140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir ágæta ræðu. Mig langar til að spyrja hann: Skiptir máli fyrir hv. þingmenn Vinstri grænna hvað VG-félög og landsfundir þeirra álykta úti í bæ? Og ég spyr hann í framhaldi af því: Eru hv. þingmenn Vinstri grænna í andstöðu við stefnu Vinstri grænna?

Í öðru lagi sagði hv. þingmaður, varðandi það þegar kosið var um umsókn um aðild að Evrópusambandinu — sem var svo skilyrðislaust undirritað af hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, umsóknin er skilyrðislaus — að margir hv. þingmenn Vinstri grænna hefðu samþykkt aðildarumsóknina gegn betri sannfæringu, þannig skildi ég það. Hvernig harmónerar það við 48. grein stjórnarskrárinnar?

Hv. þingmaður sagði alveg gullna setningu sem þarf að færa inn í sögubækurnar: Við erum ekki að sækja um aðild til að komast inn. Ég mundi nú leggja til að hæstv. utanríkisráðherra léti þýða þetta yfir á evrópsku og senda kollegum sínum úti í heimi til að menn viti að við erum ekkert að sækja um til að fara inn, við erum bara í einhverjum leik.

Ég vildi svo spyrja hv. þingmann um þá þróun í Evrópusambandinu að þjóðir afsali sér forræði í fjármálum, þ.e. að fjármálin eigi að vera sameiginleg — hvernig líst honum á þá þróun?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann: Hvernig líður fólki á þingflokksfundum hjá Vinstri grænum?