Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 674. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1905  —  674. mál.




Breytingartillaga



við brtt. á þskj. 1858 [Stjórnarráð Íslands].

Frá Eygló Harðardóttur, Árna Þór Sigurðssyni, Margréti Tryggvadóttur


og Siv Friðleifsdóttur.


    Í stað 3. málsl. efnismálsgreinar 2. tölul. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Fjölda ráðuneyta, heiti þeirra og stjórnarmálefni hvers ráðuneytis skal ákveða með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Tillagan skal lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem rædd skal og afgreidd við eina umræðu eftir reglum um síðari umræðu, sbr. ákvæði þingskapa Alþingis, áður en forsetaúrskurður er gefinn út.

Greinargerð.


    Með breytingartillögu þessari er lögð til breyting sem er til þess fallin að mæta þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á frumvarpið um að í því felist valdaframsal frá Alþingi til framkvæmdarvalds. Með breytingunni fær þingheimur tækifæri til að fjalla um það hvernig ríkisstjórnin sem situr í skjóli Alþingis verður skipuð, málefnasvið einstakra ráðuneyta og fjölda. Er það í samræmi við þingræðisregluna þar sem leitað er eftir stuðningi meiri hluta þingsins fyrir þeirri skipan sem forsætisráðherra hyggst leggja til varðandi fjölda ráðuneyta, heiti þeirra og málefnasvið.