140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:43]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, umsóknin er fullkomlega á forsendum Evrópusambandsins og samningaferlið snýst um aðlögun að því kerfi, stofnanakerfi og öðru, það er alveg hárrétt. Ég er reyndar ekki sammála því að það þurfi endilega að vera þannig.

Við gætum sett fram okkar kröfur og sagt: Ef þið ekki samþykkið fullt forræði okkar í sjávarútvegsmálum, hvað eigum við þá að vera að tala við ykkur meir? Ef þið samþykkið ekki að við fáum að stjórna matvælaöryggismálum, landbúnaði, byggðamálum o.s.frv., hvað eigum við þá að vera að tala meira um? Það er fullt af hlutum sem eru í sjálfu sér sameiginlegir en grundvallaratriði eru þarna á þann veg að það er mín skoðun að það eigi bara að fá svar frá Evrópusambandinu, (Forseti hringir.) úr því að menn eru í þessu ferli á annað borð, um það hvort til standi að gefa eitthvað eftir í þessum efnum. Það hefur aldrei staðið til og aldrei komið fram af hálfu Evrópusambandsins, (Forseti hringir.) það ég veit.