Stefna um beina erlenda fjárfestingu

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 19:00:15 (4017)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[19:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Landið er auðvitað fleytifullt af tækifærum en það er ekki fleytifullt af þróuðum fjárfestingarverkefnum. Ég held að það sé alveg ljóst. Fyrir því kunna líka að vera ýmsar aðrar ástæður en þær sem ég nefndi áðan, ein er vissulega sú að hér var á nokkurra ára tímabili ráðist í gífurlega mikla fjárfestingu og sumpart offjárfestingu. Þess vegna er það augljóslega þannig að á sumum sviðum er einfaldlega ekki þörf á að fjárfesta um nokkurra missira eða ára skeið af því að búið er að byggja íbúðirnar og búið er að byggja nóg af atvinnuhúsnæði, (Gripið fram í.) græja fyrirtæki upp og fjárfesta í alls kyns búnaði, sem betur fer. Við búum að því.

Við skulum líka muna að undir forustu núverandi ríkisstjórnar er, eftir þeim tölum sem við höfum síðustu missiri, 3,7% hagvöxtur í landinu sem er með því mesta sem gerist í okkar heimshluta. Ég held að við eigum að horfa bjartsýn fram á veginn. Við erum að sjá atvinnuleysið fara minnkandi. Við sjáum að tekist hefur að ná tökum á ríkisfjármálum. Og þó að þetta hafi fært með sér umtalsvert neikvæðara umhverfi fyrir sparnað í landinu, eins og hv. þingmaður hefur rakið, felur það líka í sér hvatningu til þeirra sem eiga fjármagn að leggja það í fjárfestingar til atvinnusköpunar. Við skulum vona að vaxandi gangur verði í slíkri fjárfestingu því að það er auðvitað með fjárfestingum og aukinni verðmætasköpun sem við munum fyrst og fremst vinna okkur út úr þeirri stöðu sem við komumst í.