140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Ég vil minna á það í hvaða umhverfi við Íslendingar störfum. Við erum aðilar að EES-samningnum og erum því hluti af hinu svokallaða fjórfrelsi. Einn hluti fjórfrelsisins er frjálst flæði fjármagns á milli landa og annar er frjálst flæði vinnuafls á milli landa. Það skýtur því skökku við að hér sé verið að elítuvæða íslenska vinnumarkaðinn um leið og ríkið er skikkað til að taka á móti styrkjum upp á 5–6 milljarða til þess eins að geta haldið aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu áfram. Evrópusambandið gerir þær kröfur að hér verði opinberum stofnunum sem því hentar komið hærra upp í stjórnunarpíramídann, og þetta snýr að því að Evrópusambandið hafi meiri aðgang að upplýsingum hér, bæði um landið sjálft í gegnum landsgátt, um okkur sem persónur og annað, náttúru okkar og jurtir, því Náttúrufræðistofnun á að taka við heilmiklum styrkjum.

Í ljósi þess að hér varð bankahrun haustið 2008 er einkennilegt að lagt sé fram frumvarp sem leiðir af sér að ákveðnir aðilar þurfa ekki að standa skil á tekjuskatti, útsvari, staðgreiðslu, tollum og fleiri þáttum sem ríkisstjórnin hefur verið að hamast við að hækka á Íslendinga og íslensk fyrirtæki. Þetta er með öllu ólíðandi. Það er eins og ég sagði áðan í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra bagalegt og sorglegt fyrir hana sem nýjan ráðherra að þetta sé hennar fyrsta frumvarp, þegar hún stendur líklega nú um stundir með niðurskurðarhnífinn í fjárlagafrumvarpi fyrir 2013 sem hefur það markmið samkvæmt embættismönnum og ríkisstjórninni sjálfri að taka landsbyggðina enn þá lengra niður, taka heilbrigðisþjónustuna okkar enn þá lengra niður. Svona er þetta í Evrópusambandinu. Hér er verið að búa til elítu sem má flæða á milli ríkja Evrópusambandsins og tekur atvinnu frá þegnum ríkjanna, því það er alveg ljóst að í þessu frumvarpi er ekki sérstaklega búist við því að Íslendingar fái mikið af þeirri vinnu sem skapast með þeim peningum sem hér er lagðir til.

Í fylgiskjali við frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytinu stendur hvað þessar undanþágur gætu þýtt ef þetta væri annars að fullu skattlagt, með leyfi forseta:

„Ekki hefur verið lagt mat á það hvað undanþágur þær sem mælt er fyrir um í frumvarpinu gætu þýtt í minni skatttekjum ríkissjóðs frá því sem annars hefði orðið. Slíkt mat væri auk þess afar erfitt í framkvæmd, meðal annars vegna þess að ekki liggur fyrir hvernig verk sem unnin verða samkvæmt ESB-samningi munu skiptast milli innlendra og erlendra ESB-verktaka.“

Þarna höfum við það hvernig þetta er hugsað. Varðandi þær undanþágur sem lagðar eru til í frumvarpi þessu kemur fram að ákvæðin eiga bæði við einstaklinga og lögaðila sem samið er við að veita þjónustu hér á landi til að uppfylla þessa útdeilingu á IPA-styrkjunum. Þar fellur undir að framkvæma verk eða útvega búnað eða annan varning og greitt er fyrir með IPA-aðstoðinni. Í samningunum verða þessir aðilar kallaðir ESB-verktakar. Þetta leiðir af sér að allur innflutningur á grundvelli samningsins á að vera undanþeginn aðflutningsgjöldum. Við erum því ekki bara að taka á móti vinnuafli frá Evrópusambandinu í tengslum við þetta heldur erum við líka að taka á móti miklum tækjabúnaði sem ekki ber virðisaukaskatt né tolla

Þarna missir ríkissjóður af einstöku tækifæri til að ná tekjum inn í ríkissjóð. Í ræðum í dag hafa þau rök verið notuð að þetta tíðkist í alþjóðasamningum og við getum ekki breytt þessu. Ég spyr: Hvar er fjórfrelsið? Evrópusambandið er ríkjasamband. Það er ekki alþjóðleg stofnun, ekki enn sem komið er. Það er ekki orðið að bandaríkjum Evrópu enn sem komið er þó að það stefni í það. En svo er ekki enn þá. Þess vegna er ómögulegt að bera Evrópusambandið saman við alþjóðastofnanir.

Þá er hér ákvæði um einstaklinga sem ekki eru búsettir hér á landi sem samið verður við um að veita þjónustu eða vinnu og fjármögnuð er með IPA-styrkjum. Þá skulu þeir ekki greiða tekjuskatt eða útsvar af starfi sínu sem unnið er á grundvelli samningsins. Eins er um lögaðila sem hafa ekki staðfesturétt hér á landi, sem þýðir það að fyrirtækið hefur heimilisfesti í öðru ríki en Íslandi. Svo kemur þessi skemmtilega setning sem tekur af öll tvímæli um ójafnræðið í þessu frumvarpi og upplýsir um það, með leyfi forseta:

„Þessi undanþága á ekki við um vinnu eða þjónustu einstaklinga og lögaðila sem eru búsettir hér á landi eða hafa hér staðfestu.“

Þetta er skýrt brot á EES-samningnum því að í honum er mismunun eftir þjóðerni bönnuð, frú forseti. Þarna er verið að lögfesta þá elítureglu sem Evrópusambandið hefur komið inn í samninga sína við aðildarríki og við eigum að gleypa við þessu eins og ekkert sé, bara vegna þess að Evrópusambandið segir það. Sumir mega greinilega nota undanþágur og aðrir ekki. Hér hafa fallið óteljandi dómar sem snúa að því að jafnræðisregla EES-samningsins hafi verið brotin, t.d. brot á grundvelli búsetu aðila eða brot á öðrum greinum fjórfrelsisins.

Athygli mína vakti líka ákvæði þar sem réttaráhrifin gagnvart þessum einstaklingum eru eins og um diplómata væri að ræða, því að í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Persónulegir munir og búslóð nánustu fjölskyldu einstaklinga búsettra erlendis sem ráðnir eru á grundvelli ESB-samninga skulu við innflutning undanþegin tollum, aðflutningsgjöldum, sköttum og öðrum gjöldum, enda sé varan flutt aftur út þegar samningssambandinu lýkur eða hún eyðilögð. Þeir sem samið er við á þessum forsendum, aðrir en staðarráðnir, skulu njóta sömu eða sams konar réttinda og annað starfslið eða verktakar sem veita aðstoð á grundvelli tví- eða marghliða samninga. Í því felst þó ekki að þeir skuli njóta diplómatískra réttinda.“

Þarna er tekið fram að þeir njóti þó ekki diplómatískra réttinda þrátt fyrir að þeir njóti þess, þegar þeir flytja til landsins, að vera undanþegnir öllu því sem venjulegir erlendir og íslenskir aðilar sem flytja að utan þurfa að standa skil á. Þetta er forkastanlegt en lýsir Evrópusambandinu eins og það er uppbyggt. Það er verið að búa til elítu Evrópusambandsins, enda er mikil ásókn í það hjá opinberum starfsmönnum. Það er eins og ákveðnir hópar fólks festist einhvern veginn utan á þetta kerfi og geti ekkert annað en viðhaldið kerfinu til að hafa ofan í sig og á. Ég kalla þetta, frú forseti, og hef gert það um nokkra hríð, kratisma. Það er ekkert annað en kratismi að viðhalda kerfi, hafa forréttindi og hverjir borga skattana? Jú, það er almúginn í ríkjunum. Það er almúginn í ríkjunum sem heldur uppi öllu þessu batteríi.

Lítum til íslenska ríkisins sem er allt of stórt og Stjórnarráðið hefur þanist út. Evrópusambandið er stækkuð mynd af því. Hér er ekki lagt til að efla hinn almenna vinnumarkað. Nei, frá því að þessi ríkisstjórn tók við hefur hún lagt áherslu á að þenja út opinbera geirann. Það kemur varla frumvarp inn í þingið án þess að í því sé ákvæði um annaðhvort að stofna nefnd með starfsmönnum eða stofna nýja stofnun með fullt af starfsmönnum, eða bæta við starfsmönnum hjá stofnunum sem til eru fyrir. Við skulum minnast eftirlitsstofnananna sem hafa algjörlega brugðist okkur og byggðar eru á EES-samningnum, kratavæddar upp í topp, hver silkihúfan upp af annarri. Svo verða hér mengunarslys eftir mengunarslys, lekir brjóstapúðar, iðnaðarsalt notað til matargerðar, mengaður áburður, mengunarslys fyrir norðan, mengunarslys fyrir vestan og eftirlitsstofnanirnar brugðust. Þetta er það sem verið er að leggja til með því að búa til þessa elítu.

Það sem mig langar að minnast á að lokum og ég hef komið lítillega inn á áður er að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra ber ekki saman um hve miklum fjármunum er verið taka á móti. Í fylgiskjali með frumvarpinu er talað um IPA-styrkirnir geti numið allt að 30 milljónum evra sem svarar til um 5 milljarða króna, vegna tímabilsins 2011–2013. Hæstv. utanríkisráðherra telur að hann fái í ríkiskassann með þessum IPA-styrkjum um 6 milljarða, en hann er nú ónákvæmur í tölum. Það kom fram í umræðu áðan að hvorki hæstv. utanríkisráðherra né hæstv. fjármálaráðherra vissu að nú þegar hafa 956 milljónir komið inn í fjárlög ársins fyrir 2012, sú upphæð er samþykkt og frágengin án þess að þingsályktunartillaga um stjórnskipulega fyrirvara á afléttingu samningsins frá því í sumar hafi verið afgreidd í þinginu, hvað þá að búið væri að leggja fram þetta frumvarp. Þannig að þessar greiðslur eru farnar út og hæstv. ráðherrar höfðu ekki hugmynd um það.

Frú forseti. Ég held ég hafi sagt 956 milljónir. Það eru 596 milljónir. Það eru tæpar 600 milljónir farnar nú þegar út úr þessum fjárheimildum sem nú er verið að fjalla um í ársbyrjun 2012 og segja má að þetta sé nokkurs konar yfirdráttur eða fyrirframgreiðsla fyrir því sem koma skal. Nú þegar hefur verið gert ráð fyrir þessu í fjárlögum, þetta hefur verið sett á debethlið fjárlaga þannig að nú þegar er búið að ráðstafa því. Svona eru ráðherrarnir oft illa að sér og þetta er kannski áminning um að þeir ættu að lesa þau frumvörp sem þeir leggja fram.

Áætlað er að styrkirnir komi til útborgunar frá og með árinu 2012 sem stemmir við það sem ég sagði um þá fjárhæð sem fór inn í fjárlögin 2012 og verður greidd út á næstu árum eftir framvindu einstakra verkefna. Við skulum átta okkur á því. Evrópusambandið lætur okkur ekki hafa peninga nema við uppfyllum þær kröfur sem það setur okkur í aðlögunarferlinu, við þurfum að klára ákveðin mál sem Evrópusambandið sjálft og eitt gerir ráð fyrir að við þurfum að klára vegna aðlögunarferlisins.

Ég vara þingmenn við því að til sögunnar munu sjálfsagt koma fjöldi lagafrumvarpa til að við uppfyllum skyldur okkar gagnvart Evrópusambandinu, ég tala nú ekki um þær opinberu stofnanir sem fá þessa styrki, þær þurfa að uppfylla ákveðna skyldu um skýrslugjöf, enda er eftirlitið með þessu mjög mikið. Framkvæmdastjórnin er búin að ákveða að aðili frá henni hafi þetta eftirlit með höndum en ekki innlendir aðilar eins og hefur verið hjá öllum öðrum ríkjum í aðlögunarferli. En það er sérstaklega tekið fram í þingsályktunartillögunni sem var til umræðu áðan að ekki verði bætt við starfsmönnum vegna þessa eftirlits hér á landi. Það segir okkur hvað Evrópusambandið leggur mikla áherslu á að þetta gangi í gegn, enda er eftir miklu að slægjast hér í norðrinu þar sem við erum stödd á landakorti heimsins. Evrópusambandið er fyrst og fremst að sækja í okkur en við ekki í það, að undanskilinni Samfylkingunni.

Það kemur fram í frumvarpinu hvernig þetta er gjaldfært, styrkirnir koma í formi beinna fjárframlaga og eru færðir á tekjuhlið eins og ég sagði áðan og útgjaldaheimildirnar verða samhliða settar á gjaldahlið þannig að þetta er raunverulega núllað út í fjárlögum. Hér er boðað að sambærilegar upphæðir, á milli 600 og 700 milljónir muni færast svona í fjárlögum komandi ára, allt eftir því hvernig fram vindur með verkefnin.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég ítreka að sorglegt er að sjá á nýju ári 2012, þegar allir héldu að farið væri að létta yfir Íslandi og við gætum farið að taka sprettinn upp á við, að þetta séu áherslumál ríkisstjórnarinnar, að halda áfram þeirri vegferð að koma okkur inn í Evrópusambandið að ósk Samfylkingarinnar, enda er þetta hennar eina stefnumál. Við sjáum líka hversu brotnir Vinstri grænir eru að geta ekki staðið í fæturna á móti þessu. Ég minni á heimilin í landinu og fyrirtækin, atvinnulífið. Þeim verður að (Forseti hringir.) hjálpa og setja í forgang. Þetta mál er ekki forgangsverkefni.