Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1981, 139. löggjafarþing 650. mál: safnalög (heildarlög).
Lög nr. 141 28. september 2011.

Safnalög.


I. KAFLI
Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Tilgangur.
     Í lögum þessum er kveðið á um skipulag safnastarfs í þeim tilgangi að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands, tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða, veita fólki aðgang að honum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til safna í eigu ríkisins og til annarra safna sem eru viðurkennd samkvæmt lögum þessum.
     Lög þessi taka ekki til bóka- og skjalasafna.

3. gr.

Hlutverk safna.
     Söfn í skilningi laga þessara eru varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þau skulu vera opin almenningi.
     Með söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum, sýningum og annarri miðlun er það hlutverk safna að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, varpa ljósi á menningar-, náttúru- og listasögu landsins, styrkja safnkost og heimildasöfnun innan síns sérsviðs og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Í starfi sínu skulu söfn hafa að leiðarljósi að auka lífsgæði manna með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.
     Söfn skulu stunda markvissa söfnun muna og heimilda til að safnkostur þeirra gefi sem heildstæðasta mynd af sérsviði þeirra.

4. gr.

Höfuðsöfn, viðurkennd söfn og ábyrgðarsöfn.
     Höfuðsöfn eru í eigu ríkisins og eru miðstöðvar safnastarfsemi hvert á sínu sviði. Þau eru stofnuð með lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra.
     Viðurkennt safn er safn sem ráðherra hefur veitt viðurkenningu að fenginni tillögu safnaráðs. Slíkt safn hefur tiltekið starfssvið eða starfssvæði sem er tilgreint í stofnskjali þess.
     Ábyrgðarsafn er viðurkennt safn sem ráðherra hefur, að fenginni tillögu viðkomandi höfuðsafns, falið að bera ábyrgð á ákveðnum þáttum safnastarfs á tilteknu sviði eða landsvæði.

5. gr.

Önnur safnatengd starfsemi, safnvísar, setur og sýningar.
     Safnvísar sinna safnatengdri starfsemi en uppfylla ekki öll skilyrði sem söfn til að hljóta viðurkenningu skv. 10. gr.
     Setur sinna að jafnaði rannsóknum og miðlun fremur en söfnun og varðveislu.
     Sýningar eru sjálfstæðar rekstrareiningar sem sinna miðlun fremur en söfnun, varðveislu og rannsóknum.
     Safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn skv. 22. gr.

II. KAFLI
Skipulag.

6. gr.

Yfirstjórn og framkvæmd.
     Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi ná til.
     Safnaráð er ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni safna.

7. gr.

Safnaráð.
     Ráðherra skipar safnaráð til fjögurra ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa, Félag íslenskra safna og safnmanna einn fulltrúa og Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) einn fulltrúa. Ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í safnaráð lengur en tvö samfelld starfstímabil. Fulltrúar í safnaráði og varamenn þeirra skulu hafa sérþekkingu á safnamálum og reynslu eða menntun sem nýtist á þessu sviði.
     Safnaráð hefur eftirfarandi hlutverk:
  1. að hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu,
  2. að vinna að stefnumörkun um safnastarf í samvinnu við höfuðsöfn sem send er ráðherra til samþykktar,
  3. að fjalla um stofnskrár eða samþykktir safna og staðfesta þær,
  4. að fjalla um viðurkenningu safna og afturköllun viðurkenningar áður en tillögur þar að lútandi eru sendar ráðherra,
  5. að setja skilmála um húsnæði safna, þar á meðal staðla um aðgengi og öryggismál þeirra,
  6. að setja skilmála um staðla fyrir skráningarkerfi safna og viðurkenningu á skráningarkerfum,
  7. að veita viðkomandi höfuðsafni umsögn um erindi er varða ráðstöfun eða förgun safngripa,
  8. að leggja mat á þörf fagsviðs eða landsvæðis fyrir sérstakt ábyrgðarsafn og fjalla um tillögu þar að lútandi áður en höfuðsafn sendir hana ráðherra,
  9. að setja safnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir,
  10. að veita umsögn um styrkumsóknir úr safnasjóði,
  11. að sinna öðrum verkefnum á sviði safnamála samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

     Forstöðumenn höfuðsafna sitja fundi safnaráðs stöðu sinnar vegna.
     Ráðherra ákveður aðsetur safnaráðs.
     Kostnaður af starfsemi safnaráðs greiðist úr safnasjóði.

