140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Þetta er dálítið langur titill sem segir okkur í rauninni eitt: Þetta er draumaríkið. Þetta er draumaríkið sem félaga í ASÍ dreymir um á löngum vetrarnóttum. Þegar þeir eru þjáðir af sköttum og gjöldum geta þeir litið á þetta frumvarp og látið sig dreyma. Engir skattar, engin gjöld — ekki á olíu, ekki á bensín, ekki þessi leiðindi — helmingurinn af gjaldinu hverfur bara — ekki af innflutningi, ekki af sykri, ekki af nokkrum sköpuðum hlut yfirleitt. Félagar í ASÍ geta glaðst yfir þessari stöðu, en þeir komast ekki í hana. Það eru náttúrlega leiðindin í þessu. En þeir geta samt látið sig dreyma.

Í andsvari hér áðan við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að það væri nauðsynlegt að breyta vissum kerfum vegna umsóknar okkar um aðild að Evrópusambandinu. Það segir mér, frú forseti, að við erum ekkert að semja um aðild að Evrópusambandinu. Við erum að aðlagast Evrópusambandinu. Ef við værum að semja um aðild að Evrópusambandinu þyrftum við ekki að breyta neinum tölvukerfum. Þetta er nefnilega aðlögunarferli. Það er verið að straumlínulaga Ísland svo að það passi inn í Evrópusambandið. Til þess eru þessir styrkir og líka til þess náttúrlega að mýkja hug landsmanna gagnvart aðildarumsókninni þannig að menn verði kátari og hafi meiri hagsmuni af því að greiða atkvæði með aðild þegar að því kemur, sem skiptir reyndar engu máli, eins og ég fékk fram frá hæstv. utanríkisráðherra, því að það er Alþingi sem tekur ákvörðunina og þar er það sannfæring hvers þingmanns sem ræður þannig að atkvæðagreiðsla þjóðarinnar hefur ekkert að segja. Ég held að það sé ódýrara að fara bara í Gallup-skoðanakönnun, það er ódýrara og nær nokkurn veginn sömu niðurstöðu.

Í 1. mgr. 5. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir hér á landi, eru ESB-verktakar og selja vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi skulu undanþegnir skattskyldu …“

Menn mega ekki vera heimilisfastir hér á landi. Hvað segir þetta mér? Þetta er mismunun — mismunun þar sem útlendingar fá betri fyrirgreiðslu en Íslendingar. Nú segir í 65. gr. stjórnarskrárinnar, af því ég er nú oft að lesa hana mér til hugarléttis, að „[a]llir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna …“ — þjóðernisuppruna, frú forseti. En þarna stendur að útlendingar skuli ekki borga skatt, en Íslendingar skuli gera það. Enn eitt gleðiefni fyrir íslenska skattborgarann sem situr á löngum vetrarnóttum og hefur áhyggjur af því hvernig eigi að borga allt sem þarf að borga, afborganir af íbúðinni, bensín á bílinn, skatta o.s.frv. En hann getur látið sig dreyma. Hann getur látið sig dreyma um þá veröld sem hér um ræðir, veröld hinna skattlausu. Ég ætla að fara í sérstaklega í gegnum það — veröld hinna skattlausu.

Það er nefnilega til í heiminum ákveðinn heimur innan heimsins sem eru alþjóðastofnanir, sendimenn og sendifulltrúar ríkja. Þeir borga engan skatt — hvergi. Það eru meira að segja til verslanir í Þýskalandi sem versla sérstaklega með vörur sem eru skattfrjálsar og ekki með neinum álögum þar sem sendiráðsmenn geta keypt sér allt milli himins og jarðar, húsgögn o.fl. Þangað streymir sendiráðsfólk og kaupir á allt öðrum kjörum en almúginn sem stritar í sveita síns andlitis og borgar síhækkandi skatta eins og íslensk heimili hafa þurft að læra undanfarin tvö eða þrjú ár síðan hæstv. ríkisstjórn tók við.

Þetta byggir á svokölluðu Vienna Convention, frú forseti, sem þýðir svo mikið sem Vínarsamningurinn, frá 1815. Þar var sest niður og afnumin alls konar forréttindi aðalsins, en búin til ný forréttindi handa sendimönnum sem áttu að tryggja það að þeim yrði ekki refsað í gistilandinu með háum sköttum eða einhverju slíku heldur gætu þeir fengið að vera í friði og þyrftu ekki að lúta alls konar tilviljanakenndum aðgerðum stjórnvalda í gistilandinu sem hrektu þá í burtu. Þarna var sett upp regla til að vernda erlenda sendimenn fyrir reglum í gistilandinu. Þetta er búið að vera við lýði alla tíð síðan og er löngu úrelt. Ég er búinn að berjast fyrir því í 15, 20 ár að þetta skattfrelsi verði afnumið, en ég rekst alltaf á þennan Vínarsamning frá 1815. Allt virðist stoppa á honum, enda eru hagsmunirnir miklir. Allt utanríkisbatteríið, hjá Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, ÖSE og hvaðeina fyrir utan utanríkisþjónustu ríkjanna sjálfra, borgar engan skatt — lítið á sendiráðin, allt fólkið sem þar vinnur. Um þetta er sérákvæði í skattalögum.

Hér á að víkka þennan hóp. Af því tilefni er alveg sérstaklega gott að fara í gegnum skattfrelsi utanríkisþjónustunnar sem mér finnst vera mjög óeðlilegt vegna þess að þetta fólk nýtir sér velferðarkerfið. Það er tryggt í almannatryggingum, börnin fá skólavist og inn á barnaheimili o.s.frv. en það borgar ekki neitt. Að jafnaðarmenn skuli standa vörð um þetta er alveg ótrúlegt. Maður gæti haldið að einhver flokkur sérhagsmunasinna stæði vörð um þetta en, nei, það eru jafnaðarmenn síðan hæstv. utanríkisráðherra sagði hér áðan að þetta væri hið ljúfasta kerfi, hið besta kerfi, og við skyldum aðlaga okkur því, það væri bara svona og þess vegna væri bæði tillagan til þingsályktunar um samþykkt rammasamningsins og þetta frumvarp um afnám skatta eðlilegasti hlutur í heimi. Þetta byggði á þeim hefðum sem væru í kringum okkur og við ættum bara að kyngja þessu hikstalaust. En þetta er ekki svo einfalt. Þetta er mismunun, veruleg mismunun á fólki sem er hlið við hlið og sumir þurfa að borga en hinir nota bara, nota velferðarkerfið, nota vegina, nota allt saman sem er borgað með sköttum sem þeir borga ekki.

Ég bið hv. þingmenn sem hlýða á mál mitt að skoða vel hvort ekki sé rétt að fara í þá útrás að reyna að afnema þessi forréttindi um allan heim. Það yrði þungur róður, ég lofa því. Hverjum mundum við mæta? Nú, forréttindafólkinu sjálfu, alls staðar. Við mundum mæta akkúrat því fólki sem borgar enga skatta. Það er ekki mikill vilji hjá því til að breyta þessu. Þetta frumvarp bendir einmitt á það.

Frumvarpið gengur út frá því að hér verði gerðir samningar. Ég benti á það áðan að þeir Íslendingar sem vilja falla undir þetta gætu að sjálfsögðu flutt til útlanda, þeir gætu þess vegna tíu leigt sér saman eina íbúð í Kaupmannahöfn og verið þar með heimilisfesti. Svo kæmu þeir bara til Íslands sem farandverkamenn og ynnu hérna nákvæmlega sömu verkefnin og þeir hefðu gert ella, fyrir utan það að nú geta menn unnið alls konar hluti frá útlöndum. Á tölvuöld getur forritarinn setið hvar sem er í heiminum, það skiptir í rauninni engu máli hvar hann er. Ef hann getur fengið allt saman skattfrjálst, tölvurnar og allt sem hann þarf að kaupa, virðisaukaskattinn endurgreiddan hvort sem hann er virðisaukaskattsskyldur eða ekki, þá segir það sig alveg sjálft að hann flytur náttúrlega til útlanda til að komast í pottinn og sveigja fram hjá broti á 65. gr. stjórnarskrárinnar með 1. mgr. 5. gr., sem ég stórefast um að menn geti samþykkt.

Ég bið hv. nefnd sem fær þetta til athugunar, sem er væntanlega efnahags- og skattanefnd, að fara sérstaklega í gegnum atriðið um jafnræði.

Svo þarf náttúrlega að skoða alveg sérstaklega hvernig þessum gæðaverkefnum verður úthlutað. Hver fær að njóta skattfrelsis við hliðina á öðrum sem nýtur ekki skattfrelsis? Segjum að einhver forritari sé að vinna einhvers staðar við að búa til forrit fyrir einhverja stofnun, segjum landbúnaðarráðuneytið. Svo kemur allt í einu eitthvert stórt verkefni og það þarf að breyta tölvukerfi varðandi styrki í landbúnaði vegna þess að Evrópusambandið heimtar það — þetta er sko aðlögun — og hann getur fengið þar heljarinnar verkefni. Hann býður í það og veit að hann er með glataða samningsstöðu gagnvart hinum aðilunum sem ekki borga skatta. Hvað gerir þessi maður? Hann flytur bara til Kaupmannahafnar, eins og ég gat um áðan, og býr hjá bróður sínum eða einhverjum sem hann þekkir eða þeir leigja nokkrir saman eina íbúð og svo vinnur hann að gerð þessa forrits þaðan og nýtur þar af leiðandi skattfrelsis. Þetta frumvarp er nefnilega algert brot á jafnræði. Það er yfirleitt brot á jafnræði að fólki skuli ekki vera meðhöndlað jafnt fyrir skattalögum. Það sem þetta frumvarp leiðir í ljós er alveg ótrúlegt, þ.e. að þessi verkefni eigi öll að vera undanþegin skattskyldu. Hverjum dettur svoleiðis eiginlega í hug, nema sendimönnum sem vinna hjá alþjóðastofnunum og hafa vanist því að borga ekki skatta?

Nú hef ég mikinn áhuga á því og kannski er það tilefni til að spyrja að því hversu margir starfsmenn Evrópusambandsins borga skatta. Ég spurði hreinlega, af því að ég hef starfað hjá ÖSE: Hvernig er með starfsmenn ÖSE, borga þeir skatta? Það kom í ljós að tveir menn sem störfuðu í sömu borginni, í sömu stöðu — annar borgaði skatta en hinn ekki vegna þess að annar bjó í borginni, var af því þjóðerni, en hinn kom annars staðar frá, var útlendingur í því landi, og naut skattfrelsis. Þetta er náttúrlega með ólíkindum. Maður spyr sig um allt þetta jafnræði og jafnrétti sem menn tala um sýknt og heilagt alla daga.

Ég vil ljúka þessu með því að skora á skattpínda Íslendinga, félagsmenn í ASÍ og aðra að líta til þessa frumvarps og láta sig dreyma þegar þeir borga skatta alveg undir drep, greiðslur fyrir barnaheimilið, bensín á bílinn o.s.frv.