140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:26]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nánast ósanngjarnt að spyrja mig að þessu atriði þegar ég hef eina mínútu til að svara. En þá vil ég nefna eitt orð, sem ég veit að hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur er sérstaklega kært. Það er trú mín, miðað við reynslu annarra þjóða, að aðild að Evrópusambandinu muni að miklum mun auka samkeppni á Íslandi, auka samkeppni á öllum sviðum, auka samkeppni í landbúnaði, auka samkeppni í sjávarútvegi, auka samkeppni í vöru og þjónustu.

Samkeppni er af skornum skammti á Íslandi og þess vegna meðal annars er komið þannig fyrir þessari þjóð að hún er að horfa upp á sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni. Samkeppni hrindir sérhagsmunum, samkeppni hampar almannahagsmunum. Að mínu viti er það samkeppni sem mun fyrst og síðast aukast við að ganga í Evrópusambandið og þar hef ég trú á að sjálfstæðismenn, ef þeir meina eitthvað með samkeppni, séu á sömu blaðsíðu.