Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1889, 139. löggjafarþing 701. mál: skattlagning á kolvetnisvinnslu (breyting ýmissa laga vegna olíuleitar).
Lög nr. 110 16. september 2011.

Lög um breytingu á ýmsum lögum vegna skattlagningar á kolvetnisvinnslu (virðisaukaskattur, tekjuskattur, staðgreiðsla opinberra gjalda).


I. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

1. gr.

     Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. A, svohljóðandi:
     Til skattskyldrar veltu telst ekki:
  1. Sala og útleiga á olíuborpöllum og fljótandi hafstöðvum til notkunar við kolvetnisvinnslu. Undanþágan tekur einnig til rekstrarbúnaðar sem er afhentur með slíkum mannvirkjum.
  2. Sala á þjónustu á síðasta stigi viðskipta sem stendur í beinum tengslum við byggingu, endurbyggingu, viðgerðir og viðhald á mannvirkjum og búnaði skv. 1. tölul. Undanþágan tekur einnig til vöru sem er afhent í tengslum við afhendingu á slíkri þjónustu.
  3. Björgunarþjónusta í tengslum við mannvirki skv. 1. tölul.
  4. Sala á vöru og þjónustu á síðasta stigi viðskipta til nota í beinum tengslum við byggingu, endurbyggingu, viðgerðir og viðhald á leiðslum frá hafsvæði utan gildissviðs laga þessara til lands.
  5. Sala á vöru og þjónustu til nota á hafsvæði utan landhelgi í tengslum við rannsóknir og nýtingu á auðlindum á hafsbotni svo fremi sala sé til aðila sem hafa fengið leyfi til rannsókna og/eða vinnslu kolvetnis, svo og annarra aðila sem taka með beinum hætti þátt í rannsóknum, vinnslu og dreifingu kolvetnisafurða.

     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um vöru og þjónustu sem fellur undir undanþágur skv. 4. og 5. tölul. 1. mgr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Við 4. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Rekstrartekjur aðila sem eru skattskyldir skv. 2. gr. laga um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, og falla ekki undir 2. gr. laga þessara, skal gera upp samkvæmt reglum sem gilda um fastar starfsstöðvar, enda vari starfsemin samtals lengur en 30 daga á 12 mánaða tímabili.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Með orðunum „hér á landi“ í 1. mgr. er átt við landið sjálft, landhelgina, efnahagslögsöguna og landgrunnið, sem og svæði þar sem Ísland hefur rétt til skattlagningar lögum samkvæmt eða samkvæmt sérstökum samningum við erlent ríki.


3. gr.

     Við 2. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er í sjálfstæðum afmörkuðum verkefnum sem taka til tveggja eða fleiri tekjuára að draga frá eða mynda tap með slíkum rekstrarkostnaði fyrr en verkefnin byrja að afla tekna eða fyrir liggur með skýrum hætti að ekkert verði af tekjuöfluninni.

4. gr.

     1. tölul. 33. gr. laganna orðast svo: Lausafé, þ.m.t. skip, loftför, bifreiðar, vélar, tæki og borpallar til kolvetnisvinnslu.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „skipsbúnaður“ í 1. tölul. kemur: þ.m.t. til notkunar sérstaklega við rannsóknir og vinnslu kolvetnis.
  2. Við 3. tölul. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Borpallar, leiðslukerfi og annar búnaður til notkunar sérstaklega við rannsóknir og vinnslu kolvetnis að lágmarki 10%, að hámarki 30%.


III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

6. gr.

     Á eftir orðunum „ákvæðum 3.“ í 2. málsl. A-liðar 2. gr. laganna kemur: 2. málsl. 4.

IV. KAFLI
Gildistaka.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 8. september 2011.