8. gr.

Höfuðsöfn.
     Höfuðsöfn eru þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Þau eru öðrum söfnum til ráðgjafar og skulu stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði.
     Höfuðsöfn skulu hafa forustu í málefnum safna á sínu sviði, stuðla að eflingu og samræmi í safnastarfi og leiða faglegt samstarf safna og annarra aðila. Höfuðsöfn skulu leitast við að efla og auka þekkingu og færni starfsfólks safna.
     Höfuðsöfn skulu annast kynningu á sérsviði sínu innan lands og utan.
     Safnkostur höfuðsafna skal vera undirstaða fræðslu- og sýningarstarfs þeirra. Hann skal jafnframt vera aðgengilegur til rannsókna.
     Höfuðsöfn mega ekki taka við gjöfum sem kvaðir fylgja. Ráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstök rök mæla með því.

III. KAFLI
Viðurkennd söfn.

9. gr.

Viðurkenning.
     Ráðherra veitir safni viðurkenningu að fenginni tillögu safnaráðs. Öll söfn nema höfuðsöfn þurfa að sækja um viðurkenningu vilji þau falla undir ákvæði laga þessara. Umsókn um viðurkenningu safns skal beint til safnaráðs. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um starfssvið, rekstrarform, eignarhald, fjármögnun og árlegan rekstrarkostnað ásamt stofnskrá eða samþykkt safnsins og önnur þau skilyrði viðurkenningar sem tilgreind eru í 10. gr.
     Ráðherra getur afturkallað viðurkenningu safns að fenginni tillögu safnaráðs telji ráðið að safnið uppfylli ekki lengur skilyrði viðurkenningar.
     Viðurkennt safn á rétt á að nota ákveðið einkennismerki, sem safnaráð hefur látið útbúa. Safni sem svipt hefur verið viðurkenningu er óheimilt að nota einkennismerki viðurkenndra safna.
     Viðurkennt safn getur sótt um styrk úr safnasjóði.

10. gr.

Skilyrði viðurkenningar.
     Safn skal uppfylla eftirfarandi skilyrði til að öðlast viðurkenningu:
  1. Safn skal vera í eigu opinberra aðila, sjálfseignarstofnunar, félags eða fyrirtækis sem tryggir safninu fjárhagsgrundvöll fyrir eðlilega starfsemi þess og skipar því stjórn. Safn skal ekki rekið í hagnaðarskyni.
  2. Safn skal hafa sjálfstæðan fjárhag, aðskilinn frá öðrum rekstri eiganda. Reikningar safns skulu vera áritaðir af löggiltum endurskoðanda. Það skal árlega senda skýrslu um starfsemi sína og fjárhagslegt uppgjör til safnaráðs.
  3. Safn skal starfa eftir stofnskrá eða samþykkt sem safnaráð hefur staðfest, sbr. 7. gr. Í stofnskrá eða samþykkt skal tilgreina viðfangsefni og starfssvæði safnsins. Stofnskrá eða samþykkt viðurkennds safns skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.
  4. Safn skal starfa í samræmi við skilmála safnaráðs um húsnæði, öryggismál, skráningarkerfi og faglega starfsemi. Upplýsingar um skráða gripi í varðveislu safns skulu vera aðgengilegar almenningi.
  5. Safn skal veita skólanemendum sem heimsækja safnið í skipulögðum námsferðum aðgang án gjaldtöku.
  6. Aðgengi að húsnæði safns skal vera í samræmi við lög og reglugerðir og eins mikið tillit tekið til þarfa fólks með fötlun og kostur er.
  7. Safn skal starfa í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) og ákvæði laga.
  8. Forstöðumaður safns skal hafa menntun á ábyrgðarsviði safnsins eða hafa aflað sér hliðstæðrar hæfni á annan hátt.


11. gr.

Stofnstyrkir.
     Heimilt er að veita viðurkenndu safni styrk úr ríkissjóði til að mæta stofnkostnaði. Til að styrkur komi til álita skal fylgja skilmálum er safnaráð setur um húsnæði safna. Þeir skilmálar skulu m.a. kveða á um öryggi og varðveislu safngripa.
     Framlagið skal innt af hendi samkvæmt sérstökum samningi og greiðsluáætlun sem stjórnendur safnsins gera við ráðuneyti áður en framkvæmdir hefjast eða kaupsamningur er gerður. Sé þessum formlegu kröfum ekki fylgt á safnið ekki kost á stofnstyrk úr ríkissjóði í samræmi við ákvæði greinarinnar.
     Fyrir undirritun samnings um framlag ríkisins samkvæmt þessari grein skal viðkomandi safn leggja fram staðfestingu á því að annar stofnkostnaður sé tryggður.
     Fjárveitingar til stofnstyrkja samkvæmt þessari grein eru háðar ákvörðun Alþingis um framlög í fjárlögum.

12. gr.

Lok starfsemi og ráðstöfun eigna og safnkosts.
     Í stofnskrá eða samþykkt viðurkennds safns skal kveðið á um ráðstöfun eigna þess og safnkosts verði safnið lagt niður eða rekstrarformi þess breytt. Hafi viðurkennt safn notið opinberra styrkja skv. 11. eða 22. gr. skal safnkosti þess ráðstafað í samræmi við fyrirmæli stofnskrár eða samþykkta og í samráði við viðkomandi höfuðsafn. Öðrum eigum skal ráðstafað að höfðu samráði við ráðuneyti.

IV. KAFLI
Ábyrgðarsöfn.

13. gr.

Skilgreining og hlutverk.
     Ráðherra getur, að fenginni tillögu viðkomandi höfuðsafns, falið viðurkenndu safni að bera faglega ábyrgð á ákveðnum þáttum safnastarfs. Ábyrgð safnsins getur náð til afmarkaðs sviðs eða tiltekins landsvæðis.
     Ábyrgðarsafn skal starfa í nánu samráði við höfuðsafn á viðkomandi safnasviði.
     Ábyrgðarsafn skal veita öðrum söfnum, safnvísum, setrum og sýningum á sínu sviði eða landsvæði ráðgjöf og leiðbeiningar eftir því sem kostur er.
     Forstöðumaður ábyrgðarsafns skal vera í fullu starfi og hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á sviði safnsins eða hafa aflað sér hliðstæðrar hæfni á annan hátt. Safnið skal að auki hafa hið minnsta einn starfsmann með menntun eða staðgóða þekkingu og reynslu á ábyrgðarsviði safnsins.
     Nánar skal kveðið á um verkefni, ábyrgðarsvið og fjárveitingar í tímabundnum samningi milli ráðuneytis, hlutaðeigandi safns og viðkomandi höfuðsafns.

V. KAFLI
Viðurkennd söfn og starfsemi þeirra.

14. gr.

Starfsemi.
     Söfn samkvæmt lögum þessum eru með fastan rekstur og eru rekin til að þjóna íslensku samfélagi. Þau eru opin almenningi og safna, varðveita, rannsaka og miðla því sem er til vitnis um manninn, sögu hans og menningu, náttúru og umhverfi í nafni samfélagsins og til framgangs þess. Þau skulu hafa að leiðarljósi að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.
     Söfn skulu leitast við að efla faglegt starf á sínu sviði og standast lágmarkskröfur um söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknir og miðlun. Þau skulu skila stefnumörkun um starfsemi sína til viðeigandi höfuðsafns á fjögurra ára fresti.
     Söfn skulu taka þátt í faglegu samstarfi svæðisbundið, á landsvísu og á alþjóðavettvangi eftir því sem við verður komið.

15. gr.

Lán safngripa.
     Söfnum er heimilt að lána tímabundið gripi eða verk til annarra safna eða stofnana, á sýningar eða til rannsókna. Höfundur á alltaf rétt á að fá verk sín lánuð á eigin sýningar.
     Tryggilega skal gengið frá varðveislu safngripa sem eru lánaðir og þeir tryggðir eftir því sem forstöðumaður viðkomandi safns ákveður.

16. gr.

Ráðstöfun safngripa.
     Hafi viðurkennt safn notið opinberra styrkja skv. 11. eða 22. gr. skal safnkosti þess ráðstafað í samræmi við fyrirmæli stofnskrár eða samþykkta og í samráði við viðkomandi höfuðsafn.

17. gr.

Förgun safngripa.
     Óheimilt er að farga safngripum nema ríkar ástæður séu til. Heimilt er að grisja safnkost á grundvelli grisjunaráætlunar sem höfuðsafn samþykkir.
     Það höfuðsafn sem í hlut á tekur ákvörðun um förgun safngripa að fenginni umsögn safnaráðs.

18. gr.

Notkun mynda af safngripum.
     Ekki má nota myndir af gripum eða verkum safna sem vörumerki eða í auglýsingaskyni og ekki heldur gera af þeim myndir eða eftirlíkingar nema með leyfi viðkomandi forstöðumanns, enda sé gætt réttar rétthafa samkvæmt höfundalögum.

19. gr.

Gjaldtökuheimild.
     Öllum söfnum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. er heimilt að taka aðgangseyri. Þá er þeim heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sína, svo sem lán á munum, ljósmyndun muna, afrit af ljósmyndum, sérunnar munaskrár og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu, fjölföldun og hvers konar aðra þjónustu til að standa straum af kostnaði. Söfnin setja gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku.
     Ákvörðun um aðgangseyri og aðra gjaldtöku annarra safna er í höndum eigenda þeirra.

20. gr.

Gjafir og fjárframlög.
     Um frádrátt af tekjuskatti vegna gjafa eða fjárframlaga til safna fer samkvæmt lögum um tekjuskatt.

VI. KAFLI
Safnasjóður.

21. gr.

Hlutverk og skipulag.
     Hlutverk safnasjóðs er að efla starfsemi safna sem undir lög þessi falla. Í þeim tilgangi getur sjóðurinn styrkt rekstur og skilgreind verkefni viðurkenndra safna, samstarfsverkefni slíkra safna innbyrðis og önnur verkefni. Sjóðnum er heimilt að styrkja aðra starfsemi til að efla faglegt safnastarf, m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær.
     Safnasjóði er heimilt að verja allt að 40% af ráðstöfunarfé sínu í styrki til að efla rekstur viðurkenndra safna.
     Tekjur safnasjóðs eru:
  1. framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
  2. önnur framlög.


22. gr.

Styrkveitingar.
     Styrkir úr safnasjóði eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins, sbr. i-lið 2. mgr. 7. gr.
     Viðurkennd söfn önnur en söfn í eigu ríkisins geta sótt um rekstrarstyrki til sjóðsins til að efla starfsemi sína.
     Öll viðurkennd söfn geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna.
     Önnur söfn, safnvísar, setur og sýningar geta notið styrks úr safnasjóði til skilgreindra verkefna í samstarfi við viðurkennd söfn. Skal hið viðurkennda safn vera aðalumsækjandi og ábyrgðaraðili verkefnisins. Höfuðsöfn og önnur söfn sem eru rekin af ríkinu geta átt aðild að slíkum verkefnum.
     Safnasjóður getur veitt styrki til alþjóðlegra verkefna sem viðurkennd söfn eru þátttakendur í.
     Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, hafi verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum sjóðsins eða lokaskýrslu ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis.
     Ráðherra úthlutar styrkjum úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs.

VII. KAFLI
Almenn ákvæði.

23. gr.

Setning reglugerða.
     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd II., III., V. og VI. kafla laga þessara.

24. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi taka gildi 1. janúar 2013. Frá þeim degi falla úr gildi safnalög, nr. 106/2001.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Fram til 1. janúar 2013 er ráðherra heimilt að undirbúa gildistöku laga þessara.
     Umboð safnaráðs sem skipað er samkvæmt gildandi lögum fellur niður við gildistöku laga þessara.
     Viðurkenning safna í samræmi við ákvæði eldri laga heldur gildi sínu í eitt ár frá gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 17. september 2011.