140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaðurinn má ekki misskilja mig. Ég bendi á að í gegnum EES-samninginn hefur verið tekið upp fjórfrelsi sem snýr m.a. að því að ekki sé hægt að mismuna fólki sem ferðast á milli landa sem vinnuafl. Hér er verið að kratavæða Ísland, (Gripið fram í.) verið er að flytja starfsmenn Evrópusambandsins hingað til lands. Það eru menn sem eru opinberir starfsmenn hjá Evrópusambandinu, þeir eiga skyndilega að fara að njóta hér diplómatískrar verndar. Það stendur hér að þeir skuli ekki hafa diplómatísk réttindi en samt er lagt til í frumvarpi þessu að þeir njóti allra þeirra réttinda sem diplómatar hafa sem ferðast á milli landa, þá er ég að tala um sendiherra og starfsmenn sendiráða. Finnst þingmanninum eðlilegt að komið skuli vera fram með þessum hætti í staðinn fyrir, úr því að það er stefna ríkisstjórnarinnar að taka við öllu þessu fjármagni, að reyna (Forseti hringir.) að hafa það á íslenska vísu og grynnka eitthvað á atvinnuleysinu (Forseti hringir.) hér á landi þannig að við getum hætt með þá útflutningsgrein (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin skapaði, þ.e. að flytja út vinnuafl?