140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna ærlega að mig brestur þekkingu til að geta spáð í það eða sagt hvernig kerfið var fyrir 1994. Það er ekki rétt eftir haft hjá hv. þingmanni að ég hafi sagt að þetta hafi breyst eftir 1994. Ég taldi að þessir styrkir hefðu að þessu leyti komið til síðar en það. Það kann að vera rangt hjá mér.

Að því er seinni spurninguna varðar, hvort þetta sé í öfugri röð, tel ég að svo sé ekki. Ég tel fullkomlega eðlilegt að það sé einmitt í þessari röð, þ.e. að við gerum rammasamning eins og aðrar þjóðir um að taka við liðsinni af þessu tagi. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að Evrópusambandið taki kostnaðarlega áhættu af því að Íslendingar byggju sig með þeim hætti sem ég lýsti í ræðu minni undir það að geta eftir þjóðaratkvæðagreiðslu hrint í framkvæmd ákveðnum breytingum frá þjóðaratkvæðagreiðsludeginum fram að fullgildingardegi. (Forseti hringir.) Mér finnst það bara sjálfsagt (Gripið fram í: Þetta er ekki …) og eðlilegt. Þá tekur Evrópusambandið einmitt áhættuna af því. Það er þannig. (VigH: Gott …)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að vera ekki með samtal við ræðumann.)