140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Áður en ég vík máli mínu að þessari tillögu er eiginlega ekki hægt annað en taka fyrir nokkra af þeim punktum sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kom inn á í ræðum sínum.

Ýmsar fullyrðingar eiga ekki við nokkur rök að styðjast, eins og að Íslendingar taki upp lagaumgjörð sem sé á pari við það besta í heiminum ef þeir ganga í Evrópusambandið og að sérhagsmunir séu ofar almannahagsmunum í Evrópusambandinu.

Hvað er að gerast í sunnanverðri Evrópu? Er ekki einmitt verið að gagnrýna að lagaumgjörð Evrópusambandsins valdi því og innri uppbygging að menn eigi í gríðarlegum vandræðum með að ná sér upp úr þeirri efnahagslægð sem þeir eru í?

Hvað með kröfurnar? Eru það almannahagsmunir að gera kröfur til Grikkja að einkavæða allar opinberar byggingar, flugstöðvar, samgöngukerfi, orkufyrirtæki o.fl.? Nei, það eru ekki almannahagsmunir sem ráða þar för.

Varðandi Lissabon-sáttmálann og það að eitthvað í honum tryggi stöðu smáríkja. Þvert á móti eru ákvæði í Lissabon-sáttmálanum sem taka gildi á næsta ári sem draga úr vægi smáríkja og gera að verkum að stærri ríki innan Evrópusambandsins geta tekið ákvarðanir án þess að smærri ríki hafi eins mikið um það að segja og áður. Ef hv. þingmaður hefði kynnt sér þetta þá hefði hann ekki þurft að fara með þær dylgjur sem hann gerði.

Hins vegar kom annað fram í máli hv. þingmanns í umræðunni og er kannski ágætt að taka það fyrir. Svo virðist vera sem hv. þingmaður, og er honum til hróss, sé sá eini sem taki þátt í umræðum og tali af mikilli innlifun. Það kom skýrt fram í ræðu hans að um væri að ræða aðlögunarviðræður en ekki samningaviðræður, enda væri það sérstakt. Við ræðum um að veita skattafslátt á aðlögunarstyrki. Ef þetta væru samningaviðræður, til hvers þyrfti þá aðlögunarstyrki? Ef við værum í einföldum samningaviðræðum, eins og það orð er skilgreint, þyrftum við ekki fjármagn til að aðlaga okkur að samningsaðilanum. Þetta er nefnilega aðlögunarferli eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson komst að orði. Það rímar vel við það sem embættismenn og ráðamenn í Evrópusambandinu hafa alls staðar sagt. Það rímar við lýsingarnar á þessu ferli eins og Evrópusambandið sjálft lýsir því. Það rímar við allt, nema ef til vill hæstv. utanríkisráðherra sem er alltaf að reyna að draga upp einhverja aðra mynd af hlutunum en þá raunverulegu. Hæstv. utanríkisráðherra er reyndar farinn að verða aðhlátursefni víða í Evrópu þegar hann er alltaf að telja mönnum trú um að evran sé að styrkjast (Gripið fram í.) til lengri tíma litið. Þýskir fjölmiðlar hafa meðal annars slegið því upp af blaðamannafundum, sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sótt, að menn hafi hlegið innra með sér þegar hæstv. utanríkisráðherra Íslands talaði um að efnahagsstaðan í Evrópu væri að styrkjast.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir snýst meðal annars um það að við Íslendingar veitum Evrópusambandinu gríðarlegt skattfrelsi á niðurskurðartímum. Tillögurnar gera ráð fyrir því að allir sem starfi fyrir Evrópusambandið, verktakar og Evrópusambandið sjálft, verði undanskildir öllum helstu skattalögum, verði undanskildir tollum og aðflutningsgjöldum, stimpilgjöldum og öðru slíku. Þetta boðar velferðarstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur á sama tíma og boðað er til niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu, í velferðarkerfinu, á sama tíma og skattar á almenning eru hækkaðir meira en góðu hófi gegnir og skattar á fyrirtæki og tillögur eru um tvísköttun á fyrirtæki í landinu — þá á vefja einhvers konar bómull um Evrópusambandið.

Það er gríðarlegt áhyggjuefni fyrir fólkið í landinu hvernig ríkisstjórnin virðist ekki vera í nokkrum tengslum við raunveruleikann, ekki í nokkrum tengslum við eitt eða neitt í þessu samfélagi. Ætli krafan sem er sterkust í samfélaginu eftir áramótin sé að ríkisstjórnin beiti sér af slíkri hörku fyrir því að koma á skattfrelsi fyrir Evrópusambandið? Ætli það sé að plaga heimilin í landinu? Það væri óskandi, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn eyddi jafnmikilli vinnu og kröftum í það að afnema til að mynda verðtrygginguna. Nei, þetta er stóra málið. Þetta er það sem öllu máli skiptir fyrir einn stjórnmálaflokk í landinu, sem heitir Samfylkingin. Það er raunar aðdáunarvert hversu vel þeim stjórnmálaflokki hefur gengið að fara þessa vegferð. Það er ótrúlegt í ljósi þess að samstarfsflokkurinn er algerlega á móti Evrópusambandsaðild og hefur hafnað aðlögunarstyrkjum sem þessum að við skulum horfa upp á að hér sé frumvarp um að gera slíka styrki skattfrjálsa.

Það var líka ótrúlegt að fylgjast með því áðan þegar hæstv. innanríkisráðherra lýsti þeim styrkjum sem hér eru til umræðu, glerperlur og eldvatn, og sagði þetta væru styrkir sem væru ætlaðir til að smyrja þjóðina. Mig langar að vitna aðeins í ummæli hæstv. innanríkisráðherra. Hann sagði að margir styrkir Evrópusambandsins væru ógeðfelldir og þeim væri haldið mjög stíft að þeim þjóðum sem sambandið vildi að þýddust sig.

„Margir fagna peningum sem hingað koma en þetta er náttúrlega veruleikinn. Það er einhver sem borgar og það yrðum við sem borguðum ef við gengjum í Evrópusambandið.“

Þetta sagði hæstv. innanríkisráðherra áðan. Það kom fram í fréttum.

Þegar þessum frumvörpum var dreift fyrir áramót þorði ríkisstjórnin ekki að koma með þetta mál inn í þingið. Þegar verið var að ræða óhóflegar skattahækkanir á almenning og fyrirtæki í landinu þorði ríkisstjórnin ekki að koma með þetta mál. Þá komu einstaklingar innan stjórnarliðsins fram í fjölmiðlum og sögðu að það gæti aldrei gengið að veita Evrópusambandinu skattafslátt og skattfríðindi á sama tíma og verið væri að pína þjóðina meira en góðu hófi gegnir með hækkunum á sköttum og álögum. Þetta er það sem við horfumst í augu við.

Hér er ekki um samningaferli að ræða, hér er um aðlögunarferli að ræða. Þær tillögur sem lagðar eru fram í þinginu í dag og eru til umræðu sýna svo að ekki verður um villst að þetta er aðlögunarferli því að það þarf ekki aðlögunarstyrki fyrir samningaferli. Það þarf aðlögunarstyrki fyrir aðlögunarferli eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson lýsti í ræðu sinni áðan.

Það vekur einnig athygli að enginn frá hinum stjórnarflokknum tekur þátt í þessum umræðum, frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Mér skilst að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sé einmitt staddur í einni slíkri ferð eins og hæstv. innanríkisráðherra lýsti — flugferðir, dagpeningar — hann væri staddur í Brussel og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, væri einnig á faraldsfæti einhvers staðar úti í heimi. Þetta lýsir, frú forseti, því í hve litlum tengslum ríkisstjórnin er við raunveruleikann. Meiri hluti þjóðarinnar er andsnúinn þessari vegferð og vill ekki ganga í Evrópusambandið.

Það er með ólíkindum að við séum að ræða þetta mál á sama tíma og staðan er eins og hún er, ástandið hér á landi í atvinnumálum og fleiru. Á fyrstu dögum þingsins eftir áramótin er eitt af grundvallarmálum ríkisstjórnarinnar að skattfrelsi verði að vera fyrir fjármagn sem kemur frá Evrópusambandinu, skattfrelsi fyrir einstaklinga sem starfa fyrir Evrópusambandið, skattfrelsi fyrir fyrirtæki sem starfa fyrir Evrópusambandið og skattfrelsi á öllum vörum sem Evrópusambandið flytur hingað til lands. Þetta lýsir því við hvað við erum að glíma við í þjóðfélaginu í dag og meðan svo er horfum við ekki fram á að hægt verði að ræða raunhæfar (Forseti hringir.) tillögur og framtíðarsýn fyrir Ísland.