Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 18:01:09 (3991)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[18:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Reyndar var tveimur spurningum ósvarað, annars vegar varðandi athugasemdir við 1. gr. stendur í 2. mgr., með leyfi frú forseta:

„Með breytingunni sem lögð er til er ætlunin að fella greiðslustofnanir undir ákvæði 2. mgr.“

Svo heldur setningin áfram. Ég spurði hæstv. ráðherra um hvaða greiðslustofnanir væri um að ræða, hvort til stæði að einhverjar ákveðnar stofnanir yrðu undanþegnar þessu um leið og frumvarpið yrði lögfest.

Ég skil orð hæstv. ráðherra þannig að við höfum ekki skuldbundið okkur lagalega til að fara að öllu því sem FATF-hópurinn leggur til. Þess vegna er það ekki rétt sem stendur í fylgiskjali frá fjármálaráðuneytinu, að við séum skuldbundin til að samræma löggjöf og starfsreglur að þessum tilmælum. Mér finnst mikilvægt að við höfum það á hreinu í umræðunni hvort við séum búin að undirgangast einhverjar alþjóðlegar skuldbindingar, hvort ráðherrar hafi skrifað undir slíkt fyrir okkur hönd á erlendum vettvangi. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að svo væri ekki. Ég vil þá spyrja ráðherrann og endurtaka spurningu mína: Setjum við einhverja fjármuni til þessara samtaka? Þetta eru þær tvær spurningar sem ósvarað var.

Mér finnst óeðlilegt að þegar við erum með fulltrúa nefndar um aðgerðir gegn peningaþvætti, sem er mjög mikilvæg nefnd, að Persónuvernd skuli ekki koma nálægt slíku starfi. Ég verð að lýsa því yfir vegna þess að þó að efnisákvæði frumvarpsins fjalli kannski ekki um það er hér um að ræða (Forseti hringir.) svo umfangsmikið mál að ég hefði talið að Persónuvernd ættu að koma að því.