Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 872. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1915  —  872. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um sölu tóbaks.

     1.      Hve miklar tekjur hefur ríkið af sölu tóbaks á ári hverju?
    Beinar tekjur af tóbakssölu skiptast í tóbaksgjald og virðisaukaskatt. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur einkaheildsöluleyfi á tóbaki og er því eini innheimtuaðilinn.
    Tóbaksgjald var eftirfarandi á sl. þremur árum af tóbaki keyptu í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR):

Millj. kr. 2008 2009 2010
Tóbaksgjald 3.935 4.523 4.686
Virðisaukaskattur 1.686 2.016 2.115
Samtals 5.621 6.539 6.801

    Í svari við fyrirspurn um tekjur ríkissjóðs af áfengissölu (871. mál) kemur fram hverjar arðgreiðslur til ríkissjóðs undanfarin ár hafa verið en hluti þeirra er vegna sölu ÁTVR á tóbaki.

     2.      Hver eru árleg útgjöld ríkisins vegna reykinga landsmanna?
    Sala tóbaks er miklum takmörkunum háð þótt hún sé ekki einskorðuð við verslanir ÁTVR eins og sala áfengis. Umbúðir um tóbak eru kirfilega merktar og miklar takmarkanir eru á því hvar má reykja. Jafnframt er skattlagning á söluna mjög mikil. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að draga úr reykingum vegna þess heilsufarsvanda sem þær leiða til. Hann veldur ríkissjóði að sjálfsögðu kostnaði, m.a. í heilbrigðiskerfinu, en þó má fullyrða að meiri hluti neikvæðra afleiðinga tóbaksreykinga fellur á einstaklingana sem reykja og fjölskyldur þeirra, auk þess sem samfélagið verður af framlagi þeirra sem látast mörgum árum fyrr en ella vegna reykinga.