140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get upplýst um það að við hæstv. utanríkisráðherra erum ekki í sama heiminum. Hann er úti í Evrópu en ég er hér á Íslandi, á norðurslóð. Það er alveg klárt. (Gripið fram í.) Við verðum varla sammála um að við séum stödd á sama stað.

Öllu má nú nafn gefa, nú heita orðið styrkir Evrópusambandsins upp á 5–6 þús. milljónir liðveisla. Það er liðveisla í skólum. Þetta er starfsheiti þeirra sem hjálpa börnum með fötlun eða röskun. Nú er hæstv. utanríkisráðherra að heimfæra þessa góðu orðnotkun upp á greiðslur upp á 5–6 þús. milljónir frá Evrópusambandinu. Það er þó ekki nýtt að Samfylkingin bregði á það ráð að vera með spuna og spila plötuna oft til að koma því inn í höfuðið á fólki. Íslendingar eru skynsamari og betur upplýstir en svo að þeir gangist við því og trúi því.

Það kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra að felli Íslendingar tillöguna þegar þar að kemur þurfi ekki að greiða til baka þessar upphæðir. Það verður gaman að sjá þegar það gerist. Áðan sagði hæstv. utanríkisráðherra að ef við þingmenn felldum þá þingsályktunartillögu sem er hér til umræðu mundi kostnaðurinn sem af því hlytist að halda áfram með umsóknina lenda á skattgreiðendum. Nú skulum við sjá hver það er sem talar í hring. Er það ekki hæstv. utanríkisráðherra? Þetta þurfum við að fá á hreint.

Ég hvet þingmenn í þessu seinna andsvari til að leggjast á eitt, sérstaklega þingmenn Vinstri grænna, um að fella þessa þingsályktunartillögu. (Gripið fram í.) Þá er grundvöllurinn fyrir Evrópusambandsumsókninni farinn og jafnframt grundvöllurinn fyrir þessari verklausu ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem við sitjum því miður uppi með.