Stefna um beina erlenda fjárfestingu

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 18:58:41 (4016)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er reyndar ekki sáttur við seinna svarið en ég gleðst yfir því að hv. þingmaður styður hugmyndir mínar um að dreifa kvótanum á þjóðina. Ég hef reyndar komið með sambærilega lausn fyrir orkuverin, um hvernig við getum selt Landsvirkjun aftur og aftur. Hún féll reyndar í grýttan jarðveg hjá þáverandi hæstv. fjármálaráðherra og núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra en það má vel vera að hann mætti hugleiða málið betur.

Varðandi það af hverju Íslendingar fjárfesta ekki þá er ég ekki sammála því sem hv. þingmaður sagði að hér séu ekki tækifæri. Þau eru úti um allt og yfirdrifin, í sjávarútvegi, orkuframkvæmdum, hugbúnaði, ferðamannaþjónustu — út um allt eru tækifærin. En menn eru hrelldir, það er ástæðan. Það vantar traust. Hvers vegna í ósköpunum ættu menn að fjárfesta þegar ríkisstjórnin hækkar skatta aftur og aftur og enginn endir er á því? Tilviljunarkennd skattlagning eins og skattlagning á spariskírteinum og húsbréfum sem kemur í bakið á fólki, er gersamlega óforvarandis án þess að menn geti nokkurn veginn varið sig. Svona dæmi sem koma fyrir aftur og aftur hrella fólk þannig að það leggur ekki í að fjárfesta í öllum þeim gullnu tækifærum sem ég að minnsta kosti sé á Íslandi í dag.