Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 650. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1881  —  650. mál.




Nefndarálit



um frv. til safnalaga.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Haustið 2008 voru kynnt drög að frumvarpi til nýrra laga um muna- og minjavörslu. Hlutverk og staða safna í samfélaginu var þar skilgreind á þrengri hátt en í gildandi löggjöf. Einnig var gert ráð fyrir að nýrri stofnun, Minja- og safnastofnun Íslands, yrði falið að sinna stjórnsýslu málaflokksins undir menntamálaráðuneytinu. Var frumvarpið þannig á margan hátt sambærilegt hinum dönsku „museumloven“ sem fjalla um bæði söfn og menningarminjar. Þar er „Kulturarvstyrelsen“ stjórnsýslustofnun málaflokksins og ber þannig ábyrgð á fornminjum, friðuðum byggingum, ríkissöfnum og söfnum sem fengið hafa viðurkenningu stjórnvalda.
    Með framlagningu frumvarpa um söfn (650. mál) og menningarminjar (651. mál) tók mennta- og menningarmálaráðherra ákvörðun um að velja frekar sænska módelið. Þar með yrði sett á stofn sérstök stofnun um menningarminjar en skipan safnamála yrði áfram að mestu leyti með svipuðum hætti, sbr. hin sænsku „lag om kulturminnen“, auk sérlaga um einstök höfuðsöfn.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um safnamál frá maí 2009 er að finna margvíslegar ábendingar um rekstur safna á Íslandi. Þar kemur fram að á fjárlögum ársins 2009 varði ríkið 1,6 milljarði kr. til safnamála, fyrir utan bóka- og skjalasöfn. Fjárlaganefnd Alþingis úthlutaði langstærstum hluta fjárins, um 52%, safnaráð um 15%, menntamálaráðuneyti um 23%, önnur ráðuneyti um 8% og húsafriðunarnefnd um 2%.
    Í skýrslunni var fjallað um fyrri frumvarpsdrög og komið með fjölmargar ábendingar til Alþingis um hvað mætti betur fara í muna- og minjavörslu og safnastarfi í landinu. Ríkisendurskoðun hvatti Alþingi til að leggja til að menntamálaráðuneytið mótaði skýra safnastefnu, forræði menntamálaráðuneytis yfir safnamálum yrði aukið, þáverandi væntanleg Minja- og safnastofnun Íslands fengi aukið vægi, mótuð yrði langtímastefna um fjárveitingar til safnamála, styrkjakerfi safna einfaldað, fastmótaðar reglur um styrkveitingar yrðu settar, markvisst yrði unnið að því að fækka og styrkja söfnin, komið yrði á sjóðakerfi fyrir aðila sem starfa utan núgildandi safnalaga og eftirlit með styrkjum yrði eflt og samræmt.
    Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir er aðeins komið til móts við þessar ábendingar að litlu leyti. Það er mat minni hlutans að skynsamlegra hefði verið að vinna frumvörp um menningarminjar og söfn saman líkt og upphaflega var lagt til með framlagningu málanna. Í frumvarpinu er safnaráði falið að vinna að stefnumörkun um safnastarf í samvinnu við höfuðsöfn sem send er ráðherra til samþykktar í stað þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið móti sjálft skýra stefnu. Þyrfti þá að horfa til landsins í heild og einstakra landshluta og marka forgangsröðun verkefna samkvæmt því. Einnig þarf að taka skýra afstöðu til hvaða safna- og sýningarstarfsemi ríkið á sjálft að annast og hvaða starfsemi einkaaðilar eða sveitarfélög eiga að sinna. Mætti þá horfa til skýrslunnar „Utredning om fremtidens museumslandskab“ sem nýlega var unnin á vegum danska menningarmálaráðuneytisins.
    Það er mat minni hlutans að það fyrirkomulag sem nú er lagt til muni veikja væntanlega Minjastofnun og málaflokkinn í heild. Skilvirkni minjavörslu verður ekki aukin og stjórnkerfi hennar ekki einfaldað né samræmt nægilega vel. Í núverandi efnahagsástandi er mikilvægt að leita allra leiða til að auka skilvirkni einstakra málaflokka sem mun vonandi skila aukinni hagkvæmni til framtíðar. Mætti þá einnig horfa til Noregs og Bretlands þar sem skjala- og bókasöfn falla einnig undir viðkomandi stofnanir.
    Í 5. gr. frumvarpsins eru í fyrsta sinn skilgreindar stofnanir sem stunda safnatengda starfsemi, þ.e. safnvísar, setur og sýningar. Þessum stofnunum hefur fjölgað ört á undanförnum árum án þess þó að skýr stefnumörkun hafi legið fyrir. Óljósar upplýsingar hafa komið fram um breytingar á fjárveitingum til safna í gegnum Alþingi og litlar upplýsingar liggja fyrir um hvernig eftirliti með styrkjum mun verða háttað. Minni hlutinn tekur undir að nauðsynlegt sé að taka núverandi styrkjakerfi til endurskoðunar. Það verður þó að byggjast á pólitískri framtíðarsýn um uppbyggingu safnastarfs í landinu og ekki leiða til aukins flækjustigs fyrir safnatengda starfsemi og skorts á yfirsýn og eftirfylgni löggjafarvaldsins með styrkveitingum.
    Því leggur minni hlutinn til að frumvarpið nái ekki fram að ganga að sinni.

Alþingi, 8. sept. 2011.



Eygló Harðardóttir.