140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þekki ekki til þess hvernig Evrópusambandið hefur eftirlit með svona styrkjum en eftir því sem menn hafa frétt af bókhaldi hjá þeim verður það eftirlit væntanlega svona og svona.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um skattfrelsi, og við ræðum það reyndar seinna á dagskránni, þá er mjög undarlegt að Vínarsáttmálinn frá 1815 skuli enn vera notaður til að réttlæta skattfrelsi ákveðinna forréttindastétta í heiminum sem er utanríkisþjónustan öll og starfsmenn alþjóðastofnana sem njóta skattfrelsis að öllu leyti. Þeir borga heldur ekki tolla, þeir borga ekki vörugjöld, þeir borga miklu lægra bensín og fyrir nánast hvað sem er borgar þetta fólk miklu minna. Það tekur ekki þátt í kostnaði við velferðarkerfið, það tekur ekki þátt í kostnaði við ríkisreksturinn og að það skuli vera vinstri menn sem standa hér, eins og hæstv. utanríkisráðherra, og verja þetta kerfi er alveg með ólíkindum. (VigH: Hneyksli.)

Ég hef barist fyrir því í mörg ár að skattfrelsi utanríkisþjónustunnar verði afnumið en það gengur mjög erfiðlega vegna þess að ég rekst alltaf á þennan Vínarsamning frá 1815, held ég að rétt sé með farið, þar sem verið var að tryggja sendimenn fyrir því að gistiríki færi illa með þá en það er náttúrlega löngu liðin tíð. Nú er þetta orðin forréttindastétt manna sem lifa í einhverjum allt öðrum veruleika en við hin og njóta leikskólanna okkar, njóta gatnanna okkar og háskólanna fyrir börnin sín og fyrir sjálfa sig og borga ekki til samfélagsins. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir hv. þingmenn Alþingis að fara í herför fyrir því að afnema þetta skattfrelsi um allan heim, því að það verður að gerast um allan heim til að ná einhverjum árangri.