Stefna um beina erlenda fjárfestingu

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 18:43:00 (4012)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að ef mönnum hefur fundist sérkennileg umskiptin hjá hæstv. ráðherra í öðrum málum þá náði hann alveg Ragnari Reykás í þessu máli. Og að hæstv. ráðherra komi hingað og lesi upp texta sem er ekki saminn af honum sjálfum og reyni að setja sig í þær stellingar, ja, guð láti gott á vita. Hins vegar er það bara þannig, virðulegi forseti, að arfleifð hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra kemur ágætlega fram á síðu 13 í þessu frumvarpi en þar segir, með leyfi forseta:

„Í sjötta lagi virðist pólitísk áhætta (e.: „political risk“) vera mjög ofarlega í huga erlendra fjárfesta, einkum eftir árið 2008. Það er, erlendir aðilar óttast mjög að aðgerðir og stefnumörkun stjórnvalda sé ekki aðeins hvikul og ófyrirsjáanleg, heldur einnig þjóðernissinnuð og mismuni gegn þeim.“

Virðulegi forseti. Þetta er á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra. Við vorum hér fyrir nokkrum dögum þegar hæstv. fjármálaráðherra ákvað einu sinni enn að breyta skattumhverfinu í grundvallaratriðum og fékk þá stórkostlegu hugmynd að leggja á kolefnisskatt. Ég sat í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar menn komu hingað, innlendir aðilar sem voru búnir að vinna að því að fá erlenda fjárfestingu um langan tíma og sögðu okkur sem var að þessi hugmynd hæstv. fjármálaráðherra sem hann ætlaði að keyra í gegn mundi eyðileggja allt það starf, allt undirbúningsstarfið. Svo kemur hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra hingað og núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og segir að það sé ekki málefnalegt að tala á þessum nótum, menn eigi að tala um eitthvað allt annað.

Stærsta einstaka ógnin við beina erlenda fjárfestingu undanfarið hefur verið hæstv. fjármálaráðherra. Ef hæstv. fjármálaráðherra er búinn að skipta um skoðun sem hann segist hafa gert núna er það bara mjög gott. En þó svo að hæstv. fjármálaráðherra hafi mikil völd, með hvorki meira né minna en fimm ráðuneyti og ætli hann sé ekki með fjármálaráðuneytið í vasanum líka, getur hann ekki bannað mönnum að fara yfir staðreyndir mála.

Ég fékk núna í vikunni staðfestingu á því sem ég vissi ekki að löggjöf ríkisstjórnarinnar í samkeppnismálum kom í veg fyrir beina erlenda fjárfestingu í matvöruverslun á Íslandi. Einhver hefði nú fagnað því og ekki er hægt að lesa annað þegar menn lesa þessa stefnumótun að menn vildu einmitt sjá slíkt á öðrum sviðum en verið hefur áður. Það mundi opna á ný tækifæri og ætti að vera tiltölulega óumdeilt út frá öllum sjónarmiðum ef við fengjum beina erlenda fjárfestingu og þar af leiðandi þekkingu og vonandi einhverja samkeppni í matvöruverslun á Íslandi. En það kom skýrt fram hjá þeim sem sáu um útboð á Högum að löggjöf hæstv. ríkisstjórnar kom í veg fyrir að þessir erlendu aðilar, sem voru meðal annars frá Norðurlöndunum, kæmu hér inn.

Við þekkjum það líka, virðulegi forseti, að það var komið samþykki fyrir því og það var stefna fyrrverandi ríkisstjórnar að koma hér á einum sameiginlegum norrænum heilsumarkaði sem hefði þýtt að menn hefðu getað leitað sér lækninga á Íslandi og fengið greitt úr sameiginlegum sjóðum á Norðurlöndunum. Ég þekki það mál vel enda stóð ég fyrir því, en því var stungið ofan í skúffu. Það var komið beint í veg fyrir að ónotuð aðstaða, glæsileg aðstaða í íslensku heilbrigðisþjónustunni væri nýtt til þess að fá hingað erlenda fjárfestingu. Hér hafa menn unnið jafnt og þétt undir forustu hæstv. fjármálaráðherra við að reyna að koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu. Maður hlýtur því að fara yfir það þegar þessi þingsályktunartillaga kemur fram, þó svo að maður fagni henni og ég vona svo sannarlega að við sjáum hér raunverulega stefnubreytingu, að orð og efndir eru ekki það sama. Við höfum náttúrlega séð hvernig framgangan hefur verið fram til þessa en í ofanálag ef menn lesa t.d. stjórnarsáttmálann þá er hann á mjög mörgum sviðum eins og öfugmælavísa. Ætli sé ekki frægast í honum þetta með opna og gagnsæja stjórnkerfið? Hver hefur staðið hvað mest gegn því? Það er hæstv. fjármálaráðherra. Ég fór nú bara yfir það áðan undir liðnum Störf þingsins hvernig hefur gengið til dæmis að fá fram hluthafasamkomulagið sem gert var þegar menn fóru í stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar án þess að það væri opið og gagnsætt ferli. Það var mjög erfitt, meira að segja löngu eftir það, að fá nokkrar upplýsingar um það og get ég alveg fullyrt það og þekki það og gæti farið yfir það í löngu máli hvernig gengur að fá upplýsingar hvað þetta varðar. En, virðulegi forseti, guð láti gott á vita.

Við þekkjum það að orð eru ekki nóg, það þurfa líka að koma efndir. Ef það er raunverulegur vilji hæstv. ráðherra að fá þessa þingsályktunartillögu í gegn og fylgja henni eftir þá er hér um fullkomna U-beygju að ræða en það yrði hins vegar afskaplega góð beygja og ég fagna henni svo sannarlega.