Stefna um beina erlenda fjárfestingu

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 18:33:02 (4004)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýddi á ræðu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Steingríms J. Sigfússonar og ég verð að segja að mér brá. Ég þarf eiginlega að fá áfallahjálp, þvílík eru umskiptin. Nú er hann allt í einu farinn að biðla til fjárfestingar, biðla til fjármagns, erlends fjármagns. Það er greinilegt að atvinnuleysisneyðin sem stefna hæstv. ríkisstjórnar hefur leitt hana í neyðir hana til að undirstrika í tillögu til þingsályktunar að á Íslandi gildi eignarréttur og að reglur séu jafnan skýrar og ótvíræðar, eftir að búið er að flækja allt kerfið eins og mögulegt er.

Það er ekki þar fyrir, frú forseti, að þessi tillaga er eins og englasöngur í mínum huga og ég er mjög fylgjandi henni og ég styð hæstv. ráðherra í þessu umbótastarfi hans, en ég verð að segja eins og er að sá hv. þingmaður og hæstv. ráðherra sem ég þekkti einu sinni er orðinn gjörbreyttur.