140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið hjartanlega undir þetta því að það er jafnvel komið að þeim tímapunkti að þingið þurfi að taka málið til sín aftur. Hér hefur orðið algjör forsendubrestur, bæði vegna ástandsins í Evrópu og svo vegna þess hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málinu gagnvart samninganefndinni.

Það vildi svo til að í síðustu viku birtist viðtal við hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon í Bændablaðinu þar sem hann sagði að hann hefði tapað málinu út úr höndunum til Samfylkingarinnar, að málið væri komið langtum lengra en hann hefði nokkurn tíma gefið loforð fyrir í ríkisstjórnarmynduninni eftir síðustu kosningar. En ég ætla að minna á að þingmenn Vinstri grænna hafa upplýst að búið var að semja um Evrópusambandsmálsmeðferðina fyrir kosningar 2009, það hefur verið upplýst.

Mig langar því að spyrja hv. þm. Jón Bjarnason: Hverja telur hann stöðu formanns Vinstri grænna vera (Forseti hringir.) í fyrsta lagi innan síns flokks og í öðru lagi innan ríkisstjórnarinnar?