Meiri hlutinn vill þó árétta að telji safn sig þurfa lengri tíma til að aðlaga starfsemi sína að nýrri löggjöf sé ekkert sem kemur í veg fyrir að safnaráð mæli með tímabundinni viðurkenningu safns á meðan slík aðlögum fer fram og veiti þannig viðkomandi safni lengri aðlögunartíma en bráðabirgðaákvæði gerir ráð fyrir í frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur hins vegar undir sjónarmið umsagnaraðila um að eðlilegt sé að veita söfnum rýmri aðlögun til að laga starfsemi sína og umgjörð að breyttu lagaumhverfi. Leggur meiri hlutinn til að gildistöku laganna verði frestað til 1. janúar 2013.
    Sú skylda er lögð á viðurkennt safn skv. 5.tölul. 10. gr. að það veiti skólanemendum sem heimsækja það vegna náms aðgang án gjaldtöku. Hjá umsagnaraðilum kom fram að eðlilegt væri að afmarka þá heimild nánar, svo sem við söfn sem njóta opinberra styrkja og jafnvel tiltekin skólastig. Meiri hlutinn bendir á að nú þegar taka söfn á móti nemendum án gjaldtöku þegar um námsferðir er að ræða. Meiri hlutinn leggur til að umræddu ákvæði verði breytt á þann veg að heimild til aðgangs án gjaldtöku takmarkist við skipulagðar námsferðir skóla. Nefndin áréttar að hér sé miðað við námsferðir á vegum skóla í almenna skólakerfinu.
    Eins og áður sagði þá er það ráðherra sem veitir safni viðurkenningu að fenginni tillögu safnaráðs. Meiri hlutinn vill benda á að ef safnaráð telur að ekki séu öll skilyrði viðurkenningar uppfyllt og hafnar því að gera tillögu um viðurkenningu til ráðherra þá hefur það safn sem sækist eftir viðurkenningu rétt á að beina kvörtun sinni til ráðherra sem óskar þá eftir rökstuðningi safnaráðs í málinu. Ef ráðherra er sammála niðurstöðu safnaráðs tilkynnir hann ákvörðun sína og getur farið fram á að safnið bæti úr þeim atriðum sem gerðar eru athugasemdir við. En ef ráðherra er ósammála niðurstöðu safnaráðs á hann að tilkynna ákvörðun sína og getur þá farið fram á að safnaráð endurskoði ákvörðun sína og sendi ráðherra nýja tillögu um stöðu viðkomandi safns.

Starfsemi viðurkenndra safna.
    Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um viðurkennd söfn og starfsemi þeirra en áhersla er lögð á þjónustuhlutverk þeirra og hvaða þættir efli skilning á þróun og stöðu menningar, lista náttúru eða vísinda.
    Kveðið er á um ráðstöfun safngripa í 16. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram að hafi viðurkennt safn notið opinberra styrkja skv. 11. eða 22. gr. frumvarpsins skuli safnkosti þess ráðstafað í samræmi við fyrirmæli stofnskrár eða samþykkta og í samráði við viðkomandi höfuðsafn. Jafnframt segir í 2. mgr. 16. gr. að óheimilt sé að taka af safnskrá muni sem viðurkennt safn hefur fengið að gjöf eða með arfleiðslu eða sem keyptir hafa verið fyrir almannafé. Við meðferð málsins komu fram þær athugasemdir að ákvæði 2. mgr. 16. gr. kynni að stangast á við 1. mgr. 16. gr. og ákvæði 17. gr. um förgun safngripa. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir og leggur til að 2. mgr. 16. gr. frumvarpsins falli brott.
    Söfnum í eigu ríkisins er heimilt að taka aðgangseyri skv. 19. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er nýmæli en nauðsynlegt er að skýr lagastoð sé fyrir slíkri gjaldtöku. Fram kom sú athugasemd við meðferð frumvarpsins að sama þörf væri fyrir skýra gjaldtökuheimild hvort sem um væri að ræða starfsemi í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Meiri hlutinn vill benda á að ákvæðið er heimildarákvæði og í ljósi þess sé ekkert því til fyrirstöðu að það taki til allra safna sem frumvarpið tekur til, í stað þess að binda það eingöngu við söfn í eigu ríkisins. Meiri hlutinn gerir tillögu um breytingu þar að lútandi.

Safnasjóður.
    Fjallað er um hlutverk safnasjóðs í VI. kafla frumvarpsins en meginhlutverk sjóðsins er að efla starfsemi safna sem undir lög þessi falla. Fram kemur í 22. gr. frumvarpsins að ráðherra úthlutar styrkjum úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs. Í núgildandi safnalögum er það hins vegar safnaráð sem úthlutar styrkjum úr safnasjóði. Fram komu hjá umsagnaraðilum athugasemdir þess efnis að fremur ætti að viðhalda núverandi fyrirkomulagi en leggja til þessar breytingar. Meiri hlutinn bendir á að skv. i- og j-lið 7. gr. frumvarpsins verður það hlutverk safnaráðs að setja safnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra svo staðfestir. Með þessari breytingu er fyrirkomulag úthlutunar styrkja fært til þess sem gildir um ýmsa aðra sjóði á sviði menningarmála. Sem dæmi má nefna úthlutanir úr tónlistarsjóði og leiklistarsjóði þar sem fagnefndir gera tillögur til ráðherra sem ákveður endanlegar styrkveitingar. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að sama fyrirkomulag verði viðhaft um úthlutanir úr safnasjóði, þ.e. að úthlutun sé í höndum æðra stjórnvalds á grundvelli tillagna frá safnasjóði.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 1. sept. 2011.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Oddný G. Harðardóttir.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Unnur Brá Konráðsdóttir.


Auður Lilja Erlingsdóttir